01. tbl. 99. árg. 2013
Umræða og fréttir
Dagur í lífi kandídats
Þetta var ein af þessum helgum þar sem enginn í borginni virtist vera vaknaður nema ég og aðrir starfsmenn Landspítala. Stjörnubjart, kyrrt og kalt. Þegar ég leit á bílinn minn varð ég glöð að ég hafði farið 5 mínútum fyrr fram úr en venjulega þar sem ljóst varð að ég þyrfti að skafa bílinn ... að utan og innan. Mín beið dagvaktarhelgi í Fossvoginum, sú fyrsta sem starfandi kandídat á lyflæknasviði. Vikan sem leið hafði verið strembin, verið á húsvakt fyrir lyflæknadeildir Fossvogs og hjálpað til við innlagnir þegar tími gafst. Fimmtudagsmorgunninn hafði þó verið undanteking. Bæði hús Landspítala voru svo stappfull að það voru engin pláss til að leggja inn í. Slysadeildarlæknar unnu því hart að því að reyna að komast hjá innlögn nema í erfiðustu tilfellunum og þar af leiðandi var lítið um verkefni fyrir mig og deildarlækni á vakt. Loks var tekin sú ákvörðun að opna hálfa deild til viðbótar til að anna eftirspurn. Eftir það var unnið á tvöföldum hraða til að koma fólki sem hafði beðið á slysadeildinni, sumt lengur en sólarhring, inn á deildir. Þessa helgi vissi ég að allar deildir voru með tvo til fimm sjúklinga á gangi. Fyrir mig þýddi þetta að það var næstum heil legudeild aukreitis á mínum ábyrgðarlista.
Strax klukkan átta var farið að ganga stofugang. Þá gengu sérfræðingarnir samtímis á sitt teymi og mitt hlutverk var að fylgja eftir og koma í framkvæmd ákvörðunum dagsins. Í hlut kandídats fellur að fylgja eftir fyrirmælum sérfræðinga á smit-, gigtar- og almenna teyminu en deildarlæknir fær í hönd lungnateymin tvö. Ég ákvað að ganga með þeim lyflækni sem átti stærsta teymið. Áður en sá stofugangur var búinn var ég þó þegar farin að svara pípum af öðrum deildum og síðan leita að sérfræðingum hinna teymanna til að fá fyrirmæli. Að loknum stofugangi fóru flestir sérfræðingarnir úr húsi og þá hófst vinnutörnin hjá mér. Útskrifa Q, R, S og T. Sjúklingar sem ég hafði stundum hvorki séð eða heyrt af áður. Fylgja eftir rannsóknum hjá E, F, G, H, og I og hringja síðan í A, B, eða C, það færi allt eftir því hverjar niðurstöðurnar væru auðvitað. Nú eða setja inn lyf M ef niðurstaðan væri Y en lyf N, ef niðurstaðan væri Z. (Áður en ég náði að skrifa allt niður píptu deild E og D á mig á sama tíma). Þegar það væri búið væri gott ef ég myndi tala við lækni í þessari og hinni sérgrein til að fá álit á máli 1 og 2, og ALLS ekki gleyma að senda konsúlt á 3. Stuttu síðar hringdi deildarlæknir og bað mig um að koma við tækifæri á bráðamóttöku til að leggja inn einn sem hefði beðið svo lengi.
Síðar, er ég sat á deild á 7. hæð að reyna að fylla rétt út þrenns konar rannsóknarbeiðnir sem ég hafði síðast séð fyrir þremur árum sem nemi, fékk ég símtal frá rannsókn. Sjúklingur sem ég hafði innskrifað daginn áður reyndist með ónæma bakteríu sem Landspítalinn hefur mjög strangar reglur um. Mér til mikillar skelfingar áttaði ég mig á því að ég var enn í sama slopp og vinnufötum og þegar ég skoðaði einstaklinginn í krók og kring. Ég dreif mig niður í línherbergi að ná í ný föt. Leiðin lá frá 7. hæð, niður stigann, fram hjá Rauðakross-sjoppunni, út E gang, inn í G álmu, niður um eina hæð, út í enda og þar loksins fann ég ný föt, alltof stór. Þessi langa leið og grunur minn um að ég fengi ekki föt í mínu númeri höfðu einmitt verið ástæða þess að ég hafði ekki skipt um föt eftir síðasta vinnudag. Stuttu seinna gerði samstarfsmaður góðlátlegt grín að mér fyrir að líta út eins og strumpur og 20. skjólstæðingurinn síðan ég byrjaði á kandídatsárinu spurði mig hvort ég væri fermd.
Í hreinum fötum og búin að spritta allt nema legudeildaryfirlitin (það hefði ekki farið vel) fór ég og tilkynnti yfirlæknum á tilheyrandi sviðum fréttirnar, breytti meðferð skjólstæðings og fékk aðstoð til að taka úr mér strok til ræktunar eins og verklagsreglur gera ráð fyrir. Næstu tímar liðu hratt. Lítill tími gafst til að gefa sig að sjúklingum á deildum nema brýna nauðsyn bæri til og engin stund til að setjast niður. Mér taldist svo til að í húsinu væru milli 80 og 90 sjúklingar á legudeildum og ég var næsti tengiliður hjúkrunarfólks fyrir þau verkefni sem leysa þurfti.
Þegar leið á daginn fór síðan stressið að koma. Mun ég komast yfir öll verkefnin sem mér voru sett fyrir? Var það ekki örugglega X sem ég átti að senda rannsóknarbeiðni fyrir en ekki Y? Var ekki rétt hjá mér að bregðast svo við í tilviki A? Hefði ég átt að skoða B betur? Var eitthvað sem ég var að gleyma fyrir C? Í ofanálag var síðan samviskubit yfir að hafa einungis hjálpað til við eina innlögn niðri á Slysó. Hvernig væri þessi dagur ef ekki væru til aðstoðar tveir ólaunaðir læknanemar? Loks fór klukkan að ganga 20. Vaktin var að klárast og sem betur fer hafði ég haldið vel á spöðunum og var komin langt með verkefni dagsins til að skilja eftir autt borð fyrir komandi kandídat á næturvakt.
Ég þurfti að beita sjálfa mig hörku til að taka hugann úr vinnunni þegar líkaminn var kominn heim. Hvíld þurfti ég fyrir komandi vinnudag morguninn eftir á Hringbraut með öðrum skjólstæðingum, verkefnum og samstarfsmönnum. Síðasta vikan mín á þeirri deild, rétt í þann mund sem mér var að takast að læra nöfn starfsfólks, hvar hinar og þessar beiðnir væru geymdar, hvaða verklag væri notað við þær aðstæður sem koma upp og hvert mitt hlutverk væri.
Það má segja að á kandídatsárinu byrji maður í nýju starfi 6-7 sinnum. Því þá förum við á nýjar legudeildir, ný svið eða út í heilsugæslu þar sem nýtt starfsfólk, nýtt umhverfi, nýjar reglur og nýjar leiðbeiningar bíða. Þetta tekur svolítið á ... en þetta er líka gaman, það er það sem gerir þetta þess virði.