06. tbl 93. árg. 2007
Umræða og fréttir
Brot af mannkynssögu alþýðunnar - viðtal við Valgarð Egilsson
„Ég setti Íslandsmet í 500 metra bringusundi haustið 1958. Við gætum talað um það,“ segir Valgarður Egilsson doktor í frumulíffræði og rithöfundur og skáld. Við erum sestir niður innan um bækur af öllu tagi í lesstofunni á heimili þeirra hjóna Valgarðs og Katrínar Fjeldsted við Hólatorg í Reykjavík. Bækurnar þekja alla veggi og þar kennir margra grasa; skáldsögur og vísindarit standa þétt saman í hillum og augljóst að þær hafa verið lesnar spjalda á milli.
Erindi mitt við Valgarð er að eiga við hann samtal um æskustöðvar hans við utanverðan Eyjafjörð að austanverðu en síðustu þrjá áratugi hefur hann leitt fjölda göngufólks um strandir, dali og fjöll í Fjörðum, við Látraströnd og Flateyjardal, og frætt um mannlíf og sögu svæðisins. Hann hefur einnig leitt göngufólk um svæðið vestan við Eyjafjörð utanverðan, andspænis æskustöðvunum, Hvanndali og Héðinsfjörð enda voru mikil og sterk tengsl milli þessara svæða á fyrri tíð. Sundafrek verða að bíða betri tíma.
Framundan er sumarið, tími útivistar og gönguferða, og ekki ólíklegt að einhverja fýsi að ganga um Fjörður eða Héðinsfjörð svona rétt áður en hann verður opnaður fyrir bílaumferð þegar Héðinsfjarðargöng verða tekin í notkun. „Það er auðvitað hrein vitleysa að gera þessi göng og mun ekki breyta þeirri staðreynd að Siglufjörður er hverfandi byggð og þrátt fyrir tengingu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjarðargöng mun ungt fólk ekki sjá tilgang með búsetu á Siglufirði,“ segir Valgarður og bætir því við að á Siglufirði sé svo að byggðinni þrengt vegna snjóflóðahættu að þar verði ekki byggt utan núverandi bæjarstæðis án verulegrar áhættu. „Þeir eru í rauninni landlausir.“
Forn-germanskt uppeldi
Valgarður er fæddur á Grenivík árið 1940 og alinn upp að eigin sögn á „forn-germanskan hátt“.
Hvað felst í því?
„Að vera utanhústegund og ekki vanur stofuhita í híbýlum. Vera sífellt vakandi fyrir náttúrunni og eiga allt undir henni. Fylgjast vel með veðrabrigðum og kunna að lesa úr skýjafari. Ef maður sá þoku safnast í Hvanndalabjörgin þá vissi maður að vindur var koma á norðaustan og eins gott að safna fénu saman. Það er ansi fjarri uppeldisaðferðum í þéttbýli nútímans að vera strax 8-9 ára gamall orðinn ábyrgur fyrir hjörð heimilisins. Þá er maður að gá til veðurs oft á dag og skynjar allt umhverfið útfrá því. Þar á ofan var ég sem barn heillaður af náttúrunni og notaði hverja stund til að ganga um fjöllin og skoða grös og fuglalíf. Við vorum þrír bræðurnir og höfðum allir ánægju af að ganga á fjöll og klífa tinda.“
Á ferðum sínum um Fjörður og Látraströnd hefur Valgarður haft börn sín með sér og segir að Jórunn dóttir hans, heimilislæknir á Selfossi, hafi sem barn og unglingur fylgt sér dyggilega. „Börnin mín sögðu: „Pabbi er alltaf svo eðlilegur þegar hann kemur út í Fjörðu.“ Ætli það sé ekki besta lýsingin á því hversu vel ég kann við mig þarna.“
Áhugi Valgarðs á svæðinu hefur ekki einasta takmarkast við náttúrufar heldur hefur alþýðusagan og mannlífið sem þarna dafnaði einnig fangað hug hans.
„Fólkið sem þarna bjó, fólkið í landinu, það heillaði mig alveg frá upphafi. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en hugföngnum af fólkinu og sögunni sem það bjó yfir. Ég er enn jafn heillaður af þessu. Þarna átti sér stað brot af mannkynssögu alþýðunnar og hún er sannarlega nógu dramatísk því þarna var sjómennska meginatvinnuvegur um aldir. Á 19. öld eru hákarlaveiðar aðaleinkenni þessarar menningar og það mótaði mannlífið þar sem lífshættan var stöðug og mannskaðar við veiðarnar voru tíðir. Þessi menning átti enn gríðarlega sterk ítök í fólkinu þegar ég var alast upp þó veiðarnar sjálfar væru aflagðar. Fólkið lifði jöfnum höndum á sjósókn og landbúnaði og sjálfur ólst ég upp við hvorutveggja þar sem faðir minn stundaði sjó frá Grenivík en keypti svo jörðina Hléskóga þar sem ég var með lögheimili fram yfir tvítugt þó ég væri í rauninni farinn að heiman að miklu leyti við 15 ára aldur. Ég vann á sumrum í síld á Raufarhöfn en einnig á Siglufirði, var í menntaskóla á veturna og á þeim sumrum kynntist ég byggðinni og landinu vestan við Eyjafjörðinn.“
Eins orðs ljóð
Valgarður hefur skrifað talsvert um byggðirnar beggja vegna Eyjafjarðar og er meðal annars höfundur stórs hluta Árbókar Ferðafélags Íslands árið 2000 þar sem hann fléttar saman mannlífi, sögu og lýsingum á náttúrfari á sérlega skemmtilegan og læsilegan hátt. Þetta er ómissandi lesning fyrir þá sem hyggja á ferð á þessar slóðir. Nema auðvitað að þeir ráði Valgarð sem leiðsögumann í ferðina þá fá þeir fræðsluna beint af vörum hans.
„Já, ég byrjaði á því að fylgja fólki um þetta svæði eftir að ég flutti heim frá London eftir sérnám rétt fyrir 1980. Smám saman vatt þetta upp á sig og varlega áætlað er ég búinn að leiða vel á annað þúsund manns um þessar slóðir. Ég geng þarna um á hverju sumri og nýt þess alltaf jafnmikið. Alltaf er eitthvað nýtt að sjá og upplifunin er aldrei söm.“
Hvað er það sem helst einkennir svæðið?
„Þetta var geysilega harðbýlt land og síðustu bæir á Látraströndinni fara í eyði 1942 og í Fjörðum 1944. Þarna er mjög snjóþungt og snjóa leysir seint. Láglendi lítið. Vegna snjóþyngsla var engin vetrarbeit svo gróðurfar er allt annað og meira en til dæmis í innsveitum Eyjafjarðar. Þar sést varla lyngtutla, aðeins blásnir melar langt inn til fjalla en í Fjörðum er lyng og skógviðarbróðir upp um allar hlíðar. Landbúnaður var því erfiður á þessum slóðum og fólkið treysti á sjóinn eftir lífsbjörginni.“
Örnefni eru Valgarði hugleikin og hann orðar það þannig að falleg örnefni séu „eins orðs ljóð“. „Þetta er reyndar kapphlaup við tímann því örnefnin hverfa hratt með þeim kynslóðum sem nú eru elstar. Margt er reyndar þegar horfið en þó hefur verið unnið mikið starf við að safna og varðveita örnefni. Ég hef sett fram þá kenningu að við örnefnagift þá eru menn að persónugera landið um leið. Auðvitað er margt annað sem hefur áhrif en þetta er eitt helsta einkenni örnefnagiftar. Allir drangar heita „karlar“ og „kerlingar“, sker heita „sveinar og systur“, „kerling“ og „jómfrú“ eru beint fyrir ofan Akureyri og þannig má áfram telja. Svo er svipur á fjöllum sem þau taka nafn af, „yggla“ og nær allir líkamshlutar mannsins eiga sér samsvörun í örnefnum. Það er nánast hægt að byrja á hvirflinum og fikra sig niður eftir líkamanum og alls staðar finnast hliðstæður í örnefnum. Höfuð, hnakki, hvirfill, enni, brúnir, augu, nef, nasir, kinn, kjálki, háls, axlir, bringa, hryggur, lend, mjöðm, eistu, læri, hné, sköflungur, hæll, rist, il, tá svo fátt eitt sé nefnt. Og síðan eru öll örnefnin sem draga nafn af búsmalanum. Sjálfur man ég eftir því að hafa persónugert allt í kringum mig og var alinn upp við slíka hugsun; manni fannst vindurinn hafa sjálfstæðan vilja og ætla að rífa þakið af húsinu og bólgnir lækirnir á vorin voru staðráðnir í að brjótast yfir bakkana og dreifa möl og aur um gróið land. Allt var lifandi í kringum mann og birtist í nafngiftum á landslagi og fyrirbærum náttúrunnar. Landið fær allt aðra mynd í huga manns þegar örnefnin eru kunn.“
Breytingar á örnefnum hafa sumstaðar orðið í gegnum tíðina og Valgarður rifjar upp að í Náttfaravíkum er áin Purká. „Þetta er enska orðið „pork“ en í sóknarlýsingu frá 1840 kemur í ljós að áin hét áður Svíná og dalurinn Svínárdalur, nú Kotadalur, og hvers vegna þetta breyttist er ekki vitað. En þetta er merkileg breyting sem þarna hefur orðið og í rauninni furðulegt að eldri örnefnin skuli hafa horfið svona gersamlega. Þá eru líka ótalin öll örnefnin sem menn notuðu til að staðsetja fiskimið og tóku þá gjarnan mið af tveimur eða fleiri sjónpunktum úr landi. Stundum höfðu fjöll sín sérstöku örnefni utan frá sjó séð sem voru aldrei notuð í öðru samhengi. Þessi örnefni á grunnslóð í kringum landið eru óðum að hverfa og mörg eru alveg týnd.“
Spáði fyrir um Kárahnjúka
Ritstörf hafa verið Valgarði hugleikin um langa hríð og hann er meðal annars höfundur tveggja leikrita Dags hríðar spor og Maðurinn er normal. Hið fyrrnefnda var sýnt á Litla sviði Þjóðleikhússins 1981 í leikstjórn Brynju Benediktsdóttur og vakti talsverða athygli enda gerólíkt því sem aðrir leikritahöfundar íslenskir voru að fást við á þeim tíma. Verkið er ljóðrænt og ást höfundarins á náttúrunni er dylst engum. Þar reyndist Valgarður merkilega sannspár um hver þróunin yrði í umgengni við íslenska náttúru þegar stóriðju yxi fiskur um hrygg. „Það er næstum hægt að segja að þetta sé leikrit um Kárahnjúkaævintýrið í smáatriðum,“ segir hann sposkur.
Hann segir leiklist hafa fangað hug sinn því fallega fluttur texti á leiksviði hafi heillað sig umfram annað. Hann teiknar líka og lýsir því þannig að þegar hann vilji vera alvarlegur þá skrifi hann prósa en þegar léttúð færist yfir þá grípi hann teiknipennann.
Svo skemmtilega vill til að að einmitt núna í lok maí kom út hjá JPV útgáfu ljóðabók eftir Valgarð sem hann hefur unnið að undanfarin ár og því vaknar sú spurning hvort vísindamaðurinn og skáldið hafi ávallt skipað jafnan sess eða hvort tekist hafi verið á um tíma og athygli.
„Í seinni tíð þá finn ég fyrir því að mig vantar tíma en fram að því þá hélt ég að ég gæti látið þetta fara saman. Um talsvert langa hríð lagði ég ritstörfin alveg til hliðar og sökkti mér í rannsóknir á líffræði frumna. Ég hafði á sínum tíma þá hugsun að til að þekkja mannseðlið yrði ég að kynnast manninum alveg niður í einstakar frumur. Það var í rauninni ástæðan fyrir því að ég fór út í læknisfræði á sínum tíma. Ég varð síðan svo gagntekinn af frumunni sem fyrirbæri að ég lagðist í þau fræði og hef aldrei verið hamingjusamari en fyrstu tvö árin mín í doktorsnámi í London. Það er gaman að segja frá því að doktorsverkefnið mitt snérist um gerjun og öndun (hvatbera) í frumum, mitochondria, og ég byggði rannsókn mína að nokkru leyti á kenningum þýska nóbelsverðlaunahafans Otto Warburg um að krabbameinsfruma væri fruma með laskaða öndun og of mikla gerjun. Warburg hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 1930 og kenning hans hafði verið lögð til hliðar og þótti gamaldags og mér var legið á hálsi fyrir að vinna útfrá henni. Menn gerðu grín að Warburg og mér líka fyrir að fást við þetta. En um aldamótin 2000 snérist þetta gersamlega við og vísindaheimurinn hefur síðan verið logandi af áhuga á að rannsaka þetta samspil gerjunar og öndunar í krabbameinsfrumum. Það er skrýtið að upplifa þetta,“ segir vísindamaðurinn og skáldið Valgarður Egilsson sem safnar orku og kröftum á göngum sínum um æskuslóðir í Fjörðum norður. Fer hann norður í sumar?
„Að sjálfsögðu.“
Gönguhópur í Fjörðum þræðir einstigi undir leiðsögn Valgarðs.
Alinn upp sem utanhústegund og ekki vanur stofuhita í híbýlum,? segir Valgarður Egilsson.
Fjörður og Flateyjardalur séð utan úr Grímsey.
Styrkur göngustafur sem einnig má nota til að verjast útilegumönnum.