01. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Viðurkenning á þingi Norrænna svæfinga- og gjörgæslulækna

Sigríður Birna ElíasdóttirSigríður Birna Elíasdóttir, læknanemi á 5. ári, hlaut í haust 2. verðlaun og viðurkenningu á þingi norrænna svæfingalækna fyrir rannsóknarverkefni sem hún vann á vorönn 3. árs undir stjórn læknanna Felix Valssonar, Guðmundar Klemenzsonar og Bjarna Torfasonar.

"Verkefnið fjallaði um mælingar á hjartahorm-óninu BNP (Brain Natriuretic Peptide) og árangri eftir hjartaskurðaðgerðir. Hjartað seytir þessu hormóni þegar tog kemur á hjartafrumurnar, eins og í hjartabilun og veldur þvagræsingu, auknum útskilnaði á Na+ og lækkar blóðþrýsting. Klínísk notkun á BNP mælingum hefur fyrst og fremst verið að greina hjartabilun en hugmynd þessarar rannsóknar var að með mælingu á hormóninu mætti spá fyrir um hvernig sjúklingnum reiddi af eftir hjartaaðgerðina," segir Sigríður Birna.

Hún segir rannsóknina hafa falist í því að mæla BNP hormónið hjá öllum sjúklingum sem fóru í hjartaaðgerð á Landspítalanum á einu ári og síðan hafi verið fylgst með legulengd hvers sjúklings á gjörgæslu eftir aðgerðina, þörf á notkun inotrope lyfja eða ósæðarpumpu (intraaortic balloon pump) 24 klukkustundum eftir aðgerð, nýrnabilun og hjartadreps eftir aðgerð.

"Ef allt er með felldu liggja sjúklingar einn dag á gjörgæslu eftir aðgerð en við miðuðum við meira en tvo daga á gjörgæslu og bárum saman við mælinguna á BNP fyrir aðgerð. Við bárum einnig BNP gildin saman við EuroSCORE og útfallsbrot hjartans (ejection fraction) mælt með vélindaómun fyrir aðgerð. Niðurstaðan varð sú að þeir sjúklingar sem þurftu að liggja þrjá daga eða lengur á gjörgæslu voru með marktækt hærra BNP gildi fyrir aðgerð heldur en þeir sem lágu tvo daga eða skemur. Einnig spáði BNP fyrir þörf á notkun inotropa, ósæðarpumpu og nýrnabilun eftir aðgerð. Það spáði jafn vel og EuroSCORE en mun betur en útfallsbrot hjartans."

Sigríður þakkar aðalleiðbeinanda sínum Felix Valssyni lækni fyrir hversu vel tókst til, " . . . en hann hefur mikið rannsakað ANP (atrial natriuretic peptide) hormón sem er í sama flokki og BNP og það var hans hugmynd að prófa að mæla þetta hormón fyrir hjartaaðgerðir og skoða hvort munur væri á BNP-gildum sjúklinga sem fengju fylgikvilla eftir aðgerð og þeirra sem höfðu eðlilegan gang eftir aðgerð."

Hún segir að niðurstöðurnar hafi ótvírætt hagnýtt gildi því með þessari mælingu megi segja til um hvernig sjúklingi muni vegna eftir aðgerðina. "Hver dagur á gjörgæslu kostar heilmikið, mannafla, tæki og fleira og með áhættumati sjúklinga er hægt að nýta þá kosti sem fyrir hendi eru sem best. Það er nauðsynlegt fyrir sjúklinginn að vita áhættuna á aðgerð. Einnig er áhættumat mikilvægt þegar verið er að bera saman árangur hjartaaðgerða milli tveggja eða fleiri sjúkrahúsa við gæðastýringu, þá skiptir miklu máli að vita hvernig sjúklingahópurinn er samsettur."

Sigríður Birna skrifaði grein undir handleiðslu Felix sem send var ACTA, blaði svæfingalækna, í desember 2006. Þau ákváðu svo að senda ágrip af verkefninu á þing norrænna svæfinga- og gjörgæslulækna 2007.

"Síðan var okkur tilkynnt að ágripið hefði verið valið meðal fimm ágripa til að "keppa" til 1.-3. verðlauna sem voru veitt í tilefni af 50 ára afmæli ACTA sem okkur þótti auðvitað mjög skemmtilegt. Svo eftir flutning á þessum fimm rannsóknum á þinginu var okkur tilkynnt að okkur hefðu hlotnast 2. verðlaunin. Verðlaunin voru 20 þúsund danskar krónur og viðurkenningarskjal. Þetta var mjög gaman og ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu," segir Sigríður Birna. Hún segist alls ekki hafa gert upp hug sinn varðandi val á sérgrein, svæfinga- og gjörgæslulækningar komi vissulega til greina ásamt mörgu öðru. "Það er nægur tími til að gera það upp við sig," segir hún að lokum.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica