05. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Nýtt skipulag á Landspítala lofar góðu fyrir lækna. Viðtal við Pál Torfa Önundarson

Páll Torfi Önundarson hefur um árabil verið einn skeleggasti talsmaður í hópi lækna Landspítalans fyrir breyttri og bættri stjórn stofnunarinnar með aukin stjórnunaráhrif lækna að markmiði. Hann kveðst trúa á bjartari tíma því nýi forstjórinn, Hulda Gunnlaugsdóttir, hefur lagt fram nýtt skipurit sem kemur heim og saman að mörgu leyti við óskir flestra lækna um þátt þeirra í stjórnun spítalans.

„Hvað er það annað en þöggun þegar fólk óttast um framgang sinn í starfi ef það tjáir andstöðu sína,“ segir Páll Torfi.

„Að mínu áliti er ólíklegt að ráðist verði í nýbyggingu Landspítalans við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það hlýtur að bjóða upp á tækifæri til að endurskoða ákveðna hluti við þessa framkvæmd. Persónulega hef ég aldrei verið hrifinn af þeirri nýbyggingu sem fyrirhuguð er við Hringbraut. Mér finnst hún ekki standast forsendurnar sem voru fyrir staðarvalinu við Hringbraut. Forsendurnar voru þær að við Hringbraut væri langmest magn af nýtanlegu húsnæði, nálægð við háskólann og miðborgarsjónarmið voru einnig tínd til. Síðan var valið deiliskipulag sem nýtir lítið gömlu byggingarnar en í staðinn er fyrirhugað að byggja gríðarmikla lágreista byggingu sem kallar á löng ferðalög starfsmanna innan spítalans til að komast á milli starfsstöðva. Að mínu mati væri mun eðlilegri og ódýrari lausn að nýta efri hluta lóðarinnar, þar sem byggð yrði bráðaþjónustu-, skurðstofu- og gjörgæslubygging á lóðinni á milli W-byggingar, þvottahússins og Hjúkrunarskólans sem þyrfti að flytja annað. Hæðartakmarkanir eru úr sögunni þar sem leggja á niður norðausturflugbrautina og smám saman hefði verið hægt að bæta við legudeildum og nýta gömlu byggingarnar áfram fyrir skrifstofur og göngudeildir, þótt þær séu úreltar sem legudeildir. Þá þætti mér skynsamlegt að klára K-bygginguna og nýta það húsnæði undir rannsóknarstofur því í rauninni hefur aðeins verið reistur um þriðjungur þeirrar byggingar. Ég spái því að menn fari að skoða þessa möguleika núna þar sem framkvæmd upp á 80 milljarða er kannski ekki fremst í forgangsröð stjórnmálamanna núna.“

 

Brýn þörf fyrir nýjan spítala

Páll segir enga spurningu um að þörfin fyrir nýjan spítala sé brýn. „Aðstaðan sem nú er fyrir hendi í Fossvogi og við Hringbraut er í rauninni mestmegnis hönnuð löngu fyrir 1960. Að bjóða sjúklingum á legudeildum upp á fjölbýli með sameiginlegum salernum og sturtum er fráleitt í dag. Þetta býður uppá smithættu og hugsanleg dauðsföll og mistök. Tilgangurinn með byggingu og rekstri sjúkrahúss er númer eitt þjónusta við sjúklinga og það helst í hendur að aðstaða starfsfólks batnar með betri aðstöðu til þjónustu. Íslenskir stjórnmálamenn hafa aldrei skilið það grundvallaratriði í rekstri sjúkrahúss að fjárveitingar til nýbygginga og viðhalds eldri bygginga verða að vera innifaldar í árlegum fjárveitingum til reksturs stofnunarinnar, ákveðið hlutfall af rekstrarfé renni í það að endurnýja húsnæði jafnóðum. Þess vegna verður nýbygging Landspítala svo stór biti að kyngja í einu. Landsbyggðarþingmenn hafa verið duglegir við að berjast fyrir fjárveitingum til nýbygginga innan sinna kjördæma en spítalarnir í Reykjavík hafa í áratugi orðið útundan að þessu leyti; þar rennur engum blóðið til skyldunnar enda kannski ekki eftir neinu að slægjast í pólitísku tilliti. En þetta hefur hindrað eðlilega þróun sjúkrahússins á undanförnum árum og áratugum.“

Telurðu að sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík hafi verið jákvæð þróun?

„Það var hart deilt um sameininguna á sínum tíma. Fyrst var Landakotsspítali sameinaður Borgarspítalanum og það var óhönduglega gert. Þar voru sumir læknar (t.d. röntgenlæknarnir) og annað starfsfólk skilið eftir á köldum klaka sem mér fannst vera mjög rangt. Rökin fyrir sameiningu Borgarspítalans og Landspítalans voru þau að hægt yrði að auka sérhæfingu innan sérgreina lækninga. Það tókst að mínu mati en þar sem heimanmundinn vantaði, þ.e. eitt hús undir alla starfsemina, þá sundruðust sérgreinarnar hver frá annarri. Það hefur leitt til ómældra vandræða. Bráðaþjónustubygging hefði átt að rísa innan fimm ára frá sameiningunni og á þeim stað sem ég nefndi.

Ég var í hópi þeirra sem taldi á sínum tíma að rétt væri að sameina sjúkrahúsin en síðan fór það að mínu mati úrskeiðis, m.a. vegna stjórnhátta og stjórnkerfisvanda stofnunarinnar.“

Páll Torfi kom heim frá sínu sérnámi í Banda-ríkjunum 1991 og hóf störf við Landspítalann. Hann segist hafa staðið upp á aðalfundi læknaráðs 1992 og spurt hvað hefði eiginlega gerst á spítalanum á árunum á undan. Yfirlæknar sérgreinanna væru orðnir áhrifalitlir öfugt við það sem hann þekkti í Bandaríkjunum. Forstjórinn (Davíð Á. Gunnarsson, innsk. blaðam.) væri ólæknislærður og kæmi fram í dagblöðum hampandi nýburum og talaði um að að ósekju mætti fjölga heimafæðingum.

„Ég bar á fundinum upp nokkrar ályktunartillögur þess efnis að læknar þyrftu að koma meira að stjórn og forsvari spítalans. Að forstjórinn ætti að sinna rekstrarstjórn og vísa faglegum spurningum blaðamanna til yfirlækna viðkomandi sérgreina. Þetta var samþykkt samhljóða af læknum Landspítalans. Það næsta sem gerðist var að forstjórinn kallaði til fundar sinna manna og spurði hver hefði borið upp þessar ályktanir. Í stað þess að benda einfaldlega á að ályktanirnar hefðu verið samþykktar samhljóða á aðalfundi lækna, þá var bent á mig og sagt: „Palli gerði það.“ Þarna fann spítalastjórinn verðugan óvin, ungan mann með hættulegar skoðanir, og þar með hófst slagurinn. Svo má heita að ég hafi allar götur síðan verið í eins konar slag við yfirstjórnendur spítalans um stjórn hans, hef óvænt orðið einhvers konar „enfant terrible“ og hef greinilega hitt naglann á höfuðið strax í upphafi. Ég fékk ekki fastráðningu á Landspítalanum fyrstu sjö árin vegna þessarar óþekktar og áhrifamenn í læknastétt þurftu stundum að beita sér til að ég fengi endurráðningu auk þess sem kosning mín í stjórnir læknaráðs, Læknafélags Íslands og Sérfræðingafélag lækna hefur sjálfsagt styrkt stöðu mína gagnvart valdinu. Ég er búinn að fara í gegnum alls konar æfingar í tengslum við baráttuna fyrir bættu stjórnkerfi spítalans. Það sem þar gerðist var að mínu áliti það að stjórnkerfið starfaði samkvæmt eigin lögmálum sem hafði ekki lækningar og velferð sjúklingsins að fyrsta markmiði. Haldið var markvisst aftur af stjórnunaráhrifum lækna og því þurfti að breyta. Við sem vorum á þessari skoðun vorum kjörnir til forystu í læknaráðið. Þetta voru m.a. Sverrir Bergmann, Friðbjörn Sigurðsson, Þorbjörn Jónsson, Runólfur Pálsson, Bjarni Torfason o.fl. Svo beittu sér 17 yfirlæknar sérgreina á Landspítala og 12 þeirra sendu frá sér frægt bréf til ráðherra, þar af þrír sem fyrir hönd hópsins sendu kvörtun til umboðsmanns alþingis. Byggt á kosningu þessara lækna og endurteknum samþykktum almennra funda og aðalfunda læknaráðsins gat maður dregið þá ályktun að barátta okkar endurspeglaði skoðun meirihluta læknanna við spítalann. Sjálfur var ég til að mynda ekki sjálfkjörinn varaformaður læknaráðs Landspítala, en kosinn meirihlutakosningu. En vissulega voru ekki allir sammála okkur (eða aðferðum okkar) og mörgum þótti við vera harðdrægir. Enginn er ósár. En barátta okkar skilaði þó að lokum árangri sem ekki má glutra niður.“

 

Gítarinn er aldrei langt frá Páli Torfa þó luftgítarinn hafi verið látinn nægja fyrir þessa myndatöku.

 

Kom niður á þjónustu

Páll segist alls ekki hafa hugsað sér að eyða svo miklum tíma og orku í baráttu fyrir bættri stjórn spítalans. Hann hefði sannarlega getað hugsað sér aðrar áherslur á þeim árum sem í þetta hafa farið. „Sannfæringu minni og réttlætiskennd var hins vegar misboðið með þeim hætti að það var ekki um annað að ræða en takast á við þetta. Það má síðan segja að eftir sameininguna árið 2000 hafi verið farið úr öskunni í eldinn hvað varðar stjórnun Landspítalans því þá var fjölgað sviðsstjórum sem allir voru ráðnir án auglýsingar eða hæfnismats og þeir settir faglega yfir yfirlækna sérgreina, sem höfðu verið ráðnir á grundvelli auglýsingar og sannanlegrar hæfni. Sviðsstjórarnir voru „valdir“ með ógegnsæjum hætti og enginn gat sótt um störfin. Nýjar starfslýsingar þessara sviðstjóra voru í raun starfslýsingar yfirlækna eins og lög skilgreina störf yfirlækna. Þessu mótmæltum við margir úr hópi yfirlækna spítalans og síðan læknaráðið einnig. Fyrst var reynt að mótmæla innan spítalans og svo með bréfum, fundum og lögfræðiálitum. Loks var málinu skotið til umboðsmanns alþingis sem úrskurðaði að við læknarnir hefðum haft rétt fyrir okkur í meginatriðum. Ný heilbrigðislög tóku mið af áliti umboðsmanns, sbr. greinargerð heilbrigðisnefndar. Varðandi opinbera stjórnsýslu þá hvílir sú skylda á stjórnendum að fara eftir því sem tiltekið er í lögum og starfsvið yfirlæknis hefur verið faglega skilgreint í heilbrigðislögum allt frá 1932. Þar stendur hins vegar ekkert um sviðsstjóra. Spyrja má hvaða starf það sé? Yfirlæknar eru skilgreindir í lögum og eru því sérstakt stjórnunarlag. Þeir eru ábyrgir hver fyrir sinni grein. Sviðsstjórar geta hins vegar starfað samkvæmt framseldu valdi frá forstjóra og borið rekstrarábyrgð en þeir geta ekki og mega ekki bera faglega ábyrgð á sérfræðigreinum. Þar eru lögin ótvíræð og í þágu sjúklinganna hvað varðar ábyrgð og skyldur yfirlæknis. Að auki töldum við fráleitt að rekstrarábyrgð (ákvörðunarvald) væri aðskilin frá faglegri ábyrgð. Heilbrigðisnefnd Alþingis tók undir það. Í einkafyrirtækjum má hins vegar, ólíkt ríkisfyrirtækjum, gera allt sem ekki er beinlínis bannað í lögum. Þarna er grundvallarmunur sem þáverandi forstjóri (Magnús Pétursson, innsk. blaðam.) bar ekki gæfu til að átta sig á og komst upp með það lengi vel.“

Telurðu að þessi stjórnskipan stofnunarinnar hafi beinlínis skaðað þjónustu við sjúklingana?

„Ég er ekki í vafa um það. Þetta hafði þau áhrif að yfirlæknar sérgreinanna fjarlægðust æ meira yfirstjórn sjúkrahússins og það var á endanum orðið þannig að yfirlæknarnir voru aldrei kallaðir til af stjórn stofnunarinnar. Stjórnunarmódelinu verður helst líkt við tímaglas þar sem efrihlutinn þandist út og mittið þrengdist sífellt þannig að æ erfiðara var að koma skilaboðum á milli efri hlutans, stjórnunarhlutans, og neðri hlutans, lækningahlutans, þar sem hið eiginlega skilgreinda starf sjúkrahússins fór fram. Sem yfirlæknir blóðmeinadeildar sjúkrahússins var ég aldrei kallaður á fund stjórnenda til að gera grein fyrir starfsemi deildarinnar. Einn ágætur kollega líkti þessu ástandi við sjúkdóminn syringomyelia sem lýsir sér þannig að engin boð berast frá heilanum í fæturna eða frá fótum til heilans. Ég er ekki í minnsta vafa um að þetta truflaði þróun sjúkrahússins - og þar með lækningarnar.“

 

Þöggun átti sér stað

Páll segir að þessi átök um stjórnunaráhrif lækna Landspítala hafi staðið allt til þess að Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi heilbrigðisráðherra hafi tekið af skarið og skipt um stjórnendur ráðuneytisins og spítalans á síðasta ári.

„Nú fáum við stjórnskipurit fyrir spítalann sem mér sýnist vera líkt því sem við höfum verið að fara fram á allan þennan tíma. Það sýnist líka vera löglegt, sem er framför. Að sumu leyti gengur skipuritið lengra og stjórnuninni er dreift enn meira en við þorðum að gera okkur vonir um. Stöðum sviðsstjóra er fækkað úr um tuttugu og fimm í sex og sviðsstjórastaðan heitir núna framkvæmdastjóri sviðs. Þar er skýrt skilgreint að þeir þiggja rekstrarvald sitt frá forstjóra og það er einnig alveg skýrt að yfirlæknar bera bæði faglega og rekstrarlega ábyrgð, hver á sinni sérgrein. Við fáum skipurit sem er mjög líkt því sem við læknarnir höfðum sett upp á sínum tíma og tekur af allan vafa um ábyrgð og skyldur yfirlækna og einnig er undirstrikað með þessari tilhögun hvert hlutverk stofnunarinnar er. Þetta er lækningastofnun fyrst og síðast.“

Páll segir að í því andrúmslofti sem ríkt hafi á Landspítala til skamms tíma hafi ekki farið hjá því að margir hafi bognað og látið ýmislegt yfir sig ganga. Menn hafi óttast um stöðu sína og afkomu. Hann gefur jafnframt lítið fyrir niðurstöðu nýútkominnar skýrslu sem unnin var um meinta þöggun á Landspítalanum en þar segir efnislega að ekki sé tilefni til að álykta að þöggun hafi átt sér stað. „Það segir sig einfaldlega sjálft að þegar starfsmenn óttast um framgang sinn í starfi ef þeir gagnrýna opinberlega stjórnendur opinberrar stofnunar er það ekkert annað en þöggun. Sjálfur hef ég á þessum árum upplifað hótanir, verið rægður oftar en einu sinni, sniðgenginn af stjórnendum í starfi mínu á ýmsan hátt og jafnvel var reynt að fá mig til fylgispektar með gylliboði. Læknafélagið þekkir 10-15 alvarleg dæmi um þöggun en var ekki spurt við samningu skýrslunnar. Ég tel reyndar hlutleysi skýrsluhöfundar orka tvímælis vegna náinna starfstengsla hans við Magnús Pétursson, fyrrverandi forstjóra Landspítalans, en sá síðarnefndi var yfirmaður skýrsluhöfundar í fjármálaráðuneytinu í sex ár.“

 

Hljómdiskur væntanlegur

Páll Torfi er svo heppinn að hæfileikar hans liggja á fleiri sviðum en læknisfræðinnar en hann er mjög frambærilegur gítarleikari og tónsmiður. Hann segir að ekki leiki vafi á að tónlistin hafi hjálpað sér til að dreifa huganum og gleyma amstri dagsins. „Ég er svo gæfusamur að eiga góða vini í tónlistarbransanum og var eiginlega dreginn inn í þetta aftur eftir margra ára hlé frá opinberri spilamennsku.?„

Eflaust rekur marga sem komnir eru yfir miðjan aldur minni til sveitarinnar Diabolus in Musica sem fæddist í Menntaskólanum við Hamrahlíð á 8. áratug síðustu aldar en Páll Torfi var einn stofnenda hennar. „Eftir að ég hóf nám í læknadeildinni 1976 þá spilaði ég bara Bach og Scarlatti á gítarinn fyrir sjálfan mig, allt þar til að við komum saman nokkur og spiluðum í erfidrykkju Guðmundar Thoroddsen en hann var einn af stofnendum Diabolus. Hann hafði einmitt hvatt mig stuttu áður til að byrja að spila aftur. Síðan hef ég verið að spila af og til með ágætum mönnum og vinum mínum, Tómasi R. Einarssyni, Matthíasi Hemstock, Jóhönnu Þórhallsdóttur, Blúsbandi J.B., og fleirum. Þetta er þó sjaldnar en menn virðast halda. Blossar upp eins og herpes simplex. Ég hef tekið upp eina fimm hljómdiska á síðustu 12 árum og þar af eru tveir sólódiskar með tónlist eftir sjálfan mig.“

Í sumar er einmitt væntanlegur nýr diskur með tónlist þeirra félaganna ásamt Vilberg Vilbergssyni (Villa Valla), rakara og hljómlistarmanni á Ísafirði, en hann er nánast orðinn goðsögn í lifanda lífi þar vestra og þó víðar væri leitað. „Á þessum diskum eru gamlir slagarar sem við Tommi, Matti, Jóhanna og Villi Valli höfum spilað og sungið í Byggðasafninu á Ísafirði í svokallaðri „saltfiskveislu“ undanfarin sumur. Diskurinn kemur út í sumar (4. júlí) ásamt með saltfiskuppskriftabók en í saltfiskveislunni er eingöngu boðið upp á sólþurrkaðan saltfisk sem unninn er algjörlega upp á gamla mátann. Þurrkaður af safnastjóranum á steinunum fyrir framan byggðasafnið. Og er auðvitað miklu betri en sá saltfiskur sem verkaður er með nýjum aðferðum. Það eru sex kokkar sem sjá um eldamennskuna í veislunni og það verður enginn svikinn af að taka þátt í henni. Verst að hljómsveitin kemst aldrei fyrr en of seint í matinn.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica