11. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Hlýnun jarðar og heilsa. Jón Snædal

Kaupmannahöfn 1. september 2009. Það er heiðskírt og sólin varpar geislum sínum yfir turnana í borginni. Léttklætt fólk á gangi meðfram kanalnum. Hitinn 27°C. Inni í ráðstefnusalnum er heilbrigðisráðherra Dana að flytja ávarp. Hann segist stundum heyra hjá löndum sínum að það sé ekkert að því að það hlýni aðeins þar og spurt sé hvort hlýnun jarðar hafi bara ekki góð áhrif á þessum breiddargráðum. Spurningunni svarar hann af þeirri ábyrgð sem ráðherra sæmir. Við verðum að hugsa um þá sem búi á öðrum breiddargráðum og geti búist við slæmum breytingum á veðurfari, aftaka stormum, langvinnum þurrkum, flóðum vegna úrhellis eða vaxandi útbreiðslu sýkla. Einnig geti sjávaryfirborð hækkað og þá er hann aftur kominn til Danmerkur sem er ekki vel sett ef það verður að veruleika.

Loftslagsmál hafa verið jarðarbúum hugleikin um skeið en umræðan komst á flug í tengslum við alþjóðaráðstefnuna í Kyoto. Nú stendur fyrir dyrum svipuð ráðstefna í Kaupmannahöfn og vonast menn eftir afdráttarlausari samþykkt en áður hefur verið gerð og að við hana verði staðið. Alþjóðasamtök lækna (WMA) beita sér nú fyrir því að þar verði rætt um fleira en pólitískar og tæknilegar lausnir og benda á að hlýnun jarðar sé þegar farin að hafa áhrif á heilsu manna. Þessi áhrif verða meiri á komandi árum jafnvel þótt komist verði að afdráttarlausri niðurstöðu sem verði svo fylgt. Samtökin hafa samt ekki mikil áhrif á alþjóðavísu fremur en félögin sem að þeim standa hvert í sínu landi. Það er því mikilvægt að hafa bandamenn eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). WMA bauð til fundar í Kaupmannahöfn sem haldinn var þennan sólríka og hlýja septemberdag en frumkvæðið kom frá danska læknafélaginu. WHO sendi háttsetta fulltrúa og tveir ráðherrar Dana ávörpuðu fundinn.

Hver eru áhrif hlýnunar jarðar á heilsu manna? Álit sem WMA hefur í smíðum byggist á rannsóknum vinnuhóps SÞ, The International Panel on Climate Change. Rannsóknirnar leiða margt sláandi í ljós og í drögum að álitinu var ekkert dregið undan. Fullyrt var að nú hefði fæðst fyrsta kynslóð manna sem muni líða svo fyrir skaðleg umhverfisáhrif að lífslíkur hennar verði skemmri en kynslóðarinnar á undan. Þetta er stór fullyrðing og þótt margar vísindalegar staðreyndir styðji hana er vonandi að hún rætist ekki. Í seinni drögum að ályktun WMA er búið að taka fullyrðinguna út því samtökin vilja forðast sleggjudóma, jafnvel þótt þeir geti átt rétt á sér.

Áhrif hlýnunar jarðar á mannfólkið verða einkum fyrir tilstilli vatns. Bráðnun jökla hækkar sjávaryfirborð. Flóð vegna úrhellis og meiri þurrkar eru dæmi um áhrif vatns og vatnsleysis. Flestir alvarlegustu sýklaberar þrífast bezt í raka og háum hita og þau skilyrði munu verða víðar en nú er. Umhverfisáhrif á heilsu geta verið tímabundin, hitabylgjur og dauðsföll vegna þeirra, ofsaveður og flóð. Önnur langvinnari áhrif eru þurrkar sem leiða til hungurdauða, dreifing malaríu og annarra sjúkdóma af völdum sýkla og aukin dreifing ofnæmisvaka (pollen). Ýmsir fyrirlestrar á fundinum vöktu athygli. Í Kóreu hafa menn skoðað áhrif hita og komist að því að dauðsföllum fjölgar þegar meðalhiti dagsins fer yfir 28°C. Í sama fyrirlestri kom fram að vatnsbúskapur í Himalaya er að breytast en milljarðar manna í fjölmennustu ríkjum heims byggja líf sitt á vatninu þaðan sem rennur fram í sex stórfljótum. Afríka leggur minnst til vandans en mun finna mest fyrir honum.

Mótvægisaðgerðirnar? Hvað geta læknar gert?

Margt af því sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda tengist heilbrigðum lífsstíl og slysavörnum og hvort tveggja láta læknar sig varða. Minni hraði umferðar dregur úr dauðsföllum og slysum og minnkar losun óæskilegra lofttegunda. Almenningssamgöngur, ganga eða hjólreiðar auka hreyfingu og bætu heilsu. Meiri neysla grænmetis og ávaxta í stað kjöts dregur úr orkueyðslu við framleiðslu. Þetta geta læknar rætt um við sjúklinga og má segja að hér bætist við ný vídd í þeim forvörnum sem við höfum stundað.

Hvað er fleira hægt að gera? Almenningur treystir læknum og fordæmi þeirra skiptir máli. Læknir sem stillir upp hjóli sínu fyrir utan vinnustaðinn er betri fyrirmynd en sá sem leggur þar upphækkaða jeppanum sínum. Ef læknar láta í sér heyra sem einstaklingar eða hópur er hlustað. Samtök lækna geta beitt sér, fordæmi LÍ í tóbaksvörnum er gott dæmi. Læknar geta einnig haft áhrif á sínum vinnustað en hugtakið „græni spítalinn“ verður áberandi í umræðu komandi ára þar sem hugað er að öllu, frá orkunotkun til förgunar spilliefna og WHO hefur skilgreint hvað í þessu felst.

Í tilefni fundarins í Kaupmannahöfn í desember mun Lancet helga eitt tölublað hlýnun jarðar og áhrifum hennar á heilsu manna og er það í fyrsta sinn í langri sögu tímaritsins sem allt blaðið er lagt undir eitt málefni. Málið er því komið á dagskrá og mun verða um ókomna tíð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica