11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Að gefnu tilefni - tilraun til að hefta ritfrelsi

Í síðasta tölublaði Læknablaðsins birtist klausa með fyrirsögninni "Að gefnu tilefni" frá fjórum ritstjórnarmönnum blaðsins til að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að birting greinarinnar "Nýi sloppur keisarans" í 9. tölu­blaði Læknablaðsins hafi verið mis­tök. Í klaus­unni hafa þeir eftir lög­fræð­ingi Læknafélagsins að "ritstjórn Lækna­blaðsins sé vanhæf til þess að fjalla um þetta mál".

Í kjölfar birtingar greinarinnar "Nýi sloppur keisarans" barst öllum ritstjórnarmönnum Læknablaðsins bréf frá lögmanni Kára Stefánssonar þar sem m.a. er spurt: "5. Teljið þér að birting greinarinnar hafi verið mistök?"

Þetta bréf varð tilefni umfjöllunar framkvæmdastjóra Læknafélagsins á heimasíðu félagsins þann 30. september um vanhæfi, en þar segir meðal annars: "Það liggur fyrir að sumir ritstjórnarmenn Læknablaðsins eru í starfstengslum við DeCode. Þegar af þeirri ástæðu er bréf lögmanns Kára Stefánssonar, forstjóra Decode, til umræddra ritstjórnarmanna persónulega, til þess fallið að draga í efa hæfi viðkomandi stjórnar­manna til að fjalla um þetta tiltekna mál, þ.e. greinina "Nýi sloppur keisarans". Á það við hvort sem viðkomandi ritstjórnarmaður tjáir sig í nafni ritstjórnar eða í eigin nafni á opinberum vettvangi."

Ekki verður ráðið af þessu að ritstjórnin í heild sé vanhæf eins og þeir sem undirrita klausuna segja, heldur eingöngu að einstakir menn í ritstjórninni geti verið vanhæfir vegna hagsmunatengsla.

Umræðuhluti Læknablaðsins hlýtur að vera til þess að læknar geti fjallað um mál sem þeir telja að varði stéttina og störf lækna og á að vera öllum opinn sem skrifa í eigin nafni. Þar á læknum að vera frjálst að tjá skoðanir sínar og kynna þær svo að aðrir geti svarað og tjáð sínar skoðanir eins og höfundar margnefndrar klausu gera án þess að lögfræðingum sé blandað í málin. Þó er það miður að þeir telji birtingu greinar hafa verið mistök og tjá þannig vilja sinn til að hefta málfrelsi og skoðanaskipti þegar um er að ræða hagsmuni þeirra eða tengdra aðila.

Tómas Helgason



Þetta vefsvæði byggir á Eplica