09. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Berklafaraldur á Hólum 1959

Þegar ég var héraðslæknir á Hofsósi á sjötta ára­tugnum kom upp á Bændaskólanum á Hólum sögulegur berklafaraldur á meðal nemenda skólans og fleiri á staðnum sem seinna var rakinn til nautgripa á skólabúinu.

Það var upphaf þess máls að hinn 1. febrúar 1959 kom til mín á stofuna starfsstúlka frá Hólum og kvartaði um útbrot á fótleggjum. Stúlka þessi var fædd og upp alin á bæ í Óslandshlíð. Við skoðun sá ég rauðleita þrymla framan á fótleggjum. Þessu svipaði að nokkru til urticaria (ofsakláða) en var aumt viðkomu og enginn kláði í því. Stúlkan var ekki lasin að öðru leyti.

Mér datt strax í hug rósahnútar (erythema nodosum). Ég hafði aldrei séð það fyrirbrigði fyrr, en heyrt því lýst og séð myndir af því. Rósahnútar voru þá fyrst og fremst settir í samband við berkla­smit þó að vitað væri að þeir gætu fylgt öðrum kvillum.

Ég setti á hana berklapróf, en þá var almennt notað Pirquet-próf. Hún svaraði jákvætt við prófið og var því augljóslega um berklasmit að ræða. Við almenna skoðun fann ég ekkert frekar. Ekkert sást við gegnumlýsingu á lungum en gegnumlýsingatæki voru til í læknisbústaðnum og eins aðstaða til röntgenmyndatöku. Ég sendi stúlkuna því næst á Kristneshæli til nánari greiningar og staðfesti yfirlæknirinn þar greiningu mína og kvaðst sjá einkenni um hilus adenitis eða eitlabólgu við lungu.

Þegar greiningin hafði verið staðfest lá næst fyrir að kanna hvaðan smitið væri komið. Engin saga var um berkla í heimahögum stúlkunnar nema að móðir hennar hafði umgengist berklasjúkling í æsku. Böndin bárust því að Hólum.

Hinn 16. febrúar fór ég svo upp að Hólum og setti Pirquet-próf á allt það fólk sem ekki hafði áður verið jákvætt við berklapróf og sömuleiðis á foreldra og systur stúlkunnar. Á heimili hennar reyndist enginn jákvæður nema móðir hennar, en hún hafði eins og áður segir verið samvistum við berklasjúkling í æsku. Á Hólum kom hins vegar í ljós að 11 manns höfðu orðið jákvæðir síðan skólaskoðun hafði verið framkvæmd um haustið. Þar af voru átta nemendur, ein starfsstúlka og tvö börn.

Hinn 20. febrúar gegnumlýsti ég alla sem jákvæðir höfðu verið og fjölskyldu stúlkunnar en enginn reyndist með einkenni um lungnaberkla. Um þetta leyti bárust mér fregnir af að einn skóla­piltanna, sem átti heima norður í Þingeyjarsýsl­um, hefði farið heim til sín um jólin en ekki komið til baka. Hefði hann veikst af mislingum og síðan fengið botnlangabólgu og verið skorinn upp á Húsavík. Ég hafði samband við Daníel Daníelsson á Húsavík og tjáði hann mér að þessi piltur hefði verið skorinn vegna gruns um botnlangabólgu en verið með miklar eitlabólgur á ileo-coecal stað og verið grunsamlegur um berkla. Vefjarannsókn staðfesti svo þennan grun. Þar sáust "berklabreytingar með ystingum og Langerhans frumum og í lituðu sneiðum sáust sýrufastir stafir" svo vitnað sé í greinargerð landlæknis í heilbrigðisskýrslum 1959.

Þegar hér er komið sögu var ljóst orðið að útbreitt berklasmit hafði átt sér stað í skólanum en ekki vitað hvaðan það var komið. Enginn þeirra 13 einstaklinga sem jákvæðir höfðu reynst höfðu einkenni um lungnaberkla, þegar frá er talin stúlk­an sem fyrst greindist. Læknar Kristneshælis töldu hana með hilus adenitis. Ég tók þá greiningu með fyrirvara þó að ég hefði ekki hátt um það því að mér fannst læknar í þá daga oft vera fljótir að greina hilus adenitis, ef sjúklingurinn var með jákvætt berklapróf, en enginn bólgublettur fannst í lungum og ekki einkenni frá öðrum líffærum.

Hinn 22. mars gerði ég Sigurði Sigurðssyni berklayfirlækni viðvart um stöðu mála. Gerði ég honum svo skriflega grein fyrir gangi málanna fram að þeim tíma. Um sama leyti endurtók ég berklaprófin á fólkinu á Hólum og bættust þá fjórir í hóp hinna jákvæðu.

Eftir þetta stjórnaði landlæknir rannsókninni.

Nú fóru böndin að berast að kúnum á staðnum. Það var athyglisvert að enginn skyldi vera með lungnaberkla af öllum þeim fjölda sem smitast hafði. Þá voru ileo-coecal berklar sjaldgæfir á Íslandi og bentu óneitanlega til smits gegnum fæðu. Sigurður Sigurðsson hafði nokkrum árum áður birt ritgerð sína um berkla á Íslandi. Hann færði þar rök að því að kúaberklar (tbc.typus bov­inus) væru ekki til á Íslandi. Hins vegar voru þeir vel þekktir í Danmörku. Árið áður höfðu danskir menn unnið á Hólum meðal annars við gegningar í fjósi. Vaknaði því spurning um hvort kýrnar hefðu smitast af þessu fólki og síðan smitað frá sér gegnum mjólkina.

Um þessar mundir var héraðsdýralæknir á Sauðárkróki Guðbrandur Hlíðar. Hann hafði numið fræði sín í Danmörku. Ég hafði nú samband við hann, skýrði honum frá málavöxtum og bað hann að berklaprófa nautgripina. Hann taldi lítinn vafa á að hér væri um kúaberkla að ræða, hafði enda kynnst slíkum faröldrum í Danmörku. Hann setti svo berklapróf á kýrnar og svöruðu 12 þeirra jákvætt af 66. Við endirtekin próf reyndust fleiri gripir svara jákvætt. Smitaðir gripir voru felldir og í árslok höfðu alls 57 nautgripir verið felldir.

Krufning var framkvæmd á öllum gripunum. Fundust óverulegar bólgubreytingar í 26 þeirra. Í fjórum gripum fundust ­bólgubreytingar í lungum og brjósthimnu, sem líktist mjög berklabólgu? (Heilbrigðisskýrslur 1959). Í flestum tilvikum var þó um að ræða litla bólguhnúta í eitlum. Krufningu á dýrunum annaðist Guðbrandur Hlíðar en Páll A. Pálsson yfirdýralæknir kom norður í eitt skipti og vann við krufningu á nokkrum gripanna.

Hinn 23. apríl kom berklayfirlæknir norður til Hofsóss ásamt Jóni Eiríkssyni berklalækni og gegnumlýstu þeir nemendur og starfsfólk á Hólum, en fundu engin einkenni um lungnaberkla. Þá settu þeir Mantoux-próf á alla sem neikvæðir höfðu reynst áður og hafði nú enginn bæst í hóp hinna jákvæðu. Enginn jákvæðra hafði veikst og lauk þessum faraldri svo að einungis tveir veiktust, stúlkan með erythema nodosum og pilturinn með tbc.ileo-coecalis.

Hinn 19. nóvember um haustið fór fram skólaskoðun á Hólum. Þá var sett Pirquet-próf á alla nemendur og starfsmenn, en ekkert nýsmit kom fram.

Þau sýni sem tekin voru við krufningu á nautgripunum voru rannsökuð eins gaumgæfilega og tök voru á. Berklayfirlæknir stóð fyrir þeim rannsóknum. Hann segir meðal annars í skýrslu sinni um málið (Heilbrigðisskýrslur 1959): "Var bæði reynt að rækta sýklana og einnig reynt að sýkja með þeim tilraunadýr, s.s. kanínur, naggrísi og hænuunga, í því skyni að greina þá betur. Voru rannsóknir þessar gerðar á Tilraunastöðinni á Keldum, á Rannsóknarstofu Háskólans við Barónsstíg og einnig að nokkru leyti á dönsku dýra­læknisstofnuninni í Kaupmannahöfn og samsvarandi stofnun í Washington DC (Feldmann). Engin þessara stofnana treysti sér til að gefa skýr svör um það hvers konar smit væri hér um að ræða."

Endanleg niðurstaða varð því sú að sýklar þeir sem valdið höfðu þessum faraldri væru að vísu einhvers konar berklasýklar, en nánar var ekki unnt að skilgreina þá með vissu. Þeir voru kallaðir atýpískir, "þ.e. trauðla flokkaðir til manna-, nauta- eða fuglaberkla, enda þótt þeir séu vafalítið skyldastir nautaberklastofni," segir í skýrslu berkla­yfirlæknis, en síðan er bætt við: "En fjöldi slíkra afbrigðilegra stofna hefur undanfarið verið í örum vexti víðs vegar um heim."

Lengra varð ekki komist að ráða þessa gátu.

Berklayfirlæknir hafði samband við dönsk heilbrigðisyfirvöld og höfðu þau upp á fimm Dönum sem dvalist höfðu á Hólum árið 1958, en allir farið þaðan fyrir áramót. Voru þeir allir rannsakaðir en ekkert fannst hjá þeim athugavert.

Þessi rannsókn endaði því þannig að ekki varð fyllilega upplýst hvaða sýkill var hér að verki. Það var ekki hægt að rækta hann eins og áður segir. Það var heldur ekki hægt að negla það niður hvaðan smitið barst í nautgripina. Það liggur ekki fyrir hvort hægt var að ná til allra þeirra manna sem unnið höfðu á Hólum um þessar mundir, en þeir sem til náðist virðast hafa verið heilbrigðir. Hins vegar er hægt að fullyrða að fólkið hafi smitast af kúnum gegnum mjólkina.

Þeirri spurningu var ekki svarað hvort hér væri um kúaberkla að ræða eða ekki. Hafi svo verið er það í fyrsta sinn í þúsund ára sögu landsins sem vart hefur orðið við þá bakteríu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica