12. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Skipulag borga ræður miklu um heilbrigði íbúanna

Næsta vor verður kosið til sveitarstjórna hér á landi og sér þess nú þegar stað í prófkjörum og vaxandi hita í umræðum um þau málefni sem heyra undir sveitarstjórnarstigið. Einn þeirra mála­flokka sem það á við um eru skipulagsmál og svo vill til að formaður skipulagsráðs stærsta sveitarfélagsins er læknir. Dagur B. Eggertsson hefur verið töluvert í sviðsljósinu að undanförnu vegna umræðna um skipulag höfuðborgarinnar í nútíð og framtíð en hann hefur einnig velt fyrir sér sögu skipulagsmála og tengslum þeirra við heilbrigðismál. Læknablaðið ræddi við hann um samband heilbrigði og borgarskipulags á dögunum.

"Það má segja að upphaf skipulagsmála hafi tengst heilbrigðismálum því fyrstu inngrip stjórnvalda í það hvernig menn byggja og búa má með­al annars rekja til heilbrigðissjónarmiða. Helstu menningarþjóðir fornaldar veittu vatni inn og skólpi út og Rómverjar bættu baðmenning­unni við. Í borgum sem voru byggðar þétt til að loka sig af gegn utanaðkomandi óvinum innan borgar­múranna urðu mannskæðir eldsvoðar tíðir. Brun­ar höfðu oft úrslitaáhrif á að strangari reglur um hús og byggingar voru settar eða komið á þar sem engar voru fyrir. Jafnvel saga Reykjavíkur geymir glögg dæmi um þetta. Við Laugaveginn voru til dæmis bönnuð timburhús eftir brunann mikla 1915. Heilbrigðissjónarmið höfðu þó líklega róttækust áhrif með skipulagsákvörðunum sem miðuðu að því að hefta útbreiðslu farsótta í kjölfar iðnbyltingar. Hún leiddi til þess að fólk flutti til borganna til að vinna í verksmiðjunum. Þar bjó það þétt og þröngt með mikla ómegð og iðnaðarborgirnar urðu gjarnan að pestarbælum," segir Dagur.

Guðmundur Hannesson var brautryðjandi

"Hér á landi var raunar einn fyrsti og framsæknasti hugsuðurinn á sviði skipulagsmála læknir. Guðmundur Hannesson var höfundur fyrstu skipulagslaganna og virðist hafa verið afburðavel heima í alþjóðlegri skipulagsumræðu sinnar tíðar. Hann tilheyrði aldamótakynslóðinni og var einn af Guðmundunum en þeir voru framsæknir læknar á svipuðu reki. Guðmundur skrifaði að segja má fyrsta veigamikla ritið á íslensku um skipulagsmál. Það hét Um skipulag bæja og var dreift í þúsundum eintaka sem fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands árið 1916. Skipulagslöggjöfin sem hann samdi var sett nokkrum árum seinna og hann átti sæti í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins.

Meginhugsun Guðmundar var sú að loft og ljós ættu að vera leiðarljós í heilbrigðu skipulagi og hinu byggða umhverfi. Hann skar upp herör gegn kofabyggingum í bæjum og borgum og vildi að byggð væri tveggja til þriggja hæða randbyggð með útigarði inni á milli, svipað og sjá má við Eiríksgötu og í verkamannabústöðunum við Ásvallagötu svo dæmi séu tekin. Hann rannsakaði sólarhæð á Íslandi og vildi að tekið væri tillit til hennar við hönnun húsa. Þessar hugmyndir eru enn í góðu gildi því ætli við séum ekki ein af fáum þjóðum sem könnum skuggavarp af hverju einasta húsi sem samþykkt er í skipulagi. Sumum finnst þetta jaðra við trúarbrögð en þetta eru greinileg áhrif frá Guðmundi.

Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að þetta hafi verið hugleikið lækni í upphafi síðustu aldar. Aldamótalæknarnir voru fyrsta kynslóðin sem flutti heim með sér þekkinguna á örverum sem smitefni. Og það má færa rök fyrir því að bættur aðbúnaður og lífskjarabyltingin sem leiddi af stétta­baráttu og því að byggt var yfir kúgaðan verkalýð og kjörin jöfnuð hafi haft meiri áhrif við að ráða niðurlögum farsótta en nokkur sýklalyf. Breski læknirinn Thomas McKeown sýndi eftirminnilega fram á þetta samhengi þegar hann skoðaði útbreiðslu berkla í Englandi og Wales. Hann sýndi fram á það einna fyrstur manna að berklarnir voru á hröðu undanhaldi löngu áður en sýklalyfin komu til sögunnar. Íslensk gögn benda ótvírætt í sömu átt. Helstu ástæður þess að berklar létu undan síga tengdust ekki síst auknu hreinlæti og betri húsakynnum almennings. Læknisfræðin með sín ágætu lyf og bólusetningu gegn berklum rétt náði í skottið á farsóttinni þegar hún var í mikilli rénun."

Fjögur áhyggjuefni

Dagur segir að eftir frumkvæði læknanna hafi aðrar stéttir, einkum verkfræðingar og aðrir tækni­menn og síðar arkitektar og loks skipulagsfræðingar, tekið völdin á sviði skipulagsmála. ?En núna um aldamótin hefur raunar orðið ný vakning. Það má sjá á alþjóðlegri umræðu og skrifum um læknisfræði og skipulagsmál.?

"Af hverju hafa læknar áhyggjur núna? Er ekki búið að leysa flesta mál, skólpið er komið ofan í jörðina og loftmengun hefur minnkað víðast hvar á Vesturlöndum"

"Það má segja að nú séu fjögur atriði helst í umræðunni. Í fyrsta lagi eru það loftgæðin, ekki síst vegna aukinnar umferðar og útblásturs frá henni. Í öðru lagi eru það umferðarslys og hvernig megi draga úr þeim. Í þriðja lagi eru það áhrif hins byggða umhverfis á samfélag fólks. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafa sýnt fram á sterk tengsl milli heilbrigði og félagsauðs í samfélögum en félagsauður er hugtak sem notað er yfir margvísleg félagstengsl fólks, svo sem nágrannasamfélög, frjáls félagasamtök og þátttöku af ýmsu tagi. Ótvíræðar vísbendingar eru jafnframt um náið samband jöfnuðar innan samfélaga og heilbrigði íbúanna. Í sumum þekktustu faraldursfræðirannsóknum á sviði hjartasjúkdóma virðist samfélagsstaða til að mynda hafa meiri áhrif en margir þekktustu áhættuþættir hjartasjúkdóma samanlagt. Fjórði og síðasti þátturinn sem mér finnst ekki minnst spennandi í sambandi borgarskipulags og læknisfræði er samband hreyfingar og heilbrigði og hvernig borgarskipulag getur haft rík áhrif á möguleika og raunar líkur á því að fólk fái reglulega hreyfingu eða stundi útivist. Þættir sem vinna gegn hreyfingu eða stuðla að henni eru gríðarlega áhugaverðir frá læknisfræðilegu sjónarhorni. Sýnt hefur verið fram á að hreyfing hafi ekki bara áhrif á sjúkdóma sem tengjast offitu. Hún hefur einnig áhrif á meðferð, horfur og líðan sjúklinga einsog sannað þykir fyrir í það minnsta á þriðja tug sjúkdóma. Í þeim hópi eru flestir dýrustu sjúkdómar samtímans. Öll landlæknisembætti sem vilja láta taka sig alvarlega hafa því sett fram ráðlagða dagskammta af hreyfingu í forvarnaskyni."

Þéttleiki byggðar ýtir undir hreyfingu

Dagur segir að hingað til hafi aðallega verið stuðl­að að hreyfingu með fjárfestingum í íþrótta­mann­virkjum og áróðri gagnvart ákveðnum markhópum, svo sem öldruðum, skólafólki og börnum. "En á allra síðustu árum hafa birst merkilegar niðurstöður úr viðamiklum samanburðarrannsókn­um sem gerðar hafa verið í bandarískum borgum á sambandi þéttleika byggðar og líkum á því að fólki stundi reglulega hreyfingu. Ein viðamesta rannsóknin sýnir til dæmis að líkur á því að fólk stundi hreyfingu í frítíma sínum aukast um 20% ef útivistarsvæði er innan eins kílómetra fjarlægðar frá heimili og um 21% ef menntastofnun er innan sama radíuss. Einnig sést að þétting byggðar um fjórðung eykur líkur á að fólk stundi hreyfingu um 23% og um 19% ef þéttleiki þjónustu eykst um fjórðung. Þetta sýnir að það virðist línulegt samhengi á milli aukins þéttleika byggðar og aukinnar hreyfingar. Ef það er stutt í skóla, verslun og aðra þjónustu eru meiri líkur á að fólk fari gangandi en akandi til að sækja þjónustuna.

Þær upplýsingar sem við höfum um afleiðingar offitu í Bandaríkjunum eru ískyggilegar og enn ískyggilegra að gögn frá OECD gefa vísbendingu um að við séum í hópi þeirra þjóða sem fylgja Bandaríkjamönnum hvað fastast eftir á þeirri braut. Mér finnst við raunar vera býsna róleg í tíðinni. Það vantar mikið upp á að við Íslendingar höfum glöggt mat á stöðunni. Við þurfum tvímælalaust að kortleggja þessa þróun og gera áætlanir um hvernig megi snúa við blaðinu, ekki bara meðal barna og unglinga heldur almennt því ef þessar vísbendingar eru réttar þá er það mikið áhyggjuefni."

Í átt til Houston, Texas

- Hvað geta læknar og skipulagsyfirvöld gert til þess að hafa áhrif á þessa þróun"

"Það sem við höfum verið að leggja áherslu á í skipulagsmálum er að þétta byggðina og þróa borgarumhverfi sem skapar mannlíf og eitthvað út að sækja, ef svo má segja. Þetta fer vel saman við hugmyndir um lifandi borg. Hjóla- og göngustígakerfið er mikilvægur þáttur í þessu en það er að nálgast 650 kílómetra. Það þarf ekki að einblína á afreksíþróttir og dýr heilsuræktarkort heldur snýst þetta um að búa til umhverfi sem gerir útivist áhugaverða og aðgengilega fyrir allan almenning. Við þurfum líka að byggja á sundlaugunum sem eru tvímælalaust einn af styrkleikum okkar Íslendinga á heilsusviðinu og reyna að laða fleiri hópa að þeim. Nú er til dæmis komið ungbarna­sund og sundleikfimi fyrir eldri borgara í öllum laugum borgarinnar sem eru skref í rétta átt.

En það sem mestu máli skiptir er að taka fyrir umferðarskipulagið. Bílaumferðin hefur aukist gífurlega hratt og við gefum helstu bílaborgum Bandaríkjanna lítið eftir í bílaeign. Hún hefur aukist á örfáum árum úr 450 bílum á hverja þúsund íbúa í rúmlega 700 sem er ótrúlegt. Ef við berum okkur saman við evrópskar borgir og framsæknar borgir í Bandaríkjunum kemur í ljós að við notum bílinn okkar sem úlpu, förum akandi í alla skot­túra sem við eigum að geta gengið. Meðalbílferð er miklu styttri hér en í borgum sem við berum okkur saman við. Þetta er því einnig spurning um hugarfar og vana. Það þarf ekki að fara víða um borgarlandið til að sjá hvílíkar fórnir við erum að færa með öllu plássinu sem fer undir bílaumferð. Nú fara 49% af öllu landi undir samgöngumannvirki en aðeins 35% undir íbúðir og atvinnustarfsemi og 15% undir græn svæði. Ef við ætlum að fylgja eftir aukningu í bílaeign og koma í verk öllum þeim stór­karlalegu umferðarmannvirkjum sem hafa verið sett á áætlun þá er ljóst að plássið sem umferðin tekur eykst um 30% á næstu 10-15 árum.

Þarna stöndum við á krossgötum og þurfum að svara þeirri spurningu í hvernig borg við viljum búa. Ætlum við að fara í átt til Houston, Texas? Eða viljum við frekar nálgast skemmtilegar mannlífsborgir á meginlandi Evrópu?"

Ofan í jörðina?

Blaðamaður rifjaði upp ummæli fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík sem benti á að ýmsar veitur sem áður voru á yfirborðinu eða í loftinu, til dæmis rafmagn og skólp, hefðu verið grafnar niður. Spurningin væri hvort nú væri ekki komin röðin að umferðinni. Sér Dagur fyrir sér að það væri lausn á vandanum að koma umferðinni fyrir neðanjarðar í auknum mæli?

"Töfralausnir eru líklega ekki til en vissulega er hægt að bæta skipulagið með því að hafa bílastæði neðanjarðar og umferð að einhverju leyti. Þá er hægt að búa til lifandi borgarumhverfi með rólegum götum á yfirborðinu. En umferðin tekur eftir sem áður mikið pláss og við þurfum að íhuga hvort við séum á réttri leið og hvort síauknar kröfur okkar um hraða umferð og ókeypis bílastæði séu ekki farnar að ógna öðrum lífsgæðum. Vissulega eru það lífsgæði að komast hratt á milli staða og þurfa ekki að eyða miklum tíma í leit að bílastæði. En það hlýtur líka að teljast til lífsgæða að geta rólegur leyft börnunum sínum að leika sér fyrir utan húsið, að geta komist í íþróttir án þess að leggja sig í lífshættu og að búa í áhugaverðu borgarumhverfi en ekki aðeins innan um einhverjar bílabreiður. Bíllinn er auðvitað kominn til að vera og verkefnið felst í að finna lausnir til að lifa með umferðinni án þess að hún gangi út yfir allt annað. Þessari umræðu höfum við þó því miður ýtt til hliðar vegna þess að hún er óþægileg.

Þetta er raunverulegt vandamál sem hefur á sér ótal hliðar sem við hugsum sjaldan út í. Ég varð þess til að mynda áskynja nýlega á fundi með forráðamönnum KR. Þeir sögðu mér að þótt vestasti hluti Hringbrautarinnar sé ekki það stórfljót sem gatan verður austar þá hefur hún samt þau áhrif að það sækja nánast engin yngri börn æfingar hjá KR suður yfir götuna."

Erfið en nauðsynleg stefnubreyting

- En hvaða ráð hafa sveitarstjórnir til að stýra þessari þróun?

"Við þurfum að taka á þessu í skipulaginu og samhæfa umferðina öðru skipulagi, hún má ekki alltaf ráða ferðinni. Við eigum að stjórna umferðinni frekar en að láta stjórnast af henni. Verði niðurstaða almennings sú að umferðin eigi að hafa forgang, nú þá verður svo að vera. En við verðum að gera okkur það ljóst að við erum að fórna einhverju öðru. Pólitík snýst um að leiða fram valkosti. Við verðum líka að hafa kjark til að tala fyrir því sem við trúum á og taka erfiðar ákvarðanir. Það liggur það orð á Reykvíkingum að þeir séu óþolinmóðasta fólk í heimi sem sé vant því að komast borgarendanna á milli á innan við fimmtán mínútum og að það leiði til uppreisnar ef menn þurfa að bíða tvisvar á rauðu ljósi. Ég held hins vegar að það sé orðinn ríkur jarðvegur fyrir því að horfa á þennan málaflokk undir nýjum sjónarhornum. Mér finnst umræðan um nýjustu stórframkvæmdina við Hringbraut bera þess merki. Ef við höldum óbreyttri stefnu með sjálfstýringuna í gangi óttast ég að við vöknum í Houston, Texas eftir 15 ár eða svo. Og þá verður þess ekki langt að bíða að vaxtarlagið verði eftir því."

Stunda lýðheilsustarf

Dagur segir að reynsla lækna og sjónarmið læknisfræðinnar eigi erindi í skipulagsmál, ekki síst þegar verkefnið snýst um að skapa áhugaverða og líflega heilsuborg. Það verði aðeins gert með því að draga fram og ýta undir þá kosti í skipulagi sem horfa í þá átt, að veita almenningi heilbrigt val. "Það höfum við ekki gert nógu vel," segir hann. Hann er ekki eini læknirinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar situr einnig Ólafur F. Magnússon. En finnst honum læknar sýna skipulagsmálum nægan áhuga?

"Það gæti verið meira, ekki síst ef við berum okkur saman við Guðmund Hannesson. En það er nú líklega ekki sanngjarnt. Mér verður þó æ oftar hugsað til þess að læknar og heilbrigðiskerfið séu ekki endilega að fást við þær spurningar sem mestu máli skipta fyrir heilbrigði þjóðarinnar. Ég tek undir með þeim sem hafa áhyggjur af sjúkdómavæðingu af því að ég held að aðgerðir sem lúta að því að auka jöfnuð og réttindi almennings, lúta að því að gera fólk að gerendum í lífi sínu, skipti meira máli fyrir heilbrigði þjóðarinnar og varnir gegn sjúkdómum en langflestar læknisheimsóknir. Ég lít svo á að ég starfi að forvörnum og lýðheilsu í starfi mínu að stjórnmálum enda sýna rannsóknir að þeir þættir sem standa stjórnmálamanninum nær en lækninum ráði oft meiru um það hverjir verða veikir og hverjir ekki heldur en það sem heilbrigðiskerfið fæst við," segir Dagur B. Eggertsson læknir og borgarfulltrúi.

Dagur B. Eggertsson læknir, borgarfulltrúi og formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Margir upplifa nýju Hring­brautina eins og þverbita í Vatnsmýrinni og Dagur segir að þessar framkvæmdir hafi breytt viðhorfum margra til þess hvað eigi að hafa forgang í skipulagi borgarinnar.

Dagur segir að læknar ættu að taka Guðmund Hannesson sér til fyrirmyndar og láta sig skipulagsmál meiru skipta en raunin er.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica