07/08. tbl. 91.árg. 2005

Broshornið 60. Versnandi heilsa og heimahjúkrun

Minnkuð heyrn

Maður á sjötugsaldri var að ræða við Lárus heimilislækni sinn um eitt og annað sem tengdist heilsu­farinu. Áður en maðurinn bjó sig til brottfarar sagði hann: "Lárus, ég held að konan mín sé að verða heyrnarlaus."

"Það ætti ekki að verða neitt stórmál að komast að því," sagði Lárus læknir. "Þú gætir prófað heyrnina hennar með því að standa í nokkurri fjarlægð og spyrja hana að einhverju. Ef hún svarar ekki færir þú þig ögn nær henni og endurtekur spurninguna. Haltu þessu svo áfram alveg þangað til hún svarar og þannig getur þú áttað þig nokkurn veginn á því hvað hún heyrir illa."

Þegar heim var komið ákvað maðurinn að láta reyna á snjallræði læknisins. Hann opnar dyrnar og segir: "Hvað er í matinn, elskan mín?" Hann heyrir ekkert svar og færir sig nær. "Hvað er í matinn, elskan mín?" Ekkert svar í það skiptið heldur. Hann endurtekur þetta nokkrum sinnum þar til hann stendur örfá skref frá henni. Þá loks heyrir hann hana segja: "Í ellefta skipti, það eru kjötbollur í matinn."

Mikill asi

Kona æddi inn, gekk rakleitt að miðaldra manni og sagði: "Læknir, það er eitthvað að mér en ég veit ekki hvað það er."

Maðurinn renndi höndunum niður í vasann á tweedjakkanum og virti konuna fyrir sér. "Fyrir það fyrsta ertu vel í holdum. Í öðru lagi notarðu alltof sterkan augnskugga og svo ertu með sláandi andremmu. Og eitt enn "

"Hvað þá?" spurði konan agndofa.

"Og sennilega er eitthvað að sjóninni hjá þér því þú ert stödd í bókabúð."

Versnandi heilsa

Ung kona hringdi í lækninn. "Góðan daginn, ég hringi út af Óskari frænda. Hann heldur að hann sé veikur."

"Sólveig mín, hafðu ekki áhyggjur af Óskari frænda þínum. Ég skoðaði hann í gær og get fullvissað þig um að það er allt í lagi með hann."

Daginn eftir hringdi konan á ný. "Það er Óskar frændi aftur," sagði hún.

"Heldur hann kannski ennþá að hann sé veikur?" spurði læknirinn.

"Nei, nú heldur hann að hann sé dauður."

Einn tregur

Læknirinn sagði við Lalla: "Þú átt að taka þrjár fullar teskeiðar af þessu lyfi eftir hverja máltíð."

"En ég á bara tvær teskeiðar," sagði Lalli.

"Allt í lagi," sagði læknirinn. "Við skulum reyna annað í staðinn. Ég læt þig frekar hafa kröftug hylki. Taktu eitt hylki þrisvar á dag."

"Allt í lagi," sagði Lalli, "en hvernig get ég tekið hylkið oftar en einu sinni?"

Heimahjúkrun

Það var sumar og Sumarliði hafði ekki tölu á öllum hjúkrunarfræðingunum sem höfðu vitjað hans frá því hann kom af sjúkrahúsinu, enda sumarafleysingar í fullum gangi. Hjúkrunarfræðingarnir komu til hans á hverjum degi til að skipta um umbúðir á sárum sem hann var með á mjöðm og bringu. Um sex vikum eftir heimkomuna birtist enn ein ný manneskja á tröppunum með möppu í hendi og axlartösku. "Gjörðu svo vel og komdu inn fyrir," kallaði maðurinn. Síðan staulaðist hann á fætur og gekk við hækjur inn í svefnherbergið þar sem hann bjó sig undir enn ein umbúðaskiptin. Hann leysti niður um sig buxurnar í augsýn konunnar og sagði:

"Hvort viltu byrja á mjöðminni eða bringunni?"

Manninum til nokkurrar undrunar svaraði konan engu. Þegar hann leit upp sá hann augu hennar standa á stilkum og hún stamaði: "Ég ætlaði nú bara að athuga hvort það mætti ekki bjóða þér að kaupa heimilistryggingu."

Morgunverkin

Benjamín gamli mætti á stofuna til Lúðvíks læknis, en þeir höfðu þekkst í áratugi. "Hvernig líður þér að vera níutíu ára gamall?" spurði læknirinn.

"Ekki sem verst, ekki sem verst," sagði Benjamín, "og ég þakka það ákveðnu lífsmunstri sem ég hef tileinkað mér á hverjum morgni."

"Segðu mér aðeins meira því það gæti hugsanlega gagnast einhverjum hinna sjúklinganna minna," sagði Lúðvík læknir.

"Þegar ég vakna á morgnana kemur heimilis­hjálpin með svart kaffi og Moggann til mín í rúmið. Ég drekk kaffið meðan ég les blaðið. Og síðan," sagði gamli maðurinn, "ef ég sé ekki nafnið mitt í dánartilkynningunum, fer ég á fætur."Þetta vefsvæði byggir á Eplica