03. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Dýrt heilbrigðiskerfi? Ólafur Örn Arnarson

Í Læknablaðinu sem kom út í byrjun febrúar gagnrýnir fyrrverandi landlæknir Hagstofuna fyrir að reikna útgjöld til heilbrigðismála á rangan hátt og fá þannig óeðlilega háa útkomu. Telur hann ekki um neina sóun að ræða í rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Líta má á málið frá nokkuð öðru sjónarhorni. Fyrir nokkrum árum gaf The Fraser Institute í Kanada út mat á heilbrigðiskerfum OECD-landanna. Stofnunin bendir á að í Kanada fer um 42,5% útgjalda til að þjóna fólki eldra en 65 ára. Hver einstaklingur á þeim aldri þarf fimm sinnum meiri þjónustu að meðaltali en þeir í yngri aldursflokkunum.

Fjöldi 65 ára og eldri er mjög misjafn í löndum OECD. Hér á landi eru 11,7% mannfjöldans á þessum aldri árið 2005. Í Svíþjóð er þessi hópur 17,4%, á Ítalíu 19,4%. Meðalfjöldi 65 ára og eldri er 14,6% innan OECD landa. Þessi aldurssamsetning hefur því mikil áhrif á hve mikið kostar að reka heilbrigðiskerfið og ætti því að vera okkur hagstæð. Fraser Institute tekur því meðaltalið og reiknar út að kostnaður við rekstur heilbrigðiskerfis landanna sé hæstur á Íslandi og í Kanada frá þessu sjónarmiði.

Spá OECD um hlutfall aldraðra hér á landi er sú að árið 2015 verði þeir 13,9%, árið 2020 15,8%. Að óbreyttu er því ljóst að kostnaður við rekstur heilbrigðiskerfis okkar mun vaxa mjög mikið næstu árin og verða kannski sá hæsti innan þessa hóps ef ekki verður gripið til hagræðingar í rekstri kerfisins.

Landspítali fær nærri þriðjung af því fé á fjárlögum sem lagt er til. DRG-kerfið hefur verið tekið í notkun í nágrannalöndum okkar en það gildir eingöngu fyrir líkamlega bráðaþjónustu. Í Stokkhólmi er einkarekinn spítali sem þjónar um 300 þúsund íbúum. Verð á DRG-einingu er það lægsta í Svíþjóð, um 300 þúsund krónur, en opinberu spítalarnir fá 10% hærra. Það vill svo til að forstjóri spítalans er kollegi okkar, Birgir Jakobsson. Á opinberu spítölunum í Svíþjóð hefur kerfið einnig verið tekið upp og við það hefur framleiðni aukist um 10-15% að mati sérfræðinga OECD sem skoðuðu málið. Biðlistar hafa horfið. Samkvæmt mínum útreikningum sem byggðir eru á ársreikningi og upplýsingum fjármáladeildar kostar DRG-einingin á Landspítala um 450 þúsund krónur. Þurfum við því ekki að skoða rekstur kerfis okkar?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica