03. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Endurhæfing fyrir atvinnuþátttöku.Viðtal við Kristínu Siggeirsdóttur, Guðmund Björnsson og Ómar Hjaltason

Janus endurhæfing ehf. hefur starfað frá árinu 2000. Eigendurnir eru þrír, þau Kristín Siggeirsdóttir iðjuþjálfi, sem er framkvæmdastjóri, Guðmundur Björnsson endurhæfingarlæknir og Ómar Hjaltason geðlæknir. Blaðamaður Læknablaðsins ræddi við þau Guðmund, Ómar og Kristínu á dögunum og kynnti sér starfsemina.

Náið samstarf er á milli Janusar endurhæfingar og Tækniskólans, segja læknarnir Ómar Hjaltason og Guðmundur Björnsson.

 

„Það er mjög ánægjulegt að takast á við þá áskorun sem fylgir því að vera með sjálfstæðan rekstur í heilbrigðisþjónustu,“ segir Guðmundur. „Þar spilar margt inn í. Í fyrsta lagi að bera ábyrgð á þeim fjármunum sem manni eru fengnir til að sinna ákveðnu verkefni á sviði læknisfræði. Í öðru lagi er einnig mjög ánægjulegt að geta sýnt fram á raunverulegan árangur og finna hvernig heilbrigðisþjónustan ber traust til okkar. Við erum jafnframt stöðugt að þróa okkar „vörur“, og einnig erum við í samkeppni við aðra aðila á þessu sviði sem er af mjög af hinu góða, því það heldur okkur vel við efnið og tryggir bestu fáanlega vöru,“ segir Guðmundur og brosir að þessum markaðslíkingum en segir þær þó alveg eiga við því margir þættir í samkeppnisrekstri séu hinir sömu þó varan sé ólík.

Ómar segir að á seinustu árum hafi framboð á endurhæfingu fyrir geðfatlaða ekki síður en líkamlega fatlaða aukist talsvert en fram að því að hafi vantað tilfinnanlega endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðræn vandamál. „Nú eru komin ýmis úrræði sem hvert hefur sínar áherslur og hentar mismunandi hópum. Þetta er allt á réttri leið en það má ennþá gera betur.“

Janus endurhæfing hóf starfsemi sína þann 18. janúar árið 2000 og frumkvöðull að stofnun fyrirtækisins var Kristín Siggeirsdóttir iðjuþjálfi. Árið eftir fékk hún Guðmund Björnsson endurhæfingarlækni í lið mér sér og í ársbyrjun 2005 bættist Ómar Hjaltason geðlæknir í hópinn. Fyrirtækið var í upphafi í eigu nokkurra lífeyris- og sjúkrasjóða en fyrir tæpum tveimur árum tóku þau þremenningarnir við fyrirtækinu og eru eigendur þess. „Það má segja að fyrri eigendur sem enn eru meðal okkar viðskiptavina hafi litið svo á að hlutverki þeirra sem frumkvöðla væri lokið; fyrirtækið væri komið á traustan grundvöll, hefði sannað tilverurétt sinn og gagnsemi og því fannst þeim rétt að draga sig út úr rekstri þess,“ segir Guðmundur.

Árið 2004 fékk fyrirtækið Starfsmenntaverðlaunin afhent af forseta Íslands fyrir framúrskarandi árangur og frumkvöðlastarf. Þeir segja að sérstaklega ánægjulegt sé að árangur starfseminnar hafi haldið áfram að vaxa ár frá ári allt fram til dagsins í dag.

Á heimasíðu Janusar kemur fram að fyrir-tækið hefur að leiðarljósi að sameina krafta sem flestra aðila í þjóðfélaginu þannig að hægt sé að bjóða upp á samræmda þjónustu í atvinnuendurhæfingu. Starfsemin er fjölbreytt og er fyrir einstaklinga sem vegna heilsubrests eru að/eða hafa þurft að hverfa frá vinnumarkaðnum eða úr námi og vilja komast út í atvinnulífið eða í nám.

 

Kristín Siggeirsdóttir framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar ehf.

 

Teymisvinna margra sérfræðinga

Mjög mikilvægur hluti endurhæfingarinnar felst í samstarfi við Tækniskólann - skóla atvinnulífsins og hefur Janus endurhæfing aðstöðu þar. Enda er það er í samræmi við hugmyndafræði starfseminnar að deildir framhaldsskóla henti vel til atvinnuendurhæfingar. Kennarar Tækniskólans koma að þeim hluta sem tengist kennslu. „Þetta samstarf heilbrigðis- og menntakerfisins gefur fólki möguleika á því að mennta sig um leið og það stundar endurhæfingu án þess þó að það sé skilyrði að nýta sér þann möguleika þar sem starfsemi Janusar endurhæfingar gefur fjölbreytta möguleika á aðlögun endurhæfingarinnar að þörfum þátttakanda,“ segir Krístín framkvæmdastjóri.

Faglegu starfi Janusar er stjórnað af sérfræðing-um á heilbrigðissviði. Hjá Janusi endurhæfingu starfa iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafar, sálfræðingur og að sjálfsögðu læknarnir ásamt fleiri sérfræðingum allt eftir þörfum hverju sinni. Starfsmenn ásamt verktökum eru um 25 talsins fyrir utan ráðgefandi sérfræðinga.

„Okkar skjólstæðingar eru fyrst og fremst þeir sem hafa „dottið útaf“ vinnumarkaði einhverra hluta vegna; ýmist vegna líkamlegra eða andlegra ástæðna, en oft fer þetta tvennt saman,“ segir Guðmundur. „Hingað leitar einnig fólk sem hefur flosnað upp úr námi og sér hér möguleika á að ljúka námi í gegnum samstarf okkar við Tækniskólann. Við veitum ýmis sértæk úrræði en í öllum tilvikum hefst þetta með nákvæmri greiningu á vanda hvers einstaklings og könnun á möguleikum viðkomandi, námsgetu og fleira og síðan ef við teljum að viðkomandi geti haft gagn af endurhæfingu hjá okkur þá setjum við saman endurhæfingaráætlun fyrir hann. Í greiningarvinnunni er lagt mat á hvort viðkomandi sé ?tækur? til endurhæfingar hjá okkur og einnig hvort önnur úrræði gætu ef til vill hentað betur,“ segir Guðmundur.

„Tryggingarstofnun ríkisins er með þjónustusamning við Janus endurhæfingu ehf. um ákveðinn fjölda einstaklinga á ári og geta starfsmenn heilbrigðisstofnana, Vinnumálastofnunar, velferðaþjónustu sveitarfélaganna og sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar sent umsókn sína hingað beint,“ segir Kristín.

„Stundum er fólki vísað hingað til okkar en á heima annars staðar,“ bætir Ómar við og segir að sitt hlutverk sem geðlæknis sé m.a. að leggja mat á andlegt ástand og getu viðkomandi. „Það hefur aukist jafnt þétt að einstaklingar leiti hingað sem eiga fyrst og fremst við andlega vanheilsu að stríða. Við teljum að ástæða þess sé ekki af því geðræn vandamál séu að aukast, heldur er skilningur að aukast og fólk leitar eftir bata og endurhæfingu alveg jafnt vegna geðrænna veikinda sem líkamlegra. Þetta skiptist núorðið nokkurn veginn til helminga að geðrænn vandi er aðalvandinn en oft er það nú þannig að geðræn vandamál fylgja í kjölfar þess að fólk hefur dottið út af vinnumarkaði vegna líkamlegra veikinda. Þá þarf að taka á hvorutveggja í endurhæfingunni.“

Endurhæfingin er mjög fjölbreytt enda reynt að laga hana að hverjum og einum. Hún getur falið í sér margskonar viðtalsmeðferðir, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, slökun, jóga, líkamsrækt, félagslega þjálfun auk beinna möguleika á námi í tengslum við Tækniskólann þar sem skjólstæðingum Janusar býðst að stunda nám með stuðn-ingi, aðlagað sinni getu. „Stuðningur og aðhald eru lykilatriði árangurs að okkar mati. Margir hafa tilhneigingu til að heltast úr lestinni ef við fylgjum þeim ekki fast eftir, og við tökum á skemmri og lengri heilsuvanda. Það eru kennarar Tækniskólans sem kenna okkar þátttakendum og er kennslan aðskilin frá hinu almenna námi Tækniskólans. Fólk getur einnig verið í almennu námi í Tækniskólanum eða öðrum skólum og með stuðning og eftirfylgd hjá okkur. Það gerist hins vegar reglulega að eftir endurhæfingu skrá margir sig í Tækniskólann til frekara náms eða í aðra skóla, til dæmis háskóla, og ljúka margir formlega námi sem hófst hjá okkur. Það er auð-vitað mjög ánægjulegt þegar það gerist og styrkir okkur í því að halda þessu starfi ótrauð áfram,“ segir Guðmundur.

 

Þrjár meginleiðir endurhæfingar

Endurhæfingunni hjá Janusi er skipt í þrjár meginleiðir en þó er lögð megináhersla á að sníða endurhæfinguna að persónulegum þörfum hvers og eins.

„Við líkjum leiðunum þremur við umferða er ljósin, það er að segja Rauð leið, en í henni felst endurhæfingarmat og vandagreining, þegar ekki er ljóst hvaða úrræði hentar einstaklingnum, Gul leið sem er umfangsmikil endurhæfing með eða án aðkomu kennara Tækniskólans - skóla atvinnulífsins, og Græn leið en þar er um að ræða eftirfylgni og/eða endurhæfingu sem ekki er eins umfangsmikil og í gulu leiðinni. Þá er einnig í boði Snemmtæk endurhæfing þar sem gripið er snemma inn í, í veikindaferli og einstaklingum gefst kostur á að koma til greiningar og meðferðar, jafnvel áður en sjúkdómsgreining liggur fyrir. Stuðningur eftir endurhæfingarmat býðst þátttakendum meðan þeir bíða eftir því að komast í þau endurhæfingarúrræði sem lögð hafa verið til í endurhæfingarmati. Annars má sjá nánar um þetta á heimasíðu okkar, www.janus.is, segir Kristín.

Að sögn Kristínar hafa 538 einstaklingar notið einhvers konar þjónustu Janusar endurhæfingar frá upphafi og fram að síðustu áramótum. „Þar af eru 158 sem lokið hafa atvinnuendurhæfingunni fram að áramótum 2007/2008. Þriðjungur þátttakenda í atvinnuendurhæfingunni eru konur og er meðaltalsaldur þeirra 37 ár, eða frá 17-59 ára. Verið er að taka saman tölfræði fyrir 2008 en tölur frá upphafi og fram að áramótum 2007/2008 sýna að þátttakendur hafa verið 2,3 ár að meðaltali frá vinnu eða allt að 23 árum. Árangur starfseminnar er mjög góður en árangur telst vera þegar einstaklingurinn fer í vinnu, nám, atvinnuleit eða vinnu á vernduðum vinnustað. Alls hafa 118 náð þessum árangri eða 62%, sjá mynd 1. Árangurinn er þeim mun betri sem þátttakendur hafa verið styttri tíma frá vinnu.“

„Í mínum huga er það besti hugsanlegur árangur að hitta einhvern úti í atvinnulífinu, glaðbeittan og jákvæðan, eftir að hafa komið niðurbrotinn til endurhæfingar, rúinn sjálfstrausti og sannfærður um að eiga ekki afturkvæmt út á vinnumarkaðinn eða í nám. Þetta veitir manni sérstaka ánægjutilfinningu og sannfærir mann um að starfið hér skilar áþreifanlegum árangri,“ segir Guðmundur að lokum og undir það taka þau Ómar og Kristín.

 

Mynd. Heildarárangur atvinnuendurhæfingarinnar árin 2000 - 2007.

 

 

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica