12. tbl. 96.árg. 2010
Umræða og fréttir
Haustferð FÍFL á Herðubreið
Hópurinn á toppi Herðubreiðar í nokkurra stiga frosti og kvöldsól. Aftari röð frá vinstri: Engilbert
Sigurðsson, Inga Lára Ingvarsdóttir, Tómas Guðbjartsson, Ólafur Már Björnsson, Birgir Már
Arnórsson, Martin Johannsson, Jón Trausti Sigurðsson. Fremri röð frá vinstri: Örlygur Steinn
Sigurjónsson, Þóra Þórisdóttir, Sólveig Helgadóttir, Sigrún Halldórsdóttir, Anna Björk
Magnúsdóttir. Á myndina vantar Dagnýju Heiðdal. Myndir Ólafur Már Björnsson
Helgina 17.-19. september stóð Félags íslenskra fjallalækna (FÍFL) fyrir árlegri haustferð. Að þessu sinni var boðið upp á krefjandi jeppaferð um hálendið, auk þess sem leggja átti að velli sjálfa Drottningu Fjallanna, Herðubreið (1682 m). Alls tóku 13 FÍFL þátt í ferðinni og var haldið síðdegis á föstudegi á þremur jeppum norður Sprengisandsleið. Fyrsta kvöldið var gist í Nýjadal og þar haldin vegleg grillveisla. Næsta dag var ekið inn á Gæsavatnaleið á vit ævintýranna. Tóku þar við torfærur hinar mestu og snjóskaflar sem ekki voru auðveldir yfirferðar. Ekin var Dyngjufallaleið yfir Ódáðahraun rétt sunnan Dyngjufjalla og komið í Drekagil rétt eftir hádegi. Braust þá sólin fram og Herðubreið blasti við í öllu sínu veldi, þakin snjó eins og flórsykurskreytt kaka. Var því áætlun breytt skyndilega og ákveðið að ganga samdægurs á fjallið. Útsýni af toppnum var ólýsanlegt, enda frábært skyggni í nokkurra stiga frosti og kvöldsól. Ekki skemmdi sólarlagið fyrir á niðurleiðinni, sem sveipaði fjallið ævintýraljóma en allir náðu niður heilu og höldnu fyrir myrkur eftir tæplega fimm klukkustunda göngu.
Á leiðinni niður var farið að rökkva en allir komust klakklaust niður snæviþakta hlíðina.
Gist var í Drekagili og daginn eftir ekið í gegnum Herðubreiðarlindir til Mývatns. Þar voru Jarðböðin heimsótt og þaðan haldið áfram til Reykjavíkur.
Þegar er farið að leggja drög að vorferðum FÍFL og verða þær auglýstar betur síðar. Reynt verður að bjóða upp á bæði léttari og meira krefjandi ferðir. Einnig er áhugi fyrir gönguskíðaferð um hálendið. Í tengslum við Læknadaga verður FÍFL, eins og svo oft áður, með fyrirlestur tengdan fjallgöngum og hefur heimsfrægum fyrirlesara verið boðið til landsins. Ennfremur er stefnt að því að skrá meðlimi félagsins og útbúa skírteini sem veita félagsmönnum afslátt hjá fyrirtækjum sem selja útivistarfatnað og gönguferðir. Nýlega tókst að endurheimta lénið www.fifl.is og stendur yfir vinna við gerð nýrrar heimasíðu félagsins. Áfram verður þó hægt að nálgast fréttir af félaginu og sjá myndir úr ferðum á opinni síðu FÍFL á www.facebook.com