10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Einstök aðferð til að upplifa náttúruna

Maður og haf renna saman í eitt, árin gárar spegilsléttan hafflötinn og rétt utan seilingar skýtur forvitinn selur upp kollinum og virðir manninn fyrir sér. Þetta hljómar kannski eins og draumsýn en fyrir kajakræðarann er þetta alvanalegt og jafnframt það sem gerir kajaksiglingar svo eftirsóknarverðar.

Reynir Tómas Geirsson, prófessor og yfirlæknir á kvennadeild Landspítala og eiginkona hans Steinunn Sveinsdóttir, hafa stundað kajaksiglingar um 11 ára skeið og hafa siglt víða, bæði við Íslandsstrendur og erlendis, og fundið sig vel í þessari íþrótt sem Reynir Tómas segir góða aðferð til hvíldar frá amstri dagsins en einnig einstaka leið til að upplifa náttúruna og skoða ýmsa forvitnilega staði sem ekki er svo auðvelt að nálgast af landi.

"Ég stundaði talsvert skíðaíþróttina áður og göngur á fjöll en kynntist kajaksiglingum í gegnum ágætan félaga minn úr læknadeildinni sem býr í Kanada. Hann var hér á ferðinni og sagði mér af því að hann hefði verið í kajakróðri í British Columbia í Kanada. Ég hafði strax mikinn áhuga á að heyra meira um þetta og hann sagði mér að þau hjónin ætluðu í annan slíkan róður næsta sumar. Þegar ég fregnaði nánar eftir tímasetningu þá hittist svo vel á að þau ætluðu að hefja ferðina daginn eftir að læknaráðstefnu í Seattle lyki sem ég ætlaði að sækja. Mér tókst að fá konuna mína með mér í þetta og við æfðum okkur hér heima í Skerjafirðinum fyrr um sumarið og henni leist strax ákaflega vel á. Við vorum síðan í viku í British Columbia og heilluðumst af þessari skemmtilegu íþrótt sem jafnframt er alveg einstaklega góður ferðamáti til að sjá landið frá nýju sjónarhorni."

Þegar heim var komið eftir jómfrúarferðina í Kanada drifu þau hjón sig vestur í Vatnsfjörð þar sem á þeim tíma var starfrækt kajakaleiga. "Þegar við komum í land eftir síðdegissiglingu út í Breiðafjörð þá spurði ég manninn sem rak leiguna hvort hann vildi ekki selja mér bátana tvo sem við höfðum verið á. Það varð úr að hann seldi mér bátana með nauðsynlegasta búnaði sem dugði okkur vel til að byrja með en síðan höfum við búið okkur æ betur og endurnýjuðum bátana fyrir nokkrum árum þegar við keyptum okkur mjög góða sjóbáta, enda höfum við stundað þetta mjög mikið síðustu tíu árin."

Róið víða um heim

Reynir Tómas og Steinunn hafa róið á kajökum víða um heim, meðal annars við Nýja Sjáland, Grænland, Danmörku, Kanada, Chile og við eyjar í Karabíska hafinu. "Það má segja að við höfum gripið tækifærin þegar þau hafa gefist og oft skipulagt ferðir okkar með tilliti til möguleika á kajaksiglingu."

Þegar fregnað er nánar eftir ferðum þeirra hér heima kemur á daginn að þau hafa siglt víða með ströndum landsins í lengri ferðum, en þau skreppa einnig í styttri ferðir um sundin við Reykjavík eða þangað sem fljótlegt er að keyra því lítil fyrirhöfn er að setja bátana upp á bílinn og aka að vatni eða sjó. "Við förum oft út á sundin um helgar, kringum Viðey, út í Engey eða Þerney enda er hægt að stunda kajaksiglingar árið um kring má segja. Við höfum að vísu dregið úr siglingum frá nóvember og fram í mars en þó hef ég slegist í hóp með ræðurum sem róa yfir veturinn frá aðstöðu Kajakklúbbsins á Geldinganeseiðinu. Það er líka stutt að keyra með bátana austur á Þingvallavatn eða upp í Hvalfjörð. Það tekur okkur innan við hálftíma að hafa okkur til með bátana og nestisbita enda erum við orðin vön að skreppa svona og þarf ekki alltaf langan aðdraganda. Bátarnir vega um 26 kíló hvor og við höfum sérstaka tækni við að lyfta þeim upp á bílinn og taka þá niður. Annar útbúnaður kemst fyrir í einni stórri tösku. Þetta er nú allt sem til þarf."

 

Aldrei einn á báti

Einhverjum kann þó að vaxa í augum tilhugsunin um að sigla með ströndum Íslands í veigalitlum kajak og jafnvel telja nokkra fífldirfsku nauðsynlega til að hrífast af þessari íþrótt. Reynir Tómas hristir höfuðið. "Mikilvægast af öllu er að fara með gát og gæta fyllsta öryggis. Útbúnaðurinn þarf að vera góður og svo þarf að fara á námskeið og læra hvernig á að bjarga sér ef bátnum hvolfir. Ég hef það fyrir reglu að fara aldrei einn að sigla og einnig nægir að öðru okkar hjónanna lítist ekki á aðstæður; þá förum við hvergi. Í lengri ferðum hér innanlands höfum við einnig notið leiðsagnar reyndari ræðara en satt best að segja þá höfum við aldrei lent í neinum teljandi vandræðum á öllum þessum ferðum okkar. Ég hef til dæmis aðeins einu hvolft bátnum og það var í flúðum í á í Suður-Ameríku og þá kom sér vel að kunna handtökin og ég var fljótur upp í bátinn aftur."

Reynir Tómas rifjar upp hörmulegt slys sem varð á Skjálfandaflóa fyrir fjórum árum og er síðasta alvarlega slysið sem orðið hefur við kajaksiglingar hérlendis. "Þar var um að ræða ungan pilt sem fór einn síns liðs út á sjó og drukknaði eftir að hafa hvolft bátnum og hefur líklega ekki komist upp í hann aftur. Í kjölfar þessa slyss urðu miklar umræður um öryggismál meðal kajakræðara og ýmislegt var fært til betri vegar og skerpt á öðru."

Formaður ferðanefndar

Reynir Tómas tók að sér formennsku í ferðanefnd Kayakklúbbs Reykjavíkur fyrir nokkrum árum og undir þeim merkjum hafa verið farnar styttri og lengri ferðir á vegum klúbbsins. "Við höfum reynt að undirbúa þessar ferðir vel svo þær væru farnar í góðri sátt við landeigendur á hverjum stað. Það er nauðsynlegt að afla leyfa til að taka land á eyjum eða nesjum þegar stórir hópar fólks eru á ferð. Einnig þarf að virða varptíma fugla, bæði æðarvörp og varp sjaldgæfra fugla, svo við höfum skipulagt ferðir okkar með tilliti til þess. Aðalferð klúbbsins er nú farin í byrjun ágúst um Breiðafjörðinn og í hvert sinn höfum við farið á nýja staði. Svona ferðir eru mjög góður vettvangur til að leiða saman þá sem eru minna vanir og hina sem eru reyndari og geta þá miðlað af reynslu sinni. Í sumar fórum við í mjög góða ferð og þar voru meðal annarra með í för tveir ágætir kollegar mínir. Í júní fórum við einnig í mjög skemmtilega ferð í Náttfaravíkur við Skjálfandaflóa. Það er auðvitað einn tilgangur klúbbsins að skipuleggja ferðir þar sem þeir sem eru annars einir á báti geta farið í ferðir með öðrum."

Hvað heillar mest við kajaksiglingarnar?

"Maður upplifir náttúruna allt öðruvísi á kajak, hvort sem er á vötnum upp til fjalla, inn á fjörðum eða milli eyja. Maður truflar dýralífið nánast ekki neitt og kemst mjög nálægt bæði fuglum og selum og getur virt dýrin fyrir sér úr mikilli nálægð. Svo kemst maður á ýmsa staði á kajak sem aðrir komast ekki svo létt að. Það er til dæmis heilmikil ganga yfir háan fjallaþröskuld að komast í Náttfaravíkur ef farið er landleiðina. En að róa þangað er fyrirhafnarlítið í góðu veðri með ígildi þess sem kemst í tvo bakpoka og að þurfa svo ekki einu sinni að halda á því er ákaflega gott í ofanálag. Við látum ekkert skorta í mat í drykk í þessum ferðum, grillum gjarnan þegar komið er í land, byggjum upp varðeld og njótum rauðvínsflösku til að krydda með matinn og tilveruna. Þetta er það sem dregur okkur hjónin aftur og aftur í kajakferðir, að geta verið útaf fyrir okkur á lítilli eyju eða á fallegu nesi við fallega strönd eða fara í lengri ferðir með góðum félögum. Þetta er áhugamál sem sameinar margt það besta við útivist og íþróttaiðkun."

Reynir Tómas hefur sannarlega ekki lagt árar í bát þó haustið sé að leggjast að. "Við hjónin erum að fara í mjög spennandi róðrarferð núna síðar í haust um eyjar á landamærum Malasíu og Tælands. Það er mikið tilhlökkunarefni."

"Þarf ekki langan aðdraganda að skreppa",

 segir Reynir Tómas.

Í Náttfaravíkum á Skjálfandaflóa. Ljósmynd: Magnús Sigurjónsson.

Við Gróttu á Seltjarnarnesi. Ljósmynd: Reynir Tómas Geirsson.

Á Skarey við Fjón í Danmörku

 

Klakkeyjar á Breiðafirði. Ljósmynd: Sævar Helgason.Þetta vefsvæði byggir á Eplica