01. tbl. 99. árg. 2013

Ritstjórnargrein

Vörn og sókn fyrir heilbrigðisvísindi á Íslandi

Inga Þórsdóttir prófessor og forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ

doi: 10.17992/lbl.2013.01.474

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands bygg­­­­­ist á 6 deildum sem menntað hafa meira en 95% af faglærðu heilbrigðisstarfsfólki í landinu. Menntun og rannsóknir heilbrigðisgreina fela óhjákvæmilega í sér þátttöku í heilbrigðisþjónustu og starfsnám er mikilvægur hluti námsins. Deildir sviðsins eru læknadeild, þar sem kennd er læknisfræði, sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði, hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, matvæla- og næringarfræðideild, sálfræðideild og tannlæknadeild. Ekki er hægt að kenna læknisfræði eða aðrar greinar heilbrigðisvísinda án þess að leiðbeina nemanda sem æfir sig og kenna í raunverulegu klínísku umhverfi. Innan sviðsins starfar þess vegna fólk sem þjónustar almenning þegar mest á reynir í lífinu, þegar barn fæðist, þegar slys verða og þegar veikindi steðja að. Miðað við mikilvægi þessarar menntunar kann mörgum að finnast sérkennilegt að fjórar af 6 deildum sviðsins hafi verið reknar með tapi undanfarin ár þar sem fjárframlög til þeirra eru of lág. Léleg fjárhagsleg staða er einnig ótrúleg þegar horft er til þess að heilbrigðisvísindasvið er það svið Háskólans sem tengist flestum sprotafyrirtækjum, en nýsköpun á öllum sviðum sem varða heilsu er ein öflugasta vaxtargrein þekkingariðnaðarins. Sprotafyrirtæki sem hafa þróast og orðið til innan heilbrigðisvísindasviðs eru meðal annars á sviði læknisfræði, lyfjafræði og sjúkraþjálfunar. Þýðing matvæla- og lyfjaiðnaðar er mikil í útflutningi okkar og þjóðartekjum. Lyfjaiðnaður er til dæmis stærri hluti af hagkerfi Íslendinga en tíðkast í flestum löndum og skilar lyfjaútflutningur um það bil 3-4% af útflutningstekjum okkar. Starfið innan heilbrigðisvísindasviðs er atvinnulíf sem felst í kennslu, rannsóknum og nýsköpun heilbrigðisvísinda og er þess vegna órjúfanlegur hluti af íslensku atvinnulífi.

Fjármögnun allra deilda Háskóla Íslands er byggð á mati á árangri í kennslu og rannsóknum. Kennsluárangur miðast við fjölda stúdenta sem þreyta próf og árangur í rannsóknum er metinn eftir fjölda birtra greina og tilvitnana í þær, eftir þeim styrkjum sem fást úr samkeppnissjóðum, og eftir því hversu margir meistara- og doktorsnemar ljúka námi. Sé horft til þessa fjármögnunarlíkans er vandi heilbrigðisvísindasviðs aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi getum við ekki fjölgað nemendum sem þreyta próf á sama hátt og margar aðrar greinar sem ekki fela í sér klínískt nám eða mikið verklegt nám. Kennsluárangur okkar er því nokkuð stöðugur en heildarfjöldi nema í Háskóla Íslands vex stöðugt. Fjöldi nemenda við Háskóla Íslands er umfram það sem greitt er fyrir af stjórnvöldum, sem leiðir til þess að greiðsla vegna kennsluárangurs er of lág. Með því að hækka reikniflokka fyrir heilbrigðisvísindasvið mætti leiðrétta þetta og þá væri unnt að mæta hækkuðum kostnaði vegna viðhalds og uppbyggingar innviða fyrir kennslu og rannsóknir. Í öðru lagi er ósamræmi milli þess hve öflugt rannsókna- og vísindastarf er unnið innan heilbrigðisvísindasviðs, og þess að styrkir til rannsóknanna sem berast inn í skólann eru tiltölulega lágir. Þetta skapar þyngra rannsóknarumhverfi, og erfiðleika við að halda við aðstöðu og tækjum og við að sinna langtímarannsóknum. Helsta ástæða þessa er verulegur skortur á hérlendu styrkjafé fyrir heilbrigðisvísindi. Rúmlega helmingur rannsóknasjóðs RANNÍS er ætlaður tækni-, verk- og náttúrufræðirannsóknum svo og allmargir, og þar á meðal langstærstu, sérsjóðir hér á landi. Staða íslenskra heilbrigðisvísinda virðist mun verri. Fyrirkomulag samkeppnissjóða í landinu er nú þannig að opinbert fjármagn samkeppnissjóða til rannsókna á sviði heilbrigðisvísinda er sem svarar um fjórðungi eða fimmtungi þess sem veitt er til rannsókna á ofannefndum sviðum. Nauðsynlegt er að til verði sjóður fyrir rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda. Mikilvægi rannsókna er ótvírætt skilyrði gagnreyndrar þekkingar á sviði velferðar- og heilbrigðismála.

Það er einnig augljóst að heilbrigðisvísindi við Háskóla Íslands þurfa sameiginlegt húsnæði. Starfsemi sviðsins er nú mjög dreifð, sem er talið kosta landsmenn háar upphæðir vegna hærri rekstrarkostnaðar og ekki síður vegna allra þeirra tækifæra sem ætla má að glatist vegna dreifingarinnar. Það eru tækifæri til þverfaglegrar kennslu, sameiginlegra alþjóðlegra verkefna og rannsókna, nýsköpunar og nýrra leiða við forvarnir, meðferð og umönnun. Það er því hagur allra landsmanna að bætt verði úr þessu hið fyrsta eins og áformað er með nýjum Landspítala. Heilbrigðisvísindasvið háskóla um allan heim eru tengd sjúkrahúsum og það er báðum aðilum nauðsynlegt. Þessi landfræðilega nálægð er hagur allra sem þiggja heilbrigðisþjónustu. Hún eykur líkur á bestu mögulegu þjónustu spítalans, þjónar nemendum, og þar með framtíðarheilbrigðisþjónustu, og er að auki þjóðfélaginu hagkvæm.
Til að leysa fjárhagsvanda heilbrigðisvísindasviðs þarf að tvinna saman margar leiðir. Allt starf sviðsins byggist á góðu samstarfi við heilbrigðisvísindastéttir í landinu. Þverfaglegt samstarf innan sem utan háskólans og samstarf við Landspítala, auk Heilsugæslunnar, Hjarta­verndar, Embættis landlæknis, DeCode, Krabbameinsfélagsins, Matís og fleiri aðila, er meðal annars lykillinn.

Gleðilegt ár



Þetta vefsvæði byggir á Eplica