06. tbl. 91. árg. 2005

Ritstjórnargrein

Sérnám á Íslandi

Ólafur Baldursson

Hlutverk og gildi sérmenntunar í læknisfræði hefur vaxið jafnt og þétt undanfarna áratugi. Flestir starfandi sérfræðingar á Íslandi hafa numið erlendis og borið allan kostnað og fyrirhöfn af sérnámi sínu sjálfir. Þetta er athyglisvert í ljósi þess lykilhlutverks sem þeim er falið að námi loknu við greiningu og meðferð sjúklinga, kennslu heilbrigðisstétta og stjórnun.

Á Íslandi er þegar kominn vísir að sérnámi í nokkrum greinum en undanfarin misseri hefur verið talsverð umræða um eflingu þess. Undirrót umræðunnar er meðal annars sú að nokkru erfiðara virðist fyrir unglækna að komast að í sérnám í Skandinavíu og Bandaríkjunum en áður var. Ráðningarbönn í Skandinavíu í sparnaðarskyni og fjölgun prófa ásamt banni við aukavinnu í Bandaríkjunum eru dæmi um þætti sem gera unglæknum erfiðara fyrir. Kostnaður erlendra háskóla og sjúkrastofnana við skipulag og eftirlit með sérnámi er mikill og ekki við öðru að búast en að þær taki síður við erlendum læknum til náms þegar kreppir að. Samhliða þessum þrengingum ytra hefur nýtt háskólasjúkrahús verið sett á laggirnar á Íslandi og einnig hefur verið mikill kraftur í sérnámi í heimilislækningum. Sérnám eða framhaldsnám í heilbrigðisgreinum er einn af hornsteinum háskólasjúkrahúsa og því eðlilegt að efla mjög slíka starfsemi innan Landspítalans. En efling sérnáms mun kosta fé og fyrirhöfn og huga þarf vel að forsendum hennar, svo sem hæfni kennara, aðstöðu, samvinnu við sérgreinafélög og læknadeild, eftirliti, endurskoðun, tengslum við erlendar stofnanir, og síðast en ekki síst áhuga ungra lækna á að stunda námið.

Í þessu tölublaði Læknablaðsins birtast niðurstöður nýlegrar könnunar á áhuga læknanema og unglækna á sérnámi á Íslandi. Þó svo að svarhlutfall hafi verið í lægra lagi bendir könnunin til áhuga meðal læknanema og unglækna á að stunda fyrri hluta sérnáms á Íslandi og seinni hluta þess erlendis. Ástæður til þess að velja eingöngu nám erlendis voru að þar væri að finna fleiri rannsókna­tækifæri og fjölbreyttari sjúkratilfelli en á Íslandi. Þessar ástæður verða ekki dregnar í efa en hins vegar skal bent á vaxandi grósku í lífvísindarannsóknum hérlendis og skipulag rannsóknatengds náms við læknadeild sem samtvinna má við klínískt nám. Niðurstöður könnunarinnar vekja ýmsar spurningar um núverandi skipulag sérnáms á Íslandi og framtíðaráform í þeim efnum.

Vinnureglur framhaldsmenntunarráðs lækna­deildar gera ráð fyrir að skipulag náms í hverri sérgrein sé í umsjón nefndar þar sem sæti eiga fulltrúi sérgreinafélags, fulltrúi viðkomandi fræðasviðs innan HÍ og fulltrúi Landspítala eða þeirrar stofnunar sem hýsir námið. Slík sérnámsnefnd ber ábyrgð á marklýsingum og framkvæmd náms í hverri grein fyrir sig. Eftirlit með störfum slíkra nefnda og ráðgjöf er hins vegar í höndum framhaldsmenntunarráðs samkvæmt reglugerð. Ef til vill væri æskilegt að yfirvöld heilbrigðis- og/eða menntamála hefðu eftirlit með sérnámi hérlendis en vandað eftirlit er forsenda þróunar sérnáms. Því er meðal annars ætlað að tryggja að ekki sé ráðist í skipulagningu sérnáms í greinum sem hafa enga burði til þess, svo sem vegna fárra kennara eða aðstöðuleysis. Einnig er ljóst að svo mikil vinna er fólgin í sífelldri endurskoðun skipulags og eftirlits með sérnámi að hún verður aðeins ynnt af hendi með mikilli og stöðugri þátttöku opinberra aðila. Eðlilegt væri að hið opinbera tæki meiri þátt í vinnu og kostnaði við slíkt skipulag sérnáms en verið hefur hingað til og í raun með endemum að læknar hafi axlað þessar byrðar einir.

Breyttar aðstæður hér heima og erlendis kalla á nýjar hugmyndir um skipulag sérnáms lækna. Til þess að tryggja aðgengi unglækna að sérnámi af bestu gerð og um leið veita landsmönnum bestu mögulega læknisþjónustu væri farsælt að fyrri hluti sérnáms í völdum greinum færi fram á Íslandi en seinni hluti þess við erlendar stofnanir. Með því móti nýttist tími unglækna vel strax eftir útskrift úr læknadeild, Landspítali og aðrar stofnanir nytu krafta unglækna meira með margvíslegum jákvæðum áhrifum á starfsemina og síðast en ekki síst fengist eftir sem áður verðmæt klínísk og vísindaleg reynsla erlendis.

Hlöðum á grundvöll af hérlendri menning

því heilbrigða, lífvæna í erlendri kenning.

Úr ljóðinu Kveðja Skírnis eftir Einar BenediktssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica