Ávarp

Ávarp

Ávarp

 

Fyrir hönd heilbrigðisvísindasviðs bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á sextándu ráðstefnuna um líf- og heilbrigðisvísindi í Háskóla Íslands. Deildir og aðrar starfseiningar sviðsins standa nú eins og undanfarin ár að ráðstefnunni. Ráðstefnan verður haldin á Háskólatorgi dagana 3.-4. janúar næstkomandi. Undirbúningsnefnd sviðsins hefur unnið að dagskrá og skipulagi og þökkum við henni fyrir góð störf.

Við viljum þakka öllum sem sendu ágrip til ráðstefnunnar fyrir þeirra framlag og áhuga. Kynnt verða 300 rannsóknarverkefni í um 190 erindum og á 115 veggspjöldum. Við vonum að ráðstefnan verði vettvangur góðrar umræðu, nýrra hugmynda og samstarfsverkefna. Þannig styður hún einnig rannsóknir og heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Ráðstefnan á að vera til að stefna fólki í heilbrigðisvísindum saman.

Þrátt fyrir mikla rannsóknastarfsemi og öflug heilbrigðisvísindi hér á landi hafa heilbrigðisstarfsmenn allt of litla möguleika til að afla styrkja úr samkeppnissjóðum. Rúmlega helmingur rannsóknasjóðs RANNÍS er áætlaður til tækni-, verk- og náttúrufræðirannsókna svo og allmargir, og þar á meðal langstærstu, sérsjóðir hér á landi. Staða íslenskra heilbrigðisvísinda er mun verri. Ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands mun minna á þetta atriði og leggja til við stjórnvöld að samkeppnissjóður ætlaður heilbrigðisvísindum verði stofnaður.

Innan fárra ára er nauðsynlegt að heilbrigðisvísindi við Háskóla Íslands fái aukið sameiginlegt húsnæði, en staðsetning ýmissa starfseininga sviðsins er nú mjög dreifð. Talið er að þessi dreifing kosti landsmenn um milljarð árlega, þar kemur til kostnaður í rekstri en ekki síður öll þau tækifæri til þverfaglegrar kennslu, alþjóðlegra verkefna og rannsókna, nýsköpunar og nýrra leiða við forvarnir, meðferð og umönnun sem ætla má að glatist vegna dreifingarinnar. Það er hagur allra landsmanna að bætt verði úr þessu hið fyrsta.


Velkomin á sextándu ráðstefnuna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands.

 

                                                           Inga Þórsdóttir                                       Vilhjálmur Rafnsson

                                                                prófessor                                             prófessor í læknadeild

                                            forseti heilbrigðisvísindasviðs                  formaður undirbúningsnefndar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica