12. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Síra Jón Steingrímsson - líf hans og lækningar I

Örn BjarnasonHér verður fjallað um þætti í ævi síra Jóns sem þekktur er undir viðurheitinu eldklerkurinn. Í tveimur greinum verður rætt um líf hans, líknarstörf og lækningar og reynt að gera grein fyrir því hvaða kunnáttu hann kann að hafa aflað sér í læknisfræði.

Jón Steingrímsson var í Hólaskóla 1744-1750 og síðan bústjóri í Skagafirði til ársins 1755. Hann gekk að eiga fyrri konu sína, Þórunni Hannesdóttur, árið 1753 og áttu þau saman fimm dætur. Þórunn dó árið 1784. Jón bjó að Hellum í Mýrdal 1755 til 1760 og var formaður á áraskipi fimm vertíðir. Hann var vígður árið 1760 og varð prestur í Sólheimaþingum og bjó á Felli í 17 ár. Síra Jóni var veittur Prestbakki á Síðu 1778 og sama ár varð hann prófastur í Austur-Skaftafellssýslu. Árið 1787 kvæntist síra Jón seinni konu sinni, Margréti Sigurðardóttur. Jón Steingrímsson var starfandi prestur allt til æviloka árið 1791.

Um líf Jóns Steingrímssonar og störf hans má fræðast af sjálfsævisögu hans sem Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður gaf út á árunum 1913 til 1916 og af útgáfu frá árinu 1944 sem Guðbrandur sonur Jóns Þorkelssonar ritstýrði og Skaftfellingafélagið gaf út (1). Sjálfsævisagan hefst á þessum orðum:

Eg Jón Steingrímsson, fyrir guðs sérlega gæzku og miskunn prófastur yfir Skaftafellssýslu og prestur til Kirkjubæjarklausturs safnaða, er borinn og barnfæddur í þennan heim á Þverá í Blönduhlíð í Hegranessýslu, eftir vors frelsara hingaðburð 1728, af guðhræddum og frómum foreldrum. (1)

Jón Steingrímsson tekinn í Hólaskóla

Föður sinn missti Jón á tíunda aldursári og voru efnin þannig að ekki var von til þess að drengurinn kæmist til mennta. Tilviljun réð því hins vegar að af því varð því Jón hitti

Ludvig Harboe, þá er hann var af kóngi Kristjáni 6. sendur til að vísitera hér landið; las eg þá á Flugumýri með öðrum börnum fyrir honum. Með honum var túlkur og notarius Jón Þorkelsson, sem áður hafði verið skólameistari í Skálholti, og síðar, við annan afgang, testamenteraði allt sitt góss fátækum börnum í Gullbringusýslu að læra að lesa og skrifa. "[Thorkillii-sjóðurinn]" Af hræðslu og óvana gátu börn varla leyst úr fyrir honum, en guð gaf það, að mér tókst ei svo illa upp, svo eg var sérdeilis nóteraður upp hjá honum. (1)

Í framhaldi af þessu leitaði föðurbróðir hans, Jón Jónsson á Þverá, eftir því við Jón Þorkelsson að Jón Steingrímsson yrði tekinn í Hólaskóla. Fékk Jón bóndi þau svör að biskup Harboe segði að "hann og móðir mín skuli koma með mig heim til stólsins á páskum, og skuli meðfylgja prestsattest um náttúrufar mitt, framferði, lærdóm og aldur." Komu þau þrjú "á 4. í páskum 1744 - á fund við herra biskupinn, Harboe." Var pilturinn prófaður í meira en eyktartíma [eða þrjár stundir] "og varð það að leikslokum, að þeir ályktuðu mig hæfan að takast í skólann."

Stólhaldarinn (oeconomus) var þá Skúli Magnússon, síðar landfógeti og hann afsegir að pilturinn inntakist án meðgjafar. Jón Þorkelsson bregst þá við og segir, að það skuli eigi í vegi standa. Skúli skuli hafa meðgjöf hans frá þessum degi til næstkomandi Jónsmessu - "þá stóð skólinn svo lengi, - og taldi honum þar strax út peningana, hvar við herra biskup Harboe og nokkru bætti, og þar með var eg tiltekinn tíma í skólann inntekinn." (1)

Ludvig Harboe (1709-1783) var sendur hingað út sem "generalvisitator" árið 1741 af eftirlitsstofnun ríkiskirkjunnar og kom hér á ýmsum umbótum. Hann varð síðan biskup í Þrándheimi og síðar Sjálandsbiskup.

 

 

Kynnin af Bjarna Pálssyni

Lögboðnar námsgreinar á þessum tíma á Hólum og í Skálholti voru samkvæmt skólaskipun frá árinu 1743, latína, gríska (og skyldi Nýja testamentið lesið á grísku), guðfræði, ágrip af höfuðatriðum heimspeki, hebreska (í undirstöðuatriðum), íslenzka (að rita og beita hreint móðurmálinu), reikningur, söngur, saga bæði almenns eðlis, íslenzk og saga Norðurlanda. Ekki var krafizt kunnáttu í nýmálunum, en Jón hóf á skólaárunum sjálfsnám í þýzku eins og síðar verður greint frá. Sú kunnátta olli síðar straumhvörfum í lífi hans þegar hann fór að lesa læknisfræði á því máli.

Á þessum tíma skyldu þeir skólasveinar er ölmusu nytu vera 24 í Skálholtskóla og 16 í Hólaskóla. Skúli Magnússon gerði það samkvæmt reglunum að skilyrði fyrir því að Jón fengi áframhaldandi ölmusu, "að svo megi einhver gefa sig fram og stilla fyrir mig kaution, ef að mér kunni mistakast eður ei geta lært út, eftir sem hún forleggur ..." (1) Þessa fjárhagsábyrgð tóku á sig Einar Jónsson ráðsmaður á stóljörðinni Viðvík í Hjaltadal og kona hans Helga, dóttir Steins Jónssonar er verið hafði biskup á Hólum (1712-1739).

Það syrti því í álinn þegar skriffæri og hálstrefill hurfu í skólanum á fyrsta námsári Jóns. Var þeirra leitað af umsjónarmönnum (notariis) og fundust skriffærin í kistli Jóns, en trefillinn í rúminu. Jóni segist svo frá:

 

Eg var aðspurður, hvort eg hefði þetta tekið, hverju eg neitaði, hvort nokkrum hefði lykil að kistlinum í hendur fengið, hverju eg og neitaði. Þá eigi ávannst með þessu, var eg flengdur, barinn og laminn til að meðganga, og þó eg neyddist til að játa, bar eg þá aftur á móti því, að þeir komust í standandi vandræði með mig, en samvizka mín var hrein og frí, hvaða pyndingar sem eg leið. Þá er öll viðleitni varð forgefins um nokkra játun, þá eg í frelsi kominn, hefst Bjarni sálugi Pálsson landsphysicus, sem þá var einn af notariis, með þessi orð: Eg sé að þessi drengur er aldeilis saklaus ... (1)

 

Ályktar Bjarni að einhver kunni að hafa reynt að koma sök á Jón og lætur kanna hvort annar lykill gangi að kistlinum. Fór svo að lykill er að gekk fannst hjá öðrum pilti.

Um Bjarna Pálsson segir Jón að hann hafi verið

 

í allri raun og veru einn sá hjartabezti maður við aumingja og nauðþrengda, komst við í hjarta, hversu með mig hafði verið farið, og varð mér sá allra bezti maður þaðan í frá, tryggasti og trúfastasti vinur allt til dauðadags. Ber eg þess góðar menjar í lækniskonstinni, hvar til hann fræddi og styrkti mig með orði og verki mörgum til liðs. (1)

 

 

Djákninn, bóndinn og þýzkunámið

Jón varð stúdent frá Hólum árið 1750 og árið eftir er hann kallaður til djáknaembættis við staðarklaustur Reyniness í Skagafirði. Fór hann heim að Hólum þar sem biskup yfirheyrði hann með examine theologico, tók hann í eið og meðdeildi síðan innsiglað djáknabréf, svo notuð séu orð Jóns.

Á Reynistað var Jón til ársins 1753 og síðan á Frostastöðum þar til að hann flutti að Hellum í Reynishverfi ásamt Þorsteini bróður sínum haustið 1755. Þórunn eiginkona hans varð eftir nyrðra um stund, enda barnshafandi.

Á leiðinni verða þeir bræður vitni að upphafi Kötlugossins:

Frá Hamarsholti héldum við að Núpi ... Var það laugardaginn síðastan í sumri er Katla spjó; sáust þangað þá eldglæringar úr henni." ... "Þá er eg nú eftir veturnætur 1755 settist að í Hellum fékk [umboðsmaður minn] mér til íveru skemmukofa fyrir vestan bæjardyrnar. Hún var höggvin í bergið, en eg bjó hana svo stóra inn lengra í bergið, að eg kom þar fyrir rúmi mínu, borðkorni og bekk og öllu því, er þar meðferðis hafði, og vorum við þar bræður báðir um veturinn, og áttum þar það bezta og rólegasta líf. Aska hafði svo mikil fallið yfir Austur-Mýrdalinn, að vetrarhagar voru því nær öngvir, og mátti ætla öllum skepnum hey. (1)

 

Í sóknalýsingu frá 1840 segir: "Hellur sem nú kallast, hafa líklega öndverðlega heitið Hellrar, af þeim mörgu hellrum, sem verið hafa á hálsinum er bærinn stendur á og nú skagar vestur í Dyrhólaós ..." (2)

Í riti um manngerða hella segir: "Í hellinum stúderaði Jón þýzka tungu og þar kviknaði áhugi hans á eldgosum og eldfjallasögu. Um sama leyti og þeir bræður voru að koma sér þar fyrir varð mikið gos í Kötlu og jökulhlaup á Mýrdalssandi. Jón skrifaði ágæta greinargerð um þetta eldgos sem hann byggði á skýrslu Jóns Sigurðssonar sýslumanns en endurbætti mikið. Má segja að þetta hafi verið fyrsta eldrit Jóns Steingrímssonar en örlögin höguðu því svo til að hann átti eftir að semja þau eldrit sem verða í hávegum höfð svo lengi sem jarðfræði verður stunduð á þessum hnetti. Jón var síðan bóndi á Hellum 1756-1761 eða þar til hann hlaut prestsembætti og fluttist að Felli í Mýrdal" (2).

Síra Jón segir í ævisögunni frá því að hann hafi farið að stúdera þýzku þegar hann var í skóla og þessu hélt hann áfram síðar "þar eg fékk yfrið góðan tilsagnarmann og uppfræðara til þess þar skammt frá, sem hét Gottskálk Þorvaldsson ..." (1). Af lýsingunni má ráða að Jón hafi þá verið kominn að Frostastöðum því Gottskálk þessi er prestssonur á Miklabæ. Hann fór árið 1757 til Kaupmannahafnar að læra myndskurð og hann er einkum frægur af syni sínum, Bertel Thorvaldsen.

Tveimur árum fyrir dauða sinn víkur síra Jón aftur að þýzkunáminu:

 

Þann fyrsta vetur, eg var í Hellum, tók eg saman registur yfir Spatens Lexikon (3) í þýzku, og bar það saman við vort móðurmál það bezt eg kunni. Var það mikið nytsamlegt fyrir þann, er læra vildi þýzku, er eg var farinn að leggja mig eftir, og komst svo langt, að eg gat samantekið prédikun úr þýzku með stuðningi, þó ei aldeilis orðrétt." ... "Með þetta mitt áminnsta Spatens registur fór Jón stjúpsonur minn í skóla. Hef eg það síðan ei uppspurt. (1)

 

 

Þekking á læknisdómum og þekkingarleit

Um sjálfsnám í læknislistinni segir síra Jón:

 

Vildi nokkur betur samtaka það, eg hef skrifað um sjúkdóma og lækningaraðferð við þeim, hef eg þar margt í af eigin reynslu skrifað, en sumt er annars staðar frá tekið, helzt úr lærdómsbók Gísla Magnússonar, þess grundlærða höfðingja, sem var á Hlíðarenda, svo hún yrði að fast til samanburðar. Ætla eg sú bók sé nú hjá prófasti síra Markúsi í Görðum. (1)

 

Jakob Benediktsson segir að ekki sé ósennilegt að Gísli "hafi tekið eitthvað saman um lækningar, því að fengist hefir hann við slíkt. Ef íslenzkar lækningabækur frá fyrri öldum verða einhvern tímann teknar til athugunar, mætti ef til vill vinza úr bók Jóns Steingrímssonar það sem frá Gísla er runnið."(4) Af þeim samanburði getur því miður ekki orðið þar sem lærdómsbók Vísi-Gísla er talin glötuð.

Jón leitaði víðar fanga og hann bætir þessu við: "Item önnur er heitir Blankard" (1) Rætt verður hér á eftir hvaða bók þetta muni vera en fáum fyrst frásögn Jóns af tilraunum hans til þess að fá þýðinguna prentaða:

 

Með ráði herra landphysici, Bjarna, og landþingskrifara herra Sigurðar [Sigurðssonar], fékk eg síra Eyjólf Teitsson að leggja hana út úr þýzku; kostaði eg þar upp á 3 rd., því hún var upp á 56 arkir, sem eg allar hreinskrifaði. Hún er ein sú bezta, sem eg veit til vera, að þekkja alls slags sjúkdóma. Ætlaði eg og landþingskrifari að setja til í hana öll specifica og recept af innlendum meðulum, sem við vissum, við mundi eiga. Hafði svo landsphysicus lofað oss að yfirskoða allt verkið, umbæta það og lagfæra til fullnustu. En guð burtkallaði hann fyrr, og þar með gaf eg frá mér bókina til landþingskrifara með víðara. Hann gekk þar eftir veg allrar veraldar [1780] og þar með féll allur sá kostnaður og ætlan aldeilis niður. (1)

 

 

Lækningahandrit og prentaðir lækningatextar

Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Þjóðarbókhlöðu, hefir fjallað um það hvernig miðlun efnis er tengist lækningum og líkamanum var háttað hér á landi á 17. og 18. öld:

 

Vitað er að við hlið hinnar prentuðu hefðar ...sem var önnur aðferð til að koma texta, upplýsingum og þekkingu til lesenda, en það var að skrifa textann upp og koma honum þannig á framfæri við lesendur. Prentaðar og handritaðar bækur voru í huga notenda fyrr á öldum jafn réttháar og litu menn á þær sem "sama hlutinn". Handrit var "útgefið" um leið og það fór í dreifingu og gegndi sama hlutverki í þjóðfélaginu og prentaðar bækur gera í dag, og þetta var svo fram á miðja 19. öld. Handrit í umferð var því tæki til þess að miðla efni." ... "Fyrsta prentaða bókin sem hafði eitthvað að geyma er tengdist lækningum er rím Þórðar Þorlákssonar biskups, CALENDARIUM PERPETUUM Ævarandi Tijmatal, Edur Rijm Iislendskt til að vita hvad Arsins Tijdum lijdur, prentað í Skálholti 1692. Þar er sagt frá blóðtökum, sem var algeng lækningaðferð fyrr á öldum og hefur m.a. að geyma mynd af æðamanninum (7, 8). Það er síðan um miðja 18. öld að útgáfa hefst á öðrum textum, t.d. fæðingarhjálp. SA NIJE YFERSETVKVENNA Skoole, EDUR Stutt UNDERVIJSUN um Yfersetu Kvenna Konstena eftir Baltazar Johann de Buchwald prentaður á Hólum 1749" ... "Þá var einnig önnur bók í fæðingarhjálp eftir Matthias Saxtorph, Stutt Agrip af Yfirsetu-quenna frædum, prentuð í Kaupmannahöfn 1749. Fyrsta eiginlega lækningabókin er kom út á prenti var Edlis-útmálun Manneskjunnar eftir Joannes Florentinus Martinet og var prentuð í Leirárgörðum 1798. Fyrsta heildstæða lækningabókin eftir Íslending kom út á prenti að honum látnum árið 1834, en það var Lækníngabók fyrir almúga eftir Jón Pétursson. Hún hafði áður gengið á milli manna í handritum og í prentaðri útgáfu hennar er aðeins helmingurinn prentaður. Hlutinn sem ekki var prentaður var um heilsuástand íslensku þjóðarinnar, og væri þarft verk að gefa hann út ... (5)

 

 

Lækningabók Jóns Magnússonar

Örn Hrafnkelsson segir einnig:

 

Einn höfundur lækningabókar er fulltrúi þeirrar hefðar að texti hans er aðeins varðveittur í "útgefnu" handriti sem komst aldrei undir pressuna. Jón Magnússon, bróðir Árna Magnússonar handritasafnara og prófessors í Kaupmannahöfn, tók saman árið 1725 lækningabók eða bækling, sem hefur ekki varðveist í eiginhandriti. Elsta handritið er frá 1752 og það yngsta frá 1830. Samtals eru varðveitt fimm handrit af texta Jóns á handritadeild Landsbókasafns. Titill bæklingsins er Praxis Medica úr hálærðra bókum samantekinn (6), og það sem einkennir texta Jóns hvað varðar innihald er að hann er öðru vísi en allt annað bæði eldra og yngra. Höfundurinn hefir verið annarrar skoðunar en aðrir sem tóku saman lækningabækur. Læknisráð hans bera einkenni raunlækninga - þar er ekki að finna með sama hætti kreddur og hindurvitni eins og í lækningabókum alþýðunnar, þar sem meðölin voru t.d. gall, saur og hland bæði manna og dýra. Lækningabók Jóns ber þess merki að hann hefur ætlað henni að komast í dreifingu. Í formála eða inngangskafla ávarpar hann bæði lærða og leika, afsakar ýmislegt og áréttar hvað er rétt eða röng aðferð við lækningar. Jón fellir líka dóma um samtíma sinn og hefur skoðanir á því hvernig komið er fyrir löndum sínum og helst gagnrýnir hann læknis-ráð og greiningu samtímamanna sinna á orsökum sjúkdóma. Á sama hátt verður að teljast merkilegt, að Jón hefur sótt sér þekkingu í rit erlendra manna og nefnir erlenda lækna máli sínu til stuðnings, og eru þeir fulltrúar nýrra aðferða í lækning- um. Þessir læknar eru meðal annarra Steven Blankaart sem var læknir í Amsterdam og samkvæmt bókaskrám gaf hann út bók sem heitir Praxeos Medicae Nova (7, 8) og spurningin er hvort hér sé ekki komin fyrirmyndin að lækningabæklingi Jóns, Praxis Medica - titlarnir eru að minnsta kosti nokkuð líkir ... (5).

 

Um Stephanus Blancardus og rit hans

Skal nú nánar vikið að Blankaart þessum sem síra Jón Steingrímsson vísar einnig á. Steven Blankaart (Stephanus Blancardus) var fæddur í Middelburg í Hollandi árið 1650. Blankaart lærði lyfjafræði í apóteki í Amsterdam og eftir að hann lauk læknisprófi árið 1674 stundaði hann lækningar þar í borg til dauðadags árið 1702. Eftir hann liggur fjöldi bóka sem oft komu út í mörgum útgáfum (9). Bezta verk Blankaarts er talið Lexicon medicum greaco-latinum, sem út kom 1679 (7, 10) árið 1779 var ritið endurútgefið í Leipzig. Af þessu riti eru varðveittar 20 útgáfur á þýzku, frönsku og ensku. Í Anatomica practica rationalis (1688) greinir Blankaart frá tvö hundruð krufningum þar sem jafnframt er greint frá sjúkrasögum hinna látnu. Heildarverk hans komu út í Leyden ári áður en hann lézt (9). Þá gaf hann á árunum 1680-1690 út tímaritið Collectana medico-physica (7, 11). Ritið sem Jón Steingrímsson mun vitna til kom út í Amsterdam árið 1683 (De Kartesiaanse Academie; ofte, Institutie der medicyne ...) (7, 12). Þýzk þýðing kom út í Leipzig tíu árum síðar (Cartesianische Academie; oder Grundlehre der Arzney-Kunst ...) (7, 13) og það rit er 896 síður, eins og síra Jón tilfærir. Þá er ógetið Praxeos medicinae idea nova (7, 8) sem Örn Hrafnkelsson vísar til og bendir allt til þess að tilgáta hans um þýðingu Jóns Magnússonar sé rétt.

 

Lækningar eftir stafrófinu

Hreinskrifað handrit síra Jóns Steingrímssonar af þýðingu síra Eyjólfs Teitssonar á Blankaart er væntanlega að eilífu glatað, en í handritadeild Þjóðarbókhlöðu er til hliðstætt efni sem gæti gefið vísbendingar um hvers konar rit þarna var í smíðum. Um það farast Erni Hrafnkelssyni svofelld orð:

 

Eitt er það sem einkennir handritahefðina á Íslandi hvað varðar lækningarnar, og má vera að það eigi við margt annað handritakyns: Textar eru þýddir af erlendum tungumálum yfir á íslenzku og er þá getið þess eftir hvern þeir eru og hvar frumritið kom út, og hver þýddi." ... "Þannig gengur það í nokkurn tíma en svo kemur að því að höfundur fellur í dá gleymsku, og jafnvel líka þýðandinn og í umferð eða útgáfu eru textar sem eru höfundarlausir. Merkilegast er þó þegar þýðandi textans er á endanum orðinn aðalhöfundur og hins upprunalega höfundar er að hvergi getið." ... "Þetta virðist vera raunin með lækningabók danska læknisins Hinriks Smith, en hann var þekktur í Danmörku og kom lækningabók hans út í nokkrum prentunum eftir miðja 16. öld og á þeirri næstu.? ... [Hún] "var þýdd á íslensku að því talið er af [síra] Vigfúsi Guðbrandssyni [1673 - 1707] ..." og ... varðveitt er handrit af lækningabók Vigfúsar - hugsanlega eiginhandarrit - og þar er Henrik Smith horfinn úr sögunni og kominn nýr höfundur í staðinn, þýðandinn Vigfús (5).

 

Það var einmitt þetta sem þeir ætluðu að gera prófasturinn og landþingskrifarinn: "að setja til í hana öll specifica og recept af innlendum meðulum, sem við vissum, við mundi eiga" (1).

Nú vill svo til að í handritadeild Þjóðarbókhlöðu er varðveitt eiginhandarrit síra Jóns Steingríms-sonar (JS 647 4to) sem ber yfirskriftina: Lækningar eftir stafrófinu. Síðan koma atriðisorð með útlistunum: Augnveiki; augnakyle; augnaglya eður ský; andarteppa, dyspnooea eða stuttur andardráttur og aftast eru þvagteppa, ischuria, kold-pissan, stranguria og að lokum á blaðsíðu 81 er þvagrennsle um of, Incontinentia urinae. Næsta síða er mjög máð, en á fjórum öftustu síðunum má greina nöfn á ýmsum lækningajurtum og jurtahlutum. Þetta handrit bíður frekari skoðunar, en Örn Hrafnkelsson hefir þegar afritað hluta þess. En ljóst er að þessu handriti svipar mjög til þess sem hann sagði um handrit síra Vigfúsar hér næst á undan. Það sem þyrfti að gera væri að kanna hvort hliðstæðu er að finna, líklegast í Cartesianische Academie; oder Grundlehre der Arzney-Kunst (7, 12) eða jafnvel í Lexicon medicum greaco-latinum eða þýzkri þýðingu þess verks (7, 13). Ekki hefir orðið af því ennþá þar sem ekkert rita Blankaarts er til hér á landi.

 

 

Lækningar og lækningaferðir

Fyrstu kynni Jóns Steingrímssonar af lækningum munu hafa verið, þegar hann fótbrotnaði annan dag páska, rúmlega tíu ára gamall. Var bartskeri sóttur "að setja fótinn í stand og láta við hann hundsmör og spilkur." ... "Fótleggurinn settist vel saman, svo eg komst fyrst á fætur, þó við staf, á uppstigningardag ..." (1), það er eftir hálfa sjöttu viku.

Síra Jón segir frá því að tæpum tuttugu árum síðar (1757) hafi prófasturinn komið að vísitera kirkjur í Mýrdalnum: "Hann reið frá Reynir yfir þverar mýrar, en þá hann var kominn út fyrir Háaskjól, þar sló hestur mannsins, sem undan honum reið, hann svo framan á fótlegginn, að hann brotnaði. Var að vörmu spori sent eftir mér, sem þó var til sjós kominn. Batt eg þar spilkur við fótinn, setti prófast á bak, gekk svo með hesti hans og hélt undir fótinn yfir allar þær torfærur og flutti hann heim til mín og lagði hann þar upp í stofu- rúm, hvar hann var í sex vikur." (1)

Í ævisögunni er einu sinni vikið að skurðlækningum: "Um morguninn fór eg burt að skera æxli af manni." (1) Á öðrum stað nefnir síra Jón, að hafi margsinnis látið stinga sér æðar í veikindum sínum, en nefnir ekki hvort hann hafi beitt blóðtökum á eigin sjúklinga.

Um lækningaferðir sínar segir Jón Steingrímsson:

 

Frá því fyrsta, eg var kominn til vits og menningarára, hafði eg af guði inngefna sterka lyst til læknisdómakonstar, sem eg í leynd stúderaði þó upp á, og byrjaðist það með litlu tilefni, þá eg var í Hellum. En þar mér tók strax að farsælast þetta verk, fékk eg stóra aðsókn af nauðlíðandi, sjúkum og vanheilum mönnum. Nú þá eg var prestur orðinn og kominn að Felli, var skjaldan sjúklingalaust á mínu heimili, stundum tveir og þrír. Oft var eg sóttur til veikra, bæði héðan úr sýslu og Rangárvallasýslu. Vor og haust, þá eg fór til minna búsútréttinga, safnaðist mér mikill fjöldi, ei alleinasta úr Rangárvalla-, heldur Árnes- og Gullbringusýslu, að eg man ei í þau 17 ár, sem eg iðkaði þetta helzt, væru minna en 50 - 60 manns, er eg læknaði í hverri ferð, í hverju verki guð gaf mér þá heppni, að flestir höfðu þar af með guðs hjálp heilsubót, en slétt enginn skaða, svo eg kann án allrar sjálfhælnis og sem fyrir guðs augliti að saman reikna yfir 2000 manns, já enn frekara, sem lækningar og léttir fengu fyrir mín verk og ráð, hvar til sá hálærði landphysicus Bjarni sálugi Pálsson, sem aldrei sleit tryggð við mig, lagði mér til verkfæri, meðöl öll, ráð og dáð, því hann var útgefinn til þess, að sem flestir hefðu gagn af sér og hans kunnáttu. Blessuð veri sú hans minning! Eg fann og upp af hyggjuviti margt, sem í vanefnum varð að lukku þar í. Þó eg væri stundum fyrir vestan, stundum hér eystra vikum saman að því verki, passaði eg þó svo upp á mín embættisverk, að þau skyldu ei forsómast þar við, og lagði á mig harðar reiðir til þess og fleira, að enginn gat þar um klagað. Guð fór og svo að því að ekkert féll til í sóknum mínum, meðan eg var þanninn í burtu, skaðlegt, sem mér gat orðið að hneisu.

Sumir af þeim, er eg læknaði, borguðu mér ærlega; aðrir þar á móti vildu ei, og flestir af aumingjunum gátu það ekki. Nú svo sem guð, sem rannsakar hjartalag og verk allra manna, vissi, að eg gerði mér ei þetta til hróss eða ávinnings, heldur af frómu hjartalagi honum til dýrðar og gagns mínum nauð-líðandi náunga, hvar til eg ætíð ákallaði hann og bað hann hjálpa mér til þess, svo hagaði hann því svo vísdómslega til, án míns undirlags við nokkurn mann, að fregn þessi barst út til Kaupenhöfn, svo hans kóngleg majestet Kristján 7. sendi mér 20 rdr. m[e]dallíu með sínu eigin aftrekki, 20 þá nýslegnar danskar specíur með náðugu bréfi og befaling, að eg skyldi fá ríkara prestakall en það, eg við væri. Þanninn álítur guð kærleikans verk, sem gerð eru í hans nafni af hreinu hjarta. Þanninn heyrir hann bænir sinna nauðlíðandi barna og launað það, sem þeim er gert (1).

 

 

Erlend ummæli um Jón Steingrímsson

Í riti um lofsverðar gjörðir þegna Danakonungs segir árið 1810:

 

Prófasturinn Jon Steingrimsen í Vestur-Skaptafellssýslu hefir sýnt býlinu Felli í Mýrdal lofsverða rækt. Árið 1761 tók hann við því í mikilli niðurníðslu og hefir síðan komið því í frábært horf. Hann hefir, auk varnargarða úr torfi, látið hlaða 500 faðma af traustum steingörðum umhverfis tún og bæjarhús. Hann hefir með um það bil 2000 álnum skurða og ræsa að hluta leitt burt það vatn, sem áður flæddi yfir landið og bar með sér möl og sand, [og] að hluta veitt því á aðra staði, þar sem hann taldi að þess væri þörf. Með þessari skipan hefir hann gert mikið land nýtanlegt, það er áður var í órækt. Hann hefir við bæinn reist rétt fyrir 40 hesta, og í klett þar rétt hjá látið höggva út mjög hentugt vetrarskýli [og] með mikilli fyrirhöfn og erfiði komið þar fyrir fjárhúsi fyrir 200 fjár. Hann hefir látið reisa öll húsin á bænum af nýju, setja á þakið flata flögusteina, og steinleggja flötina umhverfis þau; við gerð húsanna, við steinlögnina og hleðslu steingarðanna hefir hann notað sleða [og] þannig kynnt þeim not þeirra, sem ekki þekktu þau áður. Það sem hér er athyglisverðast, er að býlið sem þessi kappgjarni maður hefir varið svo mikilli vinnu og kostnaði, er ekki í hans eigu, heldur tilheyrir það Hans Hátign Konunginum og [prófasturinn] er þar aðeins landseti; og til reksturs hefir hann 26 ríksdali á ári, sem er allt er hann hefir í embættistekjur.

Verðleikar þessa manns eru að auki þessir: Að hann með góðri innsýn í guðfræðina, sameinaðri staðgóðri þekkingu á jurtafræðum og lækningakúnst, og að honum tekst skynsamlega að beita þessari þekkingu í héraði sínu, þar sem hennar er stórlega þörf, því á Íslandi skipaður Landsphysicus býr um það bil þrjátíu mílur [300 km] frá þessum stað. Ekki einasta í hans eigin prófastsdæmi, heldur og í aðliggjandi svæðum á báða vegu, og fer hann fúslega til allra, jafnvel hinna fátækustu, og gefur þeim skynsamleg ráð, þá er þess er óskað; í þessu skyni fer hann oft í erfiðar ferðir á eigin kostnað og með eigin reiðskjóta; fyrir þetta lætur hann ekki einasta vera að taka greiðslu, en þar fyrir utan gefur hann fátækum meðul án gjaldtöku.

Velvild Hans Hátignar Konungsins og athygli hins Konunglega Landbúnaðarfélags hefir einnig beinzt að Íslandi. Félagið hefir þar útdeilt bæði verðlaunum og virðingartáknum. Hans Hátign Konungurinn lét árið 1777 kunngera ... Prófasti Steingrimsen sinn mikla velvilja, og þar við látið senda Prófastinum: Indføds-Rettens Medallie (14).

 

Með þessum gerningi veitti Christian 7. prófasti ríkisborgararétt í Danmörku og þar með rétt til embætta þar (15).

 

Ljósmyndir:

Haukur Valdimarsson.

 

Minningarkapella sr. Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri var vígð 1974. Arkitektar voru Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir.

 

Reynistaður í Skagafirði kemur mjög við sögu sr. Jóns Steingrímssonar en dvöl hans þar árin 1751-54 varð honum örlagarík.

 

Árið 1776 kom konungleg tilskipun um garðahleðslu á jörðum. Árið eftir var sr. Jón Steingrímsson verðlaunaður af konungi meðal annars fyrir garðahleðslu á ábýlisjörð sinni, Felli í Mýrdal. "Þótti þetta, sem og var, ein sú mesta æra, því þessar medalliur og skenkingar voru þær fyrstu, sem hingað voru gefnar, því þar eftir fóru margir að vinna sér þvílíkt inn með ýmsu móti." Hann hélt uppteknum hætti við jarðabætur á Prestbakka og á myndinni sést hluti af hinum hundrað faðma langa túngarði er hann hlóð þar. "Kemur nú það grjót og byggingarstrit fram við mig, með útlimalúa og braki, en útreiðarnar á hinn veginn" (Ævisagan).

Prestbakki á Síðu þar sem sr. Jón Steingrímsson bjó á árunum 1778 til dánardags, 1791. Næst er Búrhylur í Geirlandsá en í hann ætlaði sr. Jón í örvæntingu sinni að drekkja sér árið 1786: "og nær eg var að þeim syðra kominn í fullum ásetningi til þess, var sem mér væri kippt til baka og við mig sagt: "Þú hefur nógan tíma til þessa", og þar með sneri ég til baka og lofaði guð" (Ævisagan).

Tóft kirkjunnar á Kirkjubæjarklaustri. Hér flutti sr. Jón Eldmessuna þann 20. júlí árið 1783: "embættaði eg í kirkjunni, sem öll var í hristingu og skjálfta af ógnum þeim, er að ofan komu. En svo var eg óskelfdur, og eg ætla allir þeir, eð í kirkjunni voru, að vér vorum ljúfir og reiðubúnir að taka á móti því, sem guð vildi. Var þá guð heitt og í alvöru ákallaður..." (Ævisagan).

 

 

 

 

 

 

Fyrri grein um Sr. Jón Steingrímsson, sú síðari verður birt í janúarblaðinu 2007.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica