09. tbl 92. árg. 2006

Íðorð 190: Sarpur eða sekkur

Diverticulosis

Uggi Agnarsson, læknir á Landspítala, sendi tölvupóst og vildi láta breyta íslenska heitinu á þeim sjúkdómi sem nefndur er diverticular disease of large intestine í Alþjóðlegu sjúkdómaskránni ICD 10, sarpsjúkdómur í digurgirni. Í staðinn vildi hann taka upp heitið sekksjúkdómur í digurgirni. Nefna má að orðið diverticulum er latneskt að uppruna, myndað úr forskeytinu de- (frá), sagnorðinu vertere (að snúa) og viðskeytinu -culum, sem er smækkunarending. Bein orðhlutaþýðing gæti þannig verið lítið útskot. Heitið diverticulum er í læknisfræðinni notað um poka eða sekk sem greinist út frá holu líffæri, ýmist eðlilegt fósturfræðilegt fyrirbæri (pancreatic diverticulum, thyroid diverticulum) eða sjúklegt (esophageal diverticulum, Meckel´s diverticulum, urethral diverticulum og fleira).

Sarpur

Uggi nefndi að honum líkaði ekki orðið sarpur sem heiti á diverticulum, þar sem sarpur merkti gjarnan forðabúr, en ekki væri um neina markvissa forða-söfnun að ræða í digurgirnissarpi. Undirritaður fletti þegar upp í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans og fann þar rúmlega 20 notkunardæmi. Mörg þeirra vísa einmitt til þess að fuglar hafi eins konar geymslupoka í meltingarvegi, sem á íslensku nefnist sarpur, og þess vegna er oft talað um að safna í sarpinn þegar einhverju er safnað saman til geymslu.

Heitið sarpur er tilgreint í Íslenskum læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar frá 1954, diverticulum esophagi, og er þar eignað Vilmundi Jónssyni. Samkvæmt Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar er orðið þó frá 16. öld og hefur verið notað um fyrrgreindan, fremsta hluta meltingarfæra fugla og skordýra. Í mjög athyglisverðri umfjöllun um uppruna þess er meðal annars bent á latnesku sögnina sorbeo, gleypa í sig, renna niður.

Sekkur

Orðið sekkur fannst einnig í ritmálsskránni og gaf leitin rúmlega 60 notkunardæmi. Algengasta merkingin virtist vera poki. Íslensk orðabók Eddu gaf merkingarnar 1. (stór) poki,balli og 2. vaðmálsstrangi. Í Íðorðasafni lækna kemur orðið sekkur fyrir í heitinu hársekkur, hair follicle, folliculus pili. Þess má að lokum geta að upprunalega latneska orðið saccus kemur fyrir í Líffærafræðiheitunum og nefnist poki á íslensku, saccus lacrimalis, tárapoki, og einnig sacculus, sem þar hefur fengið íslenska heitið posi, sacculus laryngis, barkakýlisposi.

Á að breyta

Undirritaður er alveg tilbúinn til þess að fallast á röksemd Ugga og gera tillögu um að íslenska heitið á diverticulum verði sekkur. Í fyrrgreindu sjúkdómsheiti, diverticular disease, kysi undirritaður þó að fleirtalan væri notuð og þannig talað um sekkjasjúkdóm. Sama ætti þá við um diverticulitis, sekkjabólgu, og diverticulosis, sekkjafjöld. Gaman væri að heyra skoðanir annarra.

Nodus - nodulus

Ari Jóhannesson, læknir á Landspítala, hringdi og bað um stutta yfirferð á íslensku heitunum á þeim fyrirbærum sem nefnd eru nodus eða nodulus á fræðimálinu. Uppflettingar í fósturfræði-, líffærafræði- og vefjafræðiheitunum gefa til kynna að íslenska heitið á nodus sé hnútur en að nodulus sé hnökri. Rétt er þó að minnast þess að eitilvefur líkamans, textus lymphoideus, skipar sér í ein-ingar sem hver um sig nefnist nodus lymphaticus, á íslensku eitill.

Bólgukrabbamein

Sigurður Böðvarsson, krabbameinslæknir, sendi tölvupóst og bað um þýðingu á enska heitinu inflammatory breast cancer, en það er ekki að finna í Íðorðasafni lækna. Um er að ræða sérstaklega ágenga tegund af brjóstakrabbameini. Hún gefur sig til kynna með einkennum sem fremur virðast benda til bólgu í brjóstinu en krabbameins. Undirritaður setti saman nokkrar einfaldar tillögur og lagði fyrir Sigurð: brjóst(a)krabbamein með bólgu, bólgukrabbamein í brjósti, bólgubrjóst(a)krabbamein og brjóstabólgukrabbamein. Honum leist best á heitið bólgukrabbamein í brjósti.

Cerclage

Í pistli 187 var lýst eftir íslenskum heitum á bandi sem hnýtt er umhverfis legháls til að koma í veg fyrir fósturlát við leghálsbilun. Ekki hefur orðið mikið úr tillögugerð, en þó hafa eftirfarandi heiti komið fram: hringband, hringsaumur, leghálsband, leghálshaft, leghálssaumur og loksaumur. Hvaða heiti vilja kvensjúkdómalæknar helst nota

Presymptomatic

Að lokum er lýst eftir íslensku heiti sem túlkað getur það tímabil eða það ástand, sem ríkir áður en einkenni tiltekins sjúkdóms birtast. Íðorðasafn lækna birtir enska lýsingarorðið preclinical, forklínískur, og tilgreinir að það sé notað til að lýsa skeiði sjúkdóms áður en einkenni hans og teikn koma fram. Til er einnig lýsingarorðið presymptomatic, sem virðist vísa til þess sama og er gjarnan notað í tengslum við rannsóknir til að greina eða útiloka sjúkdóma, sem hætta getur verið á að komi fram síðar á ævinni.

johannhj@landspitali.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica