01. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Framtíð Lækningaminjasafns í uppnámi

u00
Safnbyggingin er 1266 fermetrar og á einum fallegasta stað höfuðborgarsvæðisins í Nesi á Seltjarnanesi.


Stofnandi og eigandi Lækningaminjasafns Íslands, Seltjarnarnesbær, tilkynnti mennta- og menningarmálaráðherra þá ákvörðun bæjarstjórnar að endurnýja ekki samning um rekstur safnsins, en hann rann út þann 31. desember 2012. Læknafélag Íslands, menntamálaráðuneytið, Þjóðminjasafn og Seltjarnarnesbær undirrituðu samning árið 2007 um byggingu safnsins og var fyrsta skóflustunga tekin við hátíðlega athöfn í september 2008. Í stofnskrá safnsins frá maí 2009 er Seltjarnarnesbær skilgreindur eigandi þess en reksturinn skuli skiptast á milli bæjarfélags og ríkis.

Við efnahagshrunið gerbreyttust kostnaðarforsendur við bygginguna og er hún enn ókláruð. Kostnaður við frágang hennar er áætlaður um 400 milljónir króna samkvæmt útreikningum Seltjarnarnesbæjar.

Í bréfi bæjarstjórans Ásgerðar Halldórsdóttur til menntamálaráðuneytisins er óskað eftir að ráðuneytið taki yfir rekstur Lækningaminjasafnsins frá 1. janúar 2013 og einnig að „ráðuneytið og Seltjarnarnesbær hefji viðræður um að finna þeirri byggingu sem hefur verið ætluð undir Lækningaminjasafn Íslands nýtt og verðugt hlutverk; hönnun hennar yrði löguð að hinu nýja hlutverki eftir því sem þörf yrði á, áður en framkvæmdum yrði haldið áfram og lokið.“

Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur lögðu 50 milljónir króna til byggingarinnar og er sérstaklega tiltekið í samningnum frá 2007 að komi til þess að Seltjarnarnesbær óski eftir að nýta safnbygginguna undir aðra starfsemi en Lækningaminjasafn Íslands skuli Seltjarnarnesbær endurgreiða stofnframlagið uppreiknað miðað við byggingavísitölu.

Meirihluti stjórnar Lækningaminjasafnsins ásamt formönnum Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur, Þjóðminjaverði, framkvæmdastjóra LÍ og lögfræðingi fundaði um málið þann 17. desember og sagði Þorbjörn Jónsson formaður LÍ að fundi loknum að það ylli vissulega vonbrigðum ef niðurstaða þessa máls yrði sú að Seltjarnarnesbær treysti sér hvorki til að standa við samstarfssamninginn frá 2007 né stofnsamninginn frá maí 2009.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica