02. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Fundurinn um Almenna lífeyrissjóðinn

Þann 10. janúar síðastliðinn boðaði stjórn Læknafélags Íslands til félagsfundar um málefni Almenna lífeyrissjóðsins. Tilefnið var að kynna fyrir okkur læknum niðurstöður faghóps lækna sem hafði tekið að sér fyrir stjórn LÍ að rýna í úttektarskýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóða sem út kom í byrjun árs 2012. Faghópurinn, undir formennsku Andrésar Magnússonar læknis, tók að sér að kanna hvað fór úrskeiðis við gríðarlegt tap Almenna lífeyrissjóðsins í og við bankahrunið mikla. Fram kom á fundinum að tap sjóðsins hefði numið allt að 30 milljörðum. Faghópurinn notaði úttektarskýrslu rannsóknarnefndarinnar sem meginheimild og reyndi í niðurstöðu sinni að skrifa og útskýra á „mannamáli“ þau atriði skýrslunnar sem lúta að Almenna lífeyrissjóðnum og varða hagsmuni okkar lækna í þessu máli.

Fagna ber framgöngu stjórnar LÍ í að hrinda þessu máli í framkvæmd, enda hefur mikil reiði kraumað undir niðri hjá mörgum sjóðfélögum að sjá skyldusparnað sinn rýrna svo sem raun ber vitni. Fundurinn var vel kynntur og vel sóttur, en þar höfðu framsögu fulltrúar LÍ og Almenna lífeyrissjóðsins. Þar fengust svör við mörgum spurningum sem varpa betra ljósi á það sem úrskeiðis fór og hvert skal stefnt í framtíðinni.

Ræður frummælenda voru skýrar og málefnalegar, en á köflum nokkuð tilfinningahlaðnar því gagnrýnin var stundum beitt, sem snerti fínar taugar þeirra er í hlut áttu. Það sem vakti hins vegar sérstaka athygli mína á þessum fundi og er tilefni þessa pistils er síðari ræða formanns Almenna lífeyrissjóðsins og aðkoma hans að málinu í heild. Er umræður hófust eftir framsöguerindi steig á ný í ræðustól félagi okkar og fyrrverandi formaður LÍ, Sigurbjörn Sveinsson sem nú er formaður Almenna lífeyrissjóðsins. Hann fór mikinn, varði  gjörðir sjóðsins og andmælti aðkomu LÍ og faghóps okkar læknanna að þessu máli. Las hann síðan upp og varpaði upp á skjá bókun frá stjórnarfundi í Almenna lífeyrissjóðnum, sem hann sagði að hefði verið samþykkt samhljóða deginum áður. En sú bókun gengur út á það að fá óvilhallan lögfróðan einstakling með bókhaldsþekkingu til að rýna í og gera úttekt á þeirri gagnrýni og vinnubrögðum sem faghópur okkar lækna og stjórn LÍ var að kynna á fundinum.

Veit félagi Sigurbjörn ekki sinn vitjunartíma í þessu máli? Sem fyrrverandi formaður LÍ og nú óbreyttur félagsmaður í LÍ og fyrrum stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðnum og nú starfandi formaður Almenna lífeyrissjóðsins er hann fullkomlega vanhæfur til að fást við þessi mál fyrir hönd stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins gagnvart stjórn LÍ og læknahópnum í heild. Í mínum huga hefði hann átt að víkja sæti strax er erindi þetta barst Almenna lífeyrissjóðnum til að koma í veg fyrir þá togstreitu sem nú virðist ríkja milli stjórnar LÍ og stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins.

Tillagan sem hann kynnti á fundinum og var samþykkt samhljóða í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins er aðeins til að auka flækjustigið í málinu og viðhalda tortryggni félagsmanna LÍ í garð Almenna lífeyrissjóðsins. Mál er að linni.

 

Reykjavík, 14. janúar 2013

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica