06. tbl. 91. árg. 2005

Íðorð 177. Ásækinn

p01-hofnyAggressive

Á lausum miða í sloppvasa fannst lýsingarorðið aggressive með íslensku þýðingunni ásækinn. Miðinn er ódagsettur og án tilvísunar í tilefni eða tillögusmið. Íðorðasafn lækna birtir nafnorðið aggression með þýðingunum ýgi, árásarhneigð, árásargirni, árásarhvöt og samsetninguna aggressive personality, ýg skapgerð. Undirritaður hefur aldrei getað sætt sig við nafnorðið ýgi. Lýsingarorðið ýgur má finna í Íslenskri orðabók Eddu með skýringunum: ægilegur, hræðilegur, mannýgur, byrstur. Með orðinu ásækinn er komin leið til að forðast það. Undirrituðum finnst það ágætt og hljóma vel í ýmsum læknisfræðilegum samsetningum: ásækinn persónuleiki, ásækið illkynja æxli, ásækin sýking og ásækin bólga, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Kransæðaheilkenni

Guðmundur Þorgeirsson, prófessor, kom að máli við undirritaðan og var með heitið acute coronary syndrome í fórum sínum. Um er að ræða bráð veikindi sem byggjast á truflun í blóðflæði kransæða og hafa í för með sér blóðþurrð (ischemia) eða (smá)drep í hjartavöðva. Lausleg uppfletting á veraldarvefnum leiddi í ljós að þetta er nýlegt heiti sem virðist notað á tvo vegu, ósértækt og sértækt. Við ósértæka notkun er vísað til sjúkdómsfyrir­bæra frá hjartaöng til hjartadreps. Við sértæka notkun er aðeins vísað til tveggja fyrirbæra, annars vegar þess sem nefna má hvikula hjartaöng (unstable angina) og hins vegar smádreps í hjartavöðva með mjög vægum eða engum hjartalínuritsbreytingum. Heitinu er meðal annars ætlað að gefa til kynna að beita verði tilteknum aðferðum við greiningu og meðferð.

Undirritaður komst að þeirri niðurstöðu að bein þýðing væri besta lausnin, brátt kransæðaheilkenni, sama hvort notkunin væri sértæk eða ósértæk.

Microcirculation

Gísli Sigurðsson, prófessor, hitti undirritaðan á förnum vegi fyrir allnokkru og vakti þá athygli á því að heitið microcirculation er ekki að finna í Íðorðasafni lækna. Samkvæmt læknisfræðiorðabók Stedmans frá 1995 vísar heitið til blóðrásar í slagæðlingum (arterioles), háræðum (capillaries) og bláæðlingum (venules). Orðabók Dorlands frá árinu 2000 nefnir ekki tegundir æða í lýsingu sinni heldur vísar almennt í flæði blóðs í smáæðum (micro­vasculature) líkamans. Microvasculature er þar lýst sem þeim hluta æðakerfisins sem saman­stendur af fíngerðari æðum, stundum lýst sem þeim sem hafa innra þvermál 100 míkron eða minna. Einnig það heiti þarf að komast inn í Íðorðasafnið, svo og vasculature, æðar, æðakerfi. Orðið circula­tion er þýtt sem hringrás, enda dregið af circulus, sem strangt tekið merkir lítill hringur.

Við Gísli komum okkur saman um að smáæða­blóðrás væri ágætt íslenskt heiti á microcirculation. Raunar má spyrja hvort áherslubreytingin í skilgreiningu æðanna frá Stedman 1995 til Dorlands 2000 gefi til kynna að þörf sé á tveimur slíkum heitum, smáæðablóðrás og öræðablóðrás. Síðara heitið vísar þá til allra minnstu æðanna. Gaman væri að heyra skoðanir þeirra sem fást við vandamál, sem tengjast æðum af þessari stærðargráðu, í daglegu starfi.

Microvasculature má til samræmis nefna smá­æðar, smáæðakerfi eða öræðar, öræðakerfi ef þörf er á slíku.

Gangverk

Annar svæfingarlæknir, Ólafur Z. Ólafsson, setti fram heitið gangverk í fyrirlestri sem hann hélt síðastliðið haust. Þar var hann að íslenska enska orðið mechanism. Þetta er lipurt og lýsandi heiti sem gott er að eiga til viðbótar þeim tveimur sem birt eru í Íðorðasafni lækna, vél, vélgengi. Samkvæmt læknisfræðiorðabók Dorlands er mechanism dregið af gríska orðinu mechane og merkir: 1. vél eða gangverk sem líkist vél. 2. samsetning hluta eða ferla sem þjóna sameiginlegri starfsemi. 3. kenning um að lífið byggist á eðlis- og efnafræðilegum lögmálum í ólífrænum heimi. Gríska orðið mechane er sagt hafa táknað vél, tæki, uppfinningu eða útbúnað.

Í framhaldi af þessu væri rétt að taka þýðinguna á lýsingarorðinu mechanical til endurskoðunar. Íðorðasafnið birtir einungis þýðinguna vélrænn, en það er alls ekki fullnægjandi fyrir margvíslega notkun þessa orðs í læknisfræði, samanber fræðiheitið mechanical ileus.

Nöldur

Undirrituðum var nýlega bent á orðskrípin afsamþykkja og ósamþykkja, sem komin eru í notkun í tengslum við ákveðið tölvuforrit á Landspítala. Tiltekin aðgerð felst í því að samþykkja frágengnar færslur. Engu að síður er til önnur aðgerð sem gerir fært að afturkalla samþykkið, lagfæra færslurnar og samþykkja að nýju. Það er þessi afturköllun á samþykki sem fyrrgreind orðskrípi vísa til. Getur ekki einhver komið með betri tillögu?

Samsetningin heilsubreytandi atferli rak á fjör­urnar í vetur. Vera má að hún eigi rétt á sér í einhverjum formlegum flokkunarkerfum, þar sem helstu undirflokkar eru væntanlega heilsubætandi atferli og heilsuspillandi atferli, en vonandi þurfa læknar ekki oft að taka sér þetta í munn í hlýlegum samræðum við sjúklinga sína.Þetta vefsvæði byggir á Eplica