05. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Skortur á hjúkrunarkonum kallaði á nýjungar

Ragnheiður Guðmundsdóttir heiðursfélagi LÍ

Ragnheiður Guðmundsdóttir augnlæknir man tímana tvenna í starfi sínu sem læknir og kennari við bæði læknadeild og síðar við menntun sjúkraliða á Landakotsspítala. Ragnheiður stendur á níræðu en lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir slæmt bílslys er hún lenti í fyrir þremur árum.

Ragnheiður átti stóran þátt í því að sjúkra-liðanám hófst hérlendis um miðjan sjöunda áratuginn en hún kynntist starfi sjúkraliða er hún kynnti sér kennslu í lífeðlisfræði við læknaskóla í Bandaríkjunum árið 1962.

Sjúkraliðanám hófst haustið 1965 við fjögur stærstu sjúkrahúsin í Reykjavík og á Fjórðungs-sjúkrahúsinu á Akureyri svo nú í vor eru liðin 40 ár frá því fyrstu sjúkraliðarnir útskrifuðust en fyrstu árin var sjúkraliðanámið einn vetur. Það er því óhætt að taka undir með Ragnheiði að í ár eru nokkur tímamót í sögu sjúkraliðamenntunar á Íslandi og full ástæða til að rifja upp aðdraganda þess að nám í sjúkraliðun hófst hérlendis.

Sagan endurtekur sig

Þegar Ragnheiður er beðin um að rifja upphaf sjúkraliðanámsins á Íslandi er ekki laust við að hvarfli að manni viðkvæðið um að sagan endurtaki sig í sífellu en yfirvofandi skortur á næstu árum á starfsfólki í heilbrigðisstéttum, sérstaklega meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, er eitt af því sem komið hefur fram í umræðum um framtíð heilbrigðismála á undanförnum vikum.

"Á árunum fyrir og eftir 1960 var mikið rætt og ritað um skort á hjúkrunarfólki og það var ofur eðlilegt að því á þessum árum voru í smíðum viðbyggingar við stóru sjúkrahúsin í Reykjavík, Landspítala og Landakotsspítala og smíði Borgarspítalans var á lokastig," segir Ragnheiður.

Ragnheiður rifjar jafnframt upp að í 3. tbl. Læknablaðsins 1962 hafi verið haft eftir Sigríði Bachmann, forstöðukonu Landspítalans að Landspítalinn geti ekki veitt sjúklingum þá þjónustu sem talin er æskileg (þrjár klukkustundir á sólarhring hver sjúklingur).

"Vissulega eru tímarnir breyttir og kröfurnar aðrar og meiri í dag en fyrir tæpum 50 árum. En það þarf ekki sterkt ímyndunarafl til að sjá hliðstæðurnar við umræðuna í dag og forvitnilegt að velta fyrir sér hverjar lausnir voru fundnar á vandanum þá og hvernig lausn þess tíma er orðin hluti af vandanum í dag. Nú stendur heilbrigðiskerfið nefnilega ekki einasta frammi fyrir yfirvofandi skorti á hjúkrunarfræðingum heldur líka sjúkraliðum."

"Meðan ég dvaldi mestan hluta ársins 1962 í Bandaríkjunum, aðallega Fíladelfíu og New York, til að kynna mér kennslu í lífeðlisfræði við læknaskóla þar, en ég hafði þá verið aukakennari í þessari grein í tæpan áratug við læknadeild Háskóla Íslands, kynntist ég, kannski að nokkru fyrir tilviljun, námi og starfi hjúkrunarfólks þar í landi sem kallað er "practical nurses" sem við höfum kallað sjúkraliða. Mér fannst þetta hjúkrunarnám svo athyglisvert og frásögn ábyrgra aðila af því hvað þetta hjúkrunarfólk gegndi mikilvægu hlutverki í hjúkrun við spítala og aðrar sjúkrastofnanir svo merkilegt, að það varð til þess, að ég ákvað að kynna mér nám og starf þessara practical nurses eins vel og mér gæfist tækifæri til. Gerði ég það með með það fyrir augum að kynna þetta ábyrgum aðilum hér og öllum almenningi, þegar heim kæmi, ef þetta mætti koma að gagni hér, eins og það hafði augljóslegra gert þar í landi."

Hér er vitnað í grein eftir Ragnheiði sem birtist í 10. tbl Læknablaðsins 1987, sem var upphaflega erindi er hún flutti á ráðstefnu Sjúkraliðafélags Íslands vorið 1985 en þá voru einmitt 20 ár liðin frá því námið hófst hérlendis.

 

Allir flokkar samþykktu samhljóða

Í samtali við Ragnheiði þar sem hún var beðin að rifja upp aðdraganda þessa alls kemur fram að hún sat í stjórn Reykjavíkurdeildar Rauðakross Íslands frá 1959-1979 og var formaður deildarinnar 1971-1979. Flest árin sat hún einnig í stjórn RKÍ og það var einmitt á þeim vettvangi sem hún beitti sér upphaflega fyrir því að nám í sjúkraliðun var tekið upp hérlendis.

"Tillögur mínar um að stjórn RKÍ ynni að því að heimiluð yrði skemmri hjúkrunarmenntun voru samþykktar á stjórnarfundi RKÍ þann 11. febrúar 1963," segir Ragnheiður. "Það kom í hlut dr. Jóns Sigurðssonar borgarlæknis formanns RKÍ fyrir hönd stjórnarinnar, að berjast fyrir því að hjúkrunarlögunum yrði breytt þannig að slík hjúkrunarmenntun, í samræmi við menntun practical nurses í Bandaríkjunum yrði heimiluð hérlendis. Þetta tók allt sinn tíma en á vorþinginu 1965 voru breytingar á hjúkrunarlögunum samþykktar og rétt að komi fram að allir flokkar á Alþingi stóðu samhljóða að lagabreytingunni."

Ragnheiður segir að þrátt fyrir farsæla lendingu á þessu máli þá hafi hugmyndum hennar um sjúkraliðanámið verið tekið heldur fálega í fyrstu. "Þær mótbárur sem helst heyrðust vor m.a. að með þessu væri verið að draga hjúkrun niður á lægra stig. Auðvitað var það fáránleg mótbára. Að sjálfsögu hlyti hjúkrun að batna, ef eingöngu þjálfað fólkfengist við hana, en á þessum tíma þurfti oft og tíðum að grípa til ólærðs fólks við hjúkrun sjúkra. Sumir óttuðust mótstöðu hjúkrunarkvenna gagnvart nýrri stétt hjúkrunarfólks sem ekki hefði notið alveg sömu menntunar og þær sem fyrir voru. Kynni mín af samstarfi sjúkraliða og hjúkrunarkvenna á sjúkrahúsunum í Bandaríkjunum eyddu þó öllum efasemdum mínum í þessu efni."

Sannspá um hjúkrunarnám á háskólastigi

Hér má vitna í grein sem Ragnheiður birti í Morgunblaðinu 28. október 1962 er hún kynnti þetta mál upphaflega fyrir íslenskum almenningi undir yfirskriftinni: Er þetta leiðin til að ráð bót á hjúkrunarkvennaskortinum - Þar segir m.a.: "Enda þótt samkomulag allra þeirra sem að hjúkrun starfa sé vissulega mikilvægt atriði, fannst mér það þó jafnvel enn mikilvægara að fá að herya álit ábyrgra manna á hvaða áhrif svona skemmri hjúkrunarþjálfun hefði á hjúkrunina sjálfa og menntun venjulegra hjúkrunarkvenna. Að 24 ára reynslu (upphafsár náms í practical nursing í Bandaríkjunum er 1938. innsk. Læknablaðsins.) fenginni var mér sagt að með auknu starfsliði og ákveðinni verkaskiptingu hlyti hjúkrunin í heild auðvitað að batna og nú væri t.d. mjög fátítt grípa þyrfti til hjálpar ófaglærðs fólks til aðstoðar sjúklingum svo sem gangastúlkna. Sama máli gegndi með hjúkrunarkonurnar. Í rauninni yrði sérhver hjúkrunarkona ennþá verðmætari starfskraftur eftir en áður. Með auknum mannaforráðum hafa þær fundið enn meiri ábyrgð hvíla á sér, og hefur það í vaxandi mæli haft í för með sér að þær leita framhaldsmenntunar í fagi sínu. Enda er það svo í Bandaríkjunum að margar hjúkrunarkonur taka jafnvel háskólapróf (svo sem meistarapróf) í hjúkrunarfræðum. Þetta á einkum við um þær sem búa sig undir yfirhjúkrunarkonu- og kennslustörf. Að þessi yrði einnig raunin hér, að hjúkrunarmenntun myndi jafnvel batna og komast á hærra stig með aukinni framhaldsmenntun er engin ástæða til að draga í efa."

Hér reyndist Ragnheiður sannarlega sannspá og hjúkrunarnám á háskólastigi er löngu orðin staðreynd og sjúkraliðanámið sem upphaflega var 9 mánuðir lengdist í tvö ár þegar Sjúkraliðaskóli Íslands var stofnaður árið 1975 og var starfræktur undir stjórn Heilbrigðis-og tryggingaráðuneytisins. Sjúkraliðaskólinn var lagður niður árið 1990 og námið flutt í Fjölbrautaskólann við Ármúla/Heilbrigðisskólann. Fyrstu sjúkraliðarnir voru útskrifaðir frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla/Heilbrigðisskólanum haustið 1991.  Framhaldsnám fyrir sjúkraliða hófst við skólann í janúar 1992.

Hér fer á eftir rökstuðningur stjórnar LÍ er Ragnheiður Guðmundsdóttir var kjörin heiðursfélagi á aðalfundi félagsins í október 2004.

Ragnheiður Guðmundsdóttir er fædd 20. ágúst 1915 í Reykjavík. Hún lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 23. maí 1945. Hún var sjötta konan, sem lauk læknaprófi frá HÍ frá stofnun hans 1911. Hinar eru Kristín Ólafsdóttir, 1917, Katrín Thoroddsen, 1921, María Hallgrímsdóttir, 1931, Gerður Bjarnhéðinsdóttir, 1932, Sigrún Briem, 1940 og loks Ragnheiður 1945 eins og áður segir. Segja má að kona hafi útskrifast sem læknir frá HÍ með liðlega fimm ára fresti á þessum árum. Eru tímarnir sem betur fer breyttir í þessu sem öðru. Ragnheiður varð sérfræðingur í augnlækningum  á Íslandi 1966 en áður hafði hún lokið sérfræðiprófi í augnlækningum frá Escuela Professional de Oftalmologia í Barcelona 1964. Ragnheiður bjó sig m.a. undir sérfræðiviðurkenningu sína í Kaliforníu og í Main í Bandaríkjunum.

Ragnheiður gegndi störfum sem læknir hér á landi, á Spáni og í Bandaríkjunum. Hún var augnlæknir á Landakotsspítala en skipulagði jafnframt kennslu sjúkraliða á þeim spítala og annaðist kennslu þeirra. Ragnheiður mun hafa átt frumkvæði að kennslu sjúkraliða hér á landi eftir að hafa kynnst starfi þeirra erlendis.

Ragnheiður starfaði að félagsmálum lækna. Hún var í stjórn augnlæknafélagsins og formaður þess 1972 til 1974. Ragnheiður hafði með höndum fjölda trúnaðarstarfa, sem hún valdist augljóslega til vegna læknisstarfsins. Hún sat í stjórnum Rauða kross deildar Reykjavíkur og í stjórn Rauða kross Íslands, í læknanefnd Öldrunarfélags Íslands og í öldungadeild Læknafélags Íslands frá 1994 til 1996. Ragnheiður er heiðursfélagi Golfklúbbs Reykjavíkur.

Það má hverjum manni vera ljóst, að það hefur ekki þótt sjálfsagt fyrir konu að hefja nám í læknisfræði á þeim árum sem Ragnheiður settist í læknadeild. Um það bera þær tölur glöggt vitni, sem ég nefndi hér að ofan. En Ragnheiður lét sér ekki almenna lækningaleyfið duga, heldur aflaði sér framhaldsmenntunar til sérfræðiviðurkenningar víða og á fáförnum Íslendingaslóðum.

Kjör Ragnheiðar sem heiðursfélaga Læknafélags Íslands er m.a. til marks um það, að læknar vilja sýna þeim konum virðingu, sem brutust gegn straumnum til mennta og voru sú hvatning kynsystrum sínum til að leggja stund á læknisfræði sem leitt hefur til jafnrar stöðu kvenna á við karla í læknadeild.

 

Læknablaðið 2004; 90: 780.

Ragnheiður Guðmundsdóttir augnlæknir, heiðursfélagi LÍ.Þetta vefsvæði byggir á Eplica