02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Af klæðaburði

Málefni ritstjórnar Læknablaðsins náðu á liðinni aðventu hámælum, um yfirlýsingar fyrrverandi ábyrgðarmanns blaðsins og andsvör formanns Læknafélags Íslands þarf ekki að fjölyrða. Í síðasta tölublaði Læknablaðsins greinir Pétur Pétursson læknir frá málinu og kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnir Læknafélags Íslands (LÍ) og Læknafélags Reykjavíkur (LR) hafi brugðist. Telur hann að stjórnirnar hafi sýnt skammsýni með undirlægjuhætti við Kára Stefánsson lækni, og þannig valdið Íslendingum álitshnekki í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi.

Á þeim tæpum fjórum árum sem ég sat í útgáfustjórn blaðsins áður en umrætt mál hófst hafði útgáfustjórnin komið sjaldan saman og þá einungis til að fjalla um launamál starfsmanna blaðsins og ábyrgðarmanns. Læknablaðið hefur á þessum tíma náð útbreiðslu til fleiri en lækna með rafrænni útgáfu sem er aðgengileg öllum á vef­síðu blaðsins og náði blaðið þeim merka áfanga að verða skráð í Medline ekki síst vegna framgöngu Jóhannesar Björnssonar prófessors. Þannig hefur blaðið breyst úr lítt lesnu fréttabréfi og vettvangi ritæfinga í tímarit með alþjóðlegar tilvitnanir. Í ritstjórn Læknablaðsins höfðu til fjölda ára setið læknar sem á haustmánuðum lentu í deilum við ábyrgðarmanninn vegna stefnu hans í ritstjórnarmálum blaðsins. Þegar fjölmiðlar tóku að fjalla um málið var ritstjórninni í heild boðið á fund stjórnar LR til að ræða um ritstjórnarstefnu blaðsins. Áður hafði ábyrgðarmaðurinn einn greint stjórn LÍ frá málavöxtum. Harðar deilur urðu á fundinum með stjórn LR milli ábyrgðarmanns og annarra ritstjóra. Í ljós kom að ritstjórn Læknablaðsins hafði aldrei markað formlega ritstjórnarstefnu og að ábyrgðarmaðurinn virtist einn taka ákvarðanir um helstu efnistök blaðsins án víðtæks samráðs við aðra ritstjóra. Ábyrgðarmaðurinn greindi frá því að hann hefði að leiðarljósi að birta allar aðsendar greinar frá læknum óháð innihaldi, en ef innihald væri ærumeiðandi ellegar augljós ósannindi kæmu fram sem brytu í bága við siðareglur lækna væri þó reynt að telja um fyrir höfundi. Taldi ábyrgðarmaðurinn að hann stæði þannig vörð um prentfrelsi, enda ábyrgðin á greinarbirtingunni ekki hans heldur höfundar. Jafnframt kom fram að hann myndi ekki víkja frá þessum starfsháttum. Yfirlýsingar ábyrgðarmanns um að innan ritstjórnar ætti ekki að ríkja lýðræði ollu deilum. Eftir þennan fund vöknuðu efasemdir innan stjórnar LR um hæfileika ábyrgðarmanns til að vinna að farsælli lausn málsins. Stjórn LR lítur svo á að ábyrgðin í starfi ábyrgðarmanns Læknablaðsins fel­ist í því að viðhalda ritstjórnarstefnu og neita höfundum alfarið birtingu greina sem brjóta í bága við hana. Þannig er ekki verið að hefta ritfrelsi heldur gæta þess að efnistök blaðsins séu því ávallt til sóma. Ennfremur er stjórn LR ósammála túlkun ábyrgðarmannsins fyrrverandi að innan ritstjórahópsins ríki ekki lýðræði. Stjórnir læknafélaganna skipa lögum samkvæmt ritstjóra, og einn úr þeirra hópi sem ábyrgðarmann, hann er því fremstur meðal jafningja en ekki sem einráður. Slíkt er í skýru samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar um starfsemi ritstjórna og læt ég ensku tilvitnunina standa; "editors should seek input from a broad array of advisors, such as reviewers, editorial staff, an editorial board, and readers."

Í kjölfar þessa fundar boðaði ábyrgðarmaður Læknablaðsins til fundar í útgáfustjórn þar sem hann kynnti áform sín um að reka þá ritstjóra sem harðast mótmæltu honum og bar við trún­að­ar­bresti í þeirra sambandi. Var honum bent á að hann hefði ekki umboð til slíks, ritstjórar væru kosnir af aðalstjórnum læknafélaganna þó svo að í raun hefði ekki verið rétt að þeim málum staðið til fjölda ára. Ábyrgðarmaðurinn var þess í stað hvattur til að ná sáttum við aðra ritstjóra, meðal annars með því að virða meðalhóf og fjarlægja umdeilda grein um tíma af opnum vef Læknablaðsins, eða þar til efnisleg niðurstaða siðanefndar félagsins lægi fyrir. Ennfremur var lagt til að skipa óháða ritnefnd til þess að fjalla um athugasemdir þær sem komu fram í bréfi lögmanns Kára Stefánssonar. Ábyrgðarmaðurinn lagðist þvert gegn öllum þessum tillögum.

Það sem síðar gerðist er öllum kunnugt. Rit­stjórnin sagði af sér að undanskildum ábyrgðarmanni og stjórnir LR og LÍ skipuðu óháða ritnefnd (ad hoc) í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar læknisfræðitímarita. Nefnd þessi komst að þeirri niðurstöðu að birting umræddrar greinar hefði brotið gegn alþjóðlegum ritstjórnarreglum, lagði til að hlutar hennar yrðu fjarlægðir af netútgáfu blaðsins og Kári Stefánsson beðinn velvirðingar. Slíkt var gert í samræmi við eftirfarandi leiðbeiningar: "Whenever it is recognised that a significant inaccuracy, misleading statement or distorted report has been published, it must be corrected promptly and with due prominence. An apology must be published whenever appropriate."

Þegar hér var komið sögu fjölluðu stjórnir LR og LÍ sameiginlega um málið. Sú umfjöllun var opinská og skoðanir skiptar. Á engu stigi þeirrar umræðu tel ég að afstaða stjórnarmanna hafi mótast af þeim kærumálum og bréfaskriftum lögmanna sem í gangi voru. Stjórnarmönnum var hins vegar ávallt kunnugt um meint hagsmunatengsl málsaðila. Mér vitanlega hafði enginn stjórnarmanna nein óeðlileg hagsmunatengsl við Kára Stefánsson ellegar Íslenska erfðagreiningu. Sumir stjórnarmenn töldu að stöðu sinnar vegna flokkaðist Kári Stefánsson sem opinber persóna í íslensku þjóðlífi og ætti þar af leiðandi að þola meira og verra umtal en aðrir. Það var hins vegar álit meirihluta stjórnarmanna að Kári ætti njóta þess réttar sem siðareglur okkar mælast fyrir um til jafns við aðra lækna. Jafnframt var haft í huga eftirfarandi hluti sáttmála læknisfræðitímarita: "In all instances, editors must make an effort to screen out dis­courteous, inaccurate, or libelous statements, and should not allow ad ho­minem arguments intended to discredit opinions or findings."

Stjórnir félaganna komu sér saman um að mik­il­vægast væri að útgáfa Læknablaðsins héldi áfram án truflana, en umræðan hafði þegar markað starfsemina. Því hófst leit stjórna LR og LÍ að hæfum læknum til þess taka sæti þeirra ritstjóra sem höfðu sagt af sér. Þegar eftirgrennslan leiddi í ljós að ekki fengist starfhæf ritstjórn með óbreyttum ábyrgðarmanni var ákveðið að leita til Jóhannesar Björnssonar prófessors um að leiða nýja ritstjórn og jafnframt marka ritstjórnarstefnu fyrir Læknablaðið í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar lækna- og lífvísindatímarita.

Ég tel að enginn stjórnarmanna LR eða LÍ hafi með þessu sýnt Kára Stefánssyni undanlátssemi. Þess í stað var haft að leiðarljósi að hann nyti sömu réttinda og aðrir læknar í samræmi við siðareglur okkar. Skammaryrði útilegumanna eru mælt af heilum hug en án þess að þeir hafi leitað til byggða í fréttaleit. Líklega er því um að kenna að stjórnir læknafélaganna hafa ekki dregið fram öll atriði málsins til kynningar meðal félagsmanna, hvað þá til utangarðsmanna, því oft má satt kyrrt liggja. Stjórn Læknafélags Reykjavíkur lítur svo á að afskiptum sínum af ritstjórn Læknablaðsins sé lokið að sinni. Stjórn LR ber fullt traust til þeirra sem þar sitja og hefur falið þeim að marka ritstjórnarstefnu í samræmi við siðareglur lækna- og vísinda­samfélaganna. Við hörmum að starfslok Vilhjálms Rafnssonar við Læknablaðið hafi borið að með þeim hætti sem raun varð en þökkum honum framlag hans til blaðsins í gegnum árin.

Heimildir

www.icmje.org
www.wame.org


Þetta vefsvæði byggir á Eplica