05. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Kjaramál í nútíð og framtíð. Sigurður E. Sigurðsson

Nú þegar nýr kjarasamningur sjúkrahúslækna (ekki þó skurðlækna) og heilsugæslulækna hefur verið samþykktur er rétt að staldra örlítið við og skoða hvað við sömdum um og á hvaða leið við erum í okkar kjaramálum. Einstök atriði samningsins hafa verið kynnt á fundum eftir undirskrift og óþarfi að fara í smáatriði hér en það er hins vegar augljóst á þeim samtölum sem ég hef átt við lækna sem formaður samninganefndar að almenn þekking lækna á eigin kjarasamningi er býsna bágborin. Menn gefa sér lítinn tíma til að lesa samninginn sem er kannski skiljanlegt þar sem hann er um 30 blaðsíður en það er hins vegar verra að einstök atriði í samningnum eða túlkun hans eru misskilin og síðan virðast myndast einhvers konar draugasögur (urban myths) sem ómögulegt virðist að kveða niður. Dæmi um þetta er "salan" á yfirvinnu og gæsluvaktafríum í samningnum 2002. Vissulega má segja að fríin sem voru veitt ef yfirvinna og/eða vaktavinna fór yfir ákveðin mörk voru felld burt sem slík en í staðinn kom veruleg hækkun á taxta fyrir vaktir og reyndar stuðlaði þessi sala að grunnkaupshækkun líka. Því er svo við að bæta að í samningnum er tafla sem veitir mönnum heimild til þess að skipta út greiðslum fyrir gæsluvaktir í frí, og þessi frí eru alveg jafnrétthá þeim fríum sem við áður höfðum, það er ef aðstæður leyfa. Þarna er að vísu ekki sambærileg tafla fyrir staðarvaktir (ennþá). Þarna er því mönnum leyfilegt að taka frí fyrir vaktagreiðslur og er þessi aðferð mun sanngjarnari til dæmis fyrir þá sem taka mikið af vöktum þá var samkvæmt gamla kerfinu hámark á hvað við gátum unnið okkur inn mikil frí og voru menn oft búnir að ná því hámarki um haustið og gátu því ekki unnið sér inn meira frí, en þetta gerist að sjálfsögðu ekki nú og frí fyrnast heldur ekki eins og áður gerðist. Önnur svona þjóðsaga er með viðbótarþættina en þegar menn eru að ræða þá heyrist gjarnan að þeir hafi ekki skilað sér til manna og "enginn hafi fengið neitt". Þetta er heldur ekki rétt en til að gera hlutina sýnilegri þá var í núverandi samningi sett inn bókunarákvæði sem beinlínis kveður á um að við getum fylgst með að þeir peningar sem við sömdum um að færu í viðbótarþætti skili sér þangað. Hér ber þó að benda á eitt: Viðbótarþættir á grunnlaun eru einstaklingsbundnir og eru hugsaðir sem slíkir. Þessu má að sumu leyti líkja við framgangskerfi þannig að ef menn eru til dæmis að taka að sér sérstök verkefni eða telja sig á einhvern annan hátt vera verðugir þess að fá viðbótarþætti þá skulu menn sækja um þá. Hins vegar þýðir þetta ekki að allir fái það sama. Menn hafa vissulega ákveðið að sumir þættir eins og "helgun" og doktorspróf skuli gefa sömu tölu allstaðar en aðrir þættir eru einstaklingsbundnir og þó segi í samningnum að það geti numið allt að 15 eða 20% þá þýðir það ekki að allir fái 15 eða 20% og sumir fá kannski ekki neitt. Svona einstaklingbundin laun eru kannski eitthvað sem ekki öllum líkar en almennt má segja að þetta er ekki svo stór hluti heildarlauna og gefi mönnum ákveðinn sveigjanleika og þegar menn læra betur á þetta þá verði sátt um þetta.

Hvað þá um framtíðina - Hvert stefnum við?

Fyrir það fyrsta þá er að velta fyrir sér hvort læknar munu áfram semja sem einn (eða næstum því) stór hópur eða hvort við teljum hag okkar betur borgið með að skipta okkur í minni hópa sem eiga þá eitthvað sameiginlegt sem hinir eiga ekki. Svarið við þessu veltur kannski nokkuð á hvernig tekst til hjá skurðlækum. Í mínum huga var í nýliðnum samningaviðræðum á nokkrum stöðum þar sem atriði fengust í gegn vegna einmitt stærðar okkar. Það er styrkur í fjölda. Hins vegar má einnig segja að þegar verið er að semja fyrir stóran mislitan hóp þá þarf að vera góð samstaða ef leggja á sérstakar áherslur á hluta hópsins, sbr. unglækna í þessum samningi. Ástæðurnar fyrir að einn hópur fær meira en annar þurfa að vera nokkuð ljósar og það er mín tilfinning að einn hópur einfaldlega telji sig betri og mikilvægari lækna en aðra hreinlega gangi ekki upp. Er þá einhver lausn til? Að mínu viti er svo. Ég tel að við eigum áfram að semja sem einn stór hópur en kjarasamningurinn verði að vera sveigjanlegri svo að einstakir læknar eða hópar geti aðlagað sig á hverjum stað og fengið kjör við hæfi. Við getum séð þessa þróun til dæmis í Svíþjóð þar sem menn eru miðlægt í raun að semja um grunn sem allir hafa, en æ stærri hluti samningsins hefur verið fluttur á einstaka staði og þar hafa menn meira frjálsræði. Þetta er auðvitað ekkert alveg svona einfalt því að þessu verður að fylgja að mönnum sé þá leyft að semja staðbundið í raun og veru en ekki sé sífellt verið að krukka í þetta frá ráðuneytinu og að læknar læri að semja á þennan hátt ásamt því að gera sér grein fyrir að ekki eru þá allir með sama samning og menn geti borið mismikið úr býtum. Þarna má líka sjá fyrir sér hóp á vegum Læknafélags Íslands sem hjálpar eftir þörfum þar sem samningar ganga ekki snuðrulaust fyrir sig. Þessi lausn held ég að geti gefið okkur bæði kosti þess að vera sem einn stór hópur í mikil-vægustu málunum, svo sem lífeyrissjóðsmálum og önnur réttindi ásamt lágmarkslaunum en leyfi meiri fjölbreytni en er í dag.

ses@fas.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica