11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Ályktanir aðalfundar LÍ 2005

Aukið heilbrigði þjóðarinnar

Ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands 2005 um opinberar aðgerðir til að auka heilbrigði þjóðarinnar með bættu mataræði og aukinni hreyfingu

Inngangur

Barátta við langvinna sjúkdóma einkennir heilbrigðisþjónustu velmegunarþjóða og er vaxandi viðfangsefni fátækari þjóða í örri þróun. Sífellt eru færðar frekari sannanir þess að fáir áhættu­þættir hafa mest áhrif á sjúkdóma- og dánartíðni (1). Mikilvægustu áhættuþættirnir eru hækkaður blóðþrýstingur, hækkað kólesteról í blóði, ófullnægjandi neysla ávaxta og grænmetis, ofeldi eða offita, hreyfingarleysi og reykingar. Sumir þessara áhættuþátta eru innbyrðis tengdir og nátengdir mataræði og hreyfingu.

Slæmt mataræði og hreyfingarleysi er meðal þess sem veldur þungbærum, langvinnum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, áunninni sykursýki og vissum krabbameinum. Fleiri sjúkdómar sem tengjast mataræði og hreyfingu, til að mynda tannskemmdir og beinþynning, draga úr góðri heilsu almennings.

Tekist hefur að draga úr ótímabærri sjúkdóma- og dánartíðni margra velmegunarþjóða og eru ótímabær hjartaáföll, heilablóðföll og krabbamein tengd reykingum dæmi þar um. Sjúkdómsbyrðin er þó enn mikil og offita barna og unglinga fer víða vaxandi og fjölgun sjúkdóma sem tengjast áunninni sykursýki. Þessi vandamál hafa verið bundin við fjáðari þjóðfélagshópa meðal fátækra þjóða, en fara vaxandi meðal hinna fátæku sem temja sér heilsuspillandi lífshætti vegna vanþekkingar, fátæktar og félagslegs misréttis. Fyrirliggjandi upplýsingar benda í stórum dráttum til þess að orsakir séu alls staðar hinar sömu, neysla orkuríkrar og einhæfrar fæðu, þar sem fita, sykur og salt eru áberandi, hreyfingarleysi á heimili, í skóla og við vinnu, vélrænar samgöngur og reykingar.

Hreyfingarleysi, offita og slæmt mataræði tengjast oft en eru sjálfstæðir áhættuþættir sjúkdóma. Með aukinni hreyfingu má bæta horfur um gott heilsufar, þrátt fyrir offitu. Hreyfing virðist hafa grundvallarþýðingu fyrir líkamlega og andlega heilbrigði einstaklinganna.

Aðalfundur Læknafélags Íslands árið 2004 vakti athygli alþingis og ríkisstjórnar á þessum staðreyndum og hvatti til áætlunar á vegum stjórnvalda til að efla lýðheilsu með víðtækri heilsurækt með hreyfingu og bættu mataræði (2). Bent var á leiðir í þessu skyni og hvernig verkefnið spannaði verksvið margra ráðuneyta. Fagna ber þingsályktun frá alþingi sl. vor um sama efni.

Forsenda

Alþjóðaheilbrigðisþingið, WHA, samþykkti á liðnu ári áætlun fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, WHO, um alheimsátak varðandi, mataræði, hreyfingu og heilsufar (3). Í áætluninni er reifað lykilhlutverk ríkisstjórna við verkefni þetta (4) og sagt m.a. að

  • hvert ríki ætti að móta pólitíska stefnu til að bæta mataræði og auka hreyfingu.
  •  ríkisstjórnir skipti sköpum við að ná fram varanlegum breytingum í lífsstíl.
  •  heilbrigðisráðherrar beri höfuðábyrgð á að samræma og örva aðgerðir annarra ráðherra og ríkisstofnana.
  •  við stefnumótun og aðgerðir opinberra aðila sé aflað breiðrar samstöðu.
  •  ríkisstjórnir sjái um að neytendur hafi viðunandi og hlutlægar upplýsingar vegna vals á neysluvöru og að þær séu í samræmi við menntunarstig þjóðarinnar.
  •  landbúnaðarstefna og önnur stefna um matvælaframboð sé í samræmi við markmið um að vernda og bæta lýðheilsu.
  •  móta þurfi stefnu á öllum stigum þjóðfélagsins til að auka hreyfingu.
  •  endurskoða þurfi námsskrár til að bæta mataræði og auka hreyfingu.
  •  forvarnir séu grundvallarskylda heilbrigðisþjónustunnar.
  •  ríkisstjórnir ættu að festa fé í eftirfylgni, rannsóknum og mati á áhættuþáttum.
  •  að heilbrigðisráðuneyti og lýðheilsustofnanir eigi að beina kröftum sínum og sérþekking í þágu alþjóðasamstarfs og aðstoðar við þá sem móta stefnu.
  •  að litið verði á fyrirbyggjandi verkefni af þessu tagi sem fjárfestingu til framtíðar og þýðing góðrar heilsu þjóðanna fyrir vöxt efna­hagslífsins verði viðurkennd.

Ályktun

Í ljósi þess sem að framan er sagt skorar aðalfund­ur Læknafélags Íslands, á heilbrigðis- og trygginga­málaráðherra að hafa forystu um að ríkisstjórn Íslands fari að tilmælum Alþjóða heilbrigðismála­þingsins 2004, WMA 57.17, og að herða samræmd­ar opinberar aðgerðir til að auka heilbrigði Ís­lend­inga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

Fagmennska í læknisfræði

Aðalfundur Læknafélag Íslands haldinn 30. september til 1. október 2005 í Kópavogi, samþykkir að Læknafélag Íslands geri Sáttmála lækna um fagmennsku í læknisfræði, sem birtur var í Læknablaðinu í febrúar 2004, að sínum.

Sáttmáli þessi er hluti af verkefninu Fagmennska í læknisfræði (The Medical Professionalism Pro­ject) sem hrundið var af stað árið 1999 af samtök­um lyflækna í Bandaríkjunum (American Board of Internal Medicine og American College of Physicians-American Society of Internal Medi­cine) og Evrópu (European Federation of Internal Medicine). Sáttmálinn var upphaflega birtur samtímis í Annals of Internal Medicine og Lancet fyrir tveimur árum. Hann hefur síðan verið þýddur á fjölda tungumála og hefur birst í læknisfræðitímaritum um allan heim. Þá hefur sáttmálinn verið kynntur á fjölmörgum þingum í læknisfræði og í læknaskólum. Fjöldi sérgreinafélaga lækna, bæði austan hafs og vestan, hafa lýst yfir stuðningi við sáttmálann og tileinkað sér hann. Sáttmálinn um fagmennsku í læknisfræði er ekki siðareglur heldur er megintilgangur hans að örva umræðu og rökræðu um fagmennsku í starfi lækna.

Flugvöllur í Reykjavík

Aðalfundur LÍ haldinn í Kópavogi 30. september til 1. október 2005 skorar á heilbrigðis- og trygginga­mála­ráðherra, samgönguráðherra og borg­arstjórn Reykjavíkur að hafa í huga hagsmuni sjúklinga frá landsbyggðinni og aðgang þeirra að heil­brigð­is­þjónustu, þegar framtíðaráform um Reykja­vík­ur­flugvöll verða rædd.

Staða sérgreina fest í sessi

Aðalfundur LÍ haldinn í Kópavogi 30. september til 1. október 2005 felur stjórn LÍ að móta stefnu um hlutverk og stöðu sérgreina í læknisfræði. Þær gegna lykilhlutverki í starfsemi heilbrigðisþjónust­unnar, fagmennsku og þróun í læknisfræði og læknisþjónustu, svo og í ráðgjöf til almennings, stjórnmálamanna og heilbrigðisyfirvalda. Lagt er til að stjórn LÍ taki forystu í starfi á þessu sviði í nánu samstarfi við Landlæknisembættið, fulltrúa sérgreina, og aðra fagaðila í þessari vinnu, og móti tillögur til opinberra aðila.

Ráðgjöf lækna mikilvæg

Aðalfundur LÍ haldinn í Kópavogi 30. september til 1. október 2005 minnir á þá þekkingu sem félagsmenn LÍ búa yfir á sviði heilbrigðismála. Aðalfundurinn hvetur heilbrigðisráðuneyti og önnur stjórnvöld til að nýta sér faglega ráðgjöf lækna í læknisfræðilegum málefnum og allri stefnumótun í heilbrigðismálum. LÍ er reiðubúið að vinna með Heilbrigðisráðuneyti og Landlæknisembætti við að móta slíkt ráðgjafarstarf lækna.

Bætið samskiptin á Landspítala

Aðalfundur LÍ haldinn í Kópavogi 30. september til 1. október 2005 hvetur forstjóra og framkvæmdastjórn Landspítala til að leiða til lykta þau álitamál sem enn eru óleyst í samskiptum þeirra og læknaráðs stofnunarinnar. Almenn og gagnrýnin umræða meðal starfsmanna LSH kallar á markvisst starf til að leysa ágreininginn, ekki síst með öflugu og opnu samstarfi við læknaráðið. Aðalfundurinn lýsir yfir stuðningi við samþykktir læknaráðs LSH á liðnum árum um þessi málefni, og telur þær líklegar til lausnar á vanda sjúkrahússins.

Ráðherra efni loforðin

Þann 27. nóvember 2002 gaf Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, út yfirlýsingu þar sem segir m.a.:

Jafnframt mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þá beita sér fyrir því, að sérfræðingar í heimilislækningum geti annað hvort starfað á heilsugæslustöðvum eða á læknastofum utan heilsugæslustöðva. Gerður verði nýr samningur um störf á læknastofum, sem byggi á gildandi samningi sjálfstætt starfandi heimilislækna ?

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Kópa­­vogi dagana 30. september og 1. október 2005 skorar á ráðherrann að standa við þessa yfirlýsingu sína.

Reykingar verði bannaðar á veitingahúsum

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópa­vogi 30. september og 1. október 2005 skorar á heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hann beiti sér fyrir því að lagt verði fyrir Alþingi frumvarp til laga um bann við reykingum á öllum vinnustöðum, þar með talið veitinga- og skemmti­stöðum.

Heimildir

1. The world health report 2002. Reducing risks, pro­moting healthy life, Geneve, World Health Organiztion, 2002.
2. Samþykktir aðalfundar Læknafélags Íslands 2004 (3), Læknablaðið 2004; 90: 777.
3. Resolution of the World Health Assembly, WMA 57.17, Global strategy on diet, physical activity and health. 22/05/2004.
4. Global strategy on diet, physical activity and health, World Health Organization 2004: 6-11.

Kristófer Þorleifsson, Finnbogi Kjartansson, Kristinn Tómasson og Ástríður Jóhannesdóttir á aðalfundi LÍ.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica