Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda

V 1        Munur á setstöðu ófatlaðra barna og barna með meðfædda heilalömun mældur með þrýstimottu

Fríða Þórisdóttir1, Sigrún Matthíasdóttir2, Þóra Björg Sigurþórsdóttir1, Þjóðbjörg Guðjónsdóttir3

1Landspítala, 2University of Calgary, 3námsbraut í sjúkraþjálfun, Rannsóknastofu í hreyfivísindum HÍ

ths37@hi.is

Inngangur: Rannsóknir sýna að börn með meðfædda heilalömun (cerebral palsy-CP) hafa lélega setstöðu og slæmt jafnvægi. Tilgangur með þessari rannsókn var að athuga hvort munur væri á setstöðu barna með meðfædda heilalömun og ófatlaðra jafnaldra.

Efniviður og aðferðir: Í rannsóknarhópi voru 16 börn á aldrinum 4-10 ára með helftar- eða tvenndarlömun vegna meðfædda heilalömun (með grófhreyfifærni í flokki I-III). Skilyrði fyrir þátttöku í rannsóknarhópi var að börnin væru með verri hreyfistjórn í annarri hlið líkamans. Í viðmiðunarhópi voru 16 ófatlaðir jafnaldrar. Þrýstimotta var notuð til að afla upplýsinga um staðsetningu og færslu kraftmiðju frá miðlínu. Auk þess var hraði á færslu kraftmiðju reiknaður. Tvær tveggja mínútna mælingar voru gerðar á hverju barni með 10 mínútna millibili. Mælingar fóru fram í skólum barnanna og sátu börnin í skólastólum sínum við borð.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru að ekki var marktækur munur á fjarlægð kraftmiðju frá miðlínu milli hópanna. Báðir hóparnir hölluðu svipað langt út frá miðju setflatar (nokkra mm.) við verkefnavinnu. Við seinni mælinguna fluttu ófötluðu börnin þungann meira á milli hliða heldur en börnin með meðfædda heilalömun (p=0,039). Það bendir til þess að þau geti lagað setstöðu sína betur og þrói síður með sér álagseinkenni. Ekki var marktækur munur á hraða kraftmiðjunnar milli hópanna. Setjafnvægi var því svipað hjá hópunum. Vísbendingar voru um að fótstuðningur hafi jákvæð áhrif á jafnvægi barna með meðfædda heilalömun.

Ályktanir: Börnin með meðfædda heilalömun voru mörg með aðlagaða stóla til að tryggja góða setstöðu og betra jafnvægi. Samkvæmt þessari rannsókn virtist aðbúnaður þeirra í skólanum veita gott jafnvægi en börnin náðu ekki að aðlaga stöðu sína þegar þau höfðu setið nokkra stund. Ítarlegri rannsókna er þörf á setstöðu barna með meðfædda heilalömun til að geta sagt til um hvort nauðsynlegt sé fyrir þau að fá meiri úrbætur á vinnuaðstöðu.


V 2        Hölt börn á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins á árunum 2006-2010

Bryndís Dagmar Jónsdóttir1, Sigurður Þorgrímsson1,2, Sigurveig Pétursdóttir1,3, Jón R. Kristinsson1,2,4, Ásgeir Haraldsson1,2
1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3Landspítala, 4Læknamiðstöð Austurbæjar

bdj2@hi.is

Inngangur:Helti er algeng ástæða komu á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og geta orsakirnar verið margvíslegar. Aðallega þrennt fær börn til að haltra, verkur, máttleysi eða byggingargalli. Orsakirnar geta verið smávægilegar eða lífshættulegar og eru einkennin gjarnan svipuð. Markmið rannsóknarinnar var að fá skýra mynd af sjúklingahópnum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn tilfellarannsókn sem náði til allra barna sem komu á bráðamóttöku Barnaspítalans vegna helti á árunum 2006-2010. Búinn var til listi með þeim ICD-10 greiningarnúmerum sem gætu tengst helti hjá börnum og allar sjúkraskrár með þeim greiningum skoðaðar. Skráðar voru upplýsingar um kyn, aldur, sjúkdómsgreiningu, dagsetningu komu og fjölda koma.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru komur á BMB 58.412 og þar af 1.238 vegna helti (2,12%). Drengir voru marktækt fleiri (p˂0,001). Aldursdreifing kynjanna var ólík og greiningar mismunandi eftir aldri og kyni. Algengustu greiningarnar voru skammvinn hálahimnubólga í mjaðmarlið (31,6%), óskýrð helti (20,7%), tognun, festumein og mjúkpartavandamál mynduðu saman einn flokk (19,0%), liðbólgur (15,1%), graftarliðbólga (3,9%), beinsýking (3,8%) og brot (2,5%). Marktækur munur var á fjölda koma eftir árum (p˂0,001) en hvorki eftir mánuðum né árstíðum. Komurnar 1.238 dreifðust á 893 börn. Sex hundruð og sextíu börn komu einu sinni, 167 börn tvisvar sinnum, 38 börn þrisvar og 28 börn komu fjórum til átta sinnum á bráðamóttökuna.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að helti er algeng ástæða komu á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og orsakirnar fyrir henni eru fjölbreyttar. Algengasta orsökin var skammvinn hálahimnubólga í mjöðm og voru drengir marktækt fleiri í aldursflokknum 0-6 ára og 7-12 ára, sem samræmist erlendum rannsóknum. Athygli vekur að sýking í lið eða beini og brot var orsökin í aðeins 10% tilfella samanlagt.

 

V 3        Tengsl þunglyndis og skýringarstíls meðal íslenskra ungmenna

Álfheiður Guðmundsdóttir1, Guðmundur Arnkelsson1, W. Edward Craighead2, Eiríkur Örn Arnarson3,4

1Sálfræðideild HÍ, 2Dpt Psychiatry and Behavioral Sciences og Dpt Psychology, Emory University, BNA, 3læknadeild HÍ, 4sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítala

alg15@hi.is

Inngangur:Þunglyndi er einn algengasti geðræni vandi sem fólk glímir við. Áður var þunglyndi barna og unglinga talið sjaldgæft og rannsóknir beindust að fullorðnum en nú er vitað að börn og unglingar upplifa þunglyndi og rannsóknir fjölmargar. Algengi þunglyndis eykst með aldri og talið að 15-25% upplifi meiriháttar þunglyndi (MDE) á unglingsárum. Samkvæmt kenninginu um hjálparleysi er talið að þeir sem skýra neikvæða atburði með vísun í innri, stöðuga og almenna þætti séu líklegri til að upplifa þunglyndi, en hinir sem skýra sömu atburði með vísun í ytri, óstöðuga og sértæka þætti. Rannsóknir hafa stutt þá kenningu og sýnt fram á tengsl á milli skýringarstíls og þunglyndis unglinga. Tilgangur rannsóknar var að kanna tengsl þunglyndis og skýringarstíls meðal íslenskra ungmenna.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókn voru 4.420 nemendur í 9. bekk grunnskóla og fyrsta árs nemar framhaldsskóla, sem tóku þátt í verkefninu Hugur og heilsa á árunum 1999-2011 og fylltu út sjálfsmatslistana CDI (Children´s Depression Inventory) sem metur einkenni þunglyndis og CASQ (Children Attribution Style Questionnaire) sem metur skýringarstíl.

Niðurstöður:Línuleg aðfallsgreining leiddi í ljós að heildarskor CASQ spáði marktækt fyrir um skor á CDI (F (1, 4413) = 2065, p<0,01). Línuleg aðfallsgreining gaf til kynna að jákvæður skýringarstíll spáði um lægra skor á CDI. Neikvæður skýringarstíll spáði fyrir um hærra skor á CDI.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknar eru í samræmi við fyrri rannsóknir og styðja ályktanir um tengsl neikvæðs skýringarstíls og þunglyndis.

  

V 4        Helstu gigtarsjúkdómar í íslenskum börnum

Gísli Gunnar Jónsson, Sólveig S. Hafsteinsdóttir, Guðmundur Vignir Sigurðsson, Ásgeir Haraldsson, Jón R. Kristinsson

Læknadeild HÍ, Barnaspítala Hringsins, Landspítalanum, Læknamiðstöð Austurbæjar

ggj2@hi.is

Inngangur:Barnaliðagigt (Juvenile Idiopathic Arthritis, JIA) er flokkur gigtsjúkdóma í börnum. Orsakir eru óþekktar. Barnaliðagigt er skipt í sjö undirflokka og helstu þrír flokkarnir eru fáliða-, fjölliða- og fjölkerfagigt. Barnaliðagigt getur valdið eyðingu liða og vaxtarfötlun. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, algengi, aldursdreifingu, kynjahlutfall og meðferðarþætti gigtsjúkdóma í börnum á Íslandi og bera saman niðurstöðurnar við erlendar rannsóknir.

Efniviður og aðferðir: Gerð var lýsandi afturskyggn rannsókn þar sem safnað var gögnum úr sjúkraskrám gigtveikra barna á Íslandi á árunum 1995 til og með 2009. Sjúklingarnir voru fundnir með því að leita í sjúkraskrárkerfi Landspítalans, Barnaspítala Hringsins og skrám Læknamiðstöðvar Austurbæjar. Ekki var gerð ítarleg skimun fyrir augnhólfsbólgu. Algengt er að vafi sé varðandi ýmis atriði, einkum upphaf einkenna. Tölfræðivinnslu var því skipt í tvo hluta, annars vegar tilvik sem engin vafi var um við skráningu og hins vegar tilvik þar sem vafaatriðin voru tekin með. Gerð var tilgátuprófun til að reikna marktækni milli kynja.

Niðurstöður:Alls voru 172 börn sem fengu sjúkdómsgreiningu barnaliðagigtar á árunum 1995-2009. Fjölmennasti undirflokkurinn var fáliðagigt með 65,7 % einstaklinga. Fyrstu einkenni voru í flestum tilvikum í hné og ökkla. Nýgengið fór hækkandi eftir því sem leið á rannsóknartímabilið en meðalnýgengi á tímabilinu var 16,3/100.000 börn yngri en 16 ára. Aldursdreifing nýgreindra tilfella nær þremur toppum. Flestir sjúklingarnir voru einungis meðhöndlaðir með BEYGL. Einungis fjórir einstaklingar fundust með fremri augnhólfsbólgu.

Ályktanir: Nýgengið virðist vera hækkandi með árunum sem gæti bent til aukinnar skráningar á þessum sjúkdómum. Sterkur grunur leikur þó á að fleiri einstaklingar hafi fremri augnhólfsbólgu.

 

 

V 5        Eftirlit með blóðsykri og meðferð við blóðsykurslækkun nýbura. Afturskyggn rannsókn eins árgangs nýbura á Landspítala

Guðný Svava Guðmundudóttir1,2, Elín Ögmundsdóttir1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

gudnysvava@internet.is

Inngangur:Erlendar rannsóknir og klínískar leiðbeiningar mæla með að gefin sé ábót fari blóðsykursgildi undir 2,0 mmól/L á fyrstu 24 klst og ef það fer undir 2,5 mmól/L eftir 24 klst. Mælt er með tíðari brjóstagjöf við lágum blóðsykri eða 3-5 ml/kg ábót. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga við hvaða blóðsykursgildi er gripið til meðferðar við of lágum blóðsykri og hverjar séu meðferðir við lágum bóðsykri.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi, afturskyggn og upplýsinga aflað úr sjúkraskrám. Almennar upplýsingar um börnin, ábótagjöf og annarri meðferð og tímasetningu var skráð ásamt blóðsykursgildum og framkvæmd eftirlits með þeim. Úrtakið var hentugleikaúrtak nýbura, sem fæddir voru árið 2010 og blóðsykursmælingar voru til um. Lokaúrtak voru 955 nýburar eða rúm 27% af alls 3468 börnum sem fæddust á Landspítalanum það ár.

Niðurstöður:Blóðsykurmælingar voru fengnar á fyrstu þremur klst frá fæðingu hjá 87,2% barnanna og hjá 7,3% án skráðra áhættuþátta blóðsykurlækkunar. Algengasti aldur við fyrstu mælingu var innan 60 mín frá fæðingu (56%). Blóðsykursgildi á fyrstu 3 klst frá fæðingu var 0,5-12,6 mmól/L. Af þeim voru 23,9% undir 2,5 mmól/L í blóðsykri og 11,6% undir 2,0 mmól/L. Af þeim sem ekki lögðust inn á nýburagjörgæslu (n=577) fengu 41% ábót á fyrstu þremur sólarhringum. Í 66% tilfella mældist blóðsykur aldrei undir 2,0 og í 43% tilfella aldrei undir 2,5 mmól/L. Ábót gefin fullburum (53%) var nær alltaf þurrmjólk (95%).Ályktanir: Blóðsykurmæling er fengin frá um þriðjungi barna innan 3 klst frá fæðingu og niðurstöður sýna að stór hluti þeirra fái ábót fyrr en æskilegt er samkvæmt gagnreyndum viðmiðunum. Hugsanlega stafar það af því að blóðsykurmælingar fari fram of snemma. Ekki er ljóst af niðurstöðum við hvaða blóðsykursgildi er gripið til ábótagjafar í æð. Frekari rannsókna er þörf.

 

V 6        Faraldsfræði Streptococcus pneumoniae, S. pyogenes og Haemophilus sp. í leikskólabörnum árið 2012

Birta Dögg Ingudóttir Andrésdóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Karl G. Kristinsson1,2, Þórólfur Guðnason1,3,4, Ásgeir Haraldsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins, 4embætti landlæknis

bda1@hi.is

Inngangur: Streptococcus pneumoniae (pneumókokkar) eru algengar bakteríur í nefkoki barna en geta valdið alvarlegum sýkingum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi pneumókokka, S. pyogenes og Hemophilussp. í nefkoki leikskólabarna, sýklalyfjaónæmi og tengsl við ýmsa áhættuþætti. Hjúpgreina pneumókokka, bera saman við hjúpgerðir úr fyrri rannsóknum (2009-2011) og meta líkleg áhrif bóluefnis gegn 10 hjúpgerðum.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru 465 nefkoksýni í 15 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu 12.-28.mars 2012. Forráðamenn svöruðu spurningalista. Eftir ræktun voru pneumókokkarnir hjúpgreindir og næmispróf var gert á þeim og S. pyogenes.

Niðurstöður:Börn með pneumókokka voru 259 (56%), 23 börn báru tvær hjúpgerðir og heildarfjöldi stofna var 282. Berahlutfall fór marktækt lækkandi með aldri. Algengasta hjúpgerðin var 6A síðan 23F, 15, 19F og 11. Af þeim stofnum sem ræktuðust var 31 (11%) með minnkað penisillínnæmi (PNSP). Aldur og sýklalyfjanotkun undangengna 30 daga hafði marktæk áhrif á PNSP. Það ræktuðust 33 (11,7%) fjölónæmir pneumókokkar. Börn með S. pyogenes voru 31 (6,7%) og voru stofnarnir næmir fyrir penisillíni og erýþrómýsíni en ónæmi gegn klindamýsíni var 6,5% eins og fyrir tetrasýklíni. Berahlutfall Haemophilus sp. var 63% og fór marktækt lækkandi með aldri.

Ályktanir: Berahlutfall pneumókokka var líkt og 2011. Hlutfall PNSP var svipað og voru marktæk tengsl við sýklalyfjanotkun síðustu daga líkt og 2011 en að auki voru marktæk tengsl við aldur. Algengasta hjúpgerðin var 6A og hjúpgerðir 11 og 15 komu nýjar inn en þessar hjúpgerðir er ekki að finna í bóluefninu. Berahlutfall S. pyogenes var svipað en berahlutfall Haemophilussp. var lægra en árið 2009. Halda þarf rannsóknum áfram til að fylgjast með árangri bóluefnis og fækka alvarlegum sýkingum af völdum pneumókokka.

 

V 7        Líkamsímynd, sjálfstraust og þunglyndi ungmenna

Silja Rut Jónsdóttir1, Jakob Smári1, Eiríkur Örn Arnarson1,2

1Háskóla Íslands, 2sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítala

silja.rut.jonsdottir@reykjavik.is

Inngangur: Markmið rannsóknar var að athuga sálmælanlega eiginleika íslenskrar þýðingar BESAA kvarða (Body Esteem Scale for Adolescents and Adults) sem metur líkamsímynd og tengsl á milli líkamsímyndar, sjálfstrausts og þunglyndis hjá ungmennum.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 316 nemendur úr 6.-8. bekk fjögurra grunnskóla, tveggja á höfuðborgarsvæði og tveggja á landsbyggð. Þrír sjálfsmatskvarðar voru lagðir fyrir; CDI (Childrens Depression Inventory) sem metur þunglyndi, BESAA og PCSC (Perceived Competence Scale for Children) sem metur sjálfstraust.

Niðurstöður:Innri áreiðanleiki allra kvarða var nokkuð hár og BESAA hafði mestan áreiðanleika, 0,95. Ahvarfsgreining sýnir að BE-útlit hefur spásagnargildi um þunglyndi að teknu tilliti til kyns, aldurs og sjálfstrausts. Sjálfstraust spáir fyrir um 56,1% af dreifingu þunglyndis en BESAA bætir spána um 5,2% og er BE-útlit eini undirkvarðinn með marktækan beta stuðul. Tvíhliða dreifigreining var gerð á CDI, og undirkvörðum BESAA til að komast að því hvort munur væri á skorum kvarðanna eftir aldri og kyni. Fyrir BE-útlit kom fram marktækur munur bæði eftir kyni (F(1,308) =13.847, p<0,001) og aldri þar sem eldri börn skoruðu lægra en þau yngri (F(2,308) =5.546, p=0,004. Fyrir BE-vigt kom einnig fram marktækur munur fyrir kyn (F(1,307) =9.713, p = 0,002) þar sem stúlkur skoruðu lægra en drengir og aldur þar sem eldri börn skoruðu lægra en þau yngri (F(2,307) =4.706, p< 0,01).

Ályktanir: Niðurstöður sýna að sjálfstraust og líkamsímynd spá fyrir um þunglyndi. Líkamsímynd er lakari meðal stúlkna en drengja og meðal eldri barna en yngri og í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna. Niðurstöður benda til að við forvörn þunglyndis ungmenna þurfi að beina athygli betur að líkamsímynd en áður hefur verið gert.

 

 

V 8        Sálmælingalegir eiginleikar AX-reiðitjáningarkvarðans

Birna María Antonsdóttir1, Stella Sigurbjörg Magnúsdóttir1, Jakob Smári1, Eiríkur Örn Arnarson2,3

1Sálfræðideild og 2læknadeild HÍ, 3sálfræðiþjónustu á geðsviði Landspítala

bma1@hi.is

Inngangur: Athugaðir voru sálmælingalegir eiginleikar reiðitjáningarkvarðans (Anger Expression Scale - AX), til þess að meta tjáningu reiði. Einnig voru könnuð tengsl AX og undirkvarða þess við þunglyndisprófið Children´s Depression Inventory (CDI), sem notað er til að meta geðlægð barna og ungmenna.

Efniviður og aðferðir: Kvarðarnir voru lagðir fyrir hóp ungmenna, en úrtak takmarkaðist við þá sem mættu greiningarviðmiðum varðandi hættu á þunglyndi. Þátttakendur voru 200 ungmenni í 9. bekk grunnskóla, 99 drengir (49,5%) og 101 stúlka (50,5%).

Niðurstöður: Þáttagreining AX-kvarðans studdi við þriggja þátta líkan: reiðistjórnun (RS), reiði sem beinist út á við (RÚ) og reiði sem beinist inn á við (RI). Þættirnir skýra 45,6% af hlutfalli dreifingar fullyrðinganna og voru sambærilegir við niðurstöður fyrri rannsókna. Áreiðanleiki undirkvarða var viðunandi. Flestar neiðkvæðar hleðslur hlóðu á þátt reiðistjórnunar sem sýnir að hann er andhverfa hinna þáttanna. Stúlkur skoruðu hærra á RI sem bendir til að þær byrgi reiði sína fremur inni en drengir. Ekki var kynjamunur á RS og RÚ. Jákvæð fylgni var á milli CDI og RI og benti til að þeir sem byrgja inni reiði sína skori hærra á þunglyndiskvarðanum CDI. Neikvæð fylgni var á milli CDI og RS. Undirkvarðar AX-kvarðans spáðu fyrir um 17% af dreifingu skora á CDI. Forspárhæfni besta líkansins með RS og RI var marktæk með F (2, 181) =18,46 og p≤0,001.

Ályktanir: Mikilvægt er að kanna ólíkar hliðar reiði við mat á þunglyndi og meðferð þess hjá ungmennum.


 

V 9        Bakteríuræktun miðeyrnavökva barna sem koma í röraðgerð       

Atli Steinn Valgarðsson1, Ásgeir Haraldsson1,2, Helga Erlendsdóttir3, Karl G. Kristinsson1,3, Kristján Guðmundsson4, Hannes Petersen1,5

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins, 3sýklafræðideild Landspítala, 4Handlæknastöðinni Glæsibæ, 5háls- nef- og eyrnadeild Landspítala

asv8@hi.is

Inngangur:Miðeyrnabólga er einn algengasti sjúkdómur íslenskra barna á leikskólaaldri og algengasta ástæða ávísunar sýklalyfja til barna og skurðaðgerða á börnum. Meingerðin er aðallega vegna meinvaldandi baktería sem berast frá nefkoki í miðeyrað og þá helst S. pneumoniae, H. influenzae og M. catarrhalis auk annarra. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvort og þá hvaða bakteríur ræktast úr miðeyrnavökva barna og hvort bakteríusamsetning miðeyrnavökvans hafi breyst á síðustu árum.

Efniviður og aðferðir: Þýðið var öll börn á aldrinum 0-12 ára með heila hljóðhimnu sem skráð voru í hljóðhimnuástungu eða röraísetningu með eða án háls- og/eða nefkirtlatöku á tímabilinu 26.3.2012-7.5.2012 á Handlæknastöðinni í Glæsibæ. Samþykkis var aflað frá forráðamönnum sem fylltu einnig út spurningalista varðandi sögu barnsins. Við aðgerðina var miðeyrnavökva safnað í soggildrur og hann ræktaður á hefðbundinn hátt á sýklafræðideild Landspítala.

Niðurstöður: Af 130 börnum voru 19 með þurr eyru og átta útilokuð af öðrum ástæðum. Alls fékkst 171 miðeyrnasýni frá 103 börnum. Úr 62 (36%) þeirra ræktaðist ekkert, H. influenzae ræktaðist úr 42 (25%) sýnum, M. catarrhalis 16 (21%), S. pneumoniae fimm (3%) og S. pyogenes úr tveimur (1%). Aðrar bakteríur sem ræktuðust voru flokkaðar sem líkleg mengun. Tæplega fjórðungur barnanna voru á sýklalyfjum daginn fyrir aðgerð og um 38% voru bólusett fyrir S. pneumoniae.

Ályktanir: Vitað er að pneumókokkar valda flestum alvarlegustu fylgikvillum miðeyrnabólgu. Marktæk fækkun pneumókokka frá 2008 gæti bent til þess að bein áhrif eða hjarðáhrif bólusetningar gegn pneumókokkum séu þegar kominn fram. Þessi þróun er jákvæð en mikilvægt er að staðfesta hana með enn stærri rannsókn.

 

V 10      Heilahimnubólga af völdum baktería í börnum á Íslandi

Kolfinna Snæbjarnardóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Magnús Gottfreðsson1,3, Hjördís Harðardóttir1,4, Hörður Harðarson1,4, Þórólfur Guðnason1,4,5, Ásgeir Haraldsson1,4

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild, 3smitsjúkdómadeild og 4Barnaspítala Hringsins Landspítala, 5landlæknisembættinu

kos15@hi.is

Inngangur: Heilahimnubólga af völdum baktería er lífshættulegur sjúkdómur og veldur dauða í börnum og fullorðnum í þróunarlöndum og á Vesturlöndum. Markmið rannsóknarinnar var að finna hvaða bakteríur valda heilahimnubólgu hjá börnum á Íslandi, meta faraldsfræðilega þætti og rannsaka hvort orsakir sjúkdómsins hafi breyst frá 1975-2010.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði frá 1995 til 2010. Leitað var tilfella í ræktunarniðurstöðum sýklafræðideildar Landspítalans, sjúkraskrám Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og krufningarskýrslum. Jákvæðar niðurstöður mænuvökvaræktana sýklafræðideildar Landspítalans frá Reykjavík og Akureyri á tímabilinu 1975 til 2010 voru skráðar.

Niðurstöður: Alls fundust 140 tilfelli frá 1995 til 2010. Af þeim voru 58% yngri en fimm ára. Flest börn greindust á fyrsta ári (18), eins árs (18) og tveggja ára (19). Algengustu bakteríur voru N. meningitidis (90), S. pneumoniae(25) og S. agalactiae(8). Helstu einkenni voru hiti, uppköst, hnakkastífleiki og útbrot eða húðblæðingar. H. influenzaehjúpgerð b var algeng orsök fyrir bólusetningu 1989 en hvarf nánast eftir hana. Tilfellum af meningókokka heilahimnubólgu fækkaði marktækt (p = 0,001) eftir að bólusetning gegn hjúpgerð C hófst 2002. Nýgengi sýkingarinnar (tilfelli/100.000 börn/ár) lækkaði úr 26 árið 1975 niður í eitt árið 2010. Fjöldi barna með heilahimnubólgu 1975-2010 var 477, 21 (4,4%) barn lést. Alls létust sjö (5%) börn úr heilahimnubólgu frá 1995-2010.

Ályktanir: Tilfellum af heilahimnubólgu fækkaði marktækt síðustu ár. Niðurstöðurnar gefa til kynna frábæran árangur af bólusetningu á börnum gegn H. influenzae hjúpgerð b og N. meningitidis hjúpgerð C. Vonir standa til að bólusetningar gegn S. pneumoniaesem hófust 2011 muni draga verulega úr alvarlegum pneumókokkasýkingum hjá börnum.

 

V 11      Sótthreinsun og merking máta á Íslandi

Linda Mjöll Sindradóttir, Snædís Sveinsdóttir, Inga B. Árnadóttir

Tannlæknadeild HÍ

linda_sindradottir@hotmail.com

Inngangur:Megintilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á mikilvægi sótthreinsunar og merkingum á mátum til að koma í veg fyrir að örverur og bakteríur geti borist á milli tannlækna og tannsmíðastofa. Leitað var svara við rannsóknarspurningunni: Hvert er mikilvægi sótthreinsunar? Hvernig er staðið að sótthreinsun og merkingu máta hér á landi? Hefur kyn eða aldur tannlækna og tannsmiða áhrif á hversu vel er staðið að sótthreinsun máta?

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknina var notuð megindleg aðferðarfræði. Rannsóknarsniðið var fyrirfram ákveðið og var gagna aflað með spurningalista til þátttakenda. Þátttakendur í rannsókninni voru starfandi tannlæknar í Tannlæknafélagi Íslands og tannsmiðir í Tannsmiðafélagi Íslands. Svörin voru borin saman með lýsandi tölfræði. Skoðaður var munur á milli kyns og aldurs og algengi sótthreinsunar auk þess sem niðurstöður voru bornar saman við sambærilegar erlendar rannsóknir.

Niðurstöður:Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að sótthreinsun máta er ábótavant og að tæpur helmingur tannlækna sótthreinsar aldrei mát sín né merkir að mát hafi verið sótthreinsuð. Kvenkyns tannsmiðir og kvenkyns tannlæknar standa betur að sótthreinsun en karlkyns tannlæknar. Karlkyns tannsmiðir standa sig síst. Elsti aldursflokkurinn 65 ára og eldri stendur best að sótthreinsun hjá tannsmiðum en síst hjá tannlæknum en þar er aldursflokkur 45-55 sem sótthreinsar oftast.

Ályktanir: Það má álykta að sótthreinsun og merkingu máta sé ábótavant hér á landi. Hugsanlega mætti, með betri leiðbeiningum, meiri fræðslu og sköpun verkferla varðandi sótthreinsun, auka skilning á mikilvægi þess að sótthreinsa mát og skila þannig auknu öryggi til tannheilsuteymisins.

 

V 12      Flokkun mátefna í heilgómagerð

Rebekka Líf Karlsdóttir, Svend Richter

Tannlæknadeild HÍ

rebekkalif_@hotmail.com

Inngangur:Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um þau mátefni sem í dag eru notuð til máttöku í heilgómagerð og þau sem voru í notkun hér áður fyrr. Efni sem tilvalin eru til upphafs- og lokamáttöku var gefinn sérstakur gaumur. Einnig var rýnt vel í ferli sótthreinsunar og kannað hvort að sótthreinsun hefði marktæk áhrif á stöðugleika og gæði mátefna. Leitað var svara við tveimur rannsóknarspurningum: Hvaða mátefni er mest notað til lokamáttöku við heilgómagerð meðal tannlækna hérlendis? Hefur sótthreinsun marktæk áhrif á stöðugleika (dimensional stability) mátefna?

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknina var notuð megindleg aðferðafræði. Könnun var send til þátttakenda með tölvupósti til félagsmanna í Tannsmiða- og Tannlæknafélagi Íslands. Þátttakendur voru beðnir um að svara könnun sem samanstóð af spurningum tengdum verklagi og hagnýtri þekkingu þeirra. Rannsóknarvinnan fólst einnig í lestri viðurkenndra rannsóknargreina sem birtar hafa verið í tímaritum, veftímaritum og bókum sem varða mátefni í tannlækningum.

Niðurstöður:Helstu niðurstöður könnunar sýna fram á að ekki virðist vera mikill munur á mátefnavali tannlækna til lokamáttöku í heilgómagerð. Allir kjósa þeir að nota einhverskonar gúmmímátefni og kýs meirihlutinn að taka lokamát í heilgómagerð með viðbótar silíkoni. Rannsóknir sýna fram á að dýfing máta í  sótthreinsandi lausn sé líklegri til árangurs þegar útrýma skal bakteríum og hafi ekki áhrif á nákvæmni, sé farið að tímatilmælum.

Ályktanir: Af niðurstöðum könnunar má álykta að meirihluti tannlækna hérlendis kýs að nota gúmmímátefni til lokamáttöku í heilgómagerð vegna betri eiginleika þeirra fram yfir önnur mátefni.

 

V 13      Hugsanlegt arfgengni tannskemmda og glerungseyðingar

Stefán Hrafn Jónsson1, Bjarni Halldórsson2, W. Peter Holbrook3

1Félags- og mannvísindadeild HÍ, 2raunvísinda og verkfræðideild HR, 3tannlæknadeild HÍ

phol@hi.is

Inngangur: Árið 2005 fór fram faraldfræðileg rannsókn á tannskemmdum 6, 12 og 15 ára íslenskra barna sem byggði á klasaúrtaki. Stuðst var við ICDAS greiningaraðferða við að meta tannskemmdir barnanna. Einnig var lagt mat á umfang glerungseyðingar 15 ára barnanna. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka mögulegt arfgengni í hópi þeirra þátttakenda sem tóku þátt í rannsókninni.

Efniviður og aðferðir: Íslenskur ættfræðigrunnur var notaður til að kanna mögulega arfgengni. Stuðst var við tengsl einstaklinga í allt að þrjá ættliði. Bæði 6 og 12 ára börnum var skipt í tvennt, annars vegar börn í aldurshóp með engar tannskemmdir og hins vegar með börn eina tannskemmd eða fleiri. Fimmtán ára börnum var skipt í tvennt annars vegar börn með engar tannskemmdir og hins vegar börn með sjö eða fleiri tannskemmdir. Elsta hópnum var auk þess skipt í tvennt eftir því hvort glerungseyðing var til staðar eða ekki.

Niðurstöður:Fyrir sex ára og 15 ára börnin voru hlutfallslega færri sameiginlegir forferður hjá þeim sem voru með tannskemmdir en meðal hópsins sem voru án tannskemmda. Aftur á móti sýndi rannsóknin ekki fram á tölfræðilega marktækar niðurstöðum í neinum samanburði.

Ályktanir: Tannskemmdir er margþættur sjúkdómur þar sem lögð hefur verið áhersla á svipgerð einstaklinga. Niðurstöðurnar benda til þess að erfðaþættir gætu að hluta til haft áhrif á líkurnar á því að fá tannskemmdir. Rannsóknargögnin gætu verið grunnur að nánari greiningu á hugsanlegu arfgengi tannskemmda og glerungseyðingar.

 

V 14      Útskrift með meistaragráðu frá tannlæknadeild Háskóla Íslands

Bjarni Elvar Pjetursson, Vigdís Valsdóttir, Ellen Flosadóttir, Sigurður Rúnar  Sæmundsson, Karl Örn Karlsson, W. Peter Holbrook

Tannlæknadeild HÍ

ef@hi.is

Inngangur: Bologna samþykktin, sem fjallar um samræmingu tannlæknanáms innan Evrópu, krefur tannlæknadeild HÍ um að útskrifa nemendur sína með meistaragráðu. Tilgangur þessarar vinnu er að breyta námsskrá tannlæknadeildar á þann hátt að námið uppfylli skilyrði Bologna samþykktarinnar varðandi útskrift nema með meistaragráðu án þess að skerða klíníska kennslu þannig að deildin útskrifi áfram tannlækna með starfsleyfi á óbreyttum námstíma.

Efniviður og aðferðir: Núverandi námsskrá var skoðuð með tilliti til meðal annars innihalds, væntanlegrar klínískrar og akademískrar hæfni sem neminn öðlast, krafna HÍ, Bologna samþykktarinnar og ADEE (Association for Dental Education in Europe) um innihald námsins og hæfniskröfur.

Niðurstöður:Námsskráin hefur fengið jákvætt mat við úttektir, sérstaklega klíníski hluti námsins. Nemendur hafa í auknum mæli sóst eftir að vinna rannsóknarverkefni aukalega með náminu. Þessi rannsóknarverkefni hafa samsvarað 10-12 ECTS einingum og uppfylla ekki kröfur HÍ til meistaragráðu. Ef rannsóknarverkefnin yrðu stækkuð upp í 30 ECTS einingar myndi klínísk kennsla skerðast á móti og nemar fengju ekki starfsleyfi við útskrift. Hugmyndin er að hver nemandi setji saman möppu (portfolio) þar sem fram koma klínísk tilfelli sem hann hefur meðhöndlað auk annarra verkefna sem hann hefur lokið. Þessi mappa væri samantekt á verkefnum nemans.

Ályktanir: Lítil rannsóknarverkefni framkvæmd af tannlæknanemum ásamt klínískri möppu sem búin er til af hverjum nemanda fyrir sig ættu að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að tannlæknanemar gætu útskrifast með meistaragráðu. Þannig kemur klínískt nám ekki til með að skerðast og áfram verður hægt að útskrifa nema sem eiga rétt á starfsleyfi strax við útskrift.

 

 

V 15      Tannheilsa 12 og 13 ára barna í barnaskóla á Bashay svæðinu, Tansaníu

Björg Helgadóttir, Telma Borgþórsdóttir, Sigurður Rúnar Sæmundsson, Inga B. Árnadóttir

Tannlæknadeild HÍ

bjh10@hi.is, teb3@hi.is

Inngangur: Í Tansaníu á austurströnd Afríku búa um 49 milljónir manna. Þar af búa um 300.000 manns mjög dreifbýlt á Bashay svæðinu sem staðsett er í norðurhluta Tansaníu. Tveir tannlæknanemar bjuggu og störfuðu þar við tannlæknatengt hjálparstarf í fimm vikur sumarið 2012. Skoðuðu nemarnir meðal annars tannheilsu og sinntu forvarnarstarfi við barnaskólann í Bashay, en nemendur þar eru um 800.

Efniviður og aðferðir: Með leyfi skólayfirvalda Bashay barnaskólans var tannheilsa 12 og 13 ára grunnskólabarna skoðuð. Tannátutíðni barnana (D3MFT) var metin af tveimur skoðurum samkvæmt aðferðum WHO í kennslustofu skólans. Áhöld við tannskoðun voru höfuðljós, einnota sondur, speglar og hanskar, bómull, myndavél, blað og penni. Tveir kennarar skráðu niðurstöður og voru til staðar sem túlkar. Einnig var spurt um tannhirðu, tannburstategund og fyrri heimsóknarfjölda til tannlæknis.

Niðurstöður:Skoðuð voru 110 afrísk börn, 59% (65) voru stúlkur og 41% (45) drengir. Af þeim voru 10,9% barnanna með skemmda tönn (D3), eina eða fleiri. D3MFT var 0,2 og sú tala á þá aðeins við um skemmdar tennur því enginn tönn hjá þessum hópi var töpuð né fyllt. Allir sögðust bursta sig að minnsta kosti einu sinni á dag. Að meðaltali voru tennur burstaðar 1,3 sinnum á dag. 46% barnanna notuðust við venjulegan nælontannbursta en um 54% barnanna notuðu ákveðna trjátegund (Salvadora Persica) sem tannbursta. Enginn marktækur munur var á tannátu milli þessara tveggja hópa. Einungis tvö barnanna höfðu farið áður til tannlæknis.

Ályktanir: Aðgengi tansanískra barna að tannlækni er ekki gott. Samt sem áður er tannátutíðni lág miðað við íslensk börn á sama aldri. Sennilega er hægt að rekja þessa góðu tannheilsu til þess að í grunnvatni svæðisins er mikið flúorinnihald og börnin borða einungis eina til þrjár máltíðir á dag.

 

V 16      Heilpostulín í tannlækningum

Finnur Eiríksson, Svend Richter

Tannlæknadeild HÍ

fie1@hi.is

Inngangur: Gull hefur verið notað við gerð tanngerva í aldaraðir. Um 1960 var byrjað að brenna postulín á málmkrónur. Síðar komu fram málmlausar postulínskrónur og brýr. Aukin úlitsleg krafa, sérstaklega á framtannasvæði ruddi farveginn. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hvernig heilpostulín er notað í tannlækningum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknina var notuð megindleg aðferðafræði. Spurningalistar voru sendir tannlæknum og tannsmiðum, sem samanstóðu af spurningum um notkun málmlausra tanngerva úr postulíni. Þátttakan var nafnlaus og órekjanleg til einstaklinga í úrtaki.

Niðurstöður: Af 275 starfandi tannlæknum svöruðu 85 (31%) og af 28 tannsmíðastofum svöruðu 15 (54%). Í svörum kom fram 91,6% tannlækna og 93,2% tannsmiða vinna með málmlaus tanngervi og rúmlega helmingur þeirra telur að meirihluti krónu- og brúarsmíði í dag sé málmlaus. Zirkonium virðist vera mest notað, sérstaklega í stærri tanngervi. 81,6% tannlækna og 92,9% tannsmiða gera zirkonium kjarna í krónur á framtannasvæði en 61,3% á jaxlasvæði. Aðeins 5,3% tannlækna og 7,1% tannsmiða gera ekki zirkonium brýr á framtannasvæði. 70,1% tannlækna gera implantabrýr úr zirkonium á framtannasvæði. 54,4% tannlækna höfðu notað Zirkonium abutment. 57,9% tannlækna nota bæði pressupostulín og zirkonium en 71,4% tannsmiða. 42,1% tannlækna nota eingöngu zirkonium og 28,6% tannsmiða. Enginn þeirra sem svöruðu nota eingöngu pressupostulín, hvorki hjá tannlæknum né tannsmiðum.

Ályktanir: Meirihluti tanngerva í krónu- og brúargerð er úr heilpostulíni. Zirkonium verður fyrir valinu þegar kemur að lengri tanngervum á álagssvæðum í munni, hvort sem það er á implönt, tannstuddar krónur eða brýr.

 

V 17      Virkni lípíðlausna gegn öndunarfæraveirum in vivo

Hilmar Hilmarsson1, Halldór Þormar1, Þórdís Kristmundsdóttir2

1Líf- og umhverfisvísindadeild og 2lyfjafræðideild HÍ

thordisk@hi.is

Inngangur:Respiratory syncytial veira (RSV) er ein algengasta orsök alvarlegrar lungnabólgu hjá ungum börnum og hjá öldruðum. Nothæft bóluefni gegn RSV er ekki til. Það er því greinilega þörf á nýjum lyfjum gegn RSV sem gætu að minnsta kosti dregið úr líkum á alvarlegri sýkingu í neðri öndunarfærum. Rannsóknir hafa sýnt að lípíðin lárínsýra og mónókaprín eru virk gegn RSV. Hægt er að smita mýs og rottur með RSV og má nota sem dýralíkan til rannsókna á lyfjavirkni.

Efniviður og aðferðir: 50µl af lípíðlausnum sem innihéldu 10 mM af mónókapríni og lárínsýru, própýlen glýkóli, Tween 20 eða 40 og Carbopol 974P var sprautað í nasirnar á Spraque Dawley rottum. Nokkrum mínútum síðar var 50µl of RSV A2 sprautað í nasir dýranna. Meðferð með lípíðlausnum var framkvæmd fjóra daga í röð. Samanburðarhópur var meðhöndlaður með 0,9% NaCl lausn. Dýrunum var síðan fargað, nefslímhúðin fjarlægð, hún hómógeniseruð og RSV ákvarðað.

Niðurstöður:Hjá þeim dýrum sem fengu lípíðlausnirnar varð marktæk lækkun á RSV títer samanborið við hópinn sem fékk 0,9% NaCl lausn (P<0,01). Nefslímhúð dýranna sem fengu lípíðlausnina virtist eðlileg en roði var á nefslímhúð þeirra dýra sem fengu viðmiðunarlausnina og sýndi hún merki um bólgu. Meðferð með lípíðlausnunum virtist ekki hafa óæskileg áhrif á dýrin og hafði ekki áhrif á þyngd þeirra.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að meðferð með lausnum sem innihalda mónókaprín og lárínsýru valda marktækri lækkun á veiru títer í nefslímhúð rotta sem sýktar hafa verið með RSV. Meðferð með lípíðum gæti því verið fyrirbyggjandi þar sem að með því að lækka RSV veiru títer í nefslímhúð mætti draga úr líkum á að veiran berist til lungna og valdi þar alvarlegri sýkingu. Þörf er á ítarlegri rannsóknum til að kanna notkun á lípíðunum gegn RSV.

  

V 18      Augnsýkingar af völdum Listeria monocytogenes í íslenskum kúm

Guðbjörg Jónsdóttir1, Signý Bjarnadóttir1, Hjalti Viðarsson2, Eggert Gunnarsson1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýralæknir Búðardal

gj@hi.is, sigbj@hi.is 

Inngangur:Bakterían Listeria monocytogenes (L.monocytogenes) finnst víða í náttúrunni, í fjölda dýrategunda og einnig í fóðri, matvælum og jarðvegi. Bakterían getur valdið sjúkdómnum listeriosis sem lýsir sér meðal annars sem heilahimnubólga, blóðeitrun og fósturlát í mönnum og dýrum. Sýkingar í dýrum tengjast yfirleitt fóðrun með votheyi eða illa verkuðu rúllubaggaheyi. L. monocytogenes getur einnig valdið augnsýkingum í nokkrum dýrategundum og hefur verið einangruð úr sýktum augum hrossa, sauðfjár og nautgripa víða erlendis. Hér verður lýst fyrsta staðfesta tilfellinu af listeríuaugnsýkingu í nautgripum hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Í nóvember 2011 kom upp augnsýking í nautgripum á kúabúi á Vesturlandi. Á bænum voru um 60 gripir í lausagöngu, fóðraðir á rúllubaggaheyi. Um 30 gripir sýndu einkenni. Einkennin voru mismikil, allt frá því að rétt væri hægt að merkja að kýrnar pírðu annað augað og upp í stöðugt rennsli úr auga/augum, hvarmabólgu og hornhimnubólgu. Sumar kýrnar urðu líklega svo til blindar um tíma.

Niðurstöður: Keldum bárust stroksýni úr augum fjögurra gripa. Frá öllum sýnunum ræktaðist nær hreinn vöxtur af L. monocytogenes. Bakterían var einangruð og tegundagreind. Hún reyndist vel næm gegn þeim sýklalyfjum er prófuð voru. Þær kýr sem voru verst haldnar voru meðhöndlaðar með sýklalyfjum. Allar náðu sér á þremur til fjórum vikum.

Ályktanir: L. monocytogenes var hér einangruð úr sýktum augum nautgripa í fyrsta skipti á Íslandi. Oftast eru dýr meðhöndluð strax og sýkingar verður vart en ekki tekin sýni til að kanna orsök sýkingarinnar. Af faraldsfræðilegum ástæðum þyrfti að gera það oftar þar sem Listeria er sem kunnugt er súnu baktería og getur verið alvarlegur sjúkdómsvaldur í dýrum og mönnum. Því er mikilvægt að geta gripið til viðeigandi ráðstafana og meðhöndlunar þar sem það á við.

 

V 19      Viðbrögð við jákvæðum blóðræktunum á Landspítala frá janúar til ágúst 2010

Katrín Hjaltadóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Hjördís Harðardóttir2, Már Kristjánsson1,3, Sigurður Guðmundsson1,3,4

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild og 3smitsjúkdómadeild Landspítala, 4heilbrigðisvísindasviði HÍ

katrinhjalta@gmail.com

Inngangur:Árlega greinast um 1.000 einstaklingar með jákvæðar blóðræktanir á Landspítala. Rannsóknir sýna að því fyrr sem sýklalyf eru gefin þessum einstaklingum, þeim mun betri eru horfurnar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu langur tími líður frá því fyrstu upplýsingar um jákvæða blóðræktun liggur fyrir, þar til sýklalyfjameðferð hefst. Einnig, hversu margir voru þegar komnir á meðferð, hvaða meðferð og hversu oft upplýsingar sýklafræðideildar leiddu til breytinga á meðferð og hver afdrif sjúklinga urðu.

Efniviður og aðferðir: Allar jákvæðar blóðræktanir frá janúar til og með ágúst 2010 voru rannsakaðar. Gögn fengust úr Glims (tölvukerfi sýklafræðideildar), Therapy (lyfjakerfi Landspítala), lyfjablöðum frá Barnaspítala Hringsins og Sögu (sjúkraskráningarkerfi Landspítala).

Niðurstöður:Alls greindust 627 einstaklingar með jákvæðar blóðræktanir á tímabilinu, þar af voru 36,8% álitin mengun. 97% fengu sýklalyf og var ceftríaxón oftast fyrsta val. Tími frá sýnatöku að fyrstu lyfjagjöf var að meðaltali 7,5 klst. Meðferð var breytt í 66% tilvika, að meðaltali tæpum sólarhring eftir tilkynningu um jákvæða ræktun. Í 30% tilvika var haft samráð við smitsjúkdómalækni. Alls létust 6% einstaklinganna innan 30 daga frá sýnatöku.

Ályktanir: Flestir sjúklingarnir fengu sýklalyf og fyrsta meðferð var oftast breiðvirkt sýklalyf, sem passar við ráðleggingar um empiríska sýklalyfjagjöf. Stytta mætti tímann sem líður frá sýnatöku til sýklalyfjagjafar og þar með bæta horfur sjúklinga. Hluti sjúklinga fær sýklalyf á bráðamóttöku en gögn þaðan lágu ekki fyrir við vinnslu rannsóknarinnar. Rannsókninni er ekki lokið, því enn vantar gögn frá bráðamóttöku um sýklalyfjagjafir. Óskandi er að niðurstöðurnar hjálpi til við að sjá hvar í ferlinu má gera betur og auka eftirlit með þessum sjúklingahópi.

  

V 20      Áhrif utanfrumustoðefnis úr þorski á æðamyndun in vitro, ex vivo og in ovo

Guðný Ella Thorlacius, Skúli Magnússon, Baldur Tumi Baldursson, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, Pétur Henry Petersen

Rannsóknarstofa í taugalíffræði Lífvísindasetur HÍ

skm2@hi.is

Inngangur: Notkun utanfrumuefnis úr spendýravef til ígræðslu í sár sem gróa illa verður sífellt algengari en sambærilegt efni úr fiskum (pECM) bjóða uppá svipaða notkunarmöguleika og hafa ýmsa kosti. Mikilvægt er þó að staðfesta að pECM sé innlimað í vefi og taki þátt í nýmyndun vefja á sambærilegan hátt og efni úr spendýrum, til dæmis hafi áhrif á nýmyndun æða, far frumna og valdi ekki bólgusvörun.

Efniviður og aðferðir: THP-1 mónócýtar voru voru ýmist ræktaðir í viðurvist duftaðs pECM án örvunar, með IFNγ og LPS örvun eða með phorbol-12-myristate-13-acetate (PMA) sérhæfingu og LPS örvun. Magn frumuboðanna IL-10 og IL-12p40 mælt í frumufloti. Æðaþelsfrumur úr naflastreng (HUVEC frumur) voru notaðar til þess að meta áhrif pECM á frumufar. Æti með duftuðu pECM var þá látið á og frumurnar látnar vaxa í átta klst. Áhrif pECM á nýmyndun æða voru mæld með kjúklinga CAM (Chick Chorioallantoic Membrane) aðferðinni. Fyrir kjúklinga CAM tilraunir voru frjóvguð egg opnuð og 6 mm skífur af pECM eða filterpappír látnar beint á himnuna. Fyrir og eftir tvo daga var himnan mynduð í víðsjá með og án skífu. Breyting á flatarmáli æða í himnunni var metin og fjöldi greina á æðum talin.

Niðurstöður: THP-1 frumur voru ekki örvaðar af pECM í neinum af þeim kringumstæðum sem prófaðar voru, sem bendir til þess að pECM veki ekki upp ónæmisviðbragð þeirra. pECM hafði ekki áhrif á færslu HUVEC fruma í rispuprófi. Í kjúklinga CAM prófinu var aukning í flatarmáli æða og greinafjölda í himnunum sem fengu pECM miðað við ómeðhöndlað viðmið.

Ályktanir: pECM getur aukið nýmyndun æða sem er lykilatriði í uppbyggingu á heilbrigðum vef í sárum. Vörur úr pECM eru því jafn hæfar og sambærilegar vörur úr spendýravef til að viðhalda vexti frumna og ýta undir nýmyndun æða.

 

 

V 21      Rannsóknir á Gyrodactylus sníkjudýrum á villtum þorski og eldisþorski beggja vegna Norður-Atlantshafsins

Matthías Eydal1, David K. Cone2, Michael D.B. Burt3

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Saint Mary's University, Halifax, Nova Scotia, Kanada, 3University of New Brunswick, Fredericton, New Brunswick, Kanada

meydal@hi.is

Inngangur:Sníkjudýr af ættkvíslinni Gyrodactyluseru smáir flatormar (Monogenea: ytri ögður), um hálfur mm á lengd, sem leggjast á tálkn, roð eða ugga fiska og geta valdið sjúkdómi. Fyrri rannsóknir sýna að á þorskfiskum í N-Atlantshafi finnast að minnsta kosti sex Gyrodactylus tegundir, en útbreiðsla einstakra tegunda er ekki vel þekkt, litlar heimildir hafa verið til um tegundir í Kanada og engar frá Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Gyrodactylusormum var safnað af villtum þorskum úr Ísafjarðardjúpi og af eldisþorskum úr sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og á Austfjörðum 2009. Í Kanada var einnig safnað ormum af villtum þorski og eldisþorski.

Niðurstöður: Af sex Gyrodactylus tegundum sem þekktar eru á þorski í N-Atlantshafi fundust fjórar á villtum þorski við Ísland, en allar tegundirnar á villtum þorski við Kanada: Gyrodactylus callariatis (tíðni Ísland 100%/ Kanada 5%), G. cryptarum (7%/tíðni lág), G. emembranatus (0/62%), G. marinus (7%/38%), G. pharyngicus (13%/5%) og G. pterygialis (0/tíðni lág). Á eldisþorski við Ísland fundust G. marinus(tíðni 47%) og G. pharyngicus (3%). G. marinusvar eina tegundin sem fannst á eldisþorski við Kanada (tíðni 91%).

Ályktanir: Það er athyglisvert að G. callariatis var ríkjandi tegund á villtum þorski við Ísland en önnur tegund, G. marinus, var ráðandi á eldisþorski, jafnvel í sama firði. Við Kanada var sama tegund, G. marinus, allsráðandi á eldisþorski. Þessari tegund þarf væntanlega að gefa sérstakan gaum í þorskeldi.


V 22      Um tríkínur og smit af völdum þessara sníkjudýra á Íslandi

Karl Skírnisson

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

karlsk@hi.is

Inngangur: Tríkínur (Trichinella spp.) eru sníkjuþráðormar af ættkvíslinni Trichinella sem lifa í meltingarvegi og þverrákóttum vöðvum dýra víðast hvar í heiminum. Sex af átta þekktum tegundum geta lifað í mönnum og valdið í þeim alvarlegum sjúkdómi sem oft leiða til dauða. Á heimskautasvæðum hringinn í kring um norðurhvel lifir tegundin T. nativa, einkum í hvítabjörnum, rostungi, úlfum og ref. Sunnar, á tempruðum landsvæðum, lifir T. spiralis í svínum, hrossum, hundum, björnum og refum. Báðar lifa einnig í dýrum sem stunda hræát, eins og nagdýr. Smit berst á milli dýra með hráu kjöti. Fullorðnu ormarnir lifa niðri í slímhimnu þarmsins og verpa þar lirfum sem berast með blóðrás út um líkamann. Ofangreindu tegundirnar mynda þolhjúpa utan um lirfurnar og mest er af þeim í þverrákóttum vöðvum. Lirfustig T. nativa þolir frost og lifir hún hér í nágrannalöndunum (Grænlandi, Svalbarða, Noregi) en sunnar í Evrópu er T. spiralis allsráðandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsakað var hvort hvítabirnirnir fimm, sem taldir voru hafa lifað við Austur-Grænland áður en þeir komu til Íslands, væru smitaðir af tríkínum. Var það gert með því að melta með staðlaðri aðferð 50 g af þind, kjálkavöðva og tungu hvers dýrs og telja lirfur í sýnunum.

Niðurstöður: Tveir hvítabjarnanna voru smitaðir, aldurhniginn björn, á 23. aldursári, og ríflega fjögurra vetra birna. Sértækar PCR prófanir staðfestu að tegundin T. nativa átti í hlut í báðum tilvikum.

Ályktanir: Ísland er eina landið í Evrópu sem laust er við tríkínur. Sú staðreynd er einkum rakin til einangrunar landsins og fábreyttrar fánu spendýra. Við ákveðnar aðstæður gæti T. nativa engu að síður náð hér fótfestu, til dæmis ef hagamýs eða refur kæmust í hræ af hvítabjörnum sem smitaðir voru af tríkínu. Hringrásin gæti svo viðhaldist þar sem þessi dýr þrífast hlið við hlið og borist þaðan í húsdýr og áfram í fólk.

 

V 23      Áhrif félagslegra þátta á myndun sykursýki af tegund 2 meðal aldraðra Íslendinga. Öldrunarrannsókn Hjartaverndar 2002-2006

Hrafnhildur Eymundsdóttir1, Vilmundur Guðnason2, Elín Ólafsdóttir3, Thor Aspelund4, Rúnar Vilhjálmsson5, Tamara B. Harris6, Lenore J. Launer6, Guðný Eiríksdóttir2 

1,3Miðstöð í Lýðheilsuvísindum HÍ, 2,4Hjartavernd, 5hjúkrunarfræðideild HÍ, 6Intramural Research Program, National Institute on Aging

hre6@hi.is

Inngangur: Á erlendum vettvangi hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna fram á marktækt samband á milli þjóðfélagsstöðu (socioeconomic status) og sykursýki af tegund 2 (SS2). Tilgangur núverandi rannsóknar er að meta þjóðfélagsstöðu, út frá menntun og atvinnu, í tengslum við SS2.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er þversniðsrannsókn, notast var við gögn frá Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (2002-2006). Þátttakendur voru 5.764, á aldrinum 66-98 ára, meðalaldur 77 ár.  SS2 var greind meðal þátttakenda með spurningalistum, gegnum lyfjanotkun og mælingum á fastandi blóðsykurgildum. Út frá atvinnu var greint á milli eftirfarandi stétta; efri stétt, millistétt og verkalýðsstétt.

Niðurstöður: Algengi SS2 var um 12% meðal karla og kvenna. Ekki reyndist martækur munur á algengi SS2 með tilliti til menntunar og atvinnu. Hins vegar reyndist vera marktækur munur á lífstílsþáttum, með tilliti til menntunar og atvinnu. Þeir sem flokkuðust í efri stétt og höfðu meiri menntun voru líklegri til að lifa heilsusamlegra lífi heldur en þeir sem tilheyrðu verkalýðsstétt og höfðu minni menntun. Einn þáttur var þó undanskilinn, áfengisneysla var meiri eftir því sem menntun jókst og eftir því sem ofar var farið í stétt. Þá jókst ávaxta- og grænmetisneysla með menntun og stétt. Ekki reyndist marktækur munur milli hópa þegar líkamsþyngdarstuðull var metinn.

Ályktanir: Samband þjóðfélagsstöðu og SS2 hefur ekki áður verið metið á Íslandi. Niðurstöður eru í andstöðu við rannsóknir á erlendum vettvangi. Hafa ber í huga að þýðið sem unnið er með er hópur eldri einstaklinga og þjóðfélagsstaða þeirra er ekki eins breytileg og yngri kynslóða. Hugsanlegt er að minni breytileiki dragi  úr fylgni milli þjóðfélagsstöðu og SS2.

 

V 24      Tengsl mælds ósonsmagns í jarðhæð og bráðainnlagna vegna hjarta- og lungnasjúkdóma í Reykjavík 2003-2009

Hanne Krage Carlsen1,2, Bertil Forsberg2, Kadri Meister2, Þórarinn Gíslason3,4, Anna Oudin2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2atvinnu- og umhverfislæknisfræði, Háskólanum í Umeå, Svíþjóð, 3lungna- og ofnæmisdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

hkc1@hi.is

Inngangur:Loftmengunarstig í Reykjavík mælist yfirleitt lágt og er mynstur mismunandi lofttegunda frábrugðið því sem sést í erlendum stórborgum. Fylgni mengunarþátta er lág og stórt hlutfall agna yfir 10 míkrómetrar í þvermál (PM10) kemur frá náttúrulegum uppsprettum. Óson (O3) mælast hæst á vorin en erlendis mælist það yfirleitt hæst á sumrin. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna samband bæði daglegra koma á bráðamóttöku og bráðainnlagna vegna hjarta- og lungnasjúkdóma og loftmengunarstigs í Reykjavík.

Efniviður og aðferðir: Tímaraðgreining með fjölda daglegra bráðainnlagna og heimsókna á bráðamóttöku á árunum 2003-09 var gerð úr SÖGU, sjúkraskráningarkerfi Landspítalans. Þriggja daga meðaltal mengunarþátta og veðurs var reiknað frá gögnum Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar. Aðhvarfsgreining var notuð til að reikna sambandið og leiðrétt fyrir árstíma. Aukning í fjölda innlagna fyrir fjórð-ungs-aukningu var reiknuð frá stuðlum líkananna.

Niðurstöður:Meðalfjölda bráðainnlaga og koma á bráðamóttu á dag var 10 þar af 76% vegna hjartasjúkdóms og 61% voru eldri en 70 ára. Fyrir mengunargildin sáust stórar árstímasveiflur sérstaklega fyrir PM10. Það sást um það bil 4,6% aukning í innlögnum fyrir fjórðungsaukningu í magni O3 í andrúmslofti. Sambandið reyndist sterkara hjá konum (7,2%). Það var einnig samband milli köfnunardíoxíðaukningar (NO2) og innlagna eldra fólks. Ekkert marktækt samband fannst fyrir PM10.Ályktanir: O3 er tengt aukningu í fjölda innlagna vegna hjarta- og/eða lungnasjúkdóma en NO2 einungis hjá öldruðum.

 

V 25      Áhrif þverfaglegrar offitumeðferðar á Reykjalundi á þunglyndi, kvíða, félagslega virkni og þyngd. Þriggja til fjögurra ára eftirfylgni

Maríanna Þórðardóttir1, Ludvig Á. Guðmundsson2, Arna Hauksdóttir1, Unnur Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2endurhæfingarmiðstöð SÍBS Reykjalundi

mth5@hi.is

Inngangur:Offita er margslunginn sjúkdómur sem orsakast af mörgum mismunandi þáttum. Þunglyndi, kvíði og félagsleg virkni eru mikilvægir áhrifaþættir er varða lífsgæði einstaklinga með offitu. Þessir einstaklingar upplifa oft mikla niðurlægingu og mismunun frá samfélaginu og eru þar af leiðandi í aukinni hættu á að þróa með sér andlega vanlíðan og eru líklegir til að verða félagslega óvirkir. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort atferlismeðferð við offitu á Reykjalundi hafi áhrif á þunglyndi, kvíða, félagslega virkni og þyngd offeitra einstaklinga frá upphafi meðferðar þar til þremur til fjórum árum eftir að meðferð líkur.

Efniviður og aðferðir: Rannsókn þessi var framsýn, óslembin íhlutunarrannsókn. Mælingum á þyngd, þunglyndi með því að notast við Becks þunglyndiskvarðann (Beck's Depression Inventory II), kvíða með því að notast við Becks kvíðakvarðann (Beck's Anxiety Inventory) og félagslegri virkni með því að notast við OP-kvarðann (Obesity-related Problem Scale) var safnað þrisvar á þriggja til fjögurra ára tímabili hjá 90 einstaklingum (níu körlum og 81 konu) og breytingar skoðaðar. Hópnum var skipt upp í aðgerðarhóp (47 einstaklingar) og meðferðarhóp (43 einstaklingar). Einnig var bakgrunnsupplýsingum safnað við lokamælinguna.

Niðurstöður:Frumniðurstöður sýndu að þyngd lækkaði um 26,6 kg (p<0,001) á rannsóknartímanum. Þunglyndi fór niður um 10,7 stig (p<0,001), kvíði um 5,8 stig (p<0,001) og félagsleg virkni um 39,5 stig (p<0,001). Marktæka breytingu mátti einnig sjá hjá báðum hópum þegar þeim var skipt upp.

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður sýna að ekki aðeins holdafar batnar, heldur einnig að verulegur bati næst í heilsutengdum lífsgæðum og undirstrika þær þýðingu markvissrar þverfaglegrar offitumeðferðar þar sem áhersla er lögð á varanlegar lífsstílsbreytingar.

 

V 26      Eyrnasuð meðal íslenskra flugmanna

Sindri Stefánsson1, Einar Jón Einarsson1, Hannes Petersen1,2

1Læknadeild HÍ, 2háls- nef- og eyrnadeild Landspítala

sis65@hi.is

Inngangur:Eyrnasuð (tinnitus) er algengt í nútímasamfélagi og getur haft alvarleg áhrif bæði á atvinnu og einkalíf, en þriðjungur allra fullorðinna segist hafa upplifað eyrnasuð einhvern tímann á lífsleiðinni. Heyrnarskaði af völdum hávaða er talinn einn af aðalorsakavöldum eyrnasuðs, en í starfi sínu eru flugmenn oft útsettir fyrir mikinn hávaða löngum stundum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna umfang og eðli eyrnasuðs meðal íslenskra flugmanna.

Efniviður og aðferðir: Tilfellaviðmiðunarrannsókn (case-control) á 204 flugmönnum. Lagðir voru spurningalistar fyrir alla félagsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) (n=614) og upplýsingum safnað frá þeim sem svöruðu (n=204). Á 51 manns úrtaki voru einnig gerðar heyrnarmælingar (Pure Tone Audiometry (PTA) og Distortion Product Otoacoustic Emission (DPOAE)) eða nýlegar mælingar notaðar.

Niðurstöður: Af 204 þátttakendum sagðist 121 (60%) hafa upplifað eyrnasuð lengur en í fimm mínútur einhvern tímann á ævinni, en 96 (47%) sögðust hafa upplifað eyrnasuð á síðastliðnum 12 mánuðum. Þá voru 57 (28%) þátttakendur oft eða stöðugt með eyrnasuð. Alvarleiki eyrnasuðs hvers þátttakanda var greindur með Tinnitus Handicap Inventory (THI). Um 96% sögðu suðið hafa lítil eða engin áhrif á getu sína til að lifa eðlilegu lífi. Heyrnarþröskuldar hækkuðu með hækkandi THI-flokki. Marktæk neikvæð fylgni var milli heyrnarþröskulda (PTA) og hljóðsvars innra eyrans (DPOAE).

Ályktanir: Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar er greinilegt að flugmenn eru oft útsettir fyrir miklum hávaða í starfi sínu. Niðurstöður rannsóknarinnar virðast styðja þá tilgátu að eyrnasuð sé algengara hjá flugmönnum en öðrum starfsstéttum, en þó virðist alvarleiki eyrnasuðsins í flestum tilvikum ekki vera það mikill að hann hafi áhrif á einkalíf einstaklingsins.

 

V 27      Mataræði og holdafar karla og kvenna í borg og bæ

Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Þórhallur I. Halldórsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, rannsóknastofu í næringarfræði Landspítala og HÍ, embætti landlæknis

hrg37@hi.is

Inngangur:Rannsóknir hafa bent til þess að offita sé algengari meðal kvenna utan höfuðborgarsvæðis en innan. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna mataræði og holdafar eftir búsetu og menntun meðal karla og kvenna á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður voru unnar úr gögnum landskönnunar á mataræði 2010 til 2011. Þátttakendur voru 1.312, aldur 18-80 ár, heildarsvörun 68,6%. Mataræði var kannað með tvítekinni sólarhringsupprifun ásamt spurningum um lífshætti og lýðfélagslega þætti. Reiknað var líkindahlutfall (OR) þess að vera með BMI≥25 út frá búsetu með lógistískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður:BMI kvenna 46 til 80 ára var marktækt lægra innan höfuðborgarsvæðis en utan (25,7 vs 28,4, p=0,007). OR fyrir BMI ≥25 var 0,66 (95% öryggisbil 0,47 til 0,92) meðal kvenna ≥ 46 ára innan höfuðborgarsvæðis miðað við utan, eftir að leiðrétt hafi verið fyrir aldri reykingum, alkóhólneyslu, menntun og hreyfingu. Enginn munur sást í yngri hópi kvenna (18-45 ára), né meðal karla. Karlar utan höfuðborgarsvæðis borðuðu marktækt meira af nýmjólk, kjöti, smjöri, kartöflum, kexi og kökum, en minna af grænmeti og jurtaolíum en karlar á höfuðborgarsvæði. Minni munur var á fæði kvenna eftir búsetu. Hlutfall mettaðra og trans-ómettaðra fitusýra var hærra og hlutfall trefjaefna minna utan höfuðborgarsvæðis en innan. Enginn munur var á sykurneyslu eftir búsetu. Líkindahlutfall fyrir LÞS≥25 tengdist ekki menntun, hvorki meðal kvenna né karla.

Ályktanir: Búseta virðist ekki mikilvægur þáttur fyrir líkum á ofþyngd á Íslandi, nema þá helst í hópi eldri kvenna. Fæði fólks á höfuðborgarsvæði er í betra samræmi við ráðleggingar um mataræði en fæði fólks á landsbyggð. Ástæða er til að kanna hugsanleg tengsl mataræðis við lýðheilsu eftir búsetu.

 

V 28      Tengsl athafna og þátttöku við kyn, aldur og búsetu. Lýðgrunduð rannsókn á eldra fólki sem býr heima

Sólveig Ása Árnadóttir1, 2, Erica do Carmo Ólason2, Harpa Björgvinsdóttir2, Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir2

1Háskóla Íslands, 2Háskólanum á Akureyri

saa@hi.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka hvernig eldri borgarar, búsettir í heimahúsum, meta getu sína til athafna og þátttöku. Slíkum upplýsingum er ábótavant hér á landi en að sama skapi eru þær nauðsynlegar ef mæta á þörfum þeirra sem eldri eru og gera þeim kleift að búa heima.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á áður óbirtum gögnum úr lýðgrundaðri þversniðsrannsókn á högum aldraðra frá árinu 2004. Þátttakendur (N=186) voru 65 til 88 ára (meðalaldur=74 ár), 70 (37,6%) höfðu náð 75 ára aldri, 89 (47,8%) voru konur og 68 (36,6%) bjuggu í dreifbýli. Staðlaða matstækið Efri árin: Mat á færni og fötlun var notað sem sjálfsmat á: (a) almennar athafnir sem reyna á efri eða neðri útlimi og erfiðar athafnir fyrir neðri útlimi, (b) tíðni þátttöku í félagslegum og persónulegum hlutverkum og (c) takmarkanir á þátttöku í virkni- og stjórnunarhlutverkum.

Niðurstöður: Þeir sem voru á aldrinum 65 til 74 ára komu marktækt betur út á öllum víddum athafna og þátttöku en þeir sem höfðu náð 75 ára aldri. Karlar mátu getu sína, á öllum sviðum athafna, betur en konur. Þeir lýstu síður takmörkunum í virknihlutverkum en konur, en konur lýstu meir þátttöku í persónulegum hlutverkum en karlar. Þeir einstaklingar sem bjuggu í þéttbýli mátu getu sína í athöfnum sem reyna á efri útlimi betur, og komu betur út á báðum þátttökuvíddunum, en þeir sem bjuggu í dreifbýli.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar varpa nýju ljósi á athafnir og þátttöku eldri borgara sem búa heima. Þær gefa jafnframt vísbendingu um hvernig meta má færni þeirra sem eldri eru og geta því nýst sem grunnur fyrir stefnumótun og skipulag öldrunarþjónustu í þéttbýli og dreifbýli.

 

V 29      Samanburður á hreyfingu eldra fólks í Reykjavík og nágrenni um sumar og vetur

Nína Dóra Óskarsdóttir1,2, Nanna Ýr Arnardóttir1,2, Annemarie Koster4,6, Dane R. Van Domelen4, Robert J. Brychta3, Paolo Caserotti4,8, Guðný Eiríksdóttir2, Jóhanna Eyrún Sverrisdóttir2, Lenore J. Launer4, Vilmundur Guðnason2,7, Erlingur Jóhannsson5, Tamara B. Harris4, Kong Y. Chen3, Þórarinn Sveinsson1

1Rannsóknastofa í íþrótta- og heilsufræðum HÍ, 2Hjartavernd, 3National Institute of Diabetes and Digestive, et al, Bethesda, 4National Institute on Aging, Lab of Epidemiol, et al, Bethesda, 5Íþróttafræðasetur HÍ á Laugarvatni, 6Maastricht University, Dpt Social Medicine, 7Háskóla Íslands, 8Institut for Idræt og Biomekanik, Óðinsvéum

ndo2@hi.is

Inngangur: Regluleg hreyfing hefur margs konar heilsufarslegan ávinning í för með sér fyrir eldra fólk, bæði líkamlegan og andlegan. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hreyfingu af mismunandi ákefð með notkun hreyfimæla hjá eldri einstaklingum í Reykjavík og nágrenni að sumri og vetri til.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var unnin í samvinnu við Hjartavernd. Alls var 219 einstaklingum boðin þátttaka í þessari rannsókn og fengu þeir hreyfimæla til þess að vera með á hægri mjöðm sumar og vetur í sjö daga samfleytt. Alls 142 þátttakendur (87 konur og 55 karlar) voru með fjórar eða fleiri gildar hreyfimælingar bæði sumar og vetur.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru að marktækur munur var á milli sumars og vetrar á hreyfingu þátttakenda af lítilli ákefð (100-759 slög/mín p<0,001), léttri ákefð (760-2019 slög/mín, p<0,001) og lítilli og léttri ákefð (100-2019 slög/mín, p<0,001). Þátttakendur hreyfðu sig meira um sumarið en veturinn. Það var marktækur munur á kyrrsetu þátttakenda (p=0,02) en ekki marktækur munur á hreyfingu af miðlungs og mikilli ákefð (≥2020 slög/mín, p=0,19). Munur á hreyfingu um sumar og vetur var sú sama hjá konum og körlum í öllum hreyfimælingum nema á hreyfingu af lítilli ákefð (100-759 slög/mín, p=0,01), lítilli og léttri ákefð (100-2019 slög/mín, p=0,02) og þegar hreyfislögin voru 100 eða fleiri á mínútu (p=0,03) en þá var munurinn á hreyfingunni meiri hjá körlunum. Konurnar hreyfðu sig meira af lítilli og léttri ákefð en karlarnir bæði um sumarið og veturinn. Sambærilegur munur var á hreyfingu sumar og vetur hjá öllum aldurshópum og þyngdarflokkum.

Ályktanir: Þátttakendur náðu ekki alþjóðlegum ráðlögðum viðmiðum um hreyfingu fyrir þennan aldurshóp. Munur á hreyfingu eldra fólks um sumar og vetur er minni en búist var við fyrir fram.  

 

V 30      Brottnám legs á Íslandi árin 2001-2010. Algengi, ástæður og aðferðir

Kristín Hansdóttir1, Jens A. Guðmundsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2kvenna- og barnasvið Landspítala

krh23@hi.is

Inngangur: Brottnám legs er algengasta skurðaðgerð, fyrir utan keisaraskurð, sem konur gangast undir. Legnámsaðgerðum hefur fækkað í nágrannalöndunum undanfarin ár. Breytingar hafa orðið á skurðtækni við legnámsaðgerðir og meira er gert af aðgerðum með lágmarks inngripi, það er að segja með kviðsjá eða um leggöng, í stað opins kviðskurðar. Markmið þessarar rannsóknar var að fá vitneskju um þróun og breytingar á legnámsaðgerðum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannóknin var afturskyggn og náði til allra kvenna sem gengust undir legnám á Íslandi á tímabilinu 2001-2010. Leitað var eftir aðgerðarnúmerum fyrir allar gerðir legnáms og skráð atriði um aldur, ástæður og tegund aðgerðar, aukaaðgerðir, legutíma eftir aðgerð, fylgikvilla og endurinnlagnir og gerður samanburður á tveimur fimm ára tímabilum.

Niðurstöður:Framkvæmdar voru 5.288 legnámsaðgerðir, sem fækkaði á tímabilinu úr 389 aðgerðum fyrir hverjar 100.000 konur árið 2001 í 266 árið 2010. Aðgerðum með kviðsjá og um leggöng fjölgaði úr 30% árið 2001 í 50% árið 2010 á öllu landinu. Á Landspítalanum fjölgaði þeim úr 25% í 67%, aðallega vegna aukningar kviðsjáraðgerða (p<0,0001). Legudögum fækkaði fyrir allar tegundir aðgerða bæði innan Landspítala og utan. Meðalaldur kvenna var um 50 ár á tímabilinu. Færri eggjastokkabrottnám voru framkvæmd samhliða legnámi á seinna tímabilinu en því fyrra. Alengustu sjúkdómsgreiningarnar voru sléttvöðvaæxli og blæðingaróregla. Tíðni skráðra fylgikvilla var lág (3,8%) og endurinnlagnir fáar (1,9%).

Ályktanir: Á Íslandi hafa verið gerðar hlutfallslega fleiri legnámsaðgerðir en í nágrannalöndum en þeim fer fækkandi. Breyting á aðgerðatækni hefur verið sambærileg en hlutfall aðgerða með lágmarks inngripi er þó hærra á Landspítala en á flestum háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndunum.

 

V 31      Leit að áhrifastökkbreytingum í genum á völdum svæðum á litningum 2p, 6q og 14q í fjölskyldu með háa tíðni brjóstakrabbameins

Óskar Örn Hálfdánarson1, Aðalgeir Arason1,2, Guðrún Jóhannesdóttir1, Ólafur Friðjónsson3, Elísabet Guðmundsdóttir4, Bjarni A. Agnarsson5, Óskar Þór Jóhannsson6, Inga Reynisdóttir1, Rósa B. Barkardóttir1,2

1Sameindameinafræði- og frumulíffræðieining, rannsóknastofu í meinafræði Landspítala, 2BMC heilbrigðisvísindasviði HÍ, 3Matís ohf., 4Roche NimbleGen, 5rannsóknastofu í meinafræði og 6krabbameinslækningadeild Landspítala

oskaroh@landspitali.is

Inngangur: Með tilliti til fjölskyldusögu koma 5-10% greindra einstaklinga með brjóstakrabbamein úr fjölskyldum með háa tíðni meinsins. Um helmingur fjölskyldnanna hafa ekki tengsl við stökkbreytingar í þekktum krabbameinsgenum á borð við BRCA1 og BRCA2. Slíkar fjölskyldur kallast BRCAx-fjölskyldur. Í undanfara þessarar rannsóknar var sýnt fram á tengsl svæða á litningum 2p, 6q og 14q við brjóstakrabbamein í einni íslenskri BRCAx-fjölskyldu (70234). Í heildina eru 554 gen innan svæðanna en í fyrsta hluta rannsóknarinnar var ákveðið að raðgreina 274 gen. Markmið rannsóknarinnar var að finna stökkbreytingar á litningasvæðum 2p, 6q og 14q í fjölskyldu 70234 sem eru líklegar til þess að valda aukinni hættu á myndun brjóstakrabbameins.

Efniviður og aðferðir: Raðgreind voru valin svæði á litningum 2p, 6q og 14q í fjórum sýnum úr fjölskyldu 70234 með 454-raðgreiningu. Lagt var mat á hvaða breytileikar væru líklegir til þess að hafa áhrif á virkni þeirra gena sem báru þá. SIFT og Polyphen2 (PP2) voru notuð til að leggja mat á mögulega skaðsemi basabreytileika á próteinkóðandi svæðum. Kandídatbreytingar voru skimaðar í völdum fjölskylduefnivið, óvöldum sjúklingahópi og viðmiðunarhópi. Kíkvaðratpróf var notað til að meta hvort marktækur munur væri á samsætutíðni milli hópa.

Niðurstöður:Heildarfjöldi kímlínu breytileika var 1.543. Þar af voru 148 breytileikar prótein kóðandi. Skimað var fyrir fjórum prótein kóðandi breytileikum og tveimur breytingum utan próteinkóðandi svæða, þar af einni splæsibreytingu. Ekki reyndist marktækur munur á samsætutíðni milli hópa.

Ályktanir: Engar stökkbreytingar fundust sem líklegar eru til þess að skýra aukna tilhneigingu til myndunar brjóstakrabbameins í ætt 70234. Næsta skref er að raðgreina þau 280 gen sem ekki voru raðgreind í fyrsta hluta rannsóknarinnar.

 

V 32      Áhrif kúrkúmíns á lyfjanæmi krabbameinsfrumna

Karen Eva Halldórsdóttir1, Finnbogi R. Þormóðsson2, Helgi Sigurðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2ValaMed ehf., 3Landspítala háskólasjúkrahúsi

keh3@hi.is

Inngangur: Kúrkúmín sem náttúruefni hefur ýmsa einstaka eiginleika sem nýst geta við meðferð ýmissa sjúkdóma, þar á meðal við krabbameini. Það hefur reynst auka frumudrepandi áhrif krabbameinslyfja og þá aðallega með því að framkalla sjálfstýrðan frumudauða í fjöllyfjaónæmum krabbameinsfrumum. Markmið tilraunar var að staðfesta áhrif kúrkúmíns til aukningar á lyfjanæmi valdra krabbameinsfrumulína í rækt, en auk þess prófa hvort þessi áhrif kúrkúmins ná til æxlisfrumna úr sjúklingum.

Efniviður og aðferðir: Notast var við tvær andrógen óháðar frumulínur úr blöðruhálskirtilsæxli, DU-145 og PC-3. Kúrkúmín var fengið frá Sigma og hefðbundin krabbameinslyf ásamt vökvasýni úr langt gengnu eggjastokkakrabbameini fengið frá Landspítala. Frumum var sáð í 96 holu ræktunarbakka með mismunandi styrkjum kúrkúmíns og krabbameinslyfja. Lífvænleiki frumna var ATP lúsiferín-lúsiferasa efnahvarfi.

Niðurstöður: Greinilegt er að krabbameinslyf með kúrkúmín dregur meira úr frumulifun heldur en krabbameinslyfin ein sér. Þetta sést bæði gagnvart frumulínunum og einnig gagnvart krabbameinsfrumum frá sjúklingi þar sem frumudráp gat meira en tvöfaldast fyrir áhrif kúrkúmins.

Ályktanir: Rannsóknin staðfestir niðurstöður fyrri rannsókna og sýna jafnframt fram á áhrif kúrkúmíns til aukningar lyfjanæmis eggjastokka krabbameinsfrumna sjúklings fyrir frumudeyðandi lyfjum. Engu náttúrulegu efni hefur verið lýst sem hefur áhrif á jafnmargar boðleiðir og kúrkúmín gerir. Fjöllyfjaónæmar krabbameinsfrumur eru vandamál í almennri lyfjameðferð og því eiginleikar kúrkúmíns til aukningar á lyfjanæmi krabbameinsfrumna í rækt áhugaverðir til frekari skoðunar. Það hamlar þó notkun þess að frásog kúrkúmins er lítið.

 

V 33      Áhrif resveratról á lyfjanæmi frumna úr illkynja stjarnfrumuæxlum

Sigurrós Jónsdóttir1, Finnbogi R. Þormóðsson2, Ingvar H. Ólafsson1,3, Helgi Sigurðsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2ValaMed ehf., 3Landspítala háskólasjúkrahúsi

sigurrosj@gmail.com

Inngangur:Aukinn áhugi er fyrir náttúruefnum til lækninga sem tengist meðal annars meðferðum við krabbameini. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á virkni resveratról varðandi efnaskipti og sjúkdóma. Resveratról dregur úr YKL-40 seytingu stjarnfrumuæxlis- (glioblastoma multiforme) frumna, en aukin tjáning þeirra á YKL-40 hefur verið tengd við þróun æxlis og verri horfur sjúklings. Við skoðuðum hlutverk resveratról við að auka lyfjanæmi illkynja stjarnfrumuæxlis frumna. Þá var einnig reynt að snúa áhrifunum af resveratról við, með YKL-40.

Efniviður og aðferðir: Frumur frá sjúklingum voru einangraðar úr GBM heilaæxli frá Landspítala og var þeim, ásamt U87 frumum (GBM frumulína), sáð í 96 holu ræktunarbakka. Frumurnar voru baðaðar í raðþynningum af resveratról, hefðbundnum krabbameinslyfjum og loks YKL-40. Eftir 24, 48 og 72 klst í rækt var frumulifun metin með ATP-Lúsiferasa, prestoBlue og Crystal violet prófum. YKL-40 tjáning var metin með ELISA aðferð.

Niðurstöður:Resveratról sýndi tíma- og styrkháð frumudráp hjá U87 og jók næmi frumulínunnar fyrir krabbameinslyfjunum Temozolomide og Cisplatin. Hjá GBM-frumum sjúklings sýndi resveratról styrkháð frumudráp en ekki tókst að sýna fram á aukið næmi fyrir Temozolomide og Cisplatin með marktækum hætti. Resveratról bældi YKL-40 tjáningu U87 en viðbætt YKL-40 sneri áhrifum resveratról ekki við.

Ályktanir: Resveratról er talið grípa inn í boðefnaferla frumna, draga úr krabbameinssvipgerð og auka lyfjanæmi GBM frumna. Í þessari rannsókn tókst að staðfesta tíma- og styrkháð frumudráp resveratról á U87 frumulínu og GBM frumur sjúklings. Resveratról bældi YKL-40 tjáningu U87, en YKL-40 breytti ekki áhrifum resveratról sem bendir til þess að áhrifum resveratról sé ekki miðlað í gegnum YKL-40.

 

V 34      Fléttuefnið úsnínsýra hefur áhrif á virkni hvatbera og lýsósóma í krabbameinsfrumum með flutningi prótóna yfir himnur

Margrét Bessadóttir1,2, Margrét Helga Ögmundsdóttir1, Már Egilsson1, Eydís Einarsdóttir2, Sesselja Ómarsdóttir2, Helga Margrét Ögmundsdóttir1

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, læknadeild HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ

mab24@hi.is

Inngangur:Mismunandi sýrustig innan frumu gegnir mikilvægu hlutverki í starfsemi frumulíffæra og hefur áhrif á dreifingu krabbameinslyfja. Fléttuefnið úsnínsýra (UA) hefur margskonar líffræðilega virkni. Sýnt hefur verið fram á að úsnínsýra minnkar myndun ATP í hvatberum lifrarfrumna og hefur vaxtarhemjandi áhrif á nokkrar gerðir krabbameinsfrumna. Úsnínsýra er prótónuskutla og markmið verkefnis var að kanna áhrif úsnínsýru á virkni tveggja pH næmra frumulíffæra, hvatbera og lýsósóma, í nokkrum gerðum krabbameinsfrumna og heilbrigðum bandvefsfrumum.

Efniviður og aðferðir: Breyting á himnuspennu hvatbera var metin með JC-1 litun og ATP gildi mæld með litrófssjá. Western blott var notað til að meta AMP kínasa fosfórun og niðurbrot á p62. Sjálfsát var metið með skoðun í rafeindasmásjá og mótefnalitun á LC3. Virkni lýsósóma var metin með lýsotracker litun og Lamp2 mótefnalitun. Samruni sjálfsátsbóla og lýsóma ásamt sýringu innan sjálfsátsbóla var metin með notkun samsetts mRFP-GFP-LC3 plasmíðs.

Niðurstöður: Minnkun á himnuspennu hvatbera, lækkun á ATP gildum og aukin fosfórun á AMP kínasa kom fram eftir meðhöndlun með úsnínsýru. Sýnt var fram á sjálfsát með rafeindasmásjárskoðun og aukningu á LC3 lituðum sjálfsátsbólum. Ekki varð niðurbrot á sjálfsátsflutnings próteini p62. Lýsotracker sýndi dreifða litun en mynstur Lamp2 mótefnalitunar gefur til kynna að lýsotracker liturinn leki úr lýsósómunum vegna skorts á sýringu. Notkun plasmíðs staðfesti að minnkun verður á sýringu í lýsómsómum eftir úsnínsýru-meðhöndlun.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að úsnínsýra trufli pH jafnvægi í frumunni og áhrifum á frumulíffæri sé miðlað í gegnum prótónuskutlu eiginleika hennar. Úsnínsýra ræsir sjálfsát en ekki verður niðurbrot á innihaldi og því ekki vörn gegn svelti. Úsnínsýra gæti verið heppilegur lyfjasproti samhliða með öðrum krabbameinslyfjum.

 

 

V 35      Tap á BRCA2 villigerðarsamsætu í BRCA2999del5 brjóstaæxlum

Sigríður Þ. Reynisdóttir, Ólafur A. Stefánsson, Margrét Aradóttir, Hörður Bjarnason, Hólmfríður Hilmarsdóttir, Sigríður K. Böðvarsdóttir, Jórunn Erla Eyfjörð

Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri læknadeildar HÍ

siggarey@hi.is

Inngangur: Arfgengar stökkbreytingar í æxlisbæligeninu BRCA2 valda aukinni áhættu á brjóstakrabbameini og öðrum krabbameinum. Tap á villigerðarsamsætu BRCA2 hefur verið talið nauðsynlegt fyrir krabbameinsmyndun. Hins vegar hefur verið sýnt fram á í músalíkani af arfgengu briskrabbameini að villigerðarsamsæta BRCA2 tapast ekki alltaf í æxlisfrumum. Hópurinn hefur greint frá því að villigerðarsamsæta tapast ekki í hluta af brjóstaæxlum sem bera arfgenga stökkbreytingu í BRCA2 (BRCA2999del5). Tap á villigerðarsamsætunni sýnir tengsl við æxli af Luminal-B svipgerð. Hér er tap á villigerðarsamsætu BRCA2 skoðað í stærri hóp af brjóstaæxlum úr BRCA2999del5 arfberum.

Efniviður og aðferðir: DNA úr 59 brjóstaæxlum úr BRCA2999del5 arfberum var skoðað með magngreinandi PCR. BRCA2-sérhæfður Taqman MGB-þreifari var notaður á móti BRCA2 sérhæfðum fram vísi og aftur vísum sérhæfðum fyrir villigerðarsamsætu annars vegar og BRCA2999del5 samsætu hins vegar (7500 Realtime PCR System; Applied Biosystems). BRCA2 prótínlitun var gerð á 24 BRCA2999del5 brjóstaæxlum (anti-BRCA2 rabbit pAb, Calbiochem).

Niðurstöður: Hlutfall villigerðarsamsætu í brjóstaæxlum úr BRCA2999del5 arfberum var 7-60%. Fimmtán af 24 (62,5%) brjósta-æxlum voru með BRCA2 prótíntjáningu, níu brjóstaæxli sýndu enga BRCA2 tjáningu. Marktæk fylgni er á milli BRCA2 prótínlitana og samsætugreiningar með magngreinandi rauntíma-PCR. Þessi gögn verða greind frekar með tilliti til klínískt mikilvægra þátta (svipgerð, lifun og meinvörp).

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að tap á BRCA2 villigerðarsamsætu er ekki alltaf nauðsynlegt fyrir krabbameinsmyndun í brjósti hjá BRCA2999del5 arfberum. BRCA2 samsætugreining í BRCA2999del5 brjóstaæxlum gæti bent á sjúklinga sem hagnast af meðferð með poly-ADP-ribose (PARP) hindrum.

 

V 36      BRCA2 stökkbreytt brjóstaæxli og brjóstafrumulínur með galla í telomere röðum á litningaendum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Margrét Steinarsdóttir2, Hörður Bjarnason1, Jórunn Erla Eyfjörð1

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri læknadeild HÍ, 2litningarannsóknadeild, erfða- og sameindalæknisfræði Landspítala

skb@hi.is

Inngangur:Gallar geta komið fram á telomerum á litningaendum ef þeim er ekki pakkað rétt eða ef DNA eftirmyndun er abótavant. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta mögulega galla á telomere röðum sem tengjast litningaóstöðugleika í BRCA2 stökkbreyttum brjósta-æxlum og arfblendnum brjóstafrumulínum.

Efniviður og aðferðir: Litningaheimtur úr BRCA2 stökkbreyttum brjósta-æxlum voru bornar saman við litningaheimtur úr stökum brjósta-æxlum og endatengingar á milli litninga metnar. Það sama var gert við BRCA2 arfblendnar brjóstafrumulínur. Auk þess voru línurnar meðhöndlaðar með stefnuháðu telomere FISH (CO-FISH) til að meta millivíxl á milli litninga. Til samanburðar voru ALT jákvæðar frumulínur sem nota telomere millivíxl til að viðhalda telomerum í stað telomerasa. Að lokum var samlitað með telomer FISH og gamma H2AX.

Niðurstöður: Endatenging litninga var marktækt tíðari í BRCA2 stökkbreyttum brjóstaæxlum en stökum. Einnig var marktæk aukning á endatengingum litninga í BRCA2 arfblendnum brjóstafrumulínum auk þess sem telomere raðir fundust á samrunafleti. Aðrir gallar voru áberandi, svo sem telomere brot. Millivíxl milli litninga voru álíka algeng í BRCA2 arfblendnum frumulínum og í ALT jákvæðum. Telomere innraðir inn á litningum voru mun algengari í BRCA2 arfblendnum frumulínum en í ALT jákvæðum og algengt að þessar raðir samlitist með gamma H2AX. Telomere brot voru áberandi í BRCA2 arfblendnu línunum.

Ályktanir: Tíðar endatengingar á milli litninga benda til þess að BRCA2 hafi hlutverki að gegna við pökkun litningaendanna. Mikil telomere brot og millivíxl benda til þess að eftirmyndun telomere raða sé ekki fullnægjandi í BRCA2 arfblendum frumum. Auk þess virðast telomere brot vera nýtt í ónákvæma viðgerð tvíþátta DNA brota í BRCA2 arfblendnum frumum.

 

V 37      Geislalitningar af völdum galla í BRCA tengdum ferlum í ættlægum og stökum brjóstaæxlum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Ólafur Andri Stefánsson1, Margrét Steinarsdóttir2, Jórunn Erla Eyfjörð1

1Rannsóknastofa í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri læknadeild HÍ, 2litningarannsóknadeild, erfða- og sameindalæknisfræði Landspítala

skb@hi.is

Inngangur:Ákveðið hlutfall brjóstakrabbameina eru með galla í BRCA1 eða BRCA2 tengdum ferlum. Einkum á þetta við um brjóstakrabbamein með ættlæga stökkbreytingu í öðru hvoru genanna en einnig stök brjósta-æxli sem hafa orðið fyrir óvirkjun, einkum vegna methýleringar er taps á genasvæði. Þessi brjóstakrabbamein verða gjarnan fyrir miklum litningaóstöðugleika vegna vandræða í DNA viðgerð.

Efniviður og aðferðir: Skoðaðar voru litningaheimtur fjölda brjóstaæxla og leitað eftir afbrigðilegum litningagöllum í átt við þrí- og fjórarma geislalitninga. Sömu æxli höfðu verið greind með tilliti til ættlægra BRCA1 eða BRCA2 stökkbreytinga ásamt því að mat hafði verið lagt á BRCA1 virkni. Einnig höfðu sömu æxli verið greind með aCGH.

Niðurstöður: Alls greindust fimm brjóstaæxli með geislalitninga. Þrjú þessara æxla reyndust bera ættlæga BRCA2 stökkbreytingu en þau reyndust þó af breytilegum undirflokkum krabbameins. Tvö æxli til viðbótar innihéldu geislalitninga og reyndust þau bæði vera með óvirkjun í BRCA1 og BRCA2 ferlum, ýmist með genatapi eða methyleringu á BRCA1. Hvorugt tjáðu BRCA1 prótín og bæði voru þríneikvæð. Eitt af BRCA2 stökkbreyttu æxlunum var einnig þríneikvætt með BRCA1 methýleringu. aCGH niðurstöður sýndu einkennandi mynstur fyrir BRCA lík brjóstaæxli.

Ályktanir: Ljóst er að BRCA lík æxlissvipgerð einkennist af miklum litningaóstöðugleika þar sem fram koma stór litningabrot þ.a. gert er við á mjög ófullnægjandi hátt sem getur valdið myndun geislalitninga. Þessi æxlissvipgerð finnst ekki eingöngu í ættlægum brjóstakrabbameinum heldur einnig í brjóstaæxlum með skerta BRCA tengda ferla.

  

V 38      Arfstök áhrif BRCA2 á telomer tengdan litningaóstöðugleika

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Margrét Aradóttir1, Sigríður Þ. Reynisdóttir1, Hólmfríður Hilmarsdóttir1, Jón G. Jónasson2, Jórunn Erla Eyfjörð1

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í meinafræði, Landspítala

skb@hi.is

Inngangur:Niðurstöður okkar á BRCA2 stökkbreyttum brjóstaæxlum og BRCA2 arfblendnum brjóstafrumulínum hafa sýnt að BRCA2 hefur mikilvægu hlutverki að gegna við verndun og stöðugleika telomere raða á litningaendum. Margt bendir til þess að þarna séu BRCA2 arfstök áhrif að verki sem þýðir að ekki þurfi nauðsynlega að koma til tap á heilbrigðu samsætu BRCA2 gensins til að telomere tengdir gallar komi fram.

Efniviður og aðferðir: Um 250 brjóstaæxli með og án BRCA2 stökkbreytingar voru mótefnalituð fyrir BRCA2 prótíninu auk þess sem tap á heilbrigðu BRCA2 samsætunni var metið í stökkbreyttum æxlum með magnháðri PCR aðferð. Litningaheimtur frá sömu brjóstaæxlum voru metnar.

Niðurstöður:Algjört tap á BRCA2 próteintjáningu reyndist vera í innan við 40% tilfella af BRCA2 stökkbreyttu brjóstaæxlunum á meðan um fjórðungur stakra brjóstaæxla sýndu enga tjáningu. Brottfall á heilbrigðu BRCA2 samsætunni var í beinu samræmi við tap á BRCA2 litun, en hlutfall brottfalls reynist mjög breytilegt á meðal æxlanna. Um þrefalt fleiri BRCA2 brjóstaæxli eru ferlitna en stök brjóstaæxli. Ferlitnun er líkleg afleiðing óaðskilnaðar litninga í frumuskiptingu sem getur verið afleiðing galla í telomere röðum sem ýta undir millivíxl þeirra á milli.

Ályktanir: Margt bendir til þess að arfstök áhrif BRCA2 gæti í myndun BRCA2 tengdra brjóstaæxla þar sem algjört brottfall á heilbrigða eintaki BRCA2 virðist ekki vera forsenda æxlismyndunar. Litningatengdir gallar sem tengjast óstöðugleika á telomerum koma fram við arfblendið ástand. Margt bendir til þess að hluti stakra brjóstaæxla fari svipaða leið í æxlismyndun og BRCA2 stökkbreytt brjóstaæxli.

 

V 39      Könnun á reynslu hjúkrunarfræðinga og lækna af því að ræða um kynlíf og kynlífsheilbrigði við krabbameinssjúklinga

Þóra Þórsdóttir1, Sigríður Gunnarsdóttir1,2, Sóley S. Bender1,2, Nanna Friðriksdóttir1,2

1Landspítalanum, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

starengi106@gmail.com

Inngangur:Krabbamein og krabbameinsmeðferð veldur miklum breytingum á lífi og lífsgæðum einstaklinga. Eitt af því sem verður fyrir miklum áhrifum er kynlífsheilbrigði og kynlíf fólks. Um og yfir helmingur greindra krabbameinssjúklinga eiga við kynlífsvandamál að stríða og er það með algengustu langtímavandamálum þeirra. Sýnt hefur verið fram á að heilbrigðisstarfsfólk á oft erfitt með að ræða um kynlíf og kynlífsvandamál við sjúklinga. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna reynslu hjúkrunarfræðinga og lækna af því að ræða um kynlíf og kynlífsheilbrigði og hvaða þættir hindruðu slíkar samræður.

Efniviður og aðferðir: Gerð var rafræn þversniðskönnun meðal hjúkrunarfræðinga og lækna á Landspítalanum í janúar 2011. Notaður var spurningalisti sem hafði verið þýddur úr finnsku. Könnunin var send til 156 hjúkrunarfræðinga og 47 lækna sem störfuðu með krabbameinssjúklingum á lyflækninga-, skurðlækninga- og kvenlækningasviði.

Niðurstöður:Læknar spurðu og ræddu mun oftar við skjólstæðinga sína um kynlíf og kynlífsheilbrigði en hjúkrunarfræðingar. Það sem einkum hindraði hjúkrunarfræðinga að ræða við sjúklinga um kynlíf og kynlífsheilbrigði var skortur á þekkingu og þjálfun. Alls sögðust 50% hjúkrunarfræðinga og 27% lækna ekki hafa nægjanlega þekkingu og 79% hjúkrunarfræðinga og 42% læknar sögðu sig skorta þjálfun til að ræða slík mál.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar voru sambærilegar niðurstöðum erlenda rannsókna. Það eru frekar hjúkrunarfræðingar en læknar sem veigra sér við því að ræða um kynlíf og kynlífsheilbrigði. Þetta málefni er enn í dag erfitt í umræðu og er því þörf á frekari fræðslu og þjálfun á þessu sviði, einkum fyrir hjúkrunarfræðinga.

  

V 40      Nýtt TNM-stigunarkerfi fyrir lungnakrabbamein, niðurstöður úr íslensku þýði skurðsjúklinga

Húnbogi Þorsteinsson1, Ásgeir Alexandersson1, Helgi J. Ísaksson3, Hrönn Harðardóttir4, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknastofu í meinafræði, 4lungnadeild Landspítala

hunbogi1@gmail.com

Inngangur: Árið 2009 var gefið út nýtt og ítarlegra TNM-stigunarkerfi fyrir lungnakrabbamein önnur en smáfrumukrabbamein sem átti að spá betur um horfur sjúklinga en eldra stigunarkerfi frá 1997. Við bárum saman stigunarkerfin í vel skilgreindu þýði sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem gengust undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini á Íslandi 1994-2008 og var miðað við stigun eftir aðgerð (pTMN) og reiknaðar heildarlífshorfur með aðferð Kaplan-Meier.

Niðurstöður:Alls gengust 397 sjúklingar undir 404 aðgerðir, þar af voru 73% blaðnám, 15% lungna-brottnám og 12% fleyg-/geiraskurðir. Sjúklingum á stigi I fækkaði um 30 og sjúklingum á stigi II fjölgaði um 34 við endurstigun. Samtals fluttust 22 sjúklingar af stigi IB (T2N0) yfir á stig IIA (T2bN0) og 14 sjúklingar af stigi IB (T2N0) á stig IIB (T3N0). Innan stigs II færðust 42 af stigi IIB (T2N1) yfir á stig IIA (T2aN1). Þá færðust sjö sjúklingar af stigi IIIB (T4N0) á stig IIB (T3N0) og 23 færðust af stigi IIIB (T4N0-1) á stig IIIA. Þrír sjúklingar á stigi IIIB með hnúta í sama blaði færðust á stig IIB eða IIIA. Lítill munur var á lífshorfum nema fyrir stig IIIB (0 sbr. við 24%).

Ályktanir: Breyting á stigun var hlutfallslega mest á stigi IIIB sem lækkaði lifun á því stigi en hækkaði hana á stigi IIIA og samrýmist betur viðurkenndri lifun á stigi IIIA. Einnig færðust allmargir sjúklingar frá stigi I á stig II án þess að hafa mikil áhrif á lifun. Lifunartölur samkvæmt nýja stigunarkerfinu virðast gefa sannari mynd af sambandi milli stigunar og lifunar en í eldra stigunarkerfi.

 

 

V 41      Súrefnismettun í sjónhimnuæðum fyrir og eftir innsprautun bevacizumab við aldursbundinni hrörnun í augnbotnum

Sveinn Hákon Harðarson1,2, Ásbjörg Geirsdóttir1,2, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 1læknadeild HÍ

sveinnha@hi.is

Inngangur: Bevacizumab er mótefni gegn vaxtarþættinum VEGF (vascular endothelial growth factor). Það er gjarnan notað til að hemja nýæðamyndun og bjúg í einstaklingum vott form aldursbundinnar hrörnunar í augnbotnum (AMD). Fyrri rannsóknir hafa sýnt að bevacizumab getur hugsanlega dregið saman sjónhimnuæðar og minnkað blóðflæði. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif bevacizumab á súrefnismettun í sjónhimnuæðum.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismælirinn (Oxymap ehf.) tekur tvær myndir af augnbotni samtímis, eina með 570nm ljósi og aðra við 600nm. Súrefnismettun í sjónhimnuæðum er reiknuð út frá ljósgleypni við þessar tvær bylgjulengdir. Mælingar voru gerðar á 29 einstaklingum með vott form AMD. Mælt var fyrir fyrstu sprautu 0,05mL af bevacizumab í glerhlaup og einum mánuði eftir þriðju sprautu. Mælingar náðust af ómeðhöndlaða auganu í 10 einstaklingum.

Niðurstöður: Súrefnismettun í bláæðlingum sjónhimnu var 53,0±7,8% (meðaltal±staðalfrávik) fyrir fyrstu sprautu en 55,5±8,0% einum mánuði eftir þriðju sprautu (p=0,013). Samsvarandi tölur fyrir slagæðlinga voru 91,6±5,1% fyrir fyrstu sprautu og 92,3±5,1% eftir þriðju sprautu (p=0,12). Súrefnismettun hækkaði einnig í ómeðhöndlaða auganu (1,8 prósentustig í slagæðlingum, p=0,011; 3,1 prósentustig í bláæðlingum, p=0,05). Enginn marktækur munur var á vídd æðlinga fyrir og eftir sprautur (p≥0,08).

Ályktanir: Þessar fyrstu niðurstöður benda til þess að súrefnismettun í æðlingum sjónhimnu sé ekki minnkuð eftir innsprautanir bevacizumab. Ástæða lítils háttar aukningar á mettun í meðhöndluðu og ómeðhöndluðum augum er óljós. Frekari rannsókna er þörf á mögulegum skammtímaáhrifum lyfsins.

 

V 42      Súrefnismettun sjónhimnuæða við innöndun á hreinu súrefni

Ólöf Birna Ólafsdóttir1, Þórunn S. Elíasdóttir1,2, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir1,2, Sveinn Hákon Harðarson1,2, Einar Stefánsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2augndeild Landspítala

olofbirnaolafs@gmail.com

Inngangur: Í dýratilraunum hefur verið sýnt fram á að við innöndun á hreinu súrefni virðist æðahimnan sjá allri sjónhimnunni fyrir því súrefnis sem þörf er á í stað þess að sjónhimnuæðar sjái um innri hluta sjónhimnunnar. Erfiðara hefur verið að gera sambærilega vandaðar athuganir í mönnum þar sem tæknina til þess hefur vantað þar til nú. Markmið verkefnisins var að kanna áhrif innöndunar á 100% súrefnis á súrefnismettun sjónhimnuæða í heilbrigðum einstaklingum ásamt því að meta næmni sjónhimnusúrefnismælis.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismettun í sjónhimnuæðum var mæld í heilbrigðum einstaklingum (n=31) með súrefnismæli (Oxymap ehf.). Mælingar voru framkvæmdar fyrir innöndun á 100% súrefni (normoxía), strax eftir 10 mínútna innöndun á 100% súrefni (6L/mín, hyperoxía) og svo 10 mínútum eftir að innöndun á 100% súrefni var hætt. Framkvæmt var parað t-próf til að kanna tölfræðilega marktækni.

Niðurstöður: Súrefnismettun í slagæðum jókst við innöndun á 100% súrefni úr 92,1±3,7% (meðaltal±staðalfrávik) í normoxíu upp í 94,6±3,8% í hyperoxíu (p<0,0001). Í bláæðum var súrefnismettun einnig hærri eftir innöndun á 100% súrefni þar sem mettunin fór úr 51,6±5,7% í normoxíu í 76,8±8,6% í hyperoxíu (p<0,0001). Hvað varðar æðavídd þá þrengdust slagæðar úr 10,3±1,3 pixlum í normoxíu niður í 9,7±1,4 pixla í hyperoxíu (p<0,0001). Sömuleiðis þrengdust bláæðar við hyperoxíu þar sem þeir mældust 13,2±1,5 pixlar í normoxíu en 11,4±1,2 í hyperoxíu (p<0,0001).

Ályktanir: Innöndun á hreinu súrefni eykur súrefnismettun í slagæðum og bláæðum sjónhimnunnar ásamt því að minnka æðavídd þeirra samanborið við mælingar við eðlilegar súrefnisaðstæður (normoxía). Súrefnismælirinn er bæði áreiðanlegur og næmur á breytingar í súrefnismettun sjónhimnuæða.


V 43      Súrefnismælingar í sjónhimnuæðum með laser skanna augnbotnamyndavél

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir1,2, Sveinn Hákon Harðarson1,2, Gísli H. Halldórsson3, Róbert A. Karlsson3, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Oxymap ehf.

jvk4@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að þróa aðferð til þess að mæla súrefnismettun í æðum sjónhimnunnar með laser skanna augnbotnamyndavél (scanning laser ophthalmoscope, SLO).

Efniviður og aðferðir: Augnbotnamyndir voru teknar með SLO augnbotnamyndavél (Optos Ltd, UK) af 11 heilbrigðum sjálfboðaliðum (34±9 ára, meðaltal±staðalfrávik). Tvær myndir voru teknar af hægra auga allra sjálfboðaliða svo hægt væri að meta endurtekningarhæfni tækisins. Myndirnar eru teknar með tveimur bylgjulengdum, 633nm og 532nm, sú fyrri er næm fyrir breytingum á súrefnismettun en hin ónæm. Myndirnar voru unnar með hugbúnaði (Oxymap Analyzer) sem greinir æðarnar í augnbotninum, velur mælipunkta og reiknar út ljósþéttnihlutfall (ODR) milli bylgjulengdanna. ODR er í öfugu hlutfalli við súrefnismettun.

Niðurstöður: Meðaltals súrefnismettun í slagæðlingum var 92,6%±11,8% (meðaltal±staðalfrávik) og 58,0%±11,5% fyrir bláæðlinga. Staðalfrávik fyrir endurteknar mælingar var 5,1% fyrir slagæðlinga og 6,0% fyrir bláæðlinga.

Ályktanir: Greinilegur munur er á súrefnismettun milli slag- og bláæðlinga sjónhimnunnar. Staðalfrávik milli endurtekinna mælinga er tiltölulega lágt að teknu tilliti til þess að hér er um alveg nýja tækni að ræða og tækið ekki hannað með tilliti til súrefnismælinga. Það er þó talsverður breytileiki milli einstaklinga samanber hátt staðalfrávik meðaltalanna. Þessar fyrstu niðurstöður sýna að SLO augnbotnamyndavél (scanning laser ophthalmoscope) gæti nýst sem súrefnismettunarmælir fyrir æðar sjónhimnunnar.

 

V 44      Lífefnafræðilegar rannsóknir á virkni Rad26 í umritunarháðri skerðibútaviðgerð

Antón Ameneiro-Álvarez, Stefán Þórarinn Sigurðsson

Lífvísindasetur HÍ

anton@hi.is

Inngangur: Ein tegund skerðibútaviðgerðar einkennist af hraðari DNA viðgerð í virkum genum heldur en óvirkum. Auk þess er hraðar gert við umritaða þáttinn heldur en þann sem ekki er umritaður og því hefur þetta ferli verið kallað umritunarháð DNA viðgerð. Ferlið er háð RNAPII ásamt nokkrum öðrum þáttum; Mfd í bakteríum og DNA háðum ATPösunum Rad26 í gersvepp og CSB í mönnum. Mfd próteinið í bakteríum getur ferðast eftir DNA sameindinni og ýtt RNAP sem hefur stöðvast á skemmd áfram á sameindinni eða af henni. Bæði Rad26 og CSB eru ATPasar sem tengjast RNAPII sem vekur upp þær spurningar hvort próteinin virki á svipaðan hátt og Mfd. 

Efniviður og aðferðir: Rad26 próteinið var yfirtjáð og einangrað frá skordýrafrumum. ATPasa greiningar voru notaðar til að rannsaka hæfileika Rad26 að geta ferðast eftir DNA sameindinni og til að skoða sértækni Rad26 hvað DNA myndbyggingu varðar. Einnig erum við að framkvæma tilraunir sem ætlaðar eru að skýra mismunandi virkni Rad26 í samhengi við Swi/Snf2 próteinfjölskylduna með erfðabreytingum á lykil bindisetum í Rad26

Niðurstöður:Frumniðurstöður okkar sýna að Rad26 er ATPasi sem notar orku frá ATP vatnsrofi til að færast til á DNA sameindinni. DNA með opna kvíslmyndun svipaða og sést við umritun virðist vera besta hvarfefnið fyrir Rad26.

Ályktanir: Líkt og Mfd próteinið í bakteríum getur Rad26 ferðast eftir DNA og virðist vera sértækt fyrir DNA hvarfefnum sem finnast þar sem umritun á sér stað. Þetta ásamt þeirri staðreynd að Rad26 tengist RNAPII gefur okkur vísbendingar um að próteinið geti ýtt á RNAPII flókann þar sem hann hefur stöðvast á DNA skemmd. Hugsanlega stuðlar Rad26 að því að gert sé við skemmdina með því að ýta RNAPII yfir skemmdina eða af DNA sameindinni.

  

V 45      Flutningur jóna um litþekju í augum músa

Sunna Björg Skarphéðinsdóttir, Þór Eysteinsson, Sighvatur Sævar Árnason

Lífeðlisfræðistofnun HÍ

sbs24@hi.is

Inngangur: Litþekja liggur milli ljósnemalags og æðu í auganu. Hún er mikilvæg fyrir eðlilega starfsemi sjónhimnunnar, meðal annars fyrir vökvaflutning frá sjónhimnu yfir í æðu, sem byggist á jónaflutningi yfir þekjuna. Í sumum hrörnunarsjúkdómum er óeðlilegur flutningur jóna um litþekju mikilvægur þáttur. Flutningur jóna um litþekju músa hefur lítið verið rannsakaður vegna smæðar augnanna.

Efniviður og aðferðir: Eðlilegar mýs (C57Bl/6J) voru aflífaðar og fremri hluti augna fjarlægður. Litþekjan, ásamt hvítu, æðu og sjónhimnu, var sett í sérhönnuð Ussing þekjulíffæraböð með 0,031 cm2 flatarmál á opi, með venjulegan Krebs á blóðhlið og sjónuhlið þekjunnar. Spennuþvingunartæki voru notuð til mælinga á nettó jónastraumi yfir litþekjuna (short-circuit current, Isc).

Niðurstöður: Litþekja músa reyndist lífvænleg við þessar aðstæður í þrjár stundir. Upphafsgildi ISC var -17,6 ±4,5 µA/cm2 (n=7), sem lækkaði hægt með tímanum. ATP (100 µM) hafði ekki áhrif, en noradrenalín (100 µM) jók Isc um 7% úr -15,9 ± 4,9 í -17,0 ± 4,2 µA/cm2. Bumetanide hamlaði strauminn um 19% úr -16,0 ± 5,1 í -12,9 ± 6,4 µA/cm2. Ouabain (1 mM) vakti tvífasa svörun, fyrst jókst ISC hratt um 63% eftir 6 mín., en síðan minnkaði hann niður í 39% af fyrirgildi eftir 30 mín. Í öðrum tilraunum var skipt úr venjulegum Krebs fyrir Cl--frían Krebs og minnkaði Isc mikið við það. Lækkun á K+-styrk á sjónuhlið litþekjunnar hafði marktæk áhrif á Isc, sem var hindrað með 1 mM BaCl2.

Ályktanir: Smáar litþekjur músa haldast lifandi í þekjulíffæraböðum í að minnsta kosti 3 klst. Jónastraumurinn grundvallast á starfsemi NaK-ATPasans og er að töluverðu leyti klórjónaflutningur sem að hluta til er borinn af NaK2Cl samferjum. Púrínergir viðtakar hafa ekki áhrif á jónaflutninginn en hins vegar gera adrenergir viðtakar það.

  

V 46      Líkan af flæði og sveimi súrefnis í augnbotnum

Davíð Þór Bragason1, Einar Stefánsson1,2

1Augndeild Landspítala, 2Háskóla Íslands

dbragason@gmail.com

Inngangur: Hannað var reiknilíkan af flæði og sveimi (diffusion) súrefnis í blóðrás sjónhimnunnar, sér í lagi af sveimi súrefnis á milli tveggja nálægra æða (countercurrent exchange). Spá líkansins var borin saman við niðurstöður súrefnismælinga í augnbotnum.

Efniviður og aðferðir: Samliggjandi slag- og bláæðlingum er lýst í reiknilíkani, lögmáli Ficks um sveim súrefnis beitt og jafna Poissons leidd út. Jafna sú er leyst og þéttleiki súrefnissveims á milli æða fundinn sem fall af súrefnismettun. Kerfi af ólínulegum afleiðujöfnum er leitt út, og töluleg lausn sem lýsir breytileika súrefnismettunar í æðum fundin með aðstoð tölvu. Líkanið er prófað með niðurstöðum súrefnismælinga á heilbrigðum sjálfboðaliðum með súrefnismæli (retinal oximeter) frá Oxymap ehf. og er einnig beitt á niðurstöður mælinga sem áður hafa verið gerðar á mönnum og dýrum með raflífeðlisfræðilegum aðferðum.

Niðurstöður: Spár um stigul (gradient) súrefnismettunar í æðum sjónhimnu var í samræmi við mælingar, en samkvæmt þeim er víxlverkun á milli slag- og bláæðlinga lítil í sjónhimnu, en marktæk í sjóntaug, eða af stærðargráðunni 1% breyting í súrefnismettun. Líkanið útskýrir breytileika súrefnismettunar í ljósi og myrkri, sem orsakast af breytingum á blóðflæði. Spá líkansins um flæði (flux) súrefnis í glerhlaupi við meðalstórar æðar var einnig í samræmi við mælingar, eða á stærðargráðunni 106 ml O2/cm2/sek. fyrir slagæðlinga.

Ályktanir: Hannað var reiknilíkan af sveimi súrefnis á milli æða í sjónhimnu og sjóntaug og er spá þess í samræmi við mælingar. Líkanið útskýrir víxlverkun súrefnis á milli æða í sjóntaug, og breytileika í súrefnismettun í ljósi og myrkri.

 

V 47      Afstaða og reynsla hjúkrunarfræðinga og lækna á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum Landspítala til viðveru aðstandenda við endurlífgun

Þorsteinn Jónsson1,2, Guðbjörg Pálsdóttir2, Agnes Svansdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítali

thorsj@hi.is

Inngangur: Viðvera aðstandenda við endurlífgun ástvinahefur lengi verið umdeild meðal heilbrigðisstarfsfólks um allan heim. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna afstöðu og reynslu hjúkrunarfræðinga og lækna á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum Landspítala til viðveru aðstandenda við endurlífgun.

Efniviður og aðferðir: Stuðst var við lýsandi aðferðafræði og notast við rafrænan spurningalista. Rannsóknarspurningar voru: Hver er afstaða hjúkrunarfræðinga og lækna á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum Landspítala háskólasjúkrahúss til viðveru aðstandenda við endurlífgun ástvina? Og: Hver er reynsla hjúkrunarfræðinga og lækna á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum Landspítala háskólasjúkrahúss af viðveru aðstandenda við endurlífgun ástvina? Úrtakið samanstóð af öllum starfandi hjúkrunarfræðingum, hjúkrunarfræðinemum, lækn-um og læknanemum með virkt netfang á bráðdeild G2, hjartagátt 10D, gjör-gæslu-deild 12B og gjörgæsludeild E6 á Landspítala, alls 314 þátttakendum. Svarshlutfall var tæplega 53% (n=166).

Niðurstöður: Helstu niðurstöður sýna að tæplega 44% þátttakenda (n=72) eru fylgjandi viðveru aðstandenda, tæplega 34% (n=56) eru óvissum afstöðu sína og rúmlega 22% (n=37) eru ekki fylgjandi viðveru aðstandenda við endurlífgun. Rúmlega 56% þátttakenda(n=93) hafa verið í aðstæðum þarsem aðstandendur voru viðstaddir endurlífgun. Þá greina tæplega 33% (n=53) frá jákvæðri reynslu af viðveru aðstand-enda við endurlífgun og tæplega 12% (n=19) greina frá neikvæðri reynslu.

Ályktanir: Afstaða gagnvart viðveru aðstandenda er misjöfn, þá eru margir óvissirgagnvart afstöðu sinni sem styður mikilvægi gagnrýn-innar umræðu um viðfangsefnið. Margir hafa upplifað viðveru aðstand-enda við endurlífgun en almennt er ekki verið að bjóða aðstandendum upp á að vera viðstaddir endurlífgun. Álykta út frá niðurstöðum rannsóknarinnar að viðvera aðstandenda eigi ekki alltaf við og meta þurfi hvert tilfelli fyrir sig.

  

V 48      Áhrif ofbeldis í nánum samböndum á heilsutengd lífsgæði kvenna sem leita til slysa- og bráðadeildar Landspítala og á lífsgæði kvenna sem eru háskólastúdentar

Erla Kolbrún Svavarsdóttir1,2, Brynja Örlygsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala

eks@hi.is

Inngangur: Hjúkrunarfræðingar, sem vinna á slysa- og bráðadeildum Landspítala og á heilsugæslustöðvum, hafa í auknum mæli fundið fyrir mikilvægi þess að vera vel upplýstir um vísindalega þekkingu varðandi afleiðingar ofbeldis í nánum samböndum á heilsu- og heilsutengd lífsgæði kvenna. Hjúkrunarfræðingar þurfa að geta boðið upp á bestu, fyrstu viðbrögð þegar kona tjáir þeim að hún sé þolandi ofbeldis. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrifin að ofbeldi á: A. Heilsutengd lífsgæði kvenna. B. Meta árangur af þremur mismunandi kembileitaraðferðum til að auðkenna ofbeldi gegn konum sem leita til slysa- og bráðadeildar Landspítala (SB=156) og til að auðkenna ofbeldi meðal háskólakvenstúdenta í samfélaginu (HS=168).

Efniviður og aðferðir: Þverskurðarrannsóknarsnið var notað í rannsókninni. Gögnum var safnað á einum tíma yfir níu mánaða tímabil á árinu 2009, frá 324 konum á aldrinum 18-67 ára.

Niðurstöður: Konur, sem voru þolendur ofbeldis í nánu sambandi (n=55), voru með marktækt verri líkamlega og andlega heilsu samanborið við þær konur (n=251), sem ekki voru þolendur ofbeldis í náinni sambúð. Auk þess spáðu almenn andleg heilsa kvennanna, reynsla af ofbeldi í núverandi sambandi og reynsla af áfallastreitu, fyrir um 54% af breytileikanum á andlegri heilsu kvennanna. Af þeim 306 konum sem tóku þátt í rannsókninni hafði 21 (6,9%) upplifað að vera beitt líkamlegu ofbeldi í núverandi sambandi, 45 konur (14,8%) voru þolendur andlegs ofbeldis og átta konur (2,6%) voru þolendur kynferðislegs ofbeldis í núverandi sambúð. Niðurstöður varðandi lífsgæði kvennanna og árangur af mismunandi aðferðum við að ná til kvenna sem eru þolendur ofbeldis, verður að auki gerð frekari skil.

Ályktanir: Hagnýting rannsóknarniðurstaðna á klínískum vettvangi verða kynntar og framtíðarrannsóknir ræddar.

 

V 49      Sérþekking hjúkrunarfræðinga skiptir máli. Árangur af meðferðarsamtali hjúkrunarfræðinga við fjölskyldur langveikra barna

Auður Ragnarsdóttir1,2, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1,2

1Kvenna- og barnasvið Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

audurr@landspitali.is

Inngangur: Langvinnir sjúkdómar barna og unglinga eins og flogaveiki, gigt og meðfæddur ónæmisgalli kalla á margþætta fjölskylduhjúkrunarmeðferð en fáar rannsóknir eru til um árangur af slíkum meðferðarrannsóknum. Tilgangur meðferðarrannsóknar var að meta árangur af fjölskylduhjúkrunarmeðferð, það er af einu fjölskyldumeðferðarsamtali sem hjúkrunarfræðingur veitti á upplifaðan stuðning foreldra langveikra barna. Hugmyndafræðilegur grunnur rannsóknarinnar var byggður á Calgary-fjölskyldumats- og meðferðarlíkaninu.

Efniviður og aðferðir: Stuðst var við aðlagað tilraunasnið í rannsókninni til að meta áhrifin af upplifuðum stuðningi. Þátttakendur voru alls 30, 15 foreldrar í tilraunahópi (n=15) og 15 foreldrar í samanburðarhópi (n=15). Foreldrarnir í báðum hópum svöruðu spurningalistum um veittan stuðning fyrir veitta meðferð og svo aftur þremur til fimm dögum seinna.

Niðurstöður: Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru að marktækur munur var á tilfinningalegum stuðningi og heildarstuðningi fjölskyldna barna með flogaveiki og meðfæddan ónæmisgalla sem fengu meðferðina og voru í tilraunarhópi miðað við samanburðarhóp sem fékk hefðbundna hjúkrunarþjónustu á Barnaspítala Hringsins. Einnig komu fram vísbendingar um að foreldrar barna með gigtarsjúkdóm þurfi meiri stuðning eða önnur úrræði.

Ályktanir: Rannsóknarniðurstöðurnar eru áhugaverðar fyrir hjúkrunarfræðinga sem búa yfir sérþekkingu á sviði hjúkrunar fjölskyldna sem eiga börn með gigt, flogaveiki og meðfædda ónæmisgalla og gefa skýra vísbendingu um mikilvægar áherslur sem þurfa að vera til staðar í starfi þeirra. Niðurstöðurnar renna einnig stoðum undir mikilvægi þess að foreldrum sé veitt markviss fræðsla og tilfinningalegur stuðningur til að efla og styðja þá dags daglega í umönnunarhlutverki sínu.

 

V 50      Hin þögla rödd. Fjölskylduhjúkrunarmeðferð fyrir feður barna- og unglinga með astma

María Guðnadóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir2

1Kvenna-og barnasviði Landspítala, 2fræðasviði fjölskylduhjúkrunar HÍ og Landspítala

mariagud@landspitali.is

Inngangur: Tilgangur þessarar meðferðarrannsóknar var að meta árangur af fjölskylduhjúkrunarmeðferð, þar sem tvö fjölskyldumeðferðarsamtöl voru veitt af hjúkrunarfræðingum, til að kanna upplifaðan stuðning mæðra og feðra langveikra barna með astma. Í þessari umfjöllun er eingöngu greint frá upplifun feðra.

Efniviður og aðferðir: Hugmyndafræði rannsóknarinnar var byggð á Calgary- fjölskyldumats- og meðferðarlíkaninu. Snið rannsóknarinnar var aðlagað tilraunasnið. Fjölskyldumeðlimir sem tóku þátt voru n=77 (31 móðir, 15 feður og 31 barn eða unglingur með astma). Af þeim 15 feðrum sem tóku þátt voru sex feður í meðferðarhópi og fimm feður í samanburðarhópi sem svöruðu spurningalistum um upplifaðan stuðning hjúkrunarfræðinga við fjölskylduna, virkni fjölskyldunnar og lífsgæði fjölskyldunnar fyrir og eftir tvennar meðferðarsamræður það er á tíma 1 og tíma 2.

Niðurstöður: Rannsóknarniðurstöður sýndu að marktækur munur kom fram, hvað varðar að feður barna með astma sem fengu meðferðarsamræður mátu lífsgæði og astmaeinkenni barnanna marktækt verri eftir meðferðarsamræður samanborið við fyrir meðferðina. Feður áttu erfiðara með að útskýra astmaeinkenni barnsins, ræða líðan þess við heilbrigðisstarfsfólk og spyrja um meðferð við astma hjá barninu. Einnig kom fram, þó ekki næði marktækni, að feður barna sem fengu meðferðarsamræður höfðu mun minni áhyggjur af astma barnsins, aukaverkunum og virkni astmalyfjanna eftir meðferðina, samanborið við feður á tíma 2 í samanburðarhópi.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að feður barna með astma hafi fengið nýja innsýn í sjúkdóm barnsins eftir meðferðarsamræður og skynjað betur áhrif sjúkdómsins á barnið og alvarleika astmaeinkennanna. Einnig er ályktað að meðferðarsamræður og fræðsla hafi minnkað áhyggjur feðra af meðferð barnsins, áhrif astmalyfja og aukaverkana.

 

V 51      Þróun og próffræðilegt mat á spurningalista sem mælir fjölskylduvirkni

Eydís K. Sveinbjarnardóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1, Birgir Hrafnkelsson2

1Hjúkrunarfræðideild og 2Raunvísindastofnun HÍ

eks3@hi.is

Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að þróa og próffræðilega meta spurningalista út frá kenningarfræðilegum grunni Calgary sem mælir fjölskylduvirkni þar sem fjölskylda er að fást við bráð- eða langvarandi veikindi. Sérstaða spurningalistans er að hann mælir tilfinningalega fjölskylduvirkni og er þróaður með úrtaki þar sem að allir svarendur hafa nýlega reynslu af veikindum náins aðstandenda.

Efniviður og aðferðir: Samtals svöruðu 557 aðstandendur sjúklinga spurningalista í þremur aðskildum rannsóknum. Spurningar voru þróaðar með viðurkenndum aðferðum. Leitandi og staðfestandi þáttagreining var framkvæmd ásamt réttmætis og áreiðanleikaprófum.

Niðurstöður: Upphaflegur fjölskylduvirknilisti voru 45 spurningar skipt upp í 10 mismunandi flokka út frá Calgary hugmyndafræði. Í kjölfar leitandi þáttagreiningar og tveggja staðfestandi þáttagreiningar varð endanlegur listi að 17 atriða spurningalista með fjórum þáttum sem útskýrðu yfir 60% af heildardreifingu þátta. Endanlegur fjölskylduvirknilisti (a = .922) mælir eftirfarandi þætti tilfinningalega tjáningu (a = .737), samvinnu og lausn vandamála (a = . 809), samskipti (a = .829) og hegðun (a = .813) þar sem fjölskyldumeðlimur er alvarlega veikur.

Ályktanir: Spurningalisti hefur verið notaður í fjölda íslenskra rannsókna á fræðasviði fjölskylduhjúkrunar undanfarin ár þar sem próffræðilegir eiginleikar hafa haldist.

  

V 52      Þróun og próffræðilegt mat á spurningalista sem mælir stuðning við fjölskyldur

Eydís K. Sveinbjarnardóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1, Birgir Hrafnkelsson2

1Hjúkrunarfræðideild og 2Raunvísindastofnun HÍ

eks3@hi.is

Inngangur: Í upphafi innleiðingar á Calgary fjölskylduhjúkrun á Landspítala voru ekki til réttmætir og áreiðanlegir spurningalistar til að mæla ávinning af stuðningi stuttra meðferðarsamræðna við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Tilgangur þessarar rannsóknar var að þróa spurningalista sem mælir stuðning við fjölskyldur út frá kenningarfræðilegum grunni Calgary fjölskylduhjúkrunar. Auk þess var tilgangurinn að próffræðilega meta spurningalista sem mælir stuðning við fjölskyldur sem eru að fást við bráð- eða langvarandi veikindi.

Efniviður og aðferðir: Samtals svöruðu 415 aðstandendur sjúklinga spurningalista í þremur aðskildum rannsóknum. Spurningar voru þróaðar með viðurkenndum aðferðum. Leitandi og staðfestandi þáttagreining var framkvæmd ásamt réttmætis og áreiðanleikaprófum.

Niðurstöður: Upphaflegur fjölskyldustuðningslisti innihélt 24 spurningar skipt upp í fjóra mismunandi flokka út frá Calgary hugmyndafræðinni. Í kjölfar leitandi þáttagreiningar og tveggja staðfestandi þáttagreiningar varð endanlegur listi að 14 atriða spurningalista með tveimur þáttum sem útskýrðu 68% af heildardreifingu þátta. Endanlegur spurningalisti (a=.961) mælir tvo stuðningsþætti við fjölskyldur, annar sem mælir stuðning af því að veita fræðslu og upplýsingar (a=.881) og hinn sem mælir tilfinningalegan stuðning (a=.952).

Ályktanir: Spurningalisti hefur verið notaður í fjölda íslenskra rannsókna þar sem komið hefur í ljós að spurningalistinn er næmur á að mæla marktækar breytingar í kjölfar stuttra fjölskyldusamræðna samkvæmt Calgary líkani.


V 53      Klínískar hjúkrunarleiðbeiningar um greiningu og meðferð svefntruflana hjá einstaklingum með Parkinsonssjúkdóm. Kerfisbundið fræðilegt yfirlit

Jónína H. Hafliðadóttir1, Helga Jónsdóttir2, Þóra Berglind Hafsteinsdóttir3

1Dag- og göngudeild taugalækningadeildar Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3Dpt of Rehabilitation Nursing Science and Sport, University Medical Center Utrecht

joninaha@landspitali.is

Inngangur: Næstum allir einstaklingar með Parkinsonssjúkdóm (PS) finna fyrir svefntruflunum. Önnur algeng vandamál sem tengjast svefn-truflunum eru óhófleg dagsyfja, erfiðleikar við að finna þægilegar svefnstöðu, næturþvaglát, truflun á draumsvefni, fótaóeirð og þunglyndi. Truflanir þessar geta valdið skertum heilsutengdum lífsgæðum og haft neikvæð áhrif á önnur einkenni sjúkdómsins. Í mörgum tilvikum gætu hjúkrunarfræðingar greint svefnvandamál og aðstoðað einstaklingana við að ráða við þau.

Efniviður og aðferðir: Kerfisbundið fræðilegt yfirlit. Leitað var rannsókna um svefntruflanir hjá einstaklingum með Parkinsonssjúkdóm og íhlutanir við þeim í gagnabönkunum PubMed, CINAHL og PsychINFO og Cochrane Library of Systematic Reviews sem birst höfðu á tímabilinu janúar 2004 til apríl 2011. Voru rannsóknargreinar valdar af tveimur rýnum með því að nota STROBE og CONSORT tékklistana.

Niðurstöður: Fjörutíu og þrjár fræðigreinar voru valdar í yfirlitið. Allar greinarnar, nema ein sem var lítil slembuð rannsókn á áhrifum íhlutana við svefntruflunum, voru samanburðarrannsóknir. Þrátt fyrir skekkjur vegna mismunandi rannsóknaraðferða er augljóst að mörg einkenni og umhverfisþættir eiga þátt í að trufla svefn einstaklinga með Parkinsonssjúkdóm. Versnandi sjúkdómur og þunglyndi höfðu mesta forspárgildið fyrir svefntruflanir. Skipuleg fræðsla sem felst í því að bæta/uppræta einkenni og utanaðkomandi þætti sem trufla svefn er hjálpleg. Í þeim tilgangi eru settar fram 33 hjúkrunaríhlutanir.

Ályktanir: Líklegt er að skipulagt mat, íhlutanir og fræðsla um svefntruflanir geti bætt lífsgæði einstaklinga með PS. Þörf er á að rannsaka áhrif þeirra 33ja íhlutana sem settar hafa verið fram.

 

V 54      Blóðsykurslækkun hjá nýburum. Algengi, áhættuþættir og blóðsykurseftirlit

Elín Ögmundsdóttir1,2, Þórður Þórkelsson2, Guðrún Kristjánsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2vökudeild Barnaspítali Hringsins

elinogm@landspitali.is

Inngangur: Eftirlit með blóðsykri er mikilvægt fyrst eftir fæðingu hjá ákveðnum hópum nýbura. Menn greinir á um skilgreiningu of lágs blóðsykurs hjá nýburum og hver gildi hans þurfi að vera til að tryggja eðlilega líkamsstarfsemi. Óvissa einkennir því ákvarðanatöku um eftirlit: hverja eigi að mæla og hvenær og við hvaða gildi blóðsykurs eigi að hefja íhlutun.
Markmið rannsóknarinnar var að greina algengi blóðsykurslækkunar hér á landi og bera saman við niðurstöður erlendra rannsókna og kanna hvernig staðið sé að eftirliti með blóðsykri nýbura.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi, afturskyggn og upplýsinga aflað úr sjúkraskrám. Almennar upplýsingar um börnin voru skráðar ásamt blóðsykursgildum og framkvæmd eftirlits með þeim. Úrtakið voru 955 af 3.468 nýburum fæddum á Landspítala árið 2010, sem gengist höfðu undir eftirlit með blóðsykri fyrstu þrjá sólarhringana eftir fæðingu. Meðgöngulengdin var frá 24 að 42 vikum og rúm 77% voru fullburða (>37 vikur). Meðalfæðingarþyngd var 3.273 g (530–5.280 g).

Niðurstöður: Algengi blóðsykurslækkunar (<2,2 mmól/L) reyndist vera 21,2% í heild en 19,1% meðal fullburða nýbura. Fyrsta mæling var gerð innan klukkustundar frá fæðingu hjá 60% nýbura. Blóðsykur var mældur einu sinni hjá 16,4% nýburanna, en miðgildið var fjórar mælingar fyrstu þrjá sólarhringana. Rúmlega 55% mældust með lægsta gildi innan tveggja klukkustunda frá fæðingu.

Ályktanir: Algengi blóðsykurslækkunar var hátt samanborið við erlendar rannsóknir. Samsetning úrtaks skýrir það að hluta, þar sem ekki var aðeins um heilbrigða fullburða nýbura að ræða. Eftirlit með blóðsykri reyndist ómarkvisst, stór hluti mælinga var innan klukkustundar frá fæðingu og því má ætla að erfitt hafi verið að greina á milli óeðlilegrar blóðsykurslækkunar og eðlilegrar aðlögunar nýbura.

 

V 55      Sárasogsmeðferð á Íslandi, notkun og árangur

Ingibjörg Guðmundsdóttir1, Tómas Guðbjartsson2

1Æðaskurðdeild Landspítala, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og læknadeild HÍ

ingibjgu@landspitali.is

Inngangur:Sárasogsmeðferð (negative pressure wound therapy, NPWT) er nýjung í sárameðferð þar sem undirþrýstingur er myndaður staðbundið í sárbeðnum með loftþéttum umbúðum og sogtæki. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ábendingar og árangur þessarar sárameðferðar hjá heilli þjóð, en slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga, bæði á sjúkrahúsum og utan, sem fengu sárasogsmeðferð á Íslandi frá janúar til desember 2008. Ábending, tímalengd og árangur meðferðar voru skráð úr sjúkraskrám. Einnig var metinn gróandi sára og þættir sem geta haft áhrif á gróanda, eins og sykursýki, reykingar og aldur.

Niðurstöður: Alls fengu 56 sjúklingar 65 sárasogsmeðferðir. Karlar voru 63% og meðalaldur 62 ár (bil 8-93 ár). Meðferð var veitt á sjúkrahúsi í 85% tilfella, oftast á æða- og brjóstholsskurðdeildum. Algengustu ábendingar fyrir meðferð voru sýking í sári (40%), örvun gróanda (42%) og viðhald opinna holrúma (19%). Flest sárin voru á neðri útlimum (26%) og brjóstkassa (25%). Sex sjúklingar létust vegna undirliggjandi sjúkdóma og voru þeir ekki teknir með við mat á gróanda sára. Af 59 meðferðum náðist fullur gróandi sára í 40 (68%) en ófullkominn gróandi í 19 (32%). Fylgikvillar tengdir meðferð voru skráðir í 19 (32%) tilfellum og voru verkir (12%) og húðvandamál (11%) algengust.

Ályktanir: Sárasogsmeðferð er töluvert notuð á Íslandi, sérstaklega við sýkt skurðsár og langvinn sár. Í tveimur þriðju tilfella náðist fullur gróandi sára sem telst góður árangur

 

V 56      Samlegðaráhrif Interleukin-2 og Transforming growth factor-b1 til sérhæfingar CD103+ T stýrifrumna

Brynja Gunnlaugsdóttir1,2, Sólrún Melkorka Maggadóttir1,2, Snæfríður Halldórsdóttir1,2, Inga Skaftadóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala

brynja@landspitali.is

Inngangur:Tjáning viðloðunarsameindarinnar integrin aE (CD103) eykur viðloðun frumna við þekjuvef. T-stýrifrumur (CD25hi FoxP3+) gegna lykilhlutverki við að halda niðri ónæmissvörunum sem beinast gegn eigin sameindum og hófstilla almenn ónæmisviðbrögð. Með því að stuðla að sérhæfingu T-stýrifrumna sem tjá CD103 er því mögulega unnt að auka viðloðun þessara frumna á bólgusvæðum. Markmið rannsóknarinnar var að skilgreina áhrif IL-2 og TGF-b1 á tjáningu CD103. Einnig að greina þær in vitro aðstæður sem hámarka samhliða tjáningu CD103 og sérhæfingu T-stýrfrumna.

Efniviður og aðferðir: Einkjarna frumur (CBMC) voru einangraðar úr naflastrengsblóði og örvaðar með mótefnum (anti-CD3±anti-CD28). Boðefnunum IL-2 og eða TGF-b1 var bætt út í valdar ræktir. Tjáning á CD4, CD8, CD25, CD103 og umritunarþættinum FoxP3 var metin með frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Niðurstöðurrannsóknarinnar sýna að boðefnin IL-2 og TGF-b1 þurfa bæði að vera til staðar til þess að tjáning CD103 aukist markvert. Boðefnin höfðu margföldunaráhrif á tjáningu CD103 meðal CD8+ T frumna en aðeins samlegðaráhrif á tjáningu CD4+ T frumna á CD103. Viðbótarörvun frumna um CD28 hafði hins vegar ekki áhrif á tjáninguna. Þegar tjáning CD103 var sérstaklega skoðuð meðal T-stýrifrumna kom í ljós að boðefnin IL-2 og TGF-b1 höfðu einnig samlegðaráhrif á tjáningu þessara frumna á CD103. Reyndist hlutfall CD8+ T-stýrifrumna sem varð CD103+ hærra en CD4+, eða 70 miðað við 20%.

Ályktanir: Niðurstöðurnar varpa nýju ljósi á stjórnunaráhrif TGF-b1 og IL-2 á tjáningu viðloðunarsameindarinnar CD103. Almennt er talið að TGF-b1 hafi bein áhrif á tjáningu CD103, en niðurstöður okkar benda til þess að IL-2 sé einnig nauðsynleg. Enn fremur skilgreina niðurstöðurnar þær aðstæður sem hámarka sérhæfingu CD103 jákvæðra CD25hi FoxP3+ T-stýrifrumna.

 

V 57      Rannsóknir á bráðasvari í þorski. Áhrif bráðaáreitis á vessa- og frumubundna ónæmisþætti og genatjáningu í nýra og milta

Bergljót Magnadóttir1, Sigríður S. Auðunsdóttir1, Berglind Gísladóttir2, Sigríður Guðmundsdóttir1, Zophonías O. Jónsson3, Birkir Þór Bragason1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Akershus universitetssykehus, Lørenskog Noregi, 3líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

bergmagn@hi.is

Inngangur: Sérvirkt (adaptive) ónæmissvar þorsks (Gadus morhua L.) er takmarkað og hann háður ósérvirkum (innate) vörnum gegn sýkingum. Bráðasvar er fyrsta viðbragð ónæmiskerfisins við áverka, sýkingu eða vefjabreytingu. Því geta fylgt breyting á styrk bráðaprótína í sermi og genatjáningu ónæmisþátta í líffærum. Bráðasvar var framkallað í þorski og áhrif á átfrumuvirkni, serumþætti og genatjáningu könnuð.

Efniviður og aðferðir: 90 g þorskum var skipt í tvo hópa, annar var sprautaður með terpentínu í vöðva (bráðaáreiti) en hinn ómeðhöndlaður. Á tímapunktum voru tekin sýni úr nýra og átfrumuvirkni mæld, blóðsýni tekin og eftirfarandi serumþættir mældir: kortisól, prótín, pentraxín (CRP-PI og CRP-PII í þorski), IgM, náttúruleg mótefni og ensímtálmar. Í sýnum úr nýra og milta var mæld genatjáning pentraxína, transferríns, IL-1b, C3, ApoLP-AI, kathelicidíns og hepcidíns. Notuð var magnbundin rauntíma PCR greining.

Niðurstöður: Bráðaáreiti leiddi til hækkunar á kortisóli eftir 72 klst. og jafnframt lækkaði virkni átfrumna og ensímtálma og styrkur IgM í sermi en aðrir þættir voru óbreyttir. Aukin genatjáning pentraxína, ApoLP A-1 og C3 greindist eingöngu í nýra, aukin tjáning IL-1b, kathelicidíns og transferríns í báðum líffærum, en aukin tjáning hepcidíns eingöngu í milta. Hámarkstjáning pentraxína og ApoLP A1 greindist eftir 1 klst en annarra þátta eftir 24 eða 72 klst.

Ályktanir: Kortisól gæti hafa haft bælandi áhrif á átfrumuvirkni, serumþætti og tjáningu IL-1b, C3, kathelicidíns og fleiri þátta. Aðeins transferrín sýndi aukna tjáningu í nýra í lok tilraunar eftir 168 klst og virtist ónæmt fyrir áhrifum kortisóls. Pentraxín eru ekki dæmigerð bráðaprótín í þorski það er engin aukning varð í sermi í kjölfar áreitis, en þau gegna sennilega hlutverki við ræsingu á öðrum ónæmisþáttum í bráðasvari.

  

V 58      Áhrif seltu og hitastigs á vöxt og streitu- og ónæmisþætti í plasma þorskseiða

Tómas Árnason1, Bergljót Magnadóttir2, Sigríður Steinunn Auðunsdóttir2, Björn Björnsson3, Agnar Steinarsson1, Björn Þrándur Björnsson4

1Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar, Grindavík, 2Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 3Hafrannsóknastofnun, 4líffræði- og umhverfisvísindadeild Gautaborgarháskóla

bergmagn@hi.is

Inngangur: Flestir stofnar þorsks (Gadus morhua L.) lifa í fullsöltum sjó (35‰), þola lágt seltustig og vaxtarhraði er hærri í lágri seltu (7-14‰). Til langs tíma gæti verið ávinningur af seiðaeldi við lágt seltustig fyrir flutning í sjókvíar. Könnuð voru áhrif breytilegs seltu- og hitastigs á vöxt, streitu- og ónæmisþætti, sem mikilvægt er að séu í jafnvægi í eldi.

Efniviður og aðferðir: Tvær tilraunir voru gerðar: A: 1, 10 og 100 g þorskseiði alin við mismunandi seltu (6-32‰) í 19–57 daga, síðan við fulla seltu (32‰), án aðlögunar í 20–391 daga. Þyngdarmælingar og blóðsýni voru tekin í upphafi tilraunar og í lok hvers tímabils. Í plasma var mælt: natríum, kalsíum, kortisól, prótín, mótefni og ensím tálmar. B: 1 g seiði voru alin í kjörseltu með tilliti til vaxtar (samkvæmt tilraun A: eða í fullri seltu í 26 vikur, síðan skipt í tvo hópa og alið við tvö hitastig, 6°C og 10°C í 13 vikur. Sýnatökur og mælingar voru eins og A.

Niðurstöður: Í tilraun A: var hámarksvaxtarhraði í 10‰ seltu í öllum stærðarhópum, besta selta fyrir vöxt var 12,5‰ fyrir meðalseiði og 14,8‰ fyrir stór seiði. Þegar fiskar voru færðir beint úr 6-10‰ í fulla seltu hafði það neikvæð áhrif á vöxt. Tilraun B: sýndi að langtíma eldi í 13,5‰ hafði engin áhrif á vöxt, miðað við eldi í fullri seltu, og enginn munur var milli sömu seltustiga við 6 eða 10°C. Hvorki eldi við mismunandi seltu og flutningur í fulla seltu án aðlögunar né breytilegt hitastig hafði langtíma áhrif á streitu- eða ónæmisþætti. Stærð fiskanna og árstíð hafði áhrif á ónæmisþætti.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að þorskurinn þolir vel mismunandi seltustig. Skyndileg breyting úr lágri seltu í fulla seltu getur haft neikvæð áhrif á vöxt en hvorki breytileg selta né skyndileg sveifla í seltu hefur langtíma áhrif á streitu- og ónæmisþætti.

 

V 59      Fjölsykra úr cýanóbakteríunni Nostoc commune minnkar seytingu bólguboðefna og fosfæringu MAP kínasa og Akt/PKB í THP-1 mónócýtum

Ástríður Ólafsdóttir1,2,3,4, Guðný Ella Thorlacius1,2,3,4, Sesselja S. Ómarsdóttir5, Elín Soffía Ólafsdóttir5, Arnór Víkingsson3, Jóna Freysdóttir2,3,4, Ingibjörg Harðardóttir1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu og 2ónæmisfræðisviði læknadeildar HÍ, 3rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og 4ónæmisfræðideild Landspítala, 5lyfjafræðideild HÍ

aso27@hi.is

Inngangur: Ýmis náttúruefni hafa verið nýtt í heilsueflandi tilgangi sem náttúrulyf, fæðubótarefni og fleira. Bláþörungar eru algengir í fléttusambýlum og tegundir svo sem Spirulina eru vinsælar í fæðubótarefni. Þekkt er að sykrur úr fléttum og sambýlislífverum þeirra geta haft áhrif á ónæmiskerfið. Mónócýtar eru forverar makrófaga og angafrumna og starfa einnig sjálfir í fremstu varnarlínu ónæmiskerfisins. Við áreiti virkjast innanfrumuboðferlar sem leiðir til seytingar bólguboðefna sem drífa bólgusvarið. Þó bólgusvar sé nauðsynlegt getur of mikið eða langdregið svar haft slæm áhrif. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna ónæmisfræðileg áhrif fjölsykru úr cýanóbakteríunni Nostoc commune (Nc-5) á mónócýta og hvernig áhrifunum er miðlað.

Efniviður og aðferðir: THP-1 mónócýtafrumulína var ræktuð með IFN-g í 3 klst og í kjölfarið örvuð með inneitri (LPS). Grófhreinsaðri Nc-5 fjölsykru var bætt við samhliða IFN-g eða LPS. Hlutfallsleg fosfæring MAP kínasa, IkBa, Akt/PKB og Stat1 í frumum var mæld með Western Blot aðferð á ákveðnum tímapunktum eftir LPS örvun. Styrkur frumuboðanna IL-6, IL-10, IL-12p40 og TNF-a í æti var mældur með ELISA aðferð eftir 48 klst. örvun.

Niðurstöður:Mónócýtar örvaðir í návist Nc-5 fjölsykrunnar seyttu marktækt minna af IL-6 og IL-12 en frumur örvaðar án fjölsykrunnar. Einnig olli fjölsykran minni fosfæringu á bæði MAP kínasanum ERK1/2 og Akt/PKB í PI3K/Akt boðleiðinni eftir 1 klst. LPS örvun. Nc-5 fjölsykran hafði engin áhrif á fosfæringu p38 MAP kínasans.
Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að Nc-5 fjölsykran minnkar seytun mónócýta á bólguboðefnum og að þeim áhrifum geti verið miðlað gegnum ERK1/2 og PI3K/Akt boðleiðirnar. Þessi bólguhamlandi áhrif fjölsykrunnar gætu reynst nytsamleg í baráttu við króníska bólgusjúkdóma svo sem gigt.

 

V 60      Áhrif bólgumiðlandi boðefna á virkni og sérhæfingu CD4+ T stýrifrumna í mönnum

Snæfríður Halldórsdóttir, Brynja Gunnlaugsdóttir, Björn Rúnar Lúðvíksson

Ónæmisfræðideild Landspítala, læknadeild HÍ

snaefrid@landspitali.is

Inngangur: CD4+ T stýrifrumur (Tst) gegna mikilvægu hlutverki í viðhaldi á eðlilegu ónæmissvari og koma í veg fyrir virkjun ofnæmiskerfisins gegn eigin vef. Tst er skipt í náttúrulegar (nTst) og afleiddar (aTst). aTst þroskast í útvefjum út frá óreyndum T frumum í nærveru TGF-b1 og IL-2. Ljóst er að hlutur ósértæka ónæmiskerfisins í meingerð sjálfsofnæmissjúkdóma er meiri en menn töldu, en þáttur þess í sérhæfingu og virkni CD4+ Tst er óljós. Markmið okkar var að meta áhrif bólgumiðlandi boðefna á sérhæfingu og virkni CD4+ aTst.

Efniviður og aðferðir: Óreyndar T frumur (CD4+CD25-) voru einangraðar frá heilkjarna blóðfrumum og ræstar með anti-CD3 í nærveru IL-2 og TGF-b1 og/eða bólgumiðlandi boðefna IL-1b og TNFa. Eftir fimm daga rækt var fjöldi aTst metin (CD4+/CD25hi/CD127-/FoxP3+) með flæðifrumusjá. Virkni þeirra var metin út frá frumufjölgun CFSE litaðra heilkjarna blóðfruma sem voru ræstar með Epstein-Barr sýktum B frumum hlöðnum með súperantigenum.

Niðurstöður: Sérhæfing CD4+ aTst er háð IL-2 og TGF-b1 (p<0,05). IL-1b og TNFa hafa afgerandi bælandi áhrif á sérhæfingu CD4+ aTst ex vivo(%bæling; TNFa=68,3% vs IL-1b=73,5%; p<0,05). Bælipróf sýndi bælivirkni CD4+ aTst þar sem hækkandi hlutfall þeirra í samrækt hamlaði virkjun og fjölgun T-frumna (% bæling; 1:1=49,75 vs 1:32=18,12; p<0,05). Virknirannsókir staðfestu að IL-1b og TNFa hindra sérhæfingu og virkni CD4+ aTst (p<0,05). Einnig kom í ljós að bælivirkni CD4+ aTst beinist jafnt gegn virkjun CD4+ og CD8+ T frumna.

Ályktanir: Rannsóknir okkar sýna að hægt er að rækta upp sérhæfðar manna CD4+ Tst og sérhæfingin er háð IL-2 og TGF-b1. Einnig er ljóst að bólgumiðlandi boðefni ósértæka ónæmiskerfisins hindri sérhæfingu og virkni aTst. Niðurstöðurnar auka skilning okkar á tilurð sjálfsofnæmissjúkdóma er tengjast virkjun ósértæka ónæmiskerfisins.

 

V 61      Sérhæfing CD8+ stýrifrumna er háð IL-2 og TGF-b1

Una Bjarnadóttir1, Snæfríður Halldórsdóttir1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ

unab@lsh.is

Inngangur: CD8+ T stýrifrumur (CD8+ TSt) eru taldar gegna mikilvægu hlutverki í stjórnun ónæmisviðbragða líkamans með því að bæla bólguviðbrögð og hindra frumuvöxt. Ýmislegt bendir til þess að CD8+ TSt skipi viðamikinn sess í sjálfsofnæmisjúkdómum, ígræðslum og líffæraflutningum. Frekari rannsókna á sérhæfingu og virkni CD8+ TSt er þörf til að nýta megi þær sem meðferðarúrræði sem og finna nýja þætti sem hægt væri að nýta til lyfjaþróunar. Markmið þessarar rannsóknar er því að skoða hvaða þættir þurfa að vera til staðar fyrir sérhæfingu afleiddra CD8+ TSt sem og staðfesta bælivirkni þeirra.

Efniviður og aðferðir: CD8+CD25-CD45RA+ voru einangraðar með seguleinangrun úr einkjarna blóðfrumum. Eftir einangrun var frumum sáð á anti-CD3 húðaðar plötur með og án IL-2, TGF-β1 og CD28 ræsingar. Eftir fimm daga rækt voru frumur litaðar með flúrljómandi mótefnum og svipgreindar með frumuflæðisjá. Í framhaldi var bælivirkni könnuð þar sem þroskaðar frumur eru settar í samrækt með CFSE merktum einkjarna blóðfrumum og Epstein-Barr sýktum B frumum (EBsBfr) hlaðnar með súperantigengum (SEA/SEB/SEE). Sérhæfing CD8+CD25-CD45RA+ T frumur í CD8+CD25+FoxP3+ TSt var metin.

Niðurstöður: Sýnt var fram á að sérhæfingin var háð tilvist TGF-β1 samhliða IL-2 (p<0,04) sem höfðu samlegðaráhrif á sérhæfingu CD8+ TSt. Athyglisvert er að hjálparræsing gegnum CD28 viðtakann hafði engin teljandi áhrif á sérhæfingarhæfni CD8+ TSt. Auk þess var bælivirkni CD8+ TSt staðfest þar sem þær hindruðu T-frumufjölgun í kjölfar ræsingar þeirra með EBsBfr (PBMCs:TSt 1:1 p<0,005 og PBMCs:TSt 1:4 p<0,05).

Ályktanir: Rannsóknin sýnir fram á tilvist CD8+ TSt í mönnum og að sérhæfing þeirra er háð IL-2 og TGF-β1. Þar sem hægt er að stuðla að þroska þeirra ex vivo eykur það vonir okkar að hægt sé að beita slíkum aðferðum við meðferð á T-frumumiðluðum sjálfsofnæmissjúkdómum.

 

 

V 62      Tíðni erfðabreytileika sem veldur skorti í lektínferli komplímentvirkjunar í íslensku þýði

Margrét Arnardóttir1,2, Helga Bjarnadóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ

maa14@hi.is

Inngangur: Komplímentkerfið er mikilvæg ónæmisvörn. Lektínferill komplímentkerfisins ræsist þegar mannanbindilektín (MBL) eða fíkólín (1-3) bindast sameindamynstrum á yfirborði örvera. Við bindingu virkjast serín próteasinn MASP-2 (MBL associated serine protease) sem klýfur C4 og ræsir þar með komplímentkerfið. Erfðabreytileiki (p.D120G) í MASP2 geninu veldur lækkun á MASP-2 í sermi. Arfhreinir einstaklingar um stökkbreytinguna (G/G) hafa ekkert MASP-2 í sermi og þar af leiðandi óvirkan lektínferil. Áætlað er að um einn af hverjum þúsund í dönsku heilbrigðu þýði sé með skort (G/G). Rannsóknir á tengslum þessa skorts við sjúkdóma eru stutt á veg komnar. Markmið verkefnisins var að finna út tíðni p.D120G samsætunnar í heilbrigðu íslensku þýði.

Efniviður og aðferðir: Genómískt DNA var einangrað úr 453 heilbrigðum íslenskum blóðgjöfum með hásaltsaðferð. Notast var við „sequence specific primer“ PCR aðferð (PCR-SSP) til að skima fyrir p.D120G.

Niðurstöður: Af 453 einstaklingum voru 37 arfblendnir (D/G) um p.D120G eða 8,2%. Enginn var með skort (það er að segja: arfhreinn um stökkbreytinguna (G/G)). Niðurstöðurnar sýna að samsætutíðni p.D120G er 0,041 sem er sambærileg dönsku heilbrigðu þýði (0,039).

Ályktanir: Því má áætla að um 330 Íslendingar séu með skort (G/G). Næstu skref eru að skima fyrir p.D120G í ýmsum sjúklingaþýðum, þar á meðal í einstaklingum með óútskýrðar sýkingar.

 

V 63      Áhrif kítósans og afleiða þess á virkjun og bólgusvörun átfrumna

Steinunn Guðmundsdóttir1,4, Ólafur E. Sigurjónsson2,3,4, Pétur H. Petersen1,4

1Rannsóknastofu í taugalífræði, læknadeild HÍ, 2Blóðbankanum, 3tækni- og verkfræðideild HR, 4Lífvísindasetri HÍ

stg8@hi.is

Inngangur:Kítín, sem er meðal annars að finna í sýklum og ytrabyrði hryggleysingja, ýtir undir ónæmissviðbrögð. Með því að fjarlægja acetýlhópa af undireiningum kítíns fæst fjölsykran kítósan, eða kítósan fásykrur (ChOS) með frekara niðurbroti. Ýmsar kítósan afleiður eru notaðar á fjölbreyttan hátt meðal annars sem stoðefni og því mikilvægt að þekkja lífvirkni þeirra, til dæmis hvort þær hafi áhrif á virkjun átfrumna og bólgusvörun.

Efniviður og aðferðir: Átfrumur voru einangraðar úr mannablóði með  Ficoll-Paque og segulmögnuðum CD14 húðuðum kúlum. Frumurnar voru ræktaðar í RPMI-1640 æti með 10% mannasermi í níu daga og örvaðar í 24 klst. með 100 µg/mL af vel skilgreindum stuttum ChOS, kítósan, kítósan <30 µm eða ChOS lactate. Próteinin YKL40 og Chit1 voru mæld með Western greiningu úr æti frá örvuðum frumunum og boðefnin TNF-a og IL-1b mæld með ELISA. Efnaskiptabreytingar voru mældar með XTT.
Niðurstöður: Stuttu ChOS höfðu engin áhrif á efnaskipti frumnanna né seytingu á YKL40, Chit1, TNF-a og IL-1b. Hvorki kítósan né kítósan < 30 µm höfðu áhrif á efnaskipti frumnanna, bæði efnin juku seytingu á TNF-a og IL-1b en lækkuðu YKL40 og Chit1 seytingu. ChOS lactate hafði hamlandi áhrif á efnaskipti átfrumna á styrkleikabilinu 80-120 µg/mL en töluverð áhrif til lækkunar á YKL40 og Chit1 seytingar í lægri styrk en 80 ug/mL, jafnframt því sem það jók TNF-a og sérstaklega IL-1b seytingu.

Ályktanir: Ekkert efnanna hafði bein áhrif til klassískrar virkjunar átfrumna. Kítósan og sérstaklega ChOS lactate virkjuðu bólguviðbragð átfrumna samhliða lækkun á YKL40. YKL40 er nauðsynlegt fyrir eð64lilega bólgusvörun í lungum músa, lækkunin á YKL40 gæti því verið orsök bólgusvarsins. Stuttu kítósanfásykrurnar hafa ekki bein áhrif á ónæmissvörun átfrumna sem eykur notkunarmöguleikar þeirra til dæmis sem stoðefnis.

 

V 64      Faraldsfræði meðfæddra ónæmisgalla á Íslandi

Þorgeir Orri Harðarson1, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir2, Ásgeir Haraldsson1,3, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í ónæmisfræði, 3Barnaspítala Hringsins

thh62@hi.is

Inngangur: Meðfæddir ónæmisgallar (MÓG) eru sjaldgæfir sjúkdómar sem hafa víðtæk neikvæð áhrif á líf og heilsu fólks. Helstu fylgikvillar eru tíðar sýkingar, sjálfsofnæmi og illkynja sjúkdómar. Lítið er vitað um faraldsfræði meðfæddra ónæmisgalla á Íslandi með fáeinum undantekningum. Markmið rannsóknarinnar var því að kanna faraldsfræðina á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til einstaklinga með meðfæddan ónæmisgalla á tímabilinu 1991-2010. Upplýsingar um sjúklinga fengust frá legudeildarkerfi Landspítalans, ónæmisfræðideild Landspítalans og meðferðarlæknum. Sjúkraskrár voru skoðaðar og greiningar endurmetnar samkvæmt skilmerkjum evrópsku ónæmisgallasamtakanna (ESID). Sértækur IgA skortur og MBL skortur voru undanskildir og ástæður áunninnar ónæmisbælingar útilokaðar.

Niðurstöður: Sextíu og fimm einstaklingar uppfylltu rannsóknarskilmerkin, 34 (52%) voru kvenkyns og 20 (31%) yngri en 18 ára. Fjórir einstaklingar létust á tímabilinu vegna síns ónæmisgalla eða fylgikvilla meðferðar og tveir fluttu til útlanda. Af 65 einstaklingum höfðu 25 (39%) mótefnagalla, 19 (29%) galla í magnakerfi, átta (12%) átfrumugalla, 10 (15%) aðra vel skilgreinda ónæmisgalla, einn (2%) galla í meðfædda ónæmissvarinu og tveir (3%) sjálfsbólguheilkenni (autoinflammatory disorders). Í ársbyrjun 2011 voru 59 einstaklingar á lífi með meðfædda ónæmisgalla á Íslandi (miðgildi aldurs: 31,5 ár, bil: 0-87). Áætlað algengi meðfædds ónæmisgalla á Íslandi samkvæmt skilmerkjum ESID var 18,5 á 100.000 íbúa.

Ályktanir: Þetta er fyrsta faraldsfræðirannsóknin á meðfæddum ónæmisgöllum á Íslandi. Mótefnagallar voru algengustu meðfæddu ónæmisgallarnir. Algengið hér er hátt í samanburði við hliðstæðar erlendar rannsóknir sem sýna algengi milli 2,48-12,4 á 100.000 íbúa. Breytileg aðferðafræði við skráningu einstaklinga með meðfædda ónæmisgalla torveldar þennan samanburð og hugsanlega auðveldar lítið samfélag okkur fund hlutfallslega fleiri einstaklinga.

  

V 65      Makrófagar og eósínófílar eru aðal frumutegundirnar í hjöðnunarfasa vakamiðlaðrar bólgu

Valgerður Tómasdóttir1,2,3,4, Arnór Víkingsson1, Ingibjörg Harðardóttir3, Jóna Freysdóttir1,2,4

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3Lífefna- og sameindalíffræðistofu og 4ónæmisfræðisviði læknadeildar HÍ

jonaf@landspitali.is

Inngangur: Hjöðnun bólgu er virkt ferli sem felur í sér flókið samspil frumna og boðefna. Hjöðnun bólgu hefur mest verið skoðuð í zymosan miðlaðri bráðabólgu. Markmiðið með rannsókninni var að skoða hjöðnun bólgu í líkani sem líkir eftir bólgukasti í langvinnum bólgusjúkdómum.

Efniviður og aðferðir: Kvenkyns C57BL/6J mýs voru bólusettar með metýleruðu BSA (mBSA) og mild vakamiðluð lífhimnubólga mynduð. Kviðarholsfrumum og -vökva var safnað á mismunandi tímapunktum. Kviðarholsfrumur voru taldar og yfirborðssameindir á þeim skoðaðar í frumuflæðisjá. Styrkur frumu- og flakkboða í kviðarholsvökva var mældur með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Við bólguáreiti hurfu staðbundnir makrófagar úr kviðarholinu en mónócýtar (Gr1+CD115+CD11b+) komu þangað og náðu hámarki 24 klst eftir bólgumyndun. Mónócýtarnir þroskuðust yfir í makrófaga (F4/80+CD11b+) sem náðu hámarki 48 klst eftir bólgumyndun. Á þeim tíma voru tvær mismunandi gerðir af makrófögum sem tjáðu mismikið af F4/80. Makrófagar sem tjáðu mikið af F4/80 tjáðu einnig mikið af hlutleysandi flakkboðaviðtakanum D6 og flakkboðaviðtakanum CCR7. Makrófagar sem tjáðu minna af F4/80 tjáðu einnig CD11c og CD138. Eosínófílar komu inn í kviðarholið í kjölfar bólguáreitisins og náði fjöldi þeirra hámarki 48 klst eftir bólgumyndun. Á þeim tímapunkti höfðu eósínófílarnir aukið tjáningu sína á CCR3, en minnkað tjáningu á CD11b. Styrkur TGF-b og hlutleysandi viðtakans sIL-6R náðu einnig hámarki í kviðarholsvökva 48 klst. eftir bólgumyndun.

Ályktanir: Á sama tíma og bólguhemjandi/hjöðnunar sameindirnar sIL-6R og TGF-b eru í hámarki í kviðarholi músa eftir bólgumyndun eru makrófagar með mikla D6 og CCR7 tjáningu og eósínófílar með minnkaða CD11b tjáningu helstu frumutegundirnar. Líklegt er að þessar frumur taki þátt í að miðla hjöðnun bólgunnar.

 

V 66      Ómega-3 fitusýrur í fæði leiða til aukins B frumusvars í músum með vakamiðlaða lífhimnubólgu

Sigrún Þórleifsdóttir1,2,3,4, Valgerður Tómasdóttir1,2,3,4, Arnór Víkingsson3, Ingibjörg Harðardóttir1, Jóna Freysdóttir2,3,4

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu og 2ónæmisfræðisviði læknadeildar HÍ, 3rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og 4ónæmisfræðideild Landspítala

sth119@hi.is

Inngangur: Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur (FÓFS) geta haft áhrif bólgusvar, bæði upphafssvarið og hjöðnunarferlið. Áhrif ómega-3 FÓFS á sérhæft ónæmissvar hafa lítið verið könnuð. Markmið rannsóknarinnar var því að kanna áhrif ómega-3 FÓFS á sérhæft ónæmissvar í vakamiðlaðri bólgu.

Efniviður og aðferðir: Músum var gefið viðmiðunarfæði eða fæði með 2,8% fiskolíu. Þær voru bólusettar tvisvar og lífhimnubólga framkölluð með því að sprauta metýleruðu BSA í kviðarhol þeirra. Mýsnar voru aflífaðar fyrir og á mismunandi tímapunktum eftir að lífhimnubólgu var komið af stað. Milta, blóði og kviðarholsvökva var safnað og ýmsir þættir sérhæfðs ónæmissvars mældir með frumuflæðisjá, ELISA aðferð og vefjalitun.

Niðurstöður: Mýs sem fengu fiskolíu í fæði höfðu fleiri og stærri kímstöðvar sem og fleiri IgM+ frumur í milta í kjölfar bólgumyndunar samanborið við mýs sem fengu viðmiðunarfóður. Styrkur BSA sértækra IgM mótefna í sermi var hærri í músum sem fengu fiskolíu en þeim sem fengu viðmiðunarfóður, en ekki var munur á styrk IgG mótefna. Fjöldi B1 frumna í kviðarholi var meiri í músum sem fengu fiskolíu en í músum í viðmiðunarhóp.

Ályktanir: Fleiri IgM+ frumur í miltum músa sem fengu fiskolíu bendir til fleiri óreyndra B frumna í þeim en músum sem fengu viðmiðunarfóður. Hærri styrkur BSA sértækra IgM mótefna í sermi styður þá ályktun. IgM+ frumur eru hugsanlega hluti af B1 frumum sem sáust í meira mæli í kviðarholi músa sem fengu fiskolíu en í kviðarholi músa sem fengu viðmiðunarfóður. Fiskolía í fæði gæti því leitt til fleiri B1 frumna sem geta brugðist við áreiti með því að seyta miklu magni af vakasértækum IgM mótefnum. Niðurstöðurnar benda því til þess að fiskolía í fæði geti bætt ónæmissvar við endurtekið áreiti.

 

V 67      Ónæmissvar hjá bleikju (Salvelinus alpinus, L.) eftir sýkingu bakteríunnar A. salmonicida undirteg. achromogenes og mikilvægi AsaP1 úteitursins

Johanna Schwenteit1, Uwe Fischer2, Uwe T. Bornscheuer3, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Friedrich-Loeffler-Institut Insel Riems, Greifswald, 3Institute of Biochemistry, Dpt Biotechnol & Enzyme Catalysis, Greifswald University

bjarngud@hi.is

Inngangur: Bakterían Aeromonas salmonicida undirteg. achromogenes(Asa) veldur kýlaveikibróður hjá bleikju. AsaP1 er eitraður aspzincin málmpeptíðasi og sýkiþáttur, sem Asa seytir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna mikilvæga þætti í ónæmisviðbrögðum bleikju sem sýkt er með Asa (wt) eða AsaP1 neikvæðu stökkbrigði af Asa (DasaP1). 

Efniviður og aðferðir: Bleikja (30g) var sýkt með sprautun í kviðarhol með jafnsterkum lausnum af Asa (wt), Asa (DasaP1) eða dúa til viðmiðunar. Framnýra, lifur og milta voru skorin úr fiskinum eftir 8 klst, 1 d, 3 d, 5 d, og 7 d frá sýkingu. Magnbundið rauntíma PCR- próf (RT-qPCR) var notað til að kanna tjáningu eftirtalinna ónæmisþátta: forstigs bólguboðanna IL-1ß og TNFa; bólguhamlandi frumuboðanna IL-10, CXCL-8 (IL-8) og CC- efnatoga; frumuboðanna IFN-g og IL-4 sem sporefni fyrir Th1 og Th2 stýrt ónæmissvar; og frumu merkjasameindanna CD8 og CD83. Vefjafræðileg rannsókn var gerð á ónæmislíffærum sem safnað var þremur og sjö dögum eftir sýkingu.

Niðurstöður: Við upphaf sýkingar var aukning á tjáningu forstigs bólguboða og efnatoga sem tilheyra meðfæddu ónæmi en síðan jókst tjáning á þáttum sem tilheyra Th2 stýrðu áunnu ónæmissvari. Ónæmisviðbrögð voru öflugust í milta og framnýra. RT-qPCR próf greindu marktækan mun á ónæmisviðbragði fisksins gegn Asa (wt) og Asa (ΔasaP1). Vefjabreytingar greindust hjá sýktum fiski, en ekki var greinanlegur munur á því með hvorri bakteríunni fiskurinn var sýktur. Í HE lituðum vefjasneiðum frá sýktri bleikju voru elipsulagaðar myndanir umhverfis grannar slagæðar í milta, sem ónæmisvefjalitun greindi IgM-jákvæðar og CD3 jákvæðar frumur voru í klösum á víð og dreif um allt miltað.

Ályktanir: Engin rannsókn hefur áður birst sem sýnir ónæmissvar hjá bleikju sýktri með bakteríu. Rannsóknin sýnir að úteitrið AsaP1 er mikilvægur sýkiþáttur Asa bakteríunnar í bleikju.

 

V 68      Fyrstu skráðu lífsmörk á bráðamóttöku Landspítala

Unnur Ágústa Guðmundsdóttir2, Guðrún Selma Steinarsdóttir2, Guðbjörg Pálsdóttir2, Þorsteinn Jónsson1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala

thorsj@hi.is

Inngangur: Stigun bráðveikra sjúklinga (MEWS) er gagnlegt mælitæki til að greina alvarlega veika sjúklinga. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða fyrstu skráðu lífsmörk sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala í ljósi viðmiða um bráð bólguviðbrögð (SIRS) og með tilliti til stigunar bráðveikra sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Stuðst var við afturvirka lýsandi aðferðafræði, þar sem rannsóknargögnum var safnað úr rafrænni sjúkraskrá. Rannsóknartímabilið var frá 1. október 2011 til 30. nóvember 2011. Settar voru fram eftirfarandi rannsóknarspurningar:
1. Hver eru fyrstu skráðu lífsmörk sjúklinga við komu á bráðamóttöku?
2. Hver eru lífsmörk út frá viðmiðum um bráð bólguviðbrögð?
 3. Hver eru lífsmörk út frá stigun bráðveikra sjúklinga? Þátttakendur í rannsókninni voru 3.971 (n) sem sóttu bráðamóttöku Landspítala á rannsóknartímabilinu.

Niðurstöður: Af þátttakendum voru um 1% (n=40) ekki skráð með nein lífsmörk. Öndunartíðni var skráð í rúmlega 66% tilfella (n=2.637). Meðaltalið var tæplega 18 andardrættir á mínútu. Tæplega 11% þátttakenda (n=418) önduðu hraðar en 20 andardrætti á mínútu. Hjartsláttartíðni var skráð í rúmlega 97% tilfella (n=3.869). Meðaltalið var tæplega 84 slög á mínútu. Tæplega 32% (n=1.255) voru með hjartsláttartíðni yfir 90 slög á mínútu. Þá var líkamshiti mældur í rúmlega 91% tilfella (n= 3.627). Rúmlega 15% (n=418) voru með hita undir 36°C eða hærri en 38°C. Tæplega 16% (n=623) þátttakenda höfðu tvo eða fleiri þætti af viðmiðunum fyrir bráð bólguviðbrögð. Þá voru um 14% (n=560) með þrjú eða fleiri stig samkvæmt mælitækinu stigun bráðveikra sjúklinga.

Ályktanir: Óhætt er að segja að skráning lífsmarka á bráðamóttöku Landspítala sé góð.
 Til að efla árvekni, er mikilvægt að greina einkenni um alvarleg veikindi út frá mælitækjum á borð við stigun bráðveikra sjúklinga.

 

V 69      Hvernig má uppræta kransæðasjúkdóm á Íslandi?

Rósa Björk Þórólfsdóttir1, Thor Aspelund2,3, Simon Capewell4, Julia Critchley5, Vilmundur Guðnason2,3, Karl Andersen2,3,6

1Læknadeild HÍ, 2Hjartavernd, 3Háskóla Íslands, 4Division of Public Health, University of Liverpool,  5Dpt Population Health, St George's, University of London, 6hjartadeild Landspítala

rth15@hi.is

Inngangur: Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms hefur lækkað umtalsvert á Íslandi síðastliðna áratugi. Má það helst þakka bættri stöðu áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma. Við notum þróun áhættuþátta síðustu ára til þess að spá fyrir um framtíðardánartíðni vegna kransæðasjúkdóms á Íslandi og meta hvernig helst megi koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll.

Efniviður og aðferðir: IMPACT reiknilíkanið var notað til að spá fyrir um dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms meðal 25-74 ára Íslendinga frá 2010 til 2040. Þetta var gert fyrir þrjá mismunandi möguleika í áhættuþáttaþróun: 1. Haldi nýleg þróun áfram (sl. fimm ár); 2. ef söguleg þróun (sl. 30 ár) heldur áfram; 3. ef gert er ráð fyrir að öll þjóðin nái minnstu mögulegu áhættu. Útreikningar byggðust á að sameina: i) mannfjöldatölur og spár (Hagstofa Íslands), ii) áhættuþáttagildi þjóðarinnar og spár (Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar) og iii) áhrif tiltekinna áhættuþáttabreytinga (áður birtar rannsóknir).

Niðurstöður: 1. Haldi nýleg þróun áhættuþátta áfram mun dánartíðni aukast úr 49 í 70 á 100.000. 2. Ef söguleg þróun heldur áfram, mun hægja á fækkun dauðsfalla vegna öldrunar þjóðarinnar. Mismun á sögulegri og nýlegri þróun má skýra með hækkun í kólesterólgildum og hraðari aukning í offitu og sykursýki á síðustu fimm árum. 3. Ef öll þjóðin nær æskilegum áhættuþáttagildum yrði komið í veg fyrir öll fyrirbyggjanleg dauðsföll vegna kransæðasjúkdóms fyrir 2040.

Ályktanir: Ef ekki verða breytingar á lífsvenjum Íslendinga mun dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms aukast og ávinningur liðinna áratuga tapast. Hins vegar er mikið rými fyrir breytingar. Með því að móta áhrifamestu áhættuþættina með lýðheilsufræðilegum inngripum mætti draga enn frekar úr ótímabærum dauðsföllum á komandi árum og jafnvel útrýma þeim fyrir árið 2040.

  

V 70      Snemmkominn árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2007-2009. Samanburður við eldri rannsókn

Daði Helgason1, Sindri Aron Viktorsson1, Andri Wilberg Orrason1, Inga Lára Ingvarsdóttir2, Martin I. Sigurðsson2, Ragnar Danielsen3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3hjartadeild Landspítala

dah14@hi.is

Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur ósæðarlokuskipta hér á landi á árunum 2007-2009 með áherslu á snemmkomna fylgikvilla og bera saman við fyrri rannsókn sem náði til 154 sjúklinga sem skornir voru 2002-2006.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 137 sjúklinga sem gengust undir lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2007-2009. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru meðal annars skráðir áhættuþættir hjartasjúkdóma, niðurstöður hjartaómana fyrir og eftir aðgerð, fylgikvillar og dánarhlutfall innan 30 daga.

Niðurstöður: Algengustu einkenni fyrir aðgerð voru mæði (91%) og hjartaöng (52%). Útfallsbrot hjarta var 55% að meðaltali, hámarksþrýstingsfall yfir loku 66±24 mmHg og lokuop 0,73±0,26 cm2. Meðal EuroSCORE mældist 7,3. Alls fengu 33 sjúklingar gerviloku en 104 lífræna loku og voru 62 þeirra með grind og 42 án grindar. Tangartími var að meðaltali 109 mín og vélartími 158 mín. Algengustu snemmkomnu minniháttar fylgikvillarnir voru hjartatif (64,8%) og nýrnaskaði (21%). Af alvarlegum fylgikvillum voru hjartadrep í tengslum við aðgerð (10%) og fjöllíffærabilun (7%) algengust en auk þessu þurftu 12% sjúklinga að gangast undir enduraðgerð vegna blæðingar. Miðgildi legutíma var 10 dagar, þar af einn dagur á gjörgæslu. Alls létust sjö sjúklingar innan 30 daga (5%).

Ályktanir: Dánarhlutfall innan 30 daga hélst tiltölulega lágt frá fyrri rannsókn og fylgikvillar voru tíðir, ekki síst gáttatif og enduraðgerðir vegna blæðinga. Frá fyrri rannsókn hefur notkun lífrænna loka með grind aukist og tangartími styst um 15 mínútur sem gæti átt þátt í að skýra lækkun nýrnaskaða úr 36% í 21%. Einnig bendir lægra þrýstingsfall og stærra lokuop fyrir aðgerð til þess að sjúklingar séu teknir fyrr í aðgerð en áður.

  

V 71      Meðfædd missmíð á kransæð sem orsök hjartadreps og hjartastopps hjá unglingsstúlku

Valentínus Þ. Valdimarsson1, Girish Hirlekar5, Oddur Ólafsson5, Hildur Tómasdóttir1, Gylfi Óskarsson4, Hróðmar Helgason4, Sigurður E. Sigurðsson5, Kristján Eyjólfsson2, Tómas Guðbjartsson3,6

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 5svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, 6læknadeild HÍ

valentva@lsh.is

Inngangur:Hjartastopp er sjaldséð hjá börnum og unglingum. Lýst er missmíð á kransæð sem orsök hjartastopps.

Tilfelli: 12 ára stúlka var flutt á SA eftir andauð og uppköst á sund-æfingu. Við komu sýndi lungnamynd íferðir sem vöktu grun um ásvelg-ingu. Hjartalínurit, hjartaensím og ómskoðun bentu ekki til kransæðastíflu. Sex klukkustundum síðar fór stúlkan í hjartastopp og var hjartahnoði beitt með hléum í rúmar tvær klukkustundir. Hún var flutt á Landspítala með sjúkraflugi og var þar tengd við hjarta- og lungnavél (ECMO-vél). Næsta dag var gerð kransæðaþræðing vegna ST-hækkana á hjartalínuriti og hækkaðra hjartasensíma. Þar sást þrenging í vinstri höfuðstofni og komið var fyrir stoðneti í kransæðinni vegna gruns um flysjun. ST-hækkanir gengu til baka en samdráttur hjartans var mikið skertur (útfallsbrot 15%). Við tök svæsin fjölllífærarbilun. Á fimmta degi veikinda var hún flutt í ECMO-vél til Gautaborgar til undirbúnings hugsanlegrar hjartaígræðslu. Þar lagaðist samdráttur hjartans sjálfkrafa og ECMO-vélin var aftengd tveimur dögum síðar. Hún var flutt til baka á Landspítala og útskrifaðist rúmum mánuði síðar. Hálfu ári síðar sást endurþrenging í stoðnetinu og því gerð kransæðahjáveituaðgerð (LIMA-LAD). Í tengslum við aðgerðina var gerð tölvusneiðmynd af hjarta sem sýndi missmíð þar sem vinstri kransæð átti upptök frá hægri kransæðabolla í stað þess vinstra. Stúlkan er við góða líðan og stundar bæði skóla og íþróttir. Hún er einkennalaus frá hjarta og útfallsbrot í kringum 55%.

Ályktanir: Þetta tilfelli sýnir hversu erfitt getur verið að greina orsök hjartadreps hjá unglingum. Orsökin var missmíð á kransæðum sem er sjaldgæf en vel þekkt orsök skyndidauða og hjartadreps.


V 72      Sárasogsmeðferð við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði eftir opnar hjartaaðgerðir. Samanburður við eldri sárameðferð

Steinn Steingrímsson1,2, Magnús Gottfreðsson1,3, Ingibjörg Guðmundsdóttir4, Johan Sjögren5, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3smitsjúkdómadeild, 4æðaskurðdeild Landspítala, 5hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins á Skáni

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Sárasogsmeðferð (SSM) hefur verið notuð við alvarlegum sýkingum í bringubeinsskurði hér á landi frá árinu 2005. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman árangur sárasogsmeðferðar við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði við eldra þýði sjúklinga sem meðhöndlaðir voru með hefðbundinni meðferð (HM), það er sáraskiptingum með grisjum og skoldreni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem greindust með djúpa sýkingu í bringubeinskurði eftir opna hjartaaðgerð á Landspítala frá 2000 til 2010, samtals 43 sjúklinga. Sjúklingum var skipt í tvo hópa; 23 sjúklinga voru meðhöndlaðir með HM til loka júlí 2005 og 20 sjúklingur voru meðhöndlaðir með SSM frá ágúst 2005. Leitað var að sjúklingum í aðgerðarskrám Landspítala og var borinn saman árangur í hópunum tveimur.

Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir með tilliti til aldurs og kyns. Fleiri sjúklingar í HM-hópi höfðu sögu um útæðasjúkdóm (p=0,02) en að öðru leyti voru lýðfræðilegir þættir hópanna svipaðir. Árangur meðferðar með tilliti til endurkomu djúprar sýkinga var 95% hjá SSM-hópi borið saman við 65% hjá HM-hópi (p=0,02). Legutími á sjúkrahúsi (30 og 31 dagar, p=0,90) og gjörgæslu (þrír og fjórir dagar, p=0,51) vegna meðhöndlunar var svipaður milli hópa. Tíðni bringubeinsfistla sem þörfnuðust skurðmeðferðar var 5% hjá SSM-hópi og 27% hjá HM-hópi (p=0,07). Dánartíðni innan árs var 0% hjá SSM-hópi og 17% hjá HM-hópi (p=0,07).

Ályktanir: Sárasogsmeðferð við djúpum sýkingum í bringubeinsskurði hefur gefið góða raun á Íslandi og árangur síst síðri en við hefðbundna sárameðferð. Færri sjúklingar þurftu skurðaðgerð vegna endurkomu djúpra sýkinga þótt legutími hafi ekki verið tölfræðilega styttri. Hafa ber í huga að fjöldi sjúklinga er takmarkaður og ekki verið að bera saman sömu tímabil.

 

V 73      Tíðni bringubeinsfistla eftir opnar hjartaskurðaðgerð á Íslandi

Steinn Steingrímsson1,2, Johan Sjögren3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins á Skáni, Svíþjóð

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Bringubeinsfistlar eru sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða. Um er að ræða langvinnar sýkingar sem greinast vikum eða mánuðum eftir skurðaðgerð og er meðferð þeirra oftast flókin og krefst iðulega endurtekinna skurðaðgerða. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni bringubeinsfistla eftir opnar hjartaaðgerðir í vel skilgreindu þýði, en slíkar niðurstöður hafa ekki birst áður hjá heilli þjóð.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem greindir voru með bringubeinsfistil sem þarfnaðist skurðaðgerðar á árunum 2000-2010. Sjúklingar voru fundnir með leit í gagnagrunni hjarta- og lungnaskurðdeildar og aðgerða- og greiningarskrám Landspítala. Tíðni bringubeinsfistla var reiknuð ásamt 95%-öryggisbili.

Niðurstöður: Alls fundust sex sjúklingar í hópi 2446 einstaklinga sem gengust undir opna hjartaskurð-aðgerð á tímabilinu og mældist tíðni fistla 0,25% (95%-öryggisbil: 0,11-0,53%). Meðalaldur var 71±9 ár og allir sjúklingarnir karlar. Staphylococcus aureus og/eða kóagúlasa neikvæðir stapfýlókokkar voru sýkingarvaldar í fimm tilfellum og Candida albicans í einu. Í öllum skurðaðgerðunum var dauður og sýktur vefur hreinsaður og gefin sýklalyf í æð. Þrír sjúklinganna gengust endurtekið undir skurðaðgerð á margra mánaða tímabili og náði einn þeirra ekki bata. Að meðaltali lágu sjúklingar 19 daga á sjúkrahúsi (bil 0-50 dagar). Fimm árum frá greiningu voru fjórir af sex sjúklingum á lífi.

Ályktanir: Bringubeinsfistlar eru fátíðir í samanburði við aðra fylgikvilla eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi. Meðferð krefst endurtekinna skurðaðgerða og innlagna með tilheyrandi kostnaði. Því er mikilvægt að fyrirbyggja þessar langvarandi sýkingar.

 

V 74      Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi hefur batnað á síðustu 10 árum

Hera Jóhannesdóttir1, Daði Helgason1, Tómas Andri Axelsson1, Martin Ingi Sigurðsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

hej23@hi.is

Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð er langalgengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman skammtímaárangur þessara aðgerða á tveimur fimm ára tímabilum með áherslu á snemmkomna fylgikvilla og dánartíðni eftir aðgerð.

Efniviður og aðferð: Rannsóknin var afturskyggn og voru 700 sjúklingar, sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2007-2011, bornir saman við 720 sjúklinga, sem skornir voru 2002-2006. Skráðir voru snemmkomnir fylgikvillar aðgerðar og dánartíðni innnan 30 daga.

Niðurstöður: Meðalaldur (66 ár) og hlutfall karla (82%) reyndist sambærilegt á báðum tímabilum, einnig EuroSCORE (4,9% vs 4,5%). Gáttaflökt/tif var algengasti minniháttar fylgikvillinn og hélst tíðnin í kringum 40% en næst kom skurðsýking á fæti, sem greindist í tæplega 10% tilfella á báðum tímabilum. Af alvarlegum fylgikvillum lækkaði tíðni hjartadreps í aðgerð um rúmlega helming á síðara tímabilinu (6% vs 13%, p<0,0001) og tíðni bringubeinsloss lækkaði þrefalt (3% vs 1%, p=0,014). Tíðni djúpra bringubeinssýkinga og nýrnaskaða hélst hins vegar óbreytt. Dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð var 3% á fyrra tímabili og 2% á því síðara, án þess þó að munurinn væri marktækur.

Ályktanir: Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður og virðist fara batnandi, ekki síst vegna lægri tíðni hjartadreps í aðgerð. Aðeins 2% sjúklinga létust innan 30 daga á síðara tímabili, sem þykir mjög góður árangur borið saman við erlendar rannsóknir.

 

V 75      And-TGF-b áhrif telmisartans gerast óháð angíótensín II viðtakanum

Inga Hlíf Melvinsdóttir, Arnar Geirsson, Qing-le Li, George Tellides

Section of Cardiac Surgery, Yale University School of Medicine

ihm4@hi.is

Inngangur: Truflun í TGF-b boðleiðinni hefur verið tengd við míturlokubakfall og hrörnun míturloku. Angíótensín viðtakahemlar virka á angíótensín II viðtaka týpu 1 (AT1) en þeir hafa einnig áhrif á TGF-b boðleiðina með óskilgreindum hætti. Angíótensín viðtakahemlar geta aukið peroxisome proliferator-activated receptor (PPAR)-g en einnig hefur verið sýnt fram á að PPAR-g agónistar hemji TGF-b boðleiðina. Kannað var hvort telmisartan hemji TGF-b boðleiðina í gegnum PPAR-g óháð þeim áhrifum sem það hefur á AT1.

Efniviður og aðferðir: Fengin voru vefjasýni frá átta sjúklingum sem fóru í míturlokuviðgerð. Míturloku millivefsfrumur voru einangraðar og ræktaðar. Rannsóknaraðferðir sem notast var við voru ónæmisflúr-ljómun, ónæmisrafdráttur og PCR.

Niðurstöður: Míturloku millivefsfrumurnar voru jákvæðar fyrir vimentin, SM22a, a-smooth muscle actin sem var neikvætt í sléttum vöðvafrumum. Millivefsfrumurnar voru neikvæðar fyrir angíótensín II viðtökum týpu 1 og 2 sem var aftur jákvætt í vöðvafrumum og trefjakímfrumum. Telmisartan hindraði TGF-b háða tjáningu á kollageni 1 og elastíni. PPAR-g agónistinn PGJ2 hafði sömu áhrif en ekki PPAR-g agónistinn pioglitazone. And-TGF-b áhrif telmisartans á TGF-b háða tjáningu kollagens 1 og elastíns voru hins vegar ekki hindruð af GW9962, sem er PPAR-g antagónisti. TGF-b virtist virkja Smad2 boðleiðina óháð áhrifum frá telmisartani og AT1. ERK og p38 boðleiðirnar virtust virkjast með telmisartan gjöf en óháð AT1.

Ályktanir: TGF-b virkjar Smad2 og p38 í ræktuðum míturloku millivefsfrumum og hvetur til millifrumuefnisframleiðslu. Millivefsfrumurnar binda ekki angiotensin II hugsanlega vegna þess að AT1 og AT2 eru ekki fyrir hendi í þessum frumum. Telmisartan hindrar marktækt TGF-b boðleiðina óháð áhrifum á AT1 sem virðist fara í gegnum virkjun á PPAR-g. Þetta þarfnast frekari staðfestingar.

 

V 76      Gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir. Forspárþættir og gerð spálíkans

Sólveig Helgadóttir, Martin Ingi Sigurðsson, Inga Lára Ingvarsdóttir, Davíð O. Arnar, Tómas Guðbjartsson

Hjarta- og lungnaskurðdeild og hjartadeild Landspítala, læknadeild HÍ

solveighelgadottir@gmail.com

Inngangur: Gáttatif er algengur fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Markmið rannsóknarinnar var að kanna forspárþætti gáttatifs eftir hjartaaðgerðir hér á landi, útbúa áhættulíkan og kanna langtíma lífshorfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til 744 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveitu- (n=720) og/eða ósæðarlokuskiptaaðgerð (n=156) á Landspítala 2002-2006 og höfðu ekki fyrri sögu um gáttatif. Ein- og fjölbreytugreining var notuð til að meta áhættuþætti gáttatifs og sjúklingar með gáttatif bornir saman við þá sem höfðu reglulegan hjartslátt.

Niðurstöður: Tíðni gáttatifs var 44%, marktækt hærri eftir ósæðarlokuskipti en hjáveituaðgerð. Sjúklingar með gáttatif voru eldri, oftar konur, sjaldnar með sögu um reykingar, voru með lægra útfallsbrot hjarta og hærra EuroSCORE. Ekki var munur á lyfjameðferð hópanna fyrir aðgerð utan að sjúklingar sem fengu gáttatif voru sjaldnar á statínmeðferð. Sjúklingar með gáttatif lágu lengur á sjúkrahúsi og höfðu marktækt hærri tíðni fylgikvilla og skurðdauða <30 daga. Í fjölbreytugreiningu reyndust ósæðarlokuskipti, saga um hjartabilun, hærra EuroSCORE og aldur sjálfstæðir forspárþættir gáttatifs. Þessir forspárþættir voru notaðir til að sníða áhættulíkan til að spá fyrir um líkur á gáttatifi eftir aðgerð. Langtímalifun sjúklinga sem fengu gáttatif var marktækt verri, en lifun í hópunum var 92% vs 98% ári frá aðgerð og fimm ára lifun 83% vs 93%.

Ályktanir: Næstum helmingur sjúklinga greindist með gátttif eftir aðgerð. Þessir sjúklingar voru mun líklegri til að fá fylgikvilla eftir aðgerð, legutími þeirra var lengri og lifun verri. Með niðurstöðum rannsóknarinnar var okkur unnt að sníða áhættulíkan sem mögulega gæti nýst við ákvörðun um hertari forvarnarmeðferð fyrir aðgerð.

  

V 77      Sóraliðlöskun á Norðurlöndum, algengi og sjúkdómsbirting

Björn Guðbjörnsson1,2, Leif Ejstrup3, Jan Tore Gran4, Lars Iversen5, Ulla Lindqvist6, Leena Paimela7, Thomas Ternowitz8, Mona Ståhle9

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3húðlækningadeild Árósum, 4gigtardeild Osló, 5gigtardeild Óðinsvéum, 6lyflækningadeild Uppsölum, 7gigtardeild Helsinki, 8húðlækningadeild Stavanger, 9Karólínsku stofnuninni Stokkhólmi

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: Að ákvarða algengi og lýsa sjúkdómsmynd sóraliðalöskunar (PAM) á Norðurlöndum. PAM er sjaldgæfur liðbólgusjúkdómur tengdur psoriasis og veldur alvarlegum liðskemmdum.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar með PAM, 18 ára og eldri sem bjuggu á Norðurlöndunum (Danmörk, Noregi, Íslandi og Svíþjóð) var boðið til þátttöku. Sjúklingarnir voru fundnir í samvinnu gigtar- og húðlækna ásamt sjúklingasamtökunum NORDSPO. Fimmtíu og níu sjúklingar fundust og komu til viðtals hjá húð- og gigtarlækni þar sem sjúkdómsgreiningin var staðfest og framkvæmd var kerfisbundið viðtal og skoðun auk þess sem sjúklingur gaf lífsýni.

Niðurstöður: Algengi PAM á Norðurlöndunum reyndist vera 3,69 tilfelli á hverja 1.000.000 íbúa (95% CI 2,75-4,63). Kynjahlutfall var nærri 1:1. Meðalaldur sjúklinga þegar húðsjúkdómurinn byrjaði var 25 ára, en 30 ára er liðsbólgurnar byrjuðu. Konur veiktust af húðsjúkdómnum tveimur árum fyrr en karlar. Við þátttöku í rannsókninni höfðu konur verið að meðaltali veikar vegna liðbólgusjúkdómsins í 33±11ár en karlar í 27±11 ár. PAM sást oftast í fjærkjúkuliðum í tánum, síðan í þumalfingri og í fjærkjúkulið vinstra litlafingurs. Við skoðun höfðu 54% sjúklinganna auma liði við skoðun og 47% höfðu merki um virkar liðbólgur. Þriðjungur hópsins hafði festumein og 64% höfðu sögu um pulsufingur, en enginn þeirra hafði einkenni þess á skoðunardegi. Tuttugu og þrír þeirra 38 sjúklinga (61%) sem höfðu sögu um pulsufingur, höfðu haft pulsufingur í þeim fingri eða tá þar sem þeir voru með PAM. Athyglisvert var að 45% þátttakenda höfðu mjög mildan eða engin merki um húðsjúkdóm við skoðun.

Ályktanir: PAM er sjaldgæfur sjúkdómur á Norðurlöndum. Frekari rannsóknir á rannsóknarhópnum, þar með talið erfðarannsóknir, mælingar á beinvísum, lífsgæðum og myndgreiningu eru í vinnslu.

 

V 78      Stafrænt áhættumat með sjálfvirkri meðferðarráðgjöf við beinþynningu

Björn Guðbjörnsson1,3,7, Aron Hjalti Björnsson1,2,3, Elvar Örn Birgisson4, Bjarni Vilhjálmur Halldórsson3,5, Þorsteinn Geirsson3, Björn Rúnar Lúðvíksson3,6,7

1Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum og 6ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild háskólans í Debrecen, Ungverjalandi, 3Expeda Reykjavík, 4myndgreiningardeildSjúkrahúsinu á Akureyri, 5tækni- og verkfræðideild HR, 7læknadeild HÍ

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: Á Íslandi verða 1400 brot vegna beinþynningar árlega, þar af 200 mjaðmabrot. Með virkri forvörn og beinverndandi lyfjameðferð hjá einstaklingum með aukna áhættu á beinbrotum má marktækt fækka beinbrotum. Til þess þarf að greina þá einstaklinga sem eru í hvað mestri brotaáhættu og velja rétt meðferðarform. Markmið þessa verkefnis var að hanna stafrænt áhættumatskerfi með innbyggðri sérfræðingsráðgjöf byggða á sannreyndum grunni og gera áreiðanleikakönnun miðað við reiknilíkan alþjóða heilbrigðisstofnunninnar (FRAX).

Efniviður og aðferðir: Með aðstoð gervigreindar var byggður áhættureiknir með tilliti til 10 ára áhættu á beinbrotum og sem sækir ráðleggingar í alþjóðlegar meðferðarleiðbeiningar, eftir að staðlaðar heilbrigðisupplýsingar eru færðar inn í vefkerfi. Kerfið skilar bæði með myndrænum hætti og í texta áhættumati, rannsóknarþörf, forvarnar- og/eða meðferðarráðgjöf ásamt því að ráðleggja um eftirlit. Kerfið hefur verið til reynslu innan heilsugæslunnar og við erlendar beinþéttnimóttökur. Kerfisbundið áhættumat var framkvæmt á 87 einstaklingum sem komu til beinþéttnimælingar á FSA. Allir þátttakendur svöruðu stöðluðu spurningablaði með tilliti til áhættuþátta. Niðurstöður brotaáhættu í reiknivél okkar (Expeda) var borin saman við FRAX.

Niðurstöður: Samanburður á áhættureikni er byggður á 87 einstaklingum, 76 konum og 11 körlum. Meðalaldur hópsins var 60 ár (min 24; max 82). Nær 100% samræmi var á milli 10 ára beinbrotaáhættu þegar reiknað var með Expeda og FRAX reiknivélunum; r=0,96022; p<0,001.

Ályktanir: Kerfisbundið áhættumat með aðgengi að bestu sérfræðiþekkingu á hverjum tíma tryggir bestu meðferð. Samanburður á áhættureikni FRAX og Expeda sýnir góða samsvörun. Frekari úttekt á heilsuhagfræðilegum ávinningi með notkun kerfisbundinnar meðferðarnálgunar er í farvatninu.

 

V 79      Engin tengsl eru á milli líkamsþjálfunar á mismunandi aldursskeiðum og algengis gerviliða í hnjám og mjöðmum vegna slitgigtar. AGES-Reykjavíkur rannsóknin

Sólveig Sigurðardóttir1, Sigurbjörg Ólafsdóttir1, Thor Aspelund1,2, Tamara B. Harris3, Vilmundur Guðnason1,2, Helgi Jónsson1,4

1Háskóla Íslands, 2Hjartavernd, 3National Institute on Aging, Bethesda, BNA, 4Landspítala

sos12@hi.is

Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort samband væri á milli líkamsþjálfunar á mismunandi aldursskeiðum og gerviliðaaðgerða vegna slitgigtar í AGES-Reykjavíkur rannsókninni.

Efniviður og aðferðir: Gerviliðir í hnjám og mjöðmum voru skráðir samkvæmt tölvusneiðmyndum. Þeir voru álitnir vera af völdum slitgigtar eftir að útilokaðir voru einstaklingar með brot eða liðbólgusjúkdóm. Algengi gerviliða í hnjám var 223 (4,3%) og í mjöðmum 316 (6,1%).
Líkamsþjálfun 5170 þátttakenda (2195 karlar, 2.975 konur, meðalaldur 76 ár) var skráð samkvæmt upplýsingum úr spurningalista. Spurt var hvort og hversu oft viðkomandi hafði stundað létta eða hóflega/kröftuga líkamsþjálfun á aldursskeiðunum 20-34 ára, 35-49 ára, 50-65 ára og á síðustu 12 mánuðum. Dæmi voru gefin um hvað teldist létt og/eða hóflegt/kröftugt. Svarmöguleikar voru aldrei, sjaldan, vikulega en minna en 1 klst í viku, 1-3 klst í viku, 4-7 klst í viku og meira en 7 klst í viku. Aðhvarfsgreining (regression analysis) var notuð við athugun tengsla.

Niðurstöður: Á síðustu 12 mánuðum sögðust 27,5% aldrei hafa stundað líkamsþjálfun, 17% sjaldnar en einu sinni í viku, 48% 1-7 klst á viku og 7,5 % meira en 7 klst á viku. Jákvæð tengsl voru á milli líkamsþjálfunar og karlkyns, yngri aldurs, lægri líkamsþyngdarstuðuls og minni reykingasögu en neikvæð tengsl voru við gerviliði. 12,1% sögðust aldrei hafa stundað líkamsþjálfun á ævinni. Engin tengsl fundust á milli líkamsþjálfunar á öðrum æviskeiðum og algengis gerviliða.

Ályktanir: Líkamsþjálfun á ólíkum æviskeiðum virðist ekki hafa áhrif á algengi gerviliða. Aldraðir einstaklingar sem komnir eru með gervilið stunda minni líkamsþjálfun en aðrir.

 

V 80      Áhrif af notkun bara stuðningspúða á vöðvavirkni í herðum við tölvuvinnu

Birna Hrund Björnsdóttir1, Steinþóra Jónsdóttir, Þjóðbjörg Guðjónsdóttir2

1Hrafnistu Hafnarfirði, 2námsbraut í sjúkraþjálfun, rannsóknastofu í hreyfivísindum HÍ

bhb8@hi.is

Inngangur: Stoðkerfiseinkenni í baki, hálsi og efri útlimum eru ein aðalástæða veikinda, færniskerðingar og skertrar vinnufærni í hinum vestræna heimi. Þessi einkenni eru oft tengd við sérstakar atvinnugreinar sem fela í sér endurtekið álag, til dæmis að vinna við tölvu.
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna meðaltalsvöðvavirkni efri hluta sjalvöðva (
upper trapezius muscle) og miðhluta axlarvöðva (middle deltoid muscle) við tölvuvinnu með og án stuðnings undir framhandleggi. Stuðningurinn undir framhandleggi var einungis veittur af bara stuðningspúðanum.

Efniviður og aðferðir: Þátttakenda var aflað í Nýherja og á bæjarskrifstofum Hafnarfjarðar. Þátttakendur voru 16 konur á aldrinum 20-65 ára án langvinnra stoðkerfiseinkenna. Konurnar vinna allar við tölvu að minnsta kosti fjórar klukkustundir á dag. Þátttakendum var stillt upp í góða setstöðu áður en mælingar hófust. Yfirborðsvöðvarafrit var notað til að mæla vöðvavirkni. Meðaltalsvöðvavirkni var mæld í efri hluta sjalvöðva og miðhluta axlarvöðva með og án bara stuðningspúðans meðan konurnar unnu verkefni í tölvu.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður sýndu fram á að ekki var marktækur munur á meðaltalsvöðvavirkni með og án bara stuðningspúðans í efri hluta sjalvöðva fyrir hægri (p=0,117) eða vinstri hlið (p=0,623). Marktækt minni meðaltalsvöðvavirkni mældist í miðhluta axlarvöðva með stuðningspúða heldur en án, fyrir hægri (p=0,012) og vinstri hlið (p=0,047).
Hugsanlega hefðu þátttakendur þurft meiri leiðbeiningar og æfingu í að nota púðann til að geta slakað á sjalvöðvanum, en erfitt er að draga ályktun um það vegna þess hve fáir þátttakendur voru í rannsókninni.
Þessi rannsókn er sú fyrsta sem gerð hefur verið á bara stuðningspúðanum og því bjóða framtíðarrannsóknir upp á mikla möguleika.

 

V 81      Faraldsfræði meiðsla hjá íslenskum karlkylfingum

Árný Lilja Árnadóttir1,3, Kristín Briem1, María Þorsteinsdóttir1, Ólafur Ingimarsson2

1Námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ, 2Landspítala, 3Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki

ala15@hi.is

Inngangur: Engin gögn eru til um faraldsfræði golftengdra meiðsla meðal kylfinga á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni og eðli golftengdra meiðsla meðal karlkylfinga á Íslandi með lága (fgj. ≤5) og miðlungsforgjöf (fgj. 10-20).

Efniviður og aðferðir: Fjögur hundruð karlkylfingar (hópur A: fgj. ≤5; B: fgj. 10-20) fengu sent kynningarbréf og í framhaldi tölvupóst með aðgangi að rafrænum spurningalista. Auk grunnspurninga um aldur, hæð, þyngd og forgjöf, var spurt um æfinga- og leikálag, aðra líkamsrækt og golftengd meiðsli: staðsetningu, áhrif á golfiðkun og alvarleika (metið á Numerical Rating Scale, NRS). Skilgreining meiðsla: sársauki, verkur, eymsli eða bólga sem tengjast golfiðkun. Tölfræði: t-próf, kí-kvaðrat og aðhvarfsgreining, öryggismörk: a=0,05.

Niðurstöður: Svarshlutfall var 40% (A: fgj. ≤5=77; B: fgj. 10-20=83). Hópur A var marktækt yngri en hópur B, æfði sig meira og tók þátt í fleiri golfmótum. Meiðslahlutfall var 50,6%, en ekki var marktækur munur á milli forgjafarhópa. Meiðsli reyndust flest álagameiðsli en 12% voru vegna skyndilegs áverka. Meiðsli í mjóbaki voru algengust og valda lengstri fjarveru frá íþróttinni. Marktæk fylgni reyndist á milli meiðsla og fjölda golfmóta (r=-0,2; p=0,01) og meiðsla og annarrar líkamsræktar (r=-0,17; p=0,03). Meiðsli í mjóbaki voru algengust (56,8% meiddra) og valda lengstri fjarveru frá íþróttinni. Hópur A var líklegri til að meiðast í hálsi (OR=3,87) en hópur B líklegri til að meiðast í ökkla (OR=3,87). Hópur A mat alvarleika meiðsla marktækt meiri, á NRS, en hópur B í mjöðm (p=0,05) og olnboga (p=0,04).

Ályktanir: Álagameiðsli eru algeng meðal karlkylfinga á Íslandi, en ekki er munur á meiðslatíðni eftir forgjöf. Mjóbaksmeiðsli eru algengust og mest hamlandi. Niðurstöður benda til þess að álagsmeiðsli dragi úr þátttöku í mótum og þeir sem stunda reglulega aðra líkamsþjálfun auk golfsins lendi síður í álagsmeiðslum.

 

V 82      Áhrif hjáveituaðgerðar á maga og görnum á beinabúskap og líkamssamsetningu

Díana Óskarsdóttir, Svava Engilbertsdóttir, Gunnar Sigurðsson

Háskóla Íslands, Hjartavernd, Landspítala

dianao@hi.is

Inngangur: Hér á landi hafa ýmsar stofnanir boðið upp á offitumeðferðir. Í dag geta sjúklingar farið í hjáveituaðgerð á maga og görnum þar sem magi er minnkaður og garnir styttar. Mikilvægt er að meta hugsanlega áhættuþætti sem af henni geta stafað.
Markmið rannsóknar er að kanna áhrif verulegs þyngdartaps og truflaðrar næringarupptöku hjá offitusjúklingum eftir hjáveituaðgerð á maga og görnum á beinabúskap karla og kvenna fyrstu tvö árin eftir aðgerðina ásamt því að greina áhættuþætti beintaps þegar kalk- og D-vítamíninntaka er tryggð.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur eru um 80 einstaklingar á aldrinum 18-65 ára karlar og konur sem hafa gengist undir forskoðun fyrir offitumeðferð, uppfyllt skilyrði sem gerð eru til dagdeildarmeðferðar og lokið undirbúningsmeðferð á Reykjalundi, haustið 2010 til 2012. Mælingar eru gerðar á beinþéttni í lendhrygg, nærenda lærleggs, heildarbeinagrind og fitu- og mjúkvefjamagn þátttakenda með DXA á Rannsóknarstöð Hjartaverndar við 0, 12 og 24 mánuði. Mat á inntöku næringarefna og líkamlegri hreyfingu þátttakenda er gerð með spurningalistum. Mælt er kalsíum í blóði, D-vítamín auk annars, eins og gert er við reglubundna skoðun á þessum hópi sjúklinga í dag. D-vítamíninntaka er tryggð með 20.000 einingum á viku (c. Decristol).

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að þyngdartap þátttakenda eftir 12 mánuðu frá aðgerð er að meðaltali 30,2% (p<0,001), fitumassi lækkar um 48,2% (p<0,001) og vöðvamassi 11,2% (p<0,001). Beinþéttni í lendhrygg lækkar um 3,8% (p<0,001), 8,2% (p<0,001) í nærenda lærleggs og 7% í heildarbeinagrind.

Ályktanir: Verulegt þyngdartap kemur fram á 12 mánaða tímabili eftir hjáveituaðgerð á maga og görnum. Beintap er nokkuð, sérstaklega í nærenda lærleggs. Næsta skref er að bera beintapið saman við innbyrðis tap á vöðvum og fitu ásamt því að skoða aðra þætti eins og líkamsáreynslu.


V 83      Frumkomið aldósterónheilkenni á Íslandi 2007-2011

Guðbjörg Jónsdóttir1,5, Jón Guðmundsson2,5, Guðjón Birgisson3,5, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir4,5

1Lyflækningasviði, 2myndgreiningarsviði, 3skurðlækningasviði og 4innkirtladeild lyflækningasviðs Landspítala, 5Háskóla Íslands

gudbjonsdottir@gmail.com

Inngangur: Háþrýstingur er meginorsök hárrar dánartíðni úr hjarta- og æðasjúkdómum í vestrænum heimi. Gögn frá Hjartavernd sýna að 35-40% af fullorðnum á aldrinum 46-67 ára eru með háþrýsting. Nýlegar rannsóknir benda til að frumkomið aldósterónheilkenni (FA) sé ekki eins sjaldgæft og áður var talið. Árið 2007 var farið af stað með staðlað rannsóknarferli á Landspítalanum til greiningar og meðferðar á FA. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að skoða algengi FA sem orsök háþrýstings á Íslandi og niðurstöður þessa greiningarferlis.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra þeirra 18 ára og eldri sem höfðu greinst með FA á Landspítala 2007-2011. Allir fóru í gegnum staðlað greiningarferli. Áður en skimun var gerð voru lyf sem hafa áhrif á renín-aldósterónkerfið stöðvuð í fjórar til sex vikur. Skimun var talin jákvæð ef blóðgildi aldósteróns var aukið og reníns lækkað að morgni og/eða aukið 24 klst þvag aldósterónmagn. Stöðupróf og salthleðslupróf voru notuð til að staðfesta greininguna. Allir með staðfestan FA fóru í sneiðmynd af nýrnahettum og nýrnahettubláæðaþræðingu. Þegar sýnt var fram á einhliða sjúkdóm var boðið upp á nýrnahettubrottnám gegnum kviðsjá. Tvíhliða sjúkdómur var meðhöndlaður með sérhæfðri lyfjameðferð.

Niðurstöður: Þrjátíu og þrír greindust með frumkomið aldósterónheilkenni á tímabilinu, 17 reyndust vera með tvíhliða sjúkdóm og 16 með einhliða sjúkdóm. Allir með einhliða sjúkdóm fóru í nýrnahettubrottnám, 11 reyndust hafa kirtilæxli og fjórir voru með ofvöxt í nýrnahettuberki. Í einu tilfelli voru niðurstöður úr meinafræði rannsókn ekki afgerandi.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að FA sé mikilvæg orsök háþrýstings á Íslandi og undirstrikar mikilvægi þess að finna og meðhöndla læknanlegar ástæður sjúkdómsins. Áhugavert er að einhliða ofvöxtur í nýrnahettuberki var ¼ af einhliða frumkomnu aldósterónheilkenni.

 

V 84      Samantekt og samanburður á lyfjaávísunum við útskrift aldraðra einstaklinga af sjúkrahúsi yfir á hjúkunar- og dvalarheimili

Auður Alexandersdóttir2, Þórunn K. Guðmundsdóttir1, Anna I. Gunnarsdóttir1

1Landspítala, 2lyfjafræðideild HÍ

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Á Íslandi fá íbúar á hjúkrunar- og dvalarheimilum lyf sín yfirleitt vélskömmtuð. Við útskrift af sjúkrahúsi yfir á hjúkrunar- og dvalarheimili þurfa lyfjaupplýsingar að berast á milli þriggja aðila: sjúkrahúss, hjúkrunar- og dvalarheimilis og lyfjaskömmtunarfyrirtækis. Við hvern flutning er hætta á að ósamfella myndist í umönnun. Markmið rannsóknarinnar var að athuga samræmi lyfjaávísana við útskrift aldraðra einstaklinga af sjúkrahúsi yfir á hjúkrunar- og dvalarheimili.

Efniviður og aðferðir: Bornar voru saman lyfjaávísanir við útskrift af Landspítala við lyfjaávísanir á skömmtunarkortum fyrir einstaklinga 65 ára og eldri sem útskrifuðust yfir á hjúkrunar- og dvalarheimili á árinu 2011. Borin voru kennsl á misræmi í ávísun fastra lyfja.

Niðurstöður: Hlutfall tilfella með >1 lyfjamisræmi var 68,2%. Meðalfjöldi lyfjamisræma var 1,9 lyf. Hvorki kyn né aldur hafði marktæk áhrif á meðalfjölda lyfjamisræma. Algengustu misræmin voru úrfellingar (omission). Lyf af ATC-flokkum N (tauga/geðlyf), A (meltingarfæra/efnaskiptalyf) og C (hjarta-/æðasjúkdómalyf) höfðu flest misræmi. Virku efnin sem höfðu oftast lyfjamisræmi voru parasetamól, omeprazól, fjölvítamín, zópíklón og parasetamól/kódein. Tilfelli sem útskrifuðust af öldrunarlækningadeildum höfðu marktækt færri lyfjamisræmi en þau sem útskrifuðust af öðrum deildum (p<0,001). Allt að tvöfaldur munur var á hlutfalli lyfjamisræma á milli mismunandi hjúkrunar- og dvalarheimila. Áhættumat lækna á úrtaki lyfjamisræma sýndu að um 23% misræma gætu valdið mikilli áhættu fyrir sjúklinga.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að misræmi sé á milli lyfjaávísana aldraðra við útskrift af sjúkrahúsi yfir á hjúkrunar- og dvalarheimili. Ekki er þó hægt að vita hve stórt hlutfall lyfjamisræma eru meðvitaðar breytingar gerðar af læknum og hve stórt hlutfall eru vegna villna. 

 

V 85      Við hverju er lyfið? Þekking fólks á tilgangi lyfjameðferðar sinnar

Erla Hlín Henrysdóttir2, Anna I. Gunnarsdóttir1,2, Ástráður B. Hreiðarsson1

1Landspítala, 2lyfjafræðideild HÍ

erlahenrys@gmail.com

Inngangur: Ákaflega mikilvægt er að fólk sem tekur lyf hafi skilning á tilgangi meðferðarinnar, ekki síst til að auka meðferðarheldni og þar af leiðandi árangur meðferðar. Við það að taka lyfjasögu sjúklinga hafa lyfjafræðingar á Landspítala orðið þess áskynja að eitthvað er um að sjúklingar viti ekki ástæðu lyfjameðferðinnar eða telja meðferðina vera við öðrum sjúkdómum en raunin er. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þekkingu þátttakenda á tilgangi eigin lyfjameðferðar, einnig var kannað hversu algengt væri að þátttakendur vildu hafa tilgang lyfjameðferðar skráðan á skömmtunarmiða lyfs og hvort þeir sem notuðu innöndunarlyf teldu sig hafa fengið kennslu í notkun þess.

Efniviður og aðferðir: Tekin voru viðtöl við 300 einstaklinga sem áttu bókaðan tíma á innskriftarmiðstöð, göngudeild sykursjúkra og göngudeild lyflækninga á 9 vikna tímabili frá janúar til mars 2012 á Landspítala. Þekking þátttakenda var könnuð með stöðluðum spurningalista, sem var metinn eftir ákveðnum kvarða og tjáður í prósentum.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 58 ár (20-90 ára). Þekking á tilgangi eigin lyfjameðferðar var 81,8%±22,9% (SD). Þekking minnkaði með aldri, 0,4% að meðaltali á ári (p<0,005). Fólk sem var í lyfjaskömmtun hafði minni þekkingu á tilgangi eigin lyfjameðferðar en þeir sem ekki voru í skömmtun, 58,9% á móti 83,9%, en þess ber að geta að meðalaldur þeirra sem voru í lyfjaskömmtun var mun hærri (71,2 á móti 56,4 ár). Af þátttakendum voru 78% fylgjandi því að hafa tilgang lyfjameðferðar skráðan á skömmtunarmiða lyfsins. Af þeim 74 þátttakendum sem notuðu innöndunarlyf sögðust 26 ekki hafa fengið neina kennslu í notkun þess.

Ályktanir: Þekking fólks á tilgangi eigin lyfjameðferðar virðist allgóð. Allt má þó bæta og mikill meirihluti fólks vill að ábending lyfjameðferðar verði ávallt skráð á skömmtunarmiða lyfs. Bæta þarf kennslu í notkun innöndunarlyfja.

  

V 86      Usnic-sýra og sjálfsát frumna

Egill E. Hákonarson1, Stefán Á. Hafsteinsson1, Margrét Bessadóttir2, Helga Ögmundsdóttir2, Pétur Henry Petersen1

1Rannsóknastofu í taugalíffræði og 2rannsóknastofu í krabbameinsfræðum HÍ

eeh3@hi.is

Inngangur: Usnín-sýra er fléttuumbrotsefni einangrað meðal annars úr hreindýrakrókum (Cladonia arbuscula). Sýnt hefur verið fram á að usnín-sýra hafi sýkladrepandi áhrif og áhrif á sjálfsát frumna. Vitað er að usnín-sýra kemur ójafnvægi á flutning róteinda yfir himnu hvatbera og hefur því áhrif á orkubúskap. Taugahrörnunarsjúkdómar geta sýnt svipað ójafnvægi sem leiðir til dauða taugafrumna. Einnig er mögulegt að usnín-sýra hafi sambærileg áhrif á leysikorn það er hafi áhrif á sýrustig þeirra og niðurbrotshæfni. Mikilvægt er að kanna áhrif efna yfir lengri tíma, til dæmis heilt æviskeið tilraunalífvera. Í þessari rannsókn voru áhrif usnín-sýru könnuð í ávaxtaflugunni (D. melanogaster) og HEK293T-frumum.

Efniviður og aðferðir: Flugum af villigerð var gefin usnín-sýra með því að blanda henni í 1% agarósa í styrknum 10µg/mL. Fylgst var með afkomu flugnanna í 10 daga. Einnig var metið hvort flugurnar forðuðust usnín-sýruna. HEK-frumur voru meðhöndlaðar með usnín-sýru í þrjá tíma. Sjálfsát var metið með smásjárskoðun og Western-greiningu á einangruðum próteinum úr frumum og flugum.

Niðurstöður: Við meðhöndlun HEK-frumna kom í ljós að usnín-sýran hvetur upphaf sjálfáts, en óljóst er hvort að sjálfsátsferlinu er lokið með eyðingu próteina. Usnín-sýra er ekki bráðdrepandi fyrir D. melanogaster til skamms tíma litið og þær forðuðust efnið ekki. Unnið er að úrvinnslu á mælingum á sjálfsáti flugnanna.

Ályktanir: Áhrif usnín-sýru á sjálfsát í HEK eru lík því sem sést hefur í öðrum frumum. HEK-frumur eru þekktar sem heppilegar tilraunafrumur og gætu því hentað vel til að rannsaka áhrif efnisins á frumur í rækt. Usnín-sýra hafði ekki eituráhrif á tilraunalífveruna D. melanogaster í skammtímatilraun og gæti því nýst til frekari rannsókna á áhrifum usnínsýru á heila lífveru sem gefur kost á sjúkdómslíkönum.

  

V 87      Flutningur lyfja í gegnum tilbúið slímlag

Hákon Hrafn Sigurðsson1, Alba Monjas Tejero2

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2Universitat de Barcelona, Facultat de Farmàcia

hhs@hi.is

Inngangur: Lyf þurfa að komast í gegnum slímlag eftir flestum algengustu lyfjagjafaleiðum sem notaðar eru. Þetta slímlag er seigt og getur haft mikil áhrif á frásog lyfja en það virðist þó frekar vera bygging og eðli slímlagsins en seigjustig þess sem veldur minnkuðu frásogi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna flæði lyfja með mismunandi fitusæknigildi (logP) í gegnum tilbúið slímlag og reyna að svara þeirri spurningu hvort seigjustig eða hlutfall fitusækinna sameinda í slímlagi hafi meiri áhrif á flæði lyfja í slímlaginu.

Efniviður og aðferðir: Notast er við hefðbundnar Frans-flæðisellur sem búið er að bæta við auka hólfi á milli gjaffasahólfs og móttökufasahólfs sem er aðskilið með gegndræpri himnu. Hólfið er 2,8mm að þykkt og tilbúnu slími (úr svínsmaga) með mismunandi eiginleika er komið fyrir í hólfinu og lyfjalausn með mismunandi hjálparefnum komið fyrir í gjaffasahólfi og flæðisellan keyrð í 6 tíma. Sýni úr móttökufasahólfi eru greind á háþrýstivökvaskilju.

Niðurstöður: Gegndræpi lyfja gegnum slímlag lækkaði með aukinni fitusækni þeirra. Fitusækin lyf virðast dreifast fyrst innan slímlagsins áður en flæði í gegnum lagið hefst sem sést með breytilegum biðtíma flæðis eftir styrk slíms. Vatnssæknar fléttur fitusækinna lyfja ferðast hraðar í slímlaginu en lyfin sjálf.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að hlutfall fitusækinna sameinda hafi meiri áhrif á flæði lyfja í slímlagi en seigjustig þess og að hugsanlega sé hægt að draga úr neikvæðum áhrifum slímlagsins á flæði lyfja með því að bæta við hjálparefnum sem auka vatnsleysni lyfjanna.

 

V 88      Efnasmíði N,N-díalkýlkítósanaleiða og fjórgildra N,N-díalkýl-N-metýl-kítósanafleiða

Priyanka Sahariah, Berglind Eva Benediktssdóttir, Már Másson

Lyfjafræðideild HÍ

prs1@hi.is

Inngangur: Rannsóknarhópur okkar hefur unnið að því að þróa skilvirkar og sérhæfðar efnasmíðaðferðir til smíði á vel skilgreindum kítósanafleiðum. Markmið verkefnisins var að þróa aðferði til smíði á N,N-díalkýl, N-metýl kítósanafleiðum.

Efniviður og aðferðir: Þróaðar voru aðferðir til smíði á dí-metýl-, dí-etýl-, dí-bútýl- og dí-hexýlkítósanafleiður með því að nota 3,6-O-dí-TBDMS-kítósan sem upphasefni. Mismunandi aðferðir til að fjórgilda þessi efni voru prófaðar.

Niðurstöður: Ímínafleiður voru myndaðar með því að hvarfa dí-TBDMS kítósan við viðeigandi aldehýð. Þessu hvarfi var fylgt eftir með afoxun til að mynda mónó-alkýlafleiður sem voru síðan meðhöndlaðar á sama hátt til að mynda tilsvarandi díalkýlafleiður. Notkun díTBDMS kítósans gerði mögulegt að framkvæma hvörfin í lífrænum leysum og þannig fékkst 100% N,N, díalkýlering. Prófaðar voru mismunandi aðferðir til að fjórgilda þessi díalkýleruðu efni, með metýleringu, en það tókst aðeins að litlu leyti. Svo virðist sem sterísk hindrun vegna TBDMS verndarhópsins dragi mikið úr hvarfgirni díalkýleraða amínóhópsins og því er mjög erfitt að fjórgilda TBDMS verndað kítósan. Hins vegar reyndist mögulegt að fjórgilda díalkýlafleiðurnar, eftir afverndun, með hvarfi við MeI í NMP sem leysi. Með þessari aðferð fengust fjórgild efni með góða vatnsleysni og því er vel mögulegt að rannsaka bakteríudrepandi áhrif þeirra. Hlutfallslegur fjöldi sethópa var fundinn út frá heild toppa í 1H-NMR rófum. Byggingargreining var einnig framkvæmd með IR greiningu COSY NMR greining.

Ályktanir: Það tókst að þróa skilvirka aðferð til smíði á fjórgildum díalkýlkítósanafleiðum. Þessi efni hafa vel skilgreinda byggingu og henta því vel til að rannsaka samband bygginga og bakteríudrepandi virkni.

  

V 89      Bakteríudrepandi eiginleikar fjórgildra kítósanafleiða

Priyanka Sahariah1 Vivek S. Gaware1, Martha Hjálmarsdóttir2, Már Másson1

1Lyfjafræðideild og 2lífeindafræði læknadeild HÍ

prs1@hi.is 

Inngangur: Sýnt hefur verið fram á að fjórgildar kítósanafleiður geta haft mikil bakteríudrepandi áhrif en samband byggingar og virkni er ekki vel þekkt fyrir þessi efn og því var markmið verkefnisins að kanna þetta samband.

Efniviður og aðferðir: 3,6-di-O-TBDMS kítósanafleiður með fimm misunandi mólþunga voru notaðar sem upphafsefni við efnasmíðarnar. Fjórgildar afleiður kítósans með mismunandi sethópum og mismunandi keðjulengd alkýlkeðja, sem tengja fjórgilda amínóhópin við fjölliðuna, voru smíðaðar. Virkni afverndaðra efna var mæld gegn gram jákvæðum Staphylococcus aureus (ATCC 29213) og gram neikvæðum Escherichia coli (ATCC 25922). Ákvarðaður var lægsti heftistyrkur (MIC) og lægsti drápstyrkur (MLC).

Niðurstöður: Staðvendin (regioselective) N-asýlering var framkvæmd með hvörfum við klórasýlklóríðum með mismunandi keðjulengd. Endastæða klóraatóminu var síðan skipt út fyrir trímetýlammóníumhóp eða pýridínumhóp. Afverndun var síðan framkvæmd í einu til tveimur skrefum til að fjarlægja að fullu TBDMS verndarhópinn. Trímetýlkítósanafleiður voru einnig smíðaðar. Efnin voru í flestum tilvikum virkust gegn S. aureus með MIC gildi á bilinu 4-16.384 µg/ml. Efnin reyndust hafa minni virkni gegn E. coli með MIC gildi á bilinu 64 til ≥32.768 µg/ml. Það reyndist lítill munur (0-2 þynningar) á MIC og MLC sem bendir til að efnin séu frekar bakteríudrepandi en bakteríuhamlandi. Trímetýlafleiður voru almennt virkari en pýrídínum afleiður. Eftir því sem fjórgildi hópurinn nálgaðist hryggjarstykkið í fjölliðunni (polymer backbone) jókst virknin. Mólþungi hafði lítil áhrif á virkni.

Ályktanir: Mismunandi kítósanafleiður með vel skilgreinda byggingu voru smíðaðar og notaðar til að skilgreina betur samband byggingar og bakteríudrepandi virkni en áður hefur verið gert.

 

V 90      Meso-Tetra-fenýlporfýrín-kítósanburðarefni fyrir ljósörvaða genaferjun

Vivek S. Gaware1,2, Monika Håkerud2,3, Sigríður Jónsdóttir4, Anders Høgset2, Kristian Berg3, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2PCI Biotech AS, Lysaker Noregi, 3The Norwegian Radium Hospital, Osló, 4Raunvísindastofnun, HÍ

 vsg3@hi.is

Inngangur: Markmið verkefnisins var smíða nanóburðarefni með góða eiginleika fyrir ljósörvaða genaferjun.

Efniviður og aðferðir: Vatnsleysanleg kítósan-nanóburðarefni með bundin meósótetrafenýlporfýrín (TPP) ljósörvaefni (PS) voru smíðuð í fjölskrefa efnasmíð og skilgreind sem TPPp0.1-CS-TMA0.9, TPPp0.25-CS-TMA0.75, TPPp0.1-CS-MP0.9, og TPPp0.25-CS-MP0.75. Notagildi burðarefnanna fyrir ljósörvaða genaferjun (PCI) voru könnuð með HCT116/LUC manna-ristilkrabbameinsfrumulínu.

Niðurstöður: 5-(p-amínofenýl)-10,15,20-trífenýlprofýrín [TPP(p-NH2)] og 3,6-di-O-tert-bútýldímetýlsilýl-kítósan (DiTBDMS-CS) voru notuð sem upphafsefni fyrir efnasmíðina. DiTBDMS-CS hefur mjög góða leysni í díklórómetani og því var mögulegt að nota þennan leysi fyrir magnbundnum hvörf þar sem fitusækna ljósörvaefnið var tengt við fjölliðuna. Síðan var trímetýlammóníumýl eða 1-metýlpiperazínýl hópar tengdir inn á þær fjölliðueiningar sem ekki höfðu verið hvarfaðar við ljósörvaefnið. Sýnt var fram á að það var mögulegt að stýra hvörfunum þannig að það fjölliðan var annað hvort 10% eða 25% setin með ljósörvaefninu. Flúrljómunar- og NMR-rannsóknir sýndu að afvernduðu efnin mynduðu nanóagnir í vatnslausn. Mælingar á breytilegri ljósdreifingu (dynamic light scattering) sýndi að stærð agnanna var á bilinu 100-350 nm. Vegna tvíleysnieiginleika geta agnirnar „opnast“ í fitusæknu umhverfi og þannig geta ljósörvaefnin stungist inn í frumuhimnuna. Þessi eiginleiki getur verið skýring þess að efnin reyndust mjög virk fyrir ljósörvaða genaferjun.

Ályktanir: Skilvirk aðferð til efnsmíða á kítósanburðarefnum fyrir TPP ljósörvaefnið var þróuð. Burðarefnin sýndu mjög mikla virkni í ljósörvaðri genaferjun.

  

V 91      Meso-Tetra-fenýlklórín-kítósanburðarefni fyrir ljósörvaða krabbmeinslyfjameðferð

Vivek S. Gaware1,2, Monika Håkerud2,3, Sigríður Jónsdóttir4, Anders Høgset2, Kristian Berg3, Már Másson1

1Lyfjafræðideild, HVS-HÍ, 2PCI Biotech AS, N-1366 Lysaker, Noregi,  3The Norwegian Radium Hospital, N-0310, Osló, Noregi, 4Raunvísindastofnun, HÍ

vsg3@hi.is

Ingangur:Markmið verkefnisins var smíða nanóburðarefni sem hafa góða eiginleika fyrir ljósörvaða krabbameinslyfjameðferð (PCI)

Efniviður og aðferðir: Fjögur ný meso-tetrafenýlklórín (TPC) tengd kítósanburðarefni (TPCCP0.1-CS-TMA0.9, TPCCP0.1-CS-MP0.9, TPCNP0.1-CS-TMA0.9 og TPCNP0.1-CS-MP0.9) voru smíðuð og virkni þeirra mæld in vitro og in vivo.

Niðurstöður: Efnasmíðaaðferðir fyrir tvö fitusækna klórín-ljósörvaefni, 5-(p-amínófenýl)-10,15,20-trifenýlklórín (TPCp-NH2) og 5-(p-karboxýfenýl)-10,15,20-trífenýlklórín (TPCpCO2H) voru hámarkaðar. Ljósörvaefnin voru tengd 3,6-dí-O-tert-bútýldímetýlsýlíl-kítósani (DiTBDMS-CS) þannig að 10% fjölliðueininganna voru setnar. Trímetýlammóníumýl (TMA) eða 1-metýlpíperzínýl (MP) hópar voru síðan tengdir inn á þá hópa fjölliðukeðjunnar sem ekki voru setnir með ljósörvaefni og TBDMS verndarahóparnir fjarlægðir. Mælingar á breytilegri ljósörvun (dynamic lightscattering) sýndu að burðarefnin mynduð nanóagnir í vatnslausn með 100-400 nm þvermál. Það var mögulegt að örva efnin með rauðu ljósi (650 nm) en það er ákjósanlegur eiginleiki fyrir PCI krabbameinsmeðferð. Burðarefnin gátu stuðlað að PCI örvaðri genaupptöku in vitro. Burðarefnin voru einnig metin með in vivo gegn krabbameinsæxlum í Hsd:Athymic nude-Foxn1nu kvennmúsum. Ómeðhöndluð dýr og dýr sem var gefið var TPCS2a + bleómýcín voru notuð sem viðmið. Sterk staðbundin PCI áhrif á krabbameinsæxlin komu fram þegar bleómýcín var gefið með burðarefnunum og æxlissvæðið ljósörvað.

Ályktanir: Mesó-tetrafenýlklórín (TPC) tengd kítósanburðarefni hafa sterk PCI áhrif á krabbmeinsæxli og í þessari fyrstu tilraun virtust áhrifin vera sambærileg við áhrif þess efnis (TPCS2a) sem er nú í klínískum prófunum.

 

V 92      Þróun líkans fyrir sílíkon-forðalyfjaform með fræðilegum aðferðum og tilraunum

Bergþóra S. Snorradóttir1, Rut Guðmundsdóttir2, Fjóla Jónsdóttir2, Tryggvi Á. Ólafsson1, Sven Þ. Sigurðsson2, Freygarður Þorsteinsson3, Már Másson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ, 3Össur hf.

bss@hi.is

Inngangur: Fræðilegar líkön sem lýsa forðalyfjaformum hafa aðallega einblínt á niðurbrotshæf kerfi þar sem lyfið losnar við það að forðakerfið leysist upp. Sílíkon eru líffræðilega samrýmanlegar og óniðurbrotshæfar fjölliður sem notaðar eru í ýmis forðalyfjaform og lækningatæki.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að framleiða marglaga sílíkonfjölliðu, með góða efnaeiginleika, sem getur losað lyf og hanna jafnframt stærðfræðilegt líkan sem getur lýst losun lyfja úr slíkum kerfum. Lyfjalosun var mæld í Frans-flæðisellum í langan tíma þar til allt að 90% lyfsins hafði losnað. Lögun og form sílíkonsins var skoðað í smásjá og rafeindasmásjá til að staðfesta að ekki hafi myndast rásir í forðakerfinu. Matlab og Mathematica var notað til að besta stærðfræðilegt líkan fyrir lyfjalosunina.

Niðurstöður: Losun natríumíbúprófens og natríumdíklófenaks var mæld úr fimm laga sílíkonforðakerfum með mismunandi lagskiptingu. Ólínulegar tengdar tvíafleiðujöfnur voru leiddar út frá lögmáli Noyes-Whitney og öðru lögmáli Ficks. Þessar jöfnur voru leystar með tölulegri greiningu í Matlab og Mathematica. Líkanið lýsti lyfjalosun úr sílíkonfjölliðuni og breytingu í styrk og dreifingu lyfsins í lyfjaforminu á hverjum tímapunkti. Líkanið gat lýst því hvernig styrkur lyfs, fjöldi laga, leysanleiki lyfsins í fjölliðunni, leysnihraði og dreifing lyfsins hafði áhrif á lyfjalosunina og hvernig hún breyttist með tímanum.

Ályktanir: Tölulega greiningin sem gerð var í þessari rannsókn staðfesti að líkanið lýsir losun úr marglaga sílíkon forðalyfjaformi og getur að verulegu leyti spáð fyrir um niðurstöður tilrauna. Þetta er fyrsta stærðfræðilega líkanið sem getur gert ráð fyrir takmörkum upplausnarhraða og misjafnri dreifingu lyfsins í forðakerfinu.

 

V 93      Endurmyndun á þroskamynstri í mænu við regulative endurnýjun á mænu í kjúklingafóstrum

Gabor Halasi1, Anne Mette Søviknes1, Ólafur E. Sigurjónsson2,3, Joel C. Glover1

1Dpt Physiology, Institute of Basic Med Sci, University of Oslo/Norwegian Center for Stem Cell Research & Dpt Immunol & Transf Med, Div Diagnost & Interv Háskólasjúkrahúsinu í Osló, 2Blóðbankanum, 3tækni- og verkfræðideild HR

oes@landspitali.is

Inngangur: Regualtive endurmyndun á vefjum er vel þekkt á fósturstigi, þar með talið endurmyndun á vefjum taugakerfisins. Slík endurmyndun, til dæmis í mænu, felur í sér endurmyndun á vef í gegnum fjölgun og sérhæfingu á stofnfrumum og forverafrumum og endurmyndun á tjáningarmynstri umritunarþátta, sem eru sértækir fyrir taugaforverafrumur og postmitotic tauga. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna þroskunarlegar mynsturbreytingar í regulative endurmyndun á mænu kjúklingafósturs með því að meta hlutfallslega fjölgun frumna og tjáningu umritunarþátta sem eru sértækir fyrir taugaforverafrumur og postmitotic taugafrumur.

Efniviður og aðferðir: Á þroskastigi HH14-17 í kjúklingafóstrinum voru einn eða fleiri hlutar (segment) af thoracolumbar hluta mænunnar (unilaterally) fjarlægður með in ovo skurði og látnir endurmyndast. Thymidine analog EdU var notaður til að meta frumufjölgun og tjáning umritunarþátta var metin með mótefnalitunum og Q-PCR.

Niðurstöður: Thymidine analog EdU og Q-PCR sýndu fram á væga aukningu í fjölgun frumna og tjáningu gena, sem taka þátt í frumufjölgun, í fóstrum þar sem taugaendurmyndun átti sér stað samanborið við viðmið. Endurmyndun á tjáningarmynstri umritunarþátta, sem eru sértækir fyrir taugaforverafrumur og postmitotic taugafrumur, var enduruppsett á meðan endurmyndun átti sér stað hvort sem endurmyndun var fullkomin eða ekki.

Ályktanir: Þessar niðursstöður benda til þess að endurmyndun á mænu snemma í fósturþroskanum geti átt sér stað þrátt fyrir að ekki verði mikil aukning í frumufjölgun. Einnig að tjáningarmynstur umritunarþátta, sem eru sértækir og mikilvægir í þroskun taugakerfisins er endurmyndað, janfvel þótt endurmyndun mænunnar sé ekki fullkomin. Þessar niðurstöður geta skipt máli í að skilja betur endurmyndun á mænu fullorðinna.

 

V 94      Chitohexaose og N-Acetyl Chitohexaose hafa mismunandi áhrif á beinsérhæfingu mesenchymal stofnfrumna

Ramona Lieder1,2, Sigríður Þóra Reynisdóttir1, Finnbogi Þormóðsson3, Jón M. Einarsson4, Jóhannes Björnsson5, Sveinn Guðmundsson1, Jóhannes Gíslason4, Pétur H. Petersen3, Ólafur E. Sigurjónsson1,2

1Blóðbankanum, 2tækni- og verkfræðideild HR, 3læknadeild HÍ, 4Genis ehf., 5Rannsóknastofu Háskólans í meinafræðum Landspítala

ramona@landspitali.is

Inngangur: Mesenchymal stofnfrumur (MSC), eru fjölhæfar frumur, sem hægt er að sérhæfa yfir í fituvef, beinvef og brjóskvef. Kítínfásykrur (chitooligosacharides) eru taldar geta stuðlað að vefajendurnýjun, þar með talið brjósk- og beinendurnýjun in vivo. Hins vegar er ekkert vitað um áhrif kítínfásykra á áhrif á beinsérhæfingu in vitro. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna áhrif tveggja kítínfásykra (Chitohexaose og N-Acetyl Chitohexaose ) á beinséræfingu frá MSC og kanna áhrif á tjáningu TLR-3,-4 og kítínasalíka próteinsins YKL-40.

Efniviður og aðferðir: Áhrif á fjölgun MSC var könnuð með MTT prófi og tjáning á YKL-40, TLR3, TLR4 var könnuð með Q-PCR. Beinsérhæfing var metin með því að skoða (með Q-PCR) tjáningu á genum tengdum beinsérhæfingu (ALP, Runx-2 og Collagen I) og með athugun á steinefnamyndun (Alizarin red). Greining á tjáningu bólguörvandi vaxtarþátta (IL-6 og IL-8) var gerð með Luminex bead array tækni.

Niðurstöður: Báðar kítínfásykrurnar höfðu aukin áhrif á tjáningu YKL-40, TLR-3, Runx-2 og Collagen I auk þess að auka seytingu á bólguörvandi vaxtarþáttunum IL-6 og IL-8. Chitohexaose hafði tölfræðilega meiri áhrif á aukningu í tjáningu YKL-40, TLR-3, Runx-2 og Collagen I og seytingu vaxtarþáttanna IL-6 og IL-8 samanborið við N-Acetyl Chitohexaose.

Ályktanir: Mögulegt er að nota kítínfásykrur til ræktunar beinfrumna utan líkama með því að markmiði að nota þau í læknisfræðilegum tilgangi. Hins vegar þarf að kanna nánar hvernig þessar kítínfásykrur örva beinsérhæfingu in vitro.

 

V 95      Starfræn skilgreining á frumulínum sem bera BRCA2 stökkbreytingar

Jenný Björk Þorsteinsdóttir1, Garðar Mýrdal2, Helga M. Ögmundsdóttir1,3

1Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri HÍ, 2geislalækningadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

jbth@hi.is

Inngangur: BRCA2 kemur úr hópi gena sem þekkt eru sem sterk áhættugen fyrir brjóstakrabbamein. Einstaklingar sem bera stökkbreytingu í þessu geni eru í mjög aukinni áhættu á að fá brjóstakrabbamein og sumar aðrar gerðir krabbameina, einhvern tímann á lífsleiðinni. Aðalhlutverk BRCA2 í frumunni er í villulausri þáttaparaviðgerð á tvíþátta brotum á erfðaefninu. BRCA2 gegnir einnig hlutverki i frumuskiptingu og skortur veldur tilhneigingu til fjórlitnunar. Markmið verkefnisins var að kanna hæfni til þáttaparaviðgerðar og ástand geislaskauta í frumum sem eru arfblendnar um BRCA2 genið og áhrif þöggunar á BRCA2

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru fjórar brjóstafrumulínur sem eru arfblendnar um þrjár mismunandi stökkbreytingar í BRCA2 geninu. Innsetning á siBRCA2 var framkvæmd og fjölgun geislaskauta metin fyrir og eftir innsetningu á siBRCA2 með mótefnalitun gegn g-tubulini. Tvíþátta DNA brot voru mynduð annars vegar með 8 Gy geislun og hins vegar meðhöndlun með PARP hindra og viðbrögð við skemmdum metin með mótefnalitun gegn RAD51 og gH2AX.

Niðurstöður: Hjá arfblendnum frumum var hlutfall frumna sem sýndu fjölgun geislaskauta (>2) um það bil 10% en eftir siBRCA2 innsetningu hækkaði hlutfallið í um það bil 23%. Myndun tvíþátta brota eftir geislun var staðfest með litun fyrir gH2AX. Arfblendnar frumur sýndu eðlilega hæfni til að hefja þáttaparaviðgerð, metið með litun fyrir Rad51. Vísbendingar eru um að hæfni sé minnkuð eftir þöggun á BRCA2, en eftir er að endurtaka tilraunir.

Ályktanir: Niðurstöður sýna gagnsemi þess að koma upp frumuræktunarlíkani sem byggir á siBRCA2 og líkir eftir aðstæðum sem verða í æxlum hjá einstaklingum sem bera stökkbreytingu í BRCA2. Slíkt líkan gæti komið að miklu gagni við prófanir á nýjum krabbameinslyfjum.

 

V 96      Tjáning og hlutverk fibronectins í greinnóttri formgerð brjóstkirtils

Tobias Richter1,3, Magnús Karl Magnússon1,2,3, Þórarinn Guðjónsson1,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum og 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 3rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala

tobias@hi.is

Inngangur: Brjóstkirtillinn er samsettur af greinóttum þekjuvef sem umlukinn er æðaríkum bandvef. Þeir ferlar sem stýra myndun greinóttrar formgerðar eru svipaðir þeim sem koma við sögu í bandvefsumbreytingu þekjufrumna (epithelial to mesenchymal transition, EMT). EMT er þroskunafræðilegt ferli sem sést við myndun miðlags og þegar sár gróa. Krabbameinsfrumur nýta sér EMT til þess að vaxa ífarandi inn í aðlæga vefi og meinvarpast. Fibronectin (FN) er bandvefsprótein sem stýrir greinóttri formgerð í munnvatnskirtlum en lítið er vitað um hlutverk þess í brjóstkirtli. Markmið verkefnisins er kanna tjáningu og hlutverk fibronectins í greinóttri formgerð brjóstkirtils

Efniviður og aðferðir: D492 er brjóstaþekjufrumulína með stofnfrumueiginleika sem myndar greinótta formgerð í þrívíðri rækt. Við munum kanna tjáningu fibronectins í D492 og í eðlilegum brjóstvef. Jafnframt verður tjáning fibronectins bæld með lentiviral genaþöggun og áhrif þess könnuð í þrívíðum ræktunum. Aðrar aðferðir sem við beitum eru rauntíma PCR, Western blettun og smásjárskoðun.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður okkar sýna að fibronectin er tjáð í eðlilegum brjóstkirtli og einnig í D492 frumulínunni bæði í tví- og þrívíðri rækt. Í þrívíðri rækt er FN tjáð á samskiptum þekju og bandvefjar. Fibronectin er einnig tjáð í bandvefsfrumulínunni (D492M) sem búin var til út frá D492.

Ályktanir: Genaþöggun á fibronectin mun leiða í ljós hvaða hlutverki próteinið sinnir í greinóttri formgerð kirtilganga.

  

V 97      Áhrif Amphiregulins á sérhæfingu stofnfrumna í brjóstkirtli

Sylvía Randversdóttir1,2,3, Sævar Ingþórsson1,2,3, Bylgja Hilmarsdóttir1,2,3, Magnús Karl Magnússon1,2,3, Þórarinn Guðjónsson1,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum og, 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 3rannsóknastofu í blóðmeinafræði, Landspítala

syr2@hi.is

Inngangur: Týrósín kínasa viðtakinn EGFR er mikilvægur fyrir greinótta formgerð brjóstkirtilsþekju og breytingar á virkni hans og boðferlum koma við sögu í mörgum brjóstakrabbameinum. Greinótt formgerð kirtilsins samanstendur af kirtilþekju- og vöðvaþekjufrumum. Stofnfrumur í brjóstkirtli eru taldar sjá um nýmyndun þekjunnar og einnig er talið að mörg brjóstakrabbamein eigi upptök sín í þessum frumum. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka áhrif amphiregulins (AREG) sem er bindill fyrir EGFR á þroskun og sérhæfingu stofnfrumna í brjóstkirtli.

Efniviður og aðferðir: D492 er þekjufrumulína úr brjóstkirtli sem býr yfir stofnfrumueiginleikum. D492 getur myndað sérhæfðar kirtilþekju- og vöðvaþekjufrumur og í þrívíðri rækt myndar hún greinótta kirtilganga. D492 var ræktuð í tví- og þrívíðri rækt með og án AREG. Til að kanna tjáningarmunstur kirtilþekju- og vöðvaþekjufrumna voru framkvæmdar mótefnalitanir og Western blot gegn kennipróteinum kirtil- og vöðvaþekjufrumna.

Niðurstöður: Niðurstöður okkar sýna að AREG hefur bælandi áhrif á frumufjölgun í D492. Hins vegar verður aukning á vöðvaþekjusérhæfingu sem endurspeglast í aukinni tjáningu á Keratín 14. Þegar D492 var ræktuð í þrívíðri rækt með AREG myndast kirtilgangar svipað því og gerist venjulega hjá D492. Hins vegar breytist tjáning E-cadherins frá því að vera himnubundin (án AREG) yfir í það að verða dreifð innanfrumutjáning (með AREG). Western blot sýndi engan mismun á tjáningu E-Cadherin í æti sem innihélt AREG og ekki. Í þrívíðri ræktun mátti sjá að frumur, sem gefið var AREG, mynduðu greinótta formgerð fyrr en þær sem ekki fengu AREG.

Ályktanir: Hér sýnum við AREG hefur áhrif á vöxt og sérhæfingu D492 stofnfrumulínunnar. Nánari rannsóknir miða að því kortleggja betur hlutverk AREG í greinóttri formgerð brjóstkirtils.

 

V 98      Basal þekjufrumur lungna sýna merki um bandvefsumbreytingu í lungnatrefjun af óþekktum uppruna

Hulda Rún Jónsdóttir1,2,7, Ari Jón Arason1,2,7, Ragnar Pálsson1,2,3, Sigríður Rut Franzdóttir1,2,7, Tobias Richter1,2,7, Ólafur Baldursson1,4,7, Tómas Guðbjartsson5,7, Helgi Ísaksson3, Gunnar Guðmundsson6,7, Þórarinn Guðjónsson1,2,7, Magnús Karl Magnússon1,2,6,7

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum HÍ, 2blóðmeinafræðideild, 3rannsóknastofu í meinafræði, 4lungnadeild og 5hjarta- og lungnaskurðdeild Landpítala, 6rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og 7læknadeild HÍ

aja1@hi.is

Inngangur: Lungnatrefjun af óþekktum uppruna (idiopathic pulmonary fibrosis, IPF) er alvarlegur lungnasjúkdómur sem felur í sér aukna myndun bandvefsfruma í og við lungnaþekjuvef. Uppruni þessara frumna er ekki þekktur en talið er að bandvefsumbreyting þekjufrumna (epithelial-to-mesenchymal transition, EMT) geti stuðlað að vefjatrefjun í ýmsum líffærum, þar á meða lungnatrefjun. Það er hins vegar ekki vitað hvaða undirgerðir þekjufrumna í lungum koma við sögu í EMT. Basalfrumur í lungum eru taldar vera stofnfrumur sem sjá um myndun annarra þekjufrumna. Markmið þessa verkefnis er að kanna hvort basalþekjufrumur í sjúklingum með IPF sýni svipgerð EMT og einnig að kanna hvort slíkar frumur í rækt geti undirgengist EMT.

Efniviður og aðferðir: IPF lituð með hefðbundinni mótefnalitun. Basalfrumulínan VA10 notuð við frumuræktun. Próteintjáning einnig metin með Western blettun. RNA tjáning metin með q-rt-PCR. Frumuaðskilnaður framkvæmdur með mótefnabundnum segulkúlum.

Niðurstöður: Vefjasýni úr IPF lungum sýndu aukna tjáning á Vimentin og CK14 í þekjufrumum sem lágu aðlægt svæðum með lungnatrefjun (fibroblastic foci). Auk þess tjáðu frumurnar ekki lengur kenniprótein bifhærðra- eða slímseytifrumna. Sermisígildið UltroserG (UG) hvatar EMT í undirhópi VA10 frumna. Við ræktun á UG varð svipgerðarbreyting á þessum undirhópi. Frumurnar sýndu svo minnkaða tjáningu þekjupróteina og aukna tjáningu bandvefspróteina. Eftir aðskilnað gátu bandvefslíku frumurnar ekki lengur myndað greinótta formgerð í þrívíðum ræktum. Þær höfðu líka aukið skrið og vaxtarhraða. microRNA 200c tjáning var bæld í bandvefslíka hópnum og bendir það einnig til EMT.

Ályktanir: Þessi rannsókn gefur vísbendingar um að orsök IPF sé að hluta EMT þekjuvefsfrumna á aðlægum svæðum trefjunar og að basalfrumur geti verið uppspretta þessara bandvefsfrumna í trefjunarsvæðum sjúkdómsins.

 

V 99      Æðaþel örvar vöxt og myndun greinóttra formgerða í þrívíðum ræktunum hjá frumum af blöðruhálskirtilsuppruna

Jón Þór Bergþórsson1, Magnús Karl Magnússon1,2,3, Þórarinn Guðjónsson1,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum Lífvísindasetri og 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 3rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala

jon.bergthorsson@gmail.com

Inngangur: Þroskun líffæra sem mynduð eru af þekjuvef er háð samskiptum milli þekjufrumna sem mynda líffærið og annarra frumugerða í nærumhverfinu þar á meðal æðaþelsfrumna. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif æðaþels á formgerð þyrpinga af blöðruhálskirtilsuppruna í þrívíðu ræktunarkerfi og að þróa líkan sem endurspeglar þroskun kirtilsins.

Efniviður og aðferðir: Frumulínur (n=11) frá heilbrigðri blöðruhálskirtilsþekju og/eða krabbameini voru ræktaðar í grunnhimnuefni með og án æðaþels. Fylgst var með framvindu frumuþyrpinga í confocal smásjá og tjáning lykilpróteina í þekjuvef var skoðuð með mótefnalitun.

Niðurstöður: Æðaþelsfrumur örva myndun þyrpinga blöðuhálskirtilfrumna hvort sem uppruninn er í heilbrigðri kirtilþekju eða krabbameini. Myndun greinóttra og bandvefslíkra formgerða var mun algengari í samrækt með æðaþeli. Frumulínan PZ-HPV-7 sem upprunin er í eðlilegri (peripheral) kirtilþekju, myndaði stórar greinóttar frumuþyrpingar sem minna á uppbyggingu blöðruhálskirtilsins. Þessi eiginleiki var mjög háður þéttleika frumulínunnar í grunnhimnuefninu og leysanlegra boðefna frá æðaþelinu. Við aukinn þéttleika PZ-HPV-7 kemur fljótlega fram hindrun á myndun greinóttra formgerða en á hinn bóginn eru frumurnar ekki lífvænlegar við lítinn þéttleika, sérstaklega séu þær án samskipta við æðaþel.

Ályktanir: Þar sem PZ-HPV-7 er einangruð úr þeim hluta kirtilsins þar sem flest blöðruhálskirtilskrabbamein eiga uppruna sinn er líklegt að þrívítt frumuræktunarlíkan sem byggir á þessari frumulínu komi að notum í rannsóknum á krabbameinsmyndun auk augljósrar gagnsemi í rannsóknum á þroskun blöðruhálskirtilsins og samskiptum við æðaþel.

 

V 100    Breytingar á hjúppróteini mæði-visnuveiru við náttúrulegar sýkingar

Valgerður Andrésdóttir1, Margrét Guðnadóttir2, Hallgrímur Arnarson1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2veirurannsóknastofnun læknadeildar HÍ

valand@hi.is

Inngangur: Mæði-visnuveira er lentiveira sem smitast um öndunarveg og frá móður til afkvæmis með mjólk. Veiran á það sameiginlegt með öðrum lentiveirum (þar á meðal HIV) að hún helst í líkamanum þrátt fyrir öflugt ónæmissvar. Mikill breytileiki, sérstaklega í yfirborðspróteinum, er meðal þátta sem auðvelda veirunni að komast fram hjá ónæmissvarinu. Yfirborðsprótein lentiveira eru mjög sykruð, og hafa komið fram kenningar um að sykurhjúpurinn sé síbreytilegur og verji veirurnar fyrir mótefnasvari. Í bólusetningartilraun með mæði-visnuveiru, þar sem reynt var á bólusetningu í gegnum náttúrulegar smitleiðir, fékkst nokkur vörn, en þó smitaðist um það bil helmingur þeirra kinda sem voru bólusettar.
Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort þær veirur sem ræktuðust úr bólusettum kindum hefðu stökkbreytt væki í yfirborðspróteini og kæmust þannig fram hjá ónæmissvarinu.

Efniviður og aðferðir: Í bóluefni voru notaðar fixeraðar veiruagnir ásamt ónæmisglæði. Bólusettar kindur og óbólusettar voru hafðar með kindum sem voru sýktar með bóluefnisstofni. Veirur voru einangraðar bæði úr bólusettum og óbólusettum kindum og klónaður um það bil 450 bp bútur úr vækisstöð yfirborðspróteins.

Niðurstöður: Allir veirustofnar, hvort sem var úr bólusettum eða óbólusettum kindum höfðu stökkbreytingar í vækisstöð sem leiddu til þess að þeir komust undan sértæku ónæmissvari. Flestar þessar stökkbreytingar voru í sykrunarseti, sem styður þá tilgátu að sykrunin gegni sérstöku hlutverki hjá þessum veirum við að komast undan ónæmissvarinu. Úr kindum sem höfðu verið sýktar í æð ræktuðust veirur sem voru óstökkbreyttar, jafnvel 10 árum eftir sýkingu.

Ályktanir: Þetta bendir til þess að hluti af veirunum leynist einhvers staðar í vefjum líkamans án þess að endurmyndast, en að aðeins þær veirur sem eru virkar í endurmyndun sýki áfram.

 

V 101    Hlutverk Cul2 sets í Vif próteini mæði-visnuveiru

Harpa Lind Björnsdóttir, Valgerður Andrésdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

valand@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum er sífellt að koma betur í ljós að lífverur hafa komið sér upp ýmsum vörnum gegn veirusýkingum. Veirurnar hafa á hinn bóginn þróað tæki til að komast hjá þessum vörnum. Veiruhindrinn APOBEC3 er afamínasi sem afamínerar DNA retróveira um leið og það myndast og eyðileggur þar með veirurnar. Lentiveirur (mæði-visnuveira og HIV) hafa próteinið Vif sem tengir APOBEC3 við ubiquitin kerfi frumunnar og merkir það til niðurbrots í proteasomi. Cul5 og Cul2 eru hluti af E3 ubiquitin lígasaflóka. HIV-1 Vif bindur Cul 5, en MVV Vif bindur Cul2. Í þessari rannsókn var kannað hvort amínósýruröð í Vif sem líkist markröð Cul2 sé notuð við niðurbrot APOBEC3.

Efniviður og aðferðir: Stökkbreytingar voru gerðar á markröð Cul2 í vif geni. Kinda-fósturliðþelsfrumur (FOS) og kinda-æðaflækjufrumur voru sýktar með þessum stökkbreyttu veirum og vöxtur numinn með rauntíma-PCR. Þá voru sömu stökkbreytingar gerðar á klónuðu vif geni og áhrifin á niðurbrot APOBEC3 könnuð í HIV-1 vektora kerfi.

Niðurstöður: Í ljós kom að stökkbreytingarnar drógu úr vaxtarhraða veiranna. Hins vegar höfðu stökkbreytingarnar ekki áhrif á niðurbrot APOBEC3.

Ályktanir: Þetta set virðist því ekki mikilvægt við Cul2 bindingu, en er samt sem áður mikilvægt í fjölgunarferli veirunnar.

  

V 102    Jarðfræðileg skipting Íslands í háhitasvæði og önnur svæði eftir sveitarfélögum í manntali 1981

Aðalbjörg Kristbjörnsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ

addab@simnet.is

Inngangur: Íbúar eldfjalla- og hverasvæða eru samkvæmt erlendum rannsóknum útsettir fyrir háhita hveragufum og vatni sem innihalda brennisteinssambönd, brennisteinsvetni, koldíoxíð, vetni, saltsýru og í litlu mæli arsen, blý, kvikasilfur og radon. Í erlendum rannsóknum hefur verið spurt hvort búseta á þessum svæðum leiði til krabbameinshættu, en þetta hefur ekki verið rannsakað hér á landi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort hægt væri að skipta landinu í háhitasvæði og önnur svæði í ljósi búsetu samkvæmt manntali 1981.

Efniviður og aðferðir: Manntalið 1981, jarðfræðikort og upplýsingar um sveitarfélög eru notuð til að greina sveitarfélög í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn eru þau sveitarfélög sem staðsett eru á svæðum þar sem vatn á 1000 m dýpi er heitara en 150°C og berggrunnurinn er yngri en 0,8 milljón ára og eru kölluð háhitasvæði. Næsti hópur er greinilega staðsettur utan háhitasvæðanna, þar sem hiti vatns á 1000 m dýpi er undir 150°C og berggrunnurinn er 3,3 til 15 milljón ára gamall, kölluð köld svæði. Um miðbik landsins eru sveitarfélög á berggrunni sem er 0,8 til 3,3 milljón ára og hitastig vatns á 1000 m dýpi bæði yfir og undir 150°C, kallað blönduð svæði.

Niðurstöður: Reykjavík og Reykjanes eru undanskilin úr þessari flokkun, en samkvæmt krabbameinsskrá eru krabbamein tíðari þar en annars staðar. Á vel afmörkuðum sveitarfélögum á háhitasvæðum eru á aldrinum 5-65 ára samkvæmt manntalinu 1497 íbúar, á köldum svæðum 22.431, á blönduðum svæðum 50.878.

Ályktanir: Einfalt reyndist að skipta íbúum landsins í hópa samkvæmt ætlaðri útsetningu fyrir háhitahveragufum og vatni. Reykjavík og Reykjanesi er sleppt þar sem vitað er úr erlendum rannsóknum að höfuðborgarsvæði hafa hærra nýgengi krabbameina en annars staðar af ástæðum sem ekki eru að fullu þekktar.

  

V 103    Sérkenni fólks á háhitasvæðum og öðrum svæðum á Íslandi

Aðalbjörg Kristbjörnsdóttir1, Vilhjálmur Rafnsson2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ

addab@simnet.is

Inngangur: Landinu hefur verið skipt eftir sveitarfélögum og jarðfræðiupplýsingum í þrjú rannsóknarsvæði. Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa sérkennum hópanna sem í manntalinu 1981 búa á háhita-, köldum og blönduðum svæðum.

Efniviður og aðferðir: Leyfi fyrir rannsókninni voru fengin frá Krabbameinsskrá, Hagstofu Íslands, Vísindasiðanefnd og Persónuvernd. Hagstofan veitti upplýsingar um alla á aldrinum 5-65 ára samkvæmt manntalinu 1981. Í manntalinu er skráð kennitala, aldur, kyn, búseta, menntun og gerð íbúðarhúsnæðis. Hagstofan fann úr sínum skrám dánardag og hvenær flutt var af landi brott, ef um það var að ræða. Upplýsingar um krabbamein voru fengnar úr Krabbameinsskrá. Samkeyrslur voru gerðar á dulkóðuðum kennitölum. Þjóðskrá veitti upplýsingar um frjósemisþætti kvenna eftir sveitarfélögum fyrir árin 1991-1995 og frá landlæknisembættinu fengust upplýsingar um tíðni reykinga eftir póstnúmerum á tímabilinu 1989-2010.

Niðurstöður: Í rannsókninni voru 74.806 einstaklingar og fjöldi persónuára í eftirfylgni var 1.901.786. Á rannsóknartímanum létust 6458, af landi brott fluttu 10.570, og með fyrsta krabbamein greindust 7689. Aldursdreifing, kyn og menntunarstig voru mjög áþekk á rannsóknarsvæðunum. Fyrir háhitasvæði var frjósemishlutfall 2,21 og meðalaldur við fæðingu fyrsta barns 22,56 ár, fyrir köld svæði 2,26 og 23,29 ár og fyrir blönduð svæði 2,23 og 23,11 ár. Tíðni þeirra sem aldrei höfðu reykt og búsettir voru á háhitasvæðum var 47,6%, á köldum svæðum 45,4% og á blönduðum svæðum 46,8%.

Ályktanir: Tölulegu upplýsingarnar úr manntali frá Hagstofu og Krabbameinsskrá henta vel til að greina eftir svæðum í COX-líkani, en þar sem upplýsingarnar um frjósemisþætti og reykingavenjur eru ekki á einstaklingsgrunni er einungis hægt að leiðrétta fyrir þeim á óbeinan hátt.

  

V 104     Samband reglubundinnar hreyfingar á fullorðinsárum og áhættu þess að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli

Soffía M. Hrafnkelsdóttir1, Jóhanna E. Torfadóttir1, Kristján Þór Magnússon2, Thor Aspelund1,3, Laufey Tryggvadóttir4,5, Vilmundur Guðnason3,5, Unnur A. Valdimarsdóttir1

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum læknadeild HÍ, 2íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ, 3Hjartavernd, 4Krabbameinsskrá Íslands, 1læknadeild HÍ

soffiahr@simnet.is

Inngangur: Sjúkdómsferli blöðruhálskirtilskrabbameins er ekki þekkt til hlítar. Rannsóknir benda til þess að umhverfisþættir gegni mikilvægu hlutverki og að hreyfing geti veitt vörn gegn sjúkdómnum. Markmið verkefnisins var að skoða samband reglubundinnar hreyfingar á fullorðinsárum og áhættu þess að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein, meðal íslenskra karlmanna.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um hreyfingu og aðra mögulega áhrifaþætti blöðruhálskirtilskrabbameins 9076 karlmanna voru fengnar úr 5 áföngum Reykjavíkurrannsóknar Hjartaverndar sem framkvæmdir voru á tímabilinu 1967-1987. Samkeyrsla við Krabbameinsskrá Íslands var notuð til að auðkenna þá þátttakendur sem höfðu verið greindir með eða látist úr blöðruhálskirtilskrabbameini fyrir árslok 2009.
Hættuhlutfall fyrir blöðruhálskirtilskrabbamein með 95% öryggismörkum (CI) var reiknað með lifunargreiningu Cox og einstaklingar sem stunduðu reglubundna hreyfingu í frítíma bornir saman við þá sem stunduðu enga líkamsrækt frá tvítugu. Greiningin var lagskipt eftir vinnutengdri líkamlegri áreynslu þátttakenda. Leiðrétt var fyrir öðrum mögulegum áhrifaþáttum.

Niðurstöður: Á eftirfylgdartímanum (meðaltal 24,3 ár) voru 1149 karlar greindir með blöðruhálskirtilskrabbamein, þar af 387 með langt gengið mein (dánarorsök eða stig III eða IV við greiningu). Borið saman við þá sem stunduðu enga líkamsrækt í frítíma en voru í líkamlega krefjandi starfi fannst marktæk minni áhætta á langtgengnu blöðruhálskirtilskrabbameini hjá þeim þátttakendum sem hreyfðu sig bæði í frítíma og við vinnu (HR=0,60; 95% CI: 0,37-0,99). Ekki fannst samband milli hreyfingar í frítíma og langt gengins blöðruhálskirtilskrabbameins meðal þeirra sem voru í lítið líkamlega krefjandi starfi.

Ályktanir: Reglubundin hreyfing í frítíma frá 20 ára aldri meðal þeirra sem eru í líkamlega krefjandi vinnu reyndist minnka áhættu á að greinast með langt gengið blöðruhálskirtilskrabbamein síðar á ævinni.

 

V 105     Tilviljunargreining á tölvusneiðmynd er sjálfstæður forspárþáttur lifunar sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini

Andri Wilberg Orrason1, Kristján Baldvinsson1, Húnbogi Þorsteinsson2, Martin Ingi Sigurðsson1, Steinn Jónsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3lungnadeild, Landspítala

andriwo@gmail.com

Inngangur: Lungnakrabbamein greinast oftast vegna einkenna en sum greinast fyrir tilviljun við myndrannsóknir sem gerðar eru við eftirlit eða vegna óskyldra sjúkdóma. Á síðustu árum hefur orðið aukning í notkun tölvusneiðmynda (TS) og segulómuna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort þessi þróun hafi fjölgað tilviljunargreiningum en um leið kanna áhrif tilviljunargreiningar á lifun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins á Íslandi 1991-2010. Sjúklingar með einkenni voru bornir saman við tilviljunargreinda á fjórum 5 ára tímabilum, með tilliti til klínískra og meinafræðilegra þátta en einnig lífshorfa. Forspárþættir lifunar og áhrif tilviljunargreiningar á lifun voru metnir með fjölbreytugreiningu.

Niðurstöður: Af 512 sjúklingum voru 174 (34%) greindir fyrir tilviljun og hélst hlutfall tilviljunargreininga svipað á milli tímabila. Æxlin greindust fyrir tilviljun á lungnamynd (76%) og TS (24%) en á síðasta fimm ára tímabilinu voru TS 43% tilviljunargreininga. Tilviljunargreind æxli voru minni (3,0 á móti 4,3 cm, p<0,001), oftar á lægri stigum (64 á móti 40% á stigi I, p<0,001) og kirtilfrumugerð algengari. Eftir að leiðrétt var fyrir öðrum þáttum í fjölbreytugreiningu, svo sem lægra TNM-stigi og aldri, reyndust sjúklingar sem greindust fyrir tilviljun á TS með marktækt betri lifun en sjúklingar með einkenni (HR 0,38, 95% Cl: 0,16-0,88, p=0,02).

Ályktanir: Þriðji hver sjúklingur sem gengst undir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins greinist fyrir tilviljun. Enda þótt hlutfall tilviljunargreininga hafi lítið breyst á síðustu tveimur áratugum er þáttur tölvusneiðmynda vaxandi, sem virðist fela í sér betri lífshorfur, jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir stigi sjúkdómsins.

 

V 106    Hlutlægt og huglægt mat á Nuss-aðgerð vegna holubringu við útskrift af sjúkrahúsi

Bjarni Torfason1,2, Helga Bogadóttir3, Steinunn Unnsteinsdóttir3, Gunnar Viktorsson4, María Ragnarsdóttir5

1Hjarta- og brjóstholsskurðlækningadeild Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Barnaspítala Hringsins, 4Sjúkraþjálfaranum Hafnarfirði, 5sjúkraþjálfun Landspítala

mariara@landspitali.is  bjarnito@landspitali.is

Inngangur: Nuss-aðgerðir við holubrjósti tóku við af opnum aðgerðum hérlendis 2004. Fjórar rannsóknir fundust á áhrifum aðgerðarinnar en engar á öndunarhreyfingum. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif Nuss-tækni við holubringu á lungnastarfsemi og öndunarhreyfingar ásamt því að meta álit sjúklings á útliti brjóstkassa síns og ánægju með aðgerðina.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 20 karlar 10-24 ára með Haller index >3,2 sem fóru í Nuss-aðgerð á tímabilinu mars 2010 til maí 2012. Mælingar á lungnarýmd, öndunarhreyfingum, mat sjúklings á útliti brjóstkassa síns og ánægja með aðgerðina fór fram fyrir skurðaðgerð og við útskrift. Mælingar verða endurteknar ári eftir aðgerð og 6 mánuðum eftir að spöng er fjarlægð.

Niðurstöður: Einn þátttakandi féll úr. Meðalaldur var 17±3 ár og meðal BMI 20,77±3,45 kg/m2, 16 stunduðu líkamsrækt. Við útskrift var meðal hámarks FVC 56,16% af gildum fyrir aðgerð, FEV1 57,02%, FEV1% 99,45% og PEF 53,32%. Verkir fyrir mælingu voru 2±1,81 en við mælingu 3±1,85 á kvarða 0-10. Kviðaröndunarhreyfingar voru að meðaltali 13,94% meiri en fyrir aðgerð, en lágrifjahreyfingar 62,91% minni og hárifjahreyfingar 60,02% minni en fyrir aðgerð. Verkir fyrir mælingu voru að meðaltali 1,94±1,56 á kvarða 0-10 og 3,56±1,41 við mælingu. Ánægja með útlit án fata metin á skalanum 0-10 var að meðaltali 4,76±3,62 fyrir skurðaðgerð en 9,12±1,22 eftir skurðaðgerð. Meðalánægja með aðgerð var 9,41±1,0 af 10.

Ályktanir: Viku frá aðgerð er mikil skerðing á öllum gildum lungnastarfsemi nema FEV1% miðað við fyrir aðgerð. Hreyfingar brjóstkassa eru mjög mikið skertar, sem bætt er upp að hluta með auknum hreyfingum þindar. Niðurstöðurnar vekja spurningar um hvort og þá hvernig bregðast eigi við þeim. Ánægja þátttakenda með útlit brjóstkassans og aðgerðina sjálfa var mjög mikil.

 

V 107    Berkjufleiðrufistill eftir drepmyndandi lungnabólgu, upprættur með einstefnuberkjuloka. Sjúkratilfelli

Sólveig Helgadóttir, Ásgeir Þór Másson, Lars Ek, Jónas G. Einarsson, Erik Gyllstedt, Bryndís Sigurðardóttir, Tómas Guðbjartsson

Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, lungna- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, smitsjúkdómadeild Landspítala, læknadeild HÍ

solveighelgadottir@gmail.com

Inngangur: Berkjufleiðrufistlar eru lífshættulegir fylgikvillar alvarlegra lungnasýkinga en geta einnig sést eftir stærri lungnaskurðaðgerðir. Hefð-bundin meðferð er umfangsmikil brjóstholsskurðaðgerð þar sem fistlinum er lokað með vöðvaflipa. Lýst er tilfelli þar sem stórum berkju-fleiðrufistli var lokað með einstefnuloka sem komið var fyrir með berkjuspeglun.

Tilfelli:Tæplega tvítugur karlmaður veiktist með háum hita og hósta á ferðalagi í SA-Asíu. Stuttu síðar sást á lungnamynd drepmyndandi lungnabólga með sýkingu í fleiðruholi. Í fyrstu lék grunur á berklum en frekari rannsóknir leiddu í ljós melioidosis sem er sýking af völdum bakteríunnar Burkholderia pseudomallei. Hann var meðhöndlaður með sýklalyfjum í æð og brjóstholskera en svaraði illa meðferð. Því var gerður brjóstholsskurður og næstum allt efra blað vinstra lunga fjarlægt. Við þetta batnaði líðan hans en viðvarandi loftleki flækti meðferð og var orsökin stór berkjufleiðrufistill. Eftir tæplega hálfs árs meðferð með brjóstholskera vegna stöðugs loftleka var ákveðið að reyna meðferð með einstefnuberkjuloka. Þessir lokar eru notaðir við lungnasmækkun teppusjúklinga. Í B1 og B3 berkjugreinar var komið fyrir tveimur 4-5,5 mm lokum af Zephyr/Pulmox®-gerð. Við þetta stöðvaðist loftleki og holrými í vinstri fleiðru dróst verulega saman. Átján mánuðum síðar var lokinn fjarlægður við berkjuspeglun. Í dag er sjúklingurinn við ágæta líðan og ekki merki um loftleka eða sýkingu í lunganu.

Ályktanir: Hægt er að beita einstefnuberkjulokum við berkjufleiðrufistli af völdum alvarlegra lungnasýkinga og hlífa þannig sjúklingum við stórum brjóstholsaðgerðum. Eftir því sem best er vitað hefur þessum lokum ekki verið beitt áður í slíkum tilfellum.

 

V 108    Nýgengi og meðferð utanlegsþykktar á Íslandi 2000-2009

Áslaug Baldvinsdóttir1, Jens A. Guðmundsson1,2, Reynir Tómas Geirsson1,2, Lilja Rut Arnardóttir3

1Læknadeild HÍ, 2kvennadeild Landspítala, 3Sjúkrahúsinu á Akureyri

asb11@hi.is

Inngangur: Utanlegsþykkt getur leitt til lífshættulegs sjúkdómsástands. Meðhöndlun utanlegsþykktar hefur tekið breytingum undanfarna tvo áratugi. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta breytingar á nýgengi og meðhöndlun utanlegsþykktar á Íslandi á árunum 2000-2009.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga var aflað um öll greind tilvik utanlegsþykktar, um meðferðarstað, aldur kvenna, meðferðartegund, legutíma, endurinnlagnir, staðsetningu þungunar og β-hCG fyrir meðferð. Nýgengi var reiknað miðað við fjölda skráðra þungana á almanaksári (n/1000), fjölda kvenna á frjósemisskeiði 15-44 ára (n/10.000) og í 5 ára aldurshópum. Breytingar á nýgengi, meðferð, aðgerðartækni og legutíma voru kannaðar. Gerður var samanburður á fimm ára tímabilunum 2000-2004 og 2005-2009.

Niðurstöður: Nýgengið var 15,6/1000 skráðar þunganir eða 12,9/10.000 konur á ári. Marktæk lækkun var á nýgengi allt tímabilið og milli fimm ára tímabila úr 17,3 í 14,1/1000 þunganir (p=0,003) og 14,1 í 11,7/10.000 konur á ári (p<0,009). Aðgerð var fyrsta meðferð hjá 94,9% kvenna, 3,2% fengu metótrexat og 1,9% biðmeðhöndlun. Hlutfall aðgerða lækkaði úr 98,0% í 91,3% milli fimm ára tímabila samhliða aukinni notkun lyfjameðferðar (0,4% í 6,4%; p<0,0001). Hlutfall kviðsjáraðgerða jókst milli 5 ára tímabila á öllu landinu úr 80,5% í 91,1% (p<0,0001), á Landspítala úr 91,3% í 98,1% (p=0,0003) og á sjúkrastofnunum á landsbyggðinni úr 44,0% í 69,3% (p=0,0005). Meðallega eftir opna kviðskurðaðgerð var 3,2 dagar en eftir kviðsjáraðgerð 0,9 dagar. Stytting var á meðallegu eftir opna skurðaðgerð úr 3,4 í 2,6 daga (p<0,007).

Ályktanir: Nýgengi utanlegsþykktar hefur lækkað á Íslandi. Meðhöndlun hefur breyst með aukinni notkun kviðsjáraðgerða í stað opinna skurðaðgerða og með tilkomu metótrexat-lyfjameðferðar.

  

V 109     Ljáðu mér eyra: Hvað einkennir þann hóp kvenna sem sækir viðtalsþjónustu vegna erfiðrar fæðingarreynslu?

Helga Gottfreðsdóttir2, Valgerður Lísa Sigurðardóttir1,2, Ólöf Ásta Ólafsdóttir1,2, Þóra Steingrímsdóttir1,3,4

1Kvenna- og barnasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild, námsbraut í ljósmóðurfræði og 3læknadeild HÍ, 4heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

helgagot@hi.is

Inngangur: Niðurstöður rannsókna benda til þess að 20-26% kvenna þjáist af fæðingarótta og um 1-2% kvenna þrói með sér langvarandi áfallastreitu í tengslum við meðgöngu, fæðingu eða sængurlegu. Ljáðu mér eyra er viðtalsþjónusta fyrir konur sem vilja ræða fæðingarreynslu sína. Þjónustan hefur verið í boði á Landspítala frá árinu 1999. Tilgangur rannsóknarinnar var meðal annars að skoða hópinn sem leitar til þjónustunnar, með tilliti til lýðfræðilegra þátta, heilsufars, stuðningsnets og fæðingarsögu.

Efniviður og aðferðir: Spurningalistar voru sendir út til allra kvenna (n=301) sem komu í viðtalsþjónustuna árin 2006 til 2011. Svörun var 44% (n=131).

Niðurstöður: Af hópnum höfðu 82,4% lokið tækniskóla eða háskólanámi, 80,8% kvennanna stunduðu vinnu utan heimilis og 93,1% voru giftar eða í sambúð, 96,2% kvennanna töldu sig vera við mjög (61,1%) eða við frekar (35,1) góða almenna heilsu. Andlega líðan töldu 37,4% vera mjög góða og 58% frekar góða. Af þessum hópi höfðu 65,6% einhvern tímann leitað sér aðstoðar vegna andlegrar vanlíðunar, flestar hjá sálfræðingi (48,1%) en einnig hjá geðlækni (16%), hjúkrunarfræðingi, heimilislækni og fleirum. Fyrstu niðurstöður verða kynntar með áherslu á að greina hvort bakgrunnur, eigið mat á heilsu og líðan, stuðningsnet og þættir úr fæðingarsögu þeirra hafa áhrif á fæðingareynsluna.

Ályktanir: Aukin þekking á þáttum sem hafa áhrif á fæðingarreynsluna stuðlar að markvissari greiningu og meðferð þessa hóps innan barneignarþjónustunnar. Niðurstöður rannsóknarinnar verða notaðar til að þróa enn frekar meðferð kvenna sem þjást af fæðingarótta eða hafa erfiða fæðingarreynslu.

 

V 110    Mæðradauði á Íslandi 1985-2009

Hera Birgisdóttir1, Reynir Tómas Geirsson1,2, Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir2, Katrín Kristjánsdóttir2

1Læknadeild HÍ, 2kvennadeild, kvenna- og barnasviði Landspítala

reynirg@landspitali.is

Inngangur: Tíðni mæðradauða var síðast skoðuð á Íslandi 1976, en er mælikvarði á gæði mæðraverndar og fæðingarhjálpar. Markmiðið var að yfirfara og flokka samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum öll tilvik þar sem kona lést á meðgöngu eða innan 42/365 daga frá þungun og ákvarða hvort dauðsfallið tengdist þunguninni.

Efniviður og aðferðir: Gögn frá Hagstofu Íslands um konur sem létust á frjósemisaldri (15-49 ára) árin 1985-2009 voru samkeyrð við fæðingaskráningu og vistunarskrár spítalanna til þess að finna konur sem létust á meðgöngu eða innan 42 og 365 daga frá fæðingu barns eða lokum snemmþungunar. Stuðst var við sjúkra- og krufningagögn og tilvik flokkuð í snemm- og síðkomið, beint, óbeint eða ótengt dauðsfall og meta ófullnægjandi meðferðaratriði.

Niðurstöður: Alls létust 30 konur, 26 eftir fæðingu (>22 vikur) og fjórar eftir snemmþungun (<22 vikur). Fæðingar voru 107.871 og heildartíðni dauðsfalla innan árs 27,8/100.000. Beintengd dauðsföll voru 4 (3,7/100.000), óbeint tengd 5 (4,6/100000) og ótengd (slysfarir, aðrir sjúkdómar) 21 (19,5/100000). Mæðradauði samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum (bein/óbein tilvik ≤42 dagar) var 5,6/100000. Orsakir beintengdra dauðsfalla voru alvarlegar meðgöngueitranir og fylgjuvefskrabbamein. Óbeint tengd dauðsföll urðu vegna sýkinga og undirliggjandi sjúkdóma svo sem sykursýki og hjartasjúkdóma. Engin kona lést í tengslum við utanlegsþungun, asablæðingu eða svæfingu. Í örfáum tilvikum voru ófullnægjandi meðferðarþættir til staðar.

Ályktanir: Mæðradauði á Íslandi er með því lægsta sem þekkist. Þungun fylgja líffræðilegar breytingar og álag sem geta leitt til lífshættulegs sjúkdómsástands. Önnur heilsufarsvandamál geta versnað. Áherslu þarf að leggja á úrræði fyrir konur í áhættuhópum og árvekni gagnvart alvarlegum fylgikvillum þungunar.

  

V 111    Þögul þjáning. Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum, langtímaafleiðingar fyrir heilsufar og líðan. Fyrirbærafræðileg rannsókn

Sigrún Sigurðardóttir, Sigríður Halldórsdóttir, Sóley S. Bender

Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands

sigrunsig@unak.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir sýna að kynferðislegt ofbeldi í bernsku getur haft mjög víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og líðan. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna heilsufar og líðan íslenskra karla sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknaraðferðin er eigindleg, fyrirbærafræðileg, Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði sem ætlað er að auka þekkingu og dýpka skilning á tilteknum mannlegum fyrirbærum í þeim tilgangi að bæta mannlega þjónustu eins og heilbrigðisþjónustuna. Þátttakendur voru sjö karlar með slíka sögu sem voru á aldrinum 30-55 ára er viðtölin áttu sér stað. Tvö viðtöl voru tekin við hvern karlmann, samtals 14 viðtöl.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kynferðislegt ofbeldi í bernsku getur haft mjög alvarlegar afeiðingar fyrir heilsufar og líðan. Upplifun karlanna einkenndist af reiði, hræðslu og líkamlegri og sálrænni aftengingu. Þeir hafa lent í einelti, átt í námsörðugleikum, verið ofvirkir, leiðst út í afbrot, áfengis- og fíkniefnaneyslu og verið með ýmis flókin heilsufarsleg vandamál. Sjálfsmynd þeirra er mjög brotin og hafa sumir notað kynlíf til að sanna karlmennsku sína. Þeir hafa átt erfitt með að tengjast mökum og börnum, lent í hjónaskilnuðum og eru allir forsjárlausir feður. Þeir sögðu ekki frá ofbeldinu vegna hræðslu og fordóma.

Ályktanir: Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og líðan karla. Þeir lifðu í þögulli og kvalafullri þjáningu vegna eigin fordóma og í samfélaginu og leituðu því ekki hjálpar eða sögðu frá fyrr en þeir voru komnir í andlegt þrot. Efla þarf þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á afleiðingum kynferðislegs ofbeldis í æsku til að greina slíkt fyrr og geta veitt viðeigandi meðferð.

 

V 112    Áhrif félagslegs stuðnings á andlega heilsu í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008. Framsýn rannsókn

Helga Margrét Clarke, Arna Hauksdóttir, Unnur Anna Valdimarsdóttir, Védís Helga Eiríksdóttir

Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ

helgamargretclarke@gmail.com

Inngangur: Rannsóknir gefa til kynna að félagslegur stuðningur hafi verndandi áhrif á bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar streitu. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að félagslegur stuðningur gegnir mikilvægu hlutverki til varnar andlegri vanheilsu þegar fólk verður fyrir margs konar áföllum. Efnahagshrunið á Íslandi árið 2008 og efnahagsþrengingarnar sem á eftir fylgdu voru áhrifamiklir breytingavaldar í lífi flesta Íslendinga, aðallega á andlega heilsu og þá einna helst meðal kvenna. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna miðlunaráhrif félagslegs stuðnings á andlega heilsu Íslendinga í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008.

Efniviður og aðferðir: Gögn úr rannsókn fyrrum Lýðheilsustöðvar, „Heilsa og líðan Íslendinga“ 2007 og 2009, voru notuð. Úrtakið var lagskipt, alls 9807 Íslendingar á aldrinum 18-79 ára árið 2007 og 5.294 árið 2009. Félagslegur stuðningur var mældur fyrir og eftir efnahagshrunið með tveimur aðskildum spurningum, streita með kvarðanum Perceived Stress Scale-4 (PSS-4) og andleg líðan með WHO-Five Well-being Index (WHO-5). Breyting á andlegri heilsu í kjölfar efnahagshrunsins og áhrif félagslegs stuðnings voru metin með kí-kvaðrat prófi og lógístískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður:Frumniðurstöður sýndu að streita jókst marktækt milli mælinga (p=0,009) og andleg líðan var einnig marktækt lakari árið 2009 samanborið við 2007 (p=0,01). Frumniðurstöður sýndu einnig að félagslegur stuðningur hafði almennt verndandi áhrif bæði á andlega líðan og streitu.

Ályktanir: Þessar frumniðurstöður sýna mikilvægi stuðnings þegar áföll steðja að. Félagslegur stuðningur reyndist hafa jákvæð áhrif á andlega líðan og gæti því verkað sem nokkurs konar verndarhula gegn neikvæðum áhrifum streituvaldandi atburða á andlega heilsu einstaklinga.

 

V 113    Ávinningur fjölskyldumeðferðarsamtals á virkni fjölskyldna með fyrirbura á vökudeild

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir1, Ólöf Ásta Ólafsdóttir1,2, Erla Kolbrún Svavarsdóttir1,2, Mary Kay Rayens3, Sarah Adkins4

1Kvenna- og barnasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3University of Kentucky, Lexington, BNA, College of Nursing and College of Pub Health, 4Eastern Kentucky University, Richmond, BNA, College of Justice & Safety

ingibhre@landspitali.is

Inngangur: Náttúrulegt ferli barneigna reynir á aðlögunarhæfni foreldra og annarra fjölskyldumeðlima að breyttu hlutverki og ábyrgð. Þegar foreldrar eignast fyrirbura sem þarf jafnvel að liggja svo vikum skiptir á vökudeild verða þeir fyrir ákveðinni röskun á aðlögun á foreldrahlutverkinu. Umönnun af hálfu ljósmæðra í sængurlegu á foreldrum fyrirbura á vökudeild hefur lítið verið rannsökuð. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta ávinning af fjölskylduhjúkrunarmeðferð í starfi ljósmóður. Meðferðin felst í stuttu meðferðarsamtali sem fer fram á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítala.

Efniviður og aðferð: Rannsóknin byggir á hugmyndafræði Calgary-fjölskyldumats- og meðferðarlíkansins. Rannsóknin var megindleg og stuðst var við aðlagað tilraunasnið með fyrir- og eftirprófi. Upplýsinga var aflað um bakgrunn þátttakenda og þeir svöruðu spurningalista um tilfinningalega virkni fjölskyldna fyrir hjúkrunarmeðferðina og aftur þremur dögum síðar. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 9 fjölskyldur í sængurlegu sem áttu fyrirbura á vökudeild. Hjúkrunarmeðferðin fólst í einu stuttu meðferðarsamtali.

Niðurstöður: Meginniðurstöður leiddu í ljós að feður upplifuðu marktækt minni tilfinningalega virkni fjölskyldunnar eftir meðferðarsamtalið en fyrir það. Ekki var marktækur munur á upplifun mæðra á tilfinningalegri virkni fjölskyldunnar fyrir og eftir meðferðarsamtalið.

Ályktanir: Við framkvæmd þessarar meðferðarrannsóknar hefur þekking og reynsla áunnist sem getur verið nýtt til að þróa meðferðarsamtal ljósmóður við foreldra í sængurlegu. Rannsóknin styður mikilvægi þess að rannsaka frekar reynslu foreldra í sængurlegu og þörf þeirra fyrir stuðning og fræðslu af hálfu ljósmæðra.


V 114    Mat á heilbrigðishegðunarlíkaninu

Rúnar Vilhjálmsson

Eirbergi

runarv@hi.is

Inngangur: Heilbrigðishegðunarlíkanið var upphaflega sett fram af Pearlin og Aneshensel til að skýra tengsl álags, sálfélagslegra bjarga og heilbrigðishegðunar. Fáar erlendar rannsóknir hafa metið líkanið sérstaklega og engin hérlendis. Tilgangur rannsóknarinnar var að leggja mat á líkanið.

Efniviður og aðferðir: Byggt er á gögnum úr landskönnuninni Heilbrigði og aðstæður Íslendinga I. Könnunin fór fram meðal slembiúrtaks Íslendinga á aldrinum 18-75 ára. Fjöldi svarenda í landskönnuninni var 1532 og heimtur voru 60%. Álag var metið útfrá ítarlegum lista yfir langvinna erfiðleika og neikvæða lífsviðburði síðastliðna 12 mánuði. Sálfélagslegar bjargir voru annars vegar samhjálp, metin með SEQ-spurningalistanum, og stjórnrót, metin með spurningakvarða Pearlin. Heilbrigðishegðun byggði á 7 atriða kvarða Belloc og Breslow.

Niðurstöður: Álag í formi neikvæðra lífsburða og langvinnra erfiðleika hafði neikvæð tengsl við heilbrigðishegðun. Aftur á móti hafði innri stjórnrót jákvæð tengsl við heilbrigðishegðun. Ekki voru marktæk almenn tengsl milli samhjálpar og heilbrigðishegðunar. Þá var ekki um marktækt samspil (interaction) að ræða milli sálfélagslegra bjarga og álagsþátta.

Ályktanir: Niðurstöður studdu einungis að hluta Heilbrigðis-hegðunarlíkanið. Samhjálp hafði ekki marktæk tengsl við heilbrigðishegðun almennt og ekki komu fram samspilsáhrif milli sálfélagslegra bjarga og álagsþátta. Þetta bendir til að líkanið geti þurft endurskoðunar við.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica