05. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Læknar sem virða ekki mörkin. Óttar Guðmundsson

Skurðgoð sín heiðnir héldu

hafandi í mestu akt (H. Pét.)

Læknisfræðin er jafngömul mannkyni. Allt frá því að maðurinn skynjaði eigin tilveru og þær hættur sem ógnuðu henni, hafa læknar verið óaðskiljanlegur hluti þeirrar vegferðar sem við köllum sögu mannkynsins. Maðurinn lærði að óttast sjúkdóma og meiðsli og leitaði yfirnáttúrulegra skýringa á orsökum þeirra. Illar og góðar vættir, guðir og djöflar bjuggu í náttúrunni og réðu örlögum manna. Forfeður okkar leituðu uppi samningafólk sem gæti blíðkað guðina og hjálpað til í lífsbaráttunni. Þetta fólk kallaðist prestar, læknar eða galdramenn. Þeir stóðu nær almættinu en aðrir dauðlegir menn og gátu tjónkað við guðina sem réðu yfir lífi og dauða.

Guðdómur og lækningar hafa ávallt tengst þrátt fyrir tækniframfarir liðinna alda. Læknar hafa skilgreint sig sem raunvísindamenn en í huga margra eru mörkin á milli lækninga og guðlegra kraftaverka næsta óljós.

Margir bera óttablandna virðingu fyrir læknum af öðrum ástæðum. Læknar ráða greiðslum frá TR, örorku, bílastyrkjum og tilvísunum. Þeir stjórna innlögnum á legudeildir sjúkrahúsanna og hafa yfir lyfseðlablokk að ráða. Læknirinn sjálfur áttar sig fljótlega á því að tölvan hans er full af eyðublöðum og lyfseðlum sem mörgum finnst eftirsóknarverð auðæfi. Það gefur auga leið að margir vilja vingast við slíka menn og finnst heillavænlegra að hafa þá með sér en móti.

Auðlegðar gæðin líkamlig

láttu þó aldrei villa mig (H. Pét.)

Ég starfaði lengi úti á landi og skynjaði þá vel stöðu lækna í samfélaginu. Lækninum er fljótlega boðið að taka þátt í öllum samtryggingarklúbbum staðarins (Rotary, Lions, Frímúrarar) þar sem gagnkvæm tengsl eru efld. Fólk færir honum honum gjafir eins og guðunum í von um blessun og fyrirgreiðslu. Oftsinnis kom ég heim með humar, frosna nautalund eða bjórkassa sem einhver hafði fært mér á stofuna. Ég lenti nokkrum sinnum í minni háttar umferðarlagabrotum sem undantekningarlaust var stungið undir stól af viðkomandi sýslumannsembætti. Læknirinn finnur fljótlega fyrir mætti sínum og virðingu í samfélaginu. Honum standa flestar dyr opnar og hann er oft hafinn yfir lög og rétt. Allir læknar kunna sögur af drykkfelldum kollegum sem keyrðu meira eða minna ölvaðir um árabil í góðri sátt við yfirvöld.

Allt frá dögum Hippókratesar hefur læknum verið fullkunnugt um þær hættur sem stafa af þessum töframætti. Læknar eru breyskir og mannlegir eins og aðrir og geta séð sér leik á borði að misnota aðstöðu sína gagnvart sjúklingum sér til framdráttar. Í siðareglum landlæknisembættisins kemur þetta skýrlega fram en þar er brýnt fyrir læknum að fara varlega með vald sitt og nýta það einungis í þágu sjúklinga sinna.

„Læknir skal hafa það hugfast að náin persónu-leg kynni við sjúkling geta haft áhrif á dómgreind hans og faglegt sjálfstæði.“

Í nútímamáli er talað um mörk milli lækna og sjúklinga sem báðum beri að virða. En hvar liggja þessi mörk og hvernig eru þau best varin? Mega læknar eiga hagsmunaleg viðskiptatengsl við sjúklinga sína? Hvaða áhrif hefur það á dómgreind þeirra og sjálfstæði? Mega læknar taka við gjöfum frá sjúklingum sínum og hvaða þýðingu hefur það. Í Hávamálum segir „að gjalda skuli gjöf með gjöf“ og löng reynsla hefur kennt mér að ekkert er ókeypis í þessu lífi. Gjöfum og alls kyns fyrirgreiðslu er ætlað að liðka samskipti gefanda og læknis.

Þegar ég var ungur aðstoðarlæknir á Landspítala á áttunda áratug liðinnar aldar lá á einni skurðdeildinni aldinn og sársjúkur hestabóndi utan af landi. Deildarlæknir nokkur sat löngum hjá bóndanum á vöktunum og spjallaði við hann um hestamennsku og útreiðar. Þegar bóndi lést kom í ljós að læknirinn hafði á banasænginni keypt af honum einn eða tvo ómetanlega gæðinga. Þetta vakti talsverða athygli á spítalanum og ekki síður meðal erfingja karlsins sem þóttust eiga harma að hefna. Ekkert var þó aðhafst í málinu og læknirinn reið inn í kvöldroðann næstu árin á hestunum sem skyndilega höfðu skipt um eigendur eitthvert kvöldið í hálfrökkri sjúkrastofunnar þar sem þeir voru á hljóðskrafi. Hvaða áhrif hafa hneggjandi gæðingar í haga á dómgreind læknis og hestamanns? Fær bóndinn sömu meðferð og aðrir?

 

Djöfull, synd og samviskan ill

sálu mína þá kvelja vill (H. Pét.)

Freistingarnar eru nægar og hver einasti læknir fær á starfsævi sinni alls kyns missæmileg tilboð þar sjúklingar eða aðstandendur eru tilbúnir að færa honum fórnir til að tryggja sér liðveislu hans og lyfseðlablokk. Fyrir nokkrum vikum kom til mín gamall kunningi úr meðferðarkerfinu og bauð mér í viðskiptasamband. Hann vildi fá einn Contalgin 100 mg no. 100 lyfseðil á hálfsmánaðarfresti á eigið nafn. Fyrir þetta bauð hann 140-160 þús. krónur í peningum.

Í heimi eymdarinnar er læknirinn konungur með lyfseðlablokk sína og sambönd. Forfeður okkar litu með lotningu á tengsl hans við æðri máttarvöld en nú bera menn ekki síður virðingu fyrir áhrifum hans á veraldleg gæði. Margir eru tilbúnir til að greiða vel fyrir þjónustu læknisins og ekkert endilega eftir gjaldskrá læknafélagsins. Mörkin milli hins siðlega og hins ósiðlega eru oft óljós og vegurinn á milli þeirra vandrataður í íslensku kunningjasamfélagi.

Mörgum verður hált á mörkunum og vinna sér það fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans eins og sr. Hallgrímur sagði. Það er útilokað að gera sér einhverja vitræna grein fyrir umfangi slíkra brota. Læknar mundu aldrei viðurkenna slíkt opinberlega eða í einhverjum könnunum en freistingar samtímans glíma í sífellu við breyskleika læknisins og hafa oft betur.

 

Heimsins og djöfuls hrekkja vél

holdið þrálega villa (H. Pét.)

Í áðurnefndum siðareglum landlæknis stendur ennfremur: „Ótilhlýðilegt er að læknir stofni til kynferðislegs sambands við sjúkling sem hann hefur til meðferðar.“

Læknar eru mannlegir og breyskir og uppgötva snemma á starfsferli sínum að kynlíf er viðurkenndur gjaldmiðill í öllum mannlegum samskiptum. Í upphafi liðinnar aldar var um-ræðan um kynlíf læknis og sjúklings einkar lifandi meðal geðlækna af Freudskólanum en nokkrir þeirra (Otto Katz, Sandor Ferenczi og Carl Jung) viðurkenndu opinberlega kynlífssambönd við sjúklinga sína meðfram viðtalsmeðferðinni. Freud sjálfur var mjög ósáttur við þetta en sumir lærisveina hans töldu að slíkt kynlífssamband gagnaðist báðum aðilum. Eftir því sem leið á öldina voru þó slík samskipti bönnuð enda litið svo á að slíkt kynferðissamband skaðaði sjúklinginn og eyðilegði meðferðarsambandið.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna algengi kynlífssambanda lækna við skjólstæðinga sína en þær eru allar að mínu mati ómarktækar. Slíkt viðurkenna læknar sjaldnast fyrir eigin geðlækni eða sálfræðingi, hvað þá fyrir einhverjum spyrli álitskönnunar. Hér á Íslandi hafa 3-4 læknar verið sviptir lækningaleyfi vegna kynferðissambands við sjúklinga sína. En tilfellin eru að sjálfsögðu mun fleiri. Esra Pétursson geðlæknir viðurkennir í ævisögu sinni Sálumessa syndara að hafa haft mök við sjúkling sinn í meðferðartímum. Hann lýsir nákvæmlega aðdraganda þessa sambands með tilheyrandi geðgreiningum og innsæi. Esra hlaut enga refsingu frá hendi opinberra aðila en afleiðingar þessarar uppljóstrunar urðu mjög dapurlegar. Aðrir læknar hafa ekki lýst slíku yfir opinberlega en margir hafa einhvern tíma fengið tilboð um kynferðislega greiðasemi gegn viðvikum á móti.

Innan geðlæknisfræðinnar er stundum talað um háskaleg sambönd þar sem í hlut eiga mjög borderline kona og læknir með narsissistískan persónuleika. Þau enda stundum í rúminu saman og næra helstu veikleika hvort annars með kynlífi. Slík sambönd hafa tilhneigingu til að enda illa eins og kynferðisleg samskipti Esra við sjúkling sinn.

Margir sjúklingar verða ástfangnir af lækninum sínum og eru tilbúnir að gera hvað sem er til að sýna það. Stundum grípa læknar slík tækifæri og láta eigin kynhvöt ráða för. Esra alhæfir reyndar í ævisögu sinni um slík samskipti og segir: „stinnur limur svífst einskis.

 

Lát ekki djöful draga mig

í dofinleik holdsins blinda (H. Pét.)

Mestu skiptir grunnpersónuleiki læknisins og lífsafstaða hans. Læknar eru þverskurður af samfélaginu og í þeirra hópi eru fjölmargir persónuleikaraskaðir einstaklingar með alls kyns vandamál á sálinni. Læknar eru oft drykkfelldir og margir detta ofan í eigin lyfjaglös. Slíkir menn eru sérlega viðkvæmir fyrir alls kyns tilboðum um peninga eða kynlíf gegn læknisfræðilegri þjónustu af einhverju tagi. Óhamingjusamur læknir sér ofsjónum yfir ástarjátningum sjúklinga sinna og kastar fyrir róða siðalögmálum stéttarinnar fyrir stundarsælu. Læknirinn uppgötvar líka að margir eru tilbúnir að færa honum gjafir í lotningu til að tryggja liðsinni hans síðar meir og þeim mun veikari sem menn eru á svellinu „in Bacce et Venere“ er þeim hættara við að taka á móti slíkum greiðum.

 

 

Við skulum frá þeim flokki flýja

og fyrirgefningar biðja af rót (H. Pét.)

Læknar verða að hætta að styðja hver annan á neikvæðan hátt og þegja yfir misgjörðum hvers annars sakir misskilinnar læknasamstöðu. „Freisting þung ef þig fellur á, forðastu einn að vera þá,“ segir sr. Hallgrímur Pétursson. Læknar verða að geta talað saman um freistingarnar sem bíða á hverju strái og styðja þannig við hver annan á jákvæðan hátt. Landlæknisembættið á að beita menn refsingum eins og áminningum og leyfissviptingum þegar menn verða uppvísir að grófum brotum. Miklu skiptir að mönnum verði hjálpað með alkóhólisma og aðrar fíknir og eigi sér von um einhverja endurkomu inn í læknasamfélagið á nýjan leik. Læknadeild verður að brýna fyrir læknanemum að miklu skipti að halda árunni hreinni og menn átti sig á öllum freistingunum sem bíða þeirra þegar út er sé komið. Það er til von, jafnvel fyrir hina mestu syndaseli; eða eins og sr. Hallgrímur segir:

Enginn örvænta skyldi,

þó iðrast hafi seint.

 

Heimildir

Pétursson H. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar. Mál og menning, Reykjavík 1998.

Margeirsson I. Sálumessa syndara: ævi og eftirþankar Esra S. Péturssonar geðlæknis og sálkönnuðar. Hrísey 1997.

Roy P. Madness: a brief history. Oxford University Press, Oxford, New York 2003.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica