02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Athugasemd um ritstjórnarmálið

Ekki getur leikið vafi á því að öllum læknum þykja atburðir undanfarinna mánaða, sem enduðu í afsögn ritstjórnar og uppsögn ritstjóra Lækna­blaðsins, hið versta mál.

Fyrrverandi ritstjóri hefur gert skýra grein fyrir máli sínu í fjölmiðlum og sjónarmið stjórnar lækna­félaganna hafa einnig heyrst. Ritstjórinn fyrrverandi hefur rétt fyrir sér í því að nauðsynlegt er að vernda sjálfstæði ritstjórna, þar á meðal fyrir ýmiss konar utanaðkomandi áhrifum í eina eða aðra átt. Í þeirri vernd felst meðal annars aðkoma stjórna læknafélaganna að blaðinu. Jafnframt hefur hver og ein ritstjórn þær ríku sjálfsvarnarskyldur að rit­stýra með þeim hætti að tilefni til árekstra verði sem minnst.

Ljóst er að undirrót allra þessara vandkvæða felst í skrifum undanfarinna ára um málefni tengd Íslenskri erfðagreiningu, frá hendi nokkurra höfunda. Þessi skrif hafa oft verið í senn mjög persónu­bundin og stundum hatrömm. Flestum læknum hefur þótt leitt að sjá þessi skrif í fjölmiðlum og enn verra að hafa þau í félagsblaði okkar, sem hefur undir stjórn fyrrverandi ritstjóra náð því að verða enn betra fræðiblað en það var, til hagsbóta fyrir íslensk læknavísindi. Skoðanaskipti í blaðinu eiga að vera hreinskiptin og opinská, en gera á þá kröfu um leið að þau séu málefnaleg og studd rökum, en byggist ekki á fullyrðingum og umfjöll­un um persónur. Þar hefur orðaval iðulega ekki verið við hæfi að mínu mati. Fá ef nokkur fordæmi eru fyrir skrifum af þessu tagi í þeim erlendu fagblöðum sem ég hef lesið eða komið að sem ritrýnir og ritstjórnarmaður. Ef umræðu er leyft að fara í farveg sem þennan, endar hún jafnan í leiðindum, sárindum og vandkvæðum á borð við þau sem nú hafa skapast í kringum ritstjórn Læknablaðsins.

Það hlýtur að vera eindregin ósk allra eigenda Læknablaðsins, það er að segja félaganna í Læknafélagi Íslands, að þannig verði um hnútana búið við ritstjórn blaðsins að efni þess valdi ekki skaða eins og þeim er hér hefur orðið. Við eigum að gera þá kröfu til okkar sjálfra að í skrifum okkar felist ekkert það sem gefi tilefni til óviðeigandi opinberra illdeilna, jafnvel þó skoðanir um einstök málefni geti verið skiptar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica