07/08. tbl 92. árg. 2006
Umræða og fréttir
Lækningar í Ágústínusarklaustrinu á Skriðu
Medical activity at the monastery at Skriðuklaustur. Results of arceological excavation?
Niðurstöður fornleifarannsóknar
Ágrip
Eftir fjögurra ára fornleifauppgröft á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal er útlit bygginga þess og margþætt hlutverk að skýrast. Uppgröfturinn hefur opnað nýja sýn á sögu klaustursins og gefa niðurstöður fyrirheit um að hann muni breyta viðteknum hugmyndum um byggingar, starfsemi og hlutverk klaustra hérlendis á miðöldum. Bygging Skriðuklausturs samanstóð af þyrpingu vistarvera, kapellu og veglegri kirkju sem stóðu við skýrt afmarkaðan klausturgarð. Hún var áþekk kaþólskum klausturbyggingum erlendis, og hið sama á við um hlutverk klaustursins. Í Skriðuklaustri fór fram bókfells- og blekgerð, ritun bóka og skjala, auk ræktunar mat- og lækningajurta. Í klaustrinu var jafnframt rekið hospítal og stundaðar lækningar. Hér er greint frá framgangi uppgraftarins og skýrt frá helstu niðurstöðum úr rannsóknum honum tengdum, einkum þó þeim þætti sem sneri að lækningum, hjúkrun og umönnun sjúkra.
Inngangur
Sumarið 2002 hófst uppgröftur á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal. Markmiðið með honum er að kanna byggingarlag klaustursins sem var starfrækt tímabilið 1493-1554. Samhliða því er ætlunin að kanna starfsemina sem fram fór innan veggja þess, svo og hlutverk í íslensku miðaldasamfélagi, um leið og gengið er út frá því að Skriðuklaustur hafi verið hluti af þeirri heild sem kaþólska kirkjan skapaði á miðöldum í Evrópu.
Uppgröfturinn á Skriðuklaustri gefur ástæðu til þess að draga í efa að Íslendingar hafi byggt klaus-ur að eigin fyrirmynd en viðtekin er sú skoðun hérlendis að íslensk klaustur hafi greint sig frá öðrum klaustrum í Evrópu, einkum hvað varðar útlit og hlutverk. Þekkt er að kaþólska kirkjan studdist við ákveðna forskrift við stofnun og byggingu klaustra en einangrun Íslands á miðöldum er talin hafa haft áhrif á frumgerð þeirra hérlendis. Ljóst er að hlutverk Skriðuklausturs samsvaraði hlutverkum annarra kaþólskra klaustra í Evrópu, þar sem hæst bar líkn sjúkra, aldraðra og fátækra og önnur samfélagshjálp, menntun barna og menningarstarfsemi af ýmsu tagi, samhliða eigna-umsýslu og iðkun kaþólskrar trúar.
Ágústínusarklaustrið á Skriðu í Fljótsdal
Skriðuklaustur var stofnað síðast allra klaustra í kaþólskum sið á Íslandi. Klaustrinu bárust fyrst gjafir árið 1493 og er það ár því oft nefnt sem stofnár þess. Það var munkaklaustur, að líkindum af Ágústínusarreglu, sem var þó ekki regla munka heldur klerka eða kórbræðra (1). Skriðuklaustur var helgað Guði almáttugum, Maríu mey og hinu helga blóði Jesú Krists. Þar var starfræktur svokallaður ytri skóli, það er skóli fyrir þá sem lifðu í hinum veraldlega heimi utan við þann andlega sem var afmarkaður með veggjum klaustursins (2). Eins er af heimildum þekkt hverjir voru príorar Skriðuklausturs og urðu þeir fjórir í hálfrar aldar sögu þess. Kórbræður hafa verið nokkrir hverju sinni og giskað hefur verið á fimm til sex að jafnaði í þessu sambandi (3). Skriðuklaustur var lagt af við siðaskiptin eins og önnur klaustur á Íslandi (4).
Til eru skjalfestar upplýsingar um rekstur og fjárhag Skriðuklausturs, þar með talið lausafé, jarða- og bókaeign (5). Upplýsingar þessar um veraldlegar eignir klaustursins og umsvif út á við eru gloppóttar en augljóst er þó að það varð fljótt mjög auðugt, enda eina klaustrið sem starfrækt var í Austfirðingafjórðungi á þessum tíma. Enn minna var vitað um innri starfsemi eða byggingar þess þar til uppgröfturinn hófst. Engar lýsingar á klausturhúsunum eru til varðveittar. Allar minjar tengdar því eru horfnar undir yfirborð jarðar nema rúst kirkju sem getið er í úttekt frá árinu 1677 að reist hafi verið á grunni klausturkirkjunnar (6). Þessi rúst er greinanleg enn þann dag í dag, á svokölluðu Kirkjutúni sem liggur um 150 metrum neðan við Gunnarshús og gamla bæjarstæðið á Skriðu, enda stóð hún til ársins 1792. Elsta lýsing á kirkju á Kirkjutúninu er varðveitt í úttekt frá árinu 1598. Þar er að líkindum klausturkirkjunni sjálfri lýst eftir að hún var gerð að annexíu frá Valþjófsstað og þess getið að klausturhúsin séu "af fallin". Þá var liðin tæp hálf öld frá því klausturlíf lagðist af á staðnum (7).
Leitað að rústum klaustursins
Löngum var talið að Skriðuklaustur hefði staðið á gamla bæjarstæðinu á Skriðu og að göng hefðu legið frá því að kirkjunni sem staðsett var á Kirkjutúninu. Þó ekki hafi verið vitað með vissu hvar byggingar klaustursins stóðu, hafa fáir dregið tilvist þess í efa. Forkönnun var því gerð á Skriðuklaustri sumarið 2000 í þeim tilgangi að staðsetja rústir þess. Ákveðið var að rannsaka gamla bæjarstæðið á Skriðu bæði með jarðsjá og könnunarskurðum. Eins þótti rétt að kanna með sömu aðferðum svæðið í kringum kirkjurústina sem sýnileg er á yfirborði Kirkjutúnsins. Voru þá önnur klaustur í Evrópu höfð í huga, þar sem kirkja er undantekningarlaust hluti af þeirri heild sem klausturhúsaþyrpingin myndar (8).
Það er skemmst frá því að segja að rústir klaust-ursins fundust á Kirkjutúninu við kirkjurústina sem aflögð var árið 1792. Uppgröftur hófst tveimur árum síðar. Með uppgreftrinum hefur verið staðfest að klaustrið á Skriðu var starfrækt í sérstakri byggingu, aðskilinni frá veraldlegum umsvifum á bænum, líkt og gert var í öðrum löndum Evrópu. Augljóst er að klausturbyggingin hefur verið mjög stór en mælingar benda til þess að grunnflötur hennar sé um 1200 fermetrar að flatarmáli.
Bygging Skriðuklausturs
Nú þegar fjögur ár eru liðin frá upphafi uppgraftarins er ljóst að grunnform klausturbyggingarinnar var það sama og önnur evrópsk klaustur höfðu. Þau voru samsett af þyrpingu vistarvera sem öll gegndu ákveðnum hlutverkum og voru byggð ásamt klausturkirkju kringum klausturgarð (9). Útveggirnir mynduðu þannig lokað rými þeirra sem ákváðu að gefa sig Guði einum á hönd og segja skilið við hinn veraldlega heim sem lá utan veggja klaustursins (10). Nú þegar má greina úr rústum Skriðuklausturs sex vistarverur, auk lítillar kapellu (eða kapítula) og klausturkirkju sem báðar voru hluti af klausturbyggingunni sjálfri. Í miðri húsaþyrpingunni var garður með brunni fyrir miðju. Íburður klausturkirkjunnar hefur verið mikill en í rúst hennar hafa fundist brot úr altarissteinum, steindum gluggum og líkneski (11).
Lækningar og umönnun sjúkra í Skriðuklaustri
Fornleifauppgröfturinn á Skriðu hefur einnig opnað nýja sýn á hlutverk klaustursins og starfsemi því tengdu. Niðurstöður frjókornagreininga1 og fornmeinafræðilegra rannsókna2 benda til þess að hospítal hafi verið rekið á staðnum, líkt og gert var í mörgum öðrum klaustrum í Evrópu (12). Áhöld til lækninga hafa einnig fundist í rústum klaustursins, þar á meðal bíldar af ýmsum gerðum skæri, lyfjaglas og ýmsar tegundir steina en þekkt er að steinar hafi verið taldir búa yfir lækningamætti. Frjókornagreining sem gerð var á jarðvegssýnum frá rannsóknarsvæðinu sýndi að skipulögð ræktun lækninga- og matjurta fór fram í garði klaustursins eins og algengt var í kaþólskum klaustrum (13). Samtals voru 22 tegundir plantna og jurta greindar og af þeim teljast tíu til lækningajurta. Þrjár þeirra eru aðfluttar og hljóta því að hafa verið ræktaðar markvisst á staðnum. Ein af sjaldgæfu tegundunum er villilaukur sem einnig gæti hafa verið nýttur til matar. Aðrar sjaldgæfar tegundir eru brenninetla og græðisúra (14).
Ræktun lyfjagrasa og hugsanleg lyfjagerð í tengslum við hana gefur til kynna að umönnun, hjúkrun eða jafnvel lækningar hafi farið fram í klaustrinu á Skriðu og styður mannabeinasafn frá uppgreftrinum þá tilgátu einnig. Ríflega 60 grafir hafa fundist í klausturgarðinum, veggjum kirkjunnar og því rými sem liggur næst henni. Þrjátíu og sjö þeirra hafa verið grafnar upp en greina má einkenni alvarlegra sjúkdóma af ýmsu tagi á nánast öllum þeim beinagrindum sem í þeim hafa fundist. Áberandi eru smitsjúkdómar eins og sárasótt, berklar, sullur, holdsveiki og krónísk lungnabólga sem allt voru landlægir sjúkdómar í nágrannalöndum Íslands á þessum tíma, auk tannígerða og gigtarsjúkdóma. Eins hefur á Skriðuklaustri verið jarðað fólk sem hefur hlotið áverka, beinbrot eða verið með ýmiskonar fötlun. Bein fyrirbura, ungbarna og ungra kvenna eru í miklum meirihluta í beinasafninu en það gæti bent til að konur hafi leitað til klaustursins í barnsnauð Aðeins ein beinagrind karlmanns hefur verið grafin fram úr Skriðuklausturskirkjugarði enn sem komið er (15).
Bein 13-15 ára unglings með klofinn góm benda jafnframt til umönnunar á staðnum samhliða lækningastarfsemi en merkilegt verður að teljast að hann hafi lifað til unglingsára með slíka fötlun. Börn með klofinn góm dóu mörg hver snemma í æsku á þessum tíma, einkum vegna skertrar soggetu þeirra af þessum sökum. Næringarskortur varð þeim að líkindum oftast að aldurtila nema mikið væri haft við, líkt og greint er frá í sögu Þorgils skarða. Þorgils skarði fæddist með skarð í góm og tanngarð. Hann var af höfðingjaættum en í sögu hans og í rannsóknum henni tengdum kemur fram að líklega hafi þurft eina fullorðna vinnukonu í fullt starf til þess að halda honum á lífi fyrsta ár bernskunnar (16).
Niðurstaða
Segja má að með uppgreftrinum á Skriðuklaustri hafi verið skyggnst inn í dulinn heim kaþólskrar kirkju á miðöldum. Mörgum óvissuþáttum um byggingarlag þess hefur verið eytt. Rannsóknaniðurstöður gefa fyrirheit um að uppgröfturinn muni breyta viðteknum hugmyndum um byggingar og hlutverk klaustra á miðöldum hérlendis. Uppgröfturinn gefur í fyrsta lagi ástæðu til þess að draga það í efa að Íslendingar hafi byggt klaustur sín að eigin fyrirmynd, eins og líkur hafa áður verið leiddar að, því bygging Skriðuklausturs greinir sig ekki frá fastmótuðu grunnformi annarra samtíða klausturbygginga í Evrópu.
Í öðru lagi virðist hlutverk Skriðuklausturs samsvara hlutverkum annarra kaþólskra klaustra í Evrópu. Hlutverk þeirra snéri einkum að samfélagshjálp í víðum skilningi, að rekstri skóla og móttöku fátækra, sjúkra og aldraðra til umönnun-ar eða lækninga, samhliða bænahaldi. Óvenjulega hátt hlutfall barna, ungmenna, sjúkra og fatlaðra sem jarðsettir voru í klausturgarðinum rennir stoðum undir þá tilgátu að hospítal hafi verið rekið á vegum Skriðuklausturs. Áður hefur verið bent á að íslensku klaustrin hljóti að hafa rekið spítala eða athvörf á jörðum sínum, eins og tíðkaðist víða í klaustrum utan Íslands, en heimildir um það hefur skort (17). Áhöld til lækninga og ræktun lyfjagrasa á staðnum benda ennfremur til þekkingar á sviði læknisfræði hérlendis á kaþólskum tíma en hingað til hefur hún verið ta lin hafa verið takmörkuð fyrir siðaskiptin (18).
Niðurstöður rannsóknarinnar á Skriðu hljóta að ýta undir efasemdir um hina meintu einangrun Íslands á miðöldum. Að sama skapi má gagnrýna þá miklu áherslu sem lögð hefur verið á neikvæðar hliðar auðsöfnunar kaþólsku klaustranna, á kostnað hlutverka þeirra við samfélagshjálp í breiðum skilningi. Miskunnsemi var jú einkunnarorð kaþólskrar kristni. Ætla mætti að enn í dag eimi eftir af boðskap siðaskiptanna við rannsóknir á klausturhaldi hérlendis en hann einkenndist af áróðri gegn kaþólskri kirkju og hlutverkum hennar. Kaþólsk kirkjuskipan setti mark sitt á evrópsk miðaldasamfélög og fyrir tilstuðlan hennar bárust hingað til lands margháttuð áhrif, jafnt jákvæð sem neikvæð. Stofnun klaustra á Íslandi hefur eflaust ekki verið undanþegin þessum áhrifum, enda landið hluti af þeirri heild sem kaþólska kirkjan skapaði á miðöldum.
Heimildir
1. Guðmundsson GF. Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. In: Hjalti Hugason, ed., Kristni á Íslandi II. Alþingi, Reykjavík 2000: 217, 221-3, 324.
2. Stephensen Þ. Menntasetur að Viðeyjarklaustri. Ritgerð í kirkjusögu: Háskóli Íslands, guðfræðideild, 1992: 60-1.
3. Jónsson J. Um klaustrin á Íslandi. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags 1887; 8: 264.
4. Steinsson H. Saga munklífis að Skriðu í Fljótsdal. Sérefnisritgerð til embættisprófs í guðfræði. Háskóli Íslands 1965: 85.
5. Steinsson H. Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur. Múlaþing 1966; 1: 75.
6. Bruun D. Við norðurbrún Vatnajökuls (Rannsóknir á Austurlandi sumarið 1901). Múlaþing 1974: 7, 163-4.
7. Hallgrímsson H. Minjar og saga á Skriðuklaustri. Heimildakönnun og heimildaskrá. Egilsstaðir 2000: 4-9.
8. Kristjánsdóttir S. Klaustrið á Skriðu í Fljótsdal. Hvers vegna fornleifarannsókn? Múlaþing 2001; 28: 129-39.
9. Olsen O. De danske middelalderklostres arkæologi. Hikuin 23, 1996: 10, 21.
10. Guðmundsson GF. Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. In: Hugason H, ed., Kristni á Íslandi II. Reykjavík: Alþingi, 2000: 212.
11. Kristjánsdóttir S. Skriðuklaustur ? híbýli helgra manna. Áfangaskýrsla fornleifarannsókna 2002. Skýrslur Skriðu-klaustursrannsókna IX. Reykjavík: Skriðuklaustursrannsóknir, 2003.
12. Aston M. The Expansion of the Monastic and Religious Orders in Europe from the Eleventh Century. In Graham Keewill, Mick Aston and Teresa Hall ed.), Monastic Archaeology. Oxford 2001: 23.
13. Bond J. Production and Consumption of Food and Drink in the Medieval Monastery. In Graham Keewill, Mick Aston and Teresa Hall (ed.), Monastic Archaeology. Oxford 2001: 65.
14. Jensson H. Klausturgarðurinn á Skriðu. Niðurstöður frjókornagreininga. Háskóli Íslands 2005; BA-ritg: 31.
15. Kristjánsdóttir S. Skýrslur Skriðuklaustursrannsókna IX. Reykjavík: Skriðuklaustursrannsóknir, 2005.
16. Bragg L. Disfigurement, disability, and dis-integration in Sturlunga saga. Alvíssmál 1994: 4: 16.
17. Ísleifsdóttir V. Öreigar og umrenningar. Um fátækraframfærslu á síðmiðöldum og hrun hennar. Saga 2003. XLI: 2, 91-126.
18. Þorláksson H. Undir einveldi. In Sigurður Líndal (ed.), Saga Íslands VII. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2003: 127.
1 Greiningar gerði Ragnheiður Erla Bjarnadóttir vistfræðingur með aðstoð Hákonar Jenssonar fornleifafræðingi. 2 Greiningar gerði Guðný Zoëga fornmeinafræðingur.
english summary
Uppgröftur hófst á Skriðuklaustri sumarið 2002.
Útlínur uppgrafinna rústa Skriðuklausturs.
Hvíti kekkurinn sem örin vísar á bendir til kalkmyndunar í lunga
af völdum berkla.
Af 37 rannsökuðum beinagrindum úr Skriðuklausturskirkjugarði eru helmingur þeirra bein fyrirbura og barna undir 10 ára aldri.