02. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Læknadagar 2013: Öflugt og vandað vísindaþing

Árlegum Læknadögum í Hörpu lauk föstudaginn 25. janúar eftir fimm daga törn; að vanda rak spekingaglíman endahnútinn á þétta og fjölbreytta dagskrána sem staðið hafði sleitulaust frá því í bítið á morgnana og fram á kvöld alla dagana. Læknafélag Reykjavíkur efndi síðan til árshátíðar á laugardagskvöldið með glæsilegum matseðli, gamanmálum og dansi.


Undirbúningsnefnd Læknadaganna var klappað lof í lófa fyrir vel unnið starf. Frá vinstri: Össur Ingi
Emilsson, Gunnar Bjarni Ragnarsson, Ólafur H. Samúelsson, Gerður Gröndal, Arna Guðmundsdóttir
og Margrét Aðalsteinsdóttir.


Margrét Aðalsteinsdóttir og Arna Guðmundsdóttir ánægðar með árangurinn.


Gísli Vigfússon og Haukur Hjaltason höfðu margt að spjalla.

„Ég er mjög sátt við þessa síðustu Læknadaga sem ég stýri,“ sagði Arna Guðmundsdóttir en hún tilkynnti á síðasta ári að hún vildi láta af starfi sem framkvæmdastjóri Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands. Við starfinu tekur Gunnar Bjarni Ragnarsson sem starfaði við hlið Örnu að skipulagi þessara Læknadaga og kvaðst hann taka við góðu búi. „Læknadagar eru í góðum farvegi og hafa fest sig í sessi hér í Hörpu. Húsið hentar okkur mjög vel og ég geri ekki ráð fyrir breytingum á fyrirkomulagi þeirra. Ég sé fyrir mér að við munum leggja enn frekari áherslu en áður á tæknilegu hliðina og munum reyna að taka upp á myndbönd sem mest af fyrirlestrum og málþingum svo hægt sé að leggja efnið út á vef Læknafélagsins í kjölfar Læknadaganna. Þá stefnum við að því að hafa hluta Læknadaganna á ensku til að þeir hafi aukið aðdráttarafl fyrir erlenda kollega okkar.“Engilbert Sigurðsson, Arna Guðmundsdóttir, Þorbjörn Jónsson, Magnús Karl Magnússon, María
Heimisdóttir, Georg Bjarnason og Ásgeir Bjarnason.


Tveir höfðingjar. Tryggvi Ásmundsson og Steinn Jónsson.


Geðlæknarnir Páll Matthíasson, Guðrún Geirsdóttir, Sigurlaug Karlsdóttir, Ómar Hjaltason og Halldóra Ólafsdóttir.


Deildarlæknarnir Hulda Ásbjörnsdóttir, Ásgeir Þór Másson og Guðbjörg Jónsdóttir.


Þessar þrjár náðu vel saman á Læknadögum: Hrönn Harðardóttir geðlæknir, Dagný Kristjánsdóttir
bókmenntafræðingur og Bryndís Benediktsdóttir heimilislæknir - þær slógu botninn í málþing um
sjúklinginn og læknislistina í bókmenntum með því að ræða tvær nýjustu bækur Steinunnar Sigurðar-
dóttur, Jójó og Fyrir Lísu, en í þeim bókum er kynferðisleg misbeiting og grafalvarlegar afleiðingar
hennar í brennidepli. Símamynd: Védís.

Að sögn Margrétar Aðalsteinsdóttur á skrifstofu Læknafélagsins sem sinnt hefur framkvæmd Læknadaganna var aðsókn heldur minni í ár en í fyrra. „Það á sér þó eðlilegar skýringar, nokkuð var um forföll vegna veikinda, en þrátt fyrir það voru um 800 manns skráðir og verður það að teljast nokkuð góð aðsókn.“

Af þeim þátttakendum sem Læknablaðið ræddi við á göngum Hörpu á milli málþinga og fyrirlestra þá nefndu þeir fjölbreytnina sem stærsta kost Læknadaganna og vildu einnig undirstrika gæði fyrirlestranna. „Við eigum orðið mjög sterkan og breiðan hóp öflugra vísindamanna í læknisfræði,“ sagði einn viðmælanda og fleiri tóku undir það. Erlendir fyrirlesarar juku einnig á fjölbreytni og gæði dagskrárinnar. Er það samdóma álit allra viðmælanda að Læknadagarnir séu öflugt og vandað vísindaþing sem þó tekur sig ekki alltof hátíðlega því í bland við alvöru vísindanna var brugðið á leik í upphafi með endursögn Óttars Guðmundssonar og félaga um geðveiki í Brennu-Njálssögu og síðan með fróðleik og gríni í lokin með Spekingaglímu undir stjórn Gunnars Guðmundssonar.


A-liðið: Hjalti Már Þórisson, Guðrún Eiríksdóttir og Arnar Geirsson.


Glímustjórinn Gunnar Guðmundsson brosti breitt og sagði þetta verða
sína síðustu keppni.


Ómar Sigurvin Gunnarsson, Maríanna Garðarsdóttir og Svanur Sigurbjörnsson skipuðu  B-lið
spekingaglímunnar.


Óttar Guðmundsson renndi sér yfir Njálssögu með tóndæmum úr íslenskri dægurtónlist ásamt
Jóhönnu Þórhallsdóttur söngkonu og hljómsveit, þeim Aðalheiði Þorsteinsdóttur, Gunnari Hrafnssyni og Kjartani Guðnasyni.


Arna Guðmundsdóttir afhenti Gunnari Bjarna Ragnarssyni Læknadagana til umsjónar og voru bæði
jafn ánægð.Þetta vefsvæði byggir á Eplica