06. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Afstaða unglækna og læknanema til sérfræðináms á Íslandi

Postgraduate Medical Education in Iceland; medical students' and residents' perception

Læknablaðið 2005; 91: 511-4

Ágrip

Inngangur: Ýmsir hafa lýst áhuga á skipulegu sérfræðinámi í læknisfræði á Íslandi. Áhugi og afstaða unglækna og læknanema til slíks náms hefur ekki verið athuguð áður.

Efniviður og aðferðir: Í ársbyrjun 2004 var sendur spurningalisti til 146 unglækna og 84 læknanema á fimmta og sjötta ári í læknisfræði. Spurt var um kyn, afstöðu til sérfræðináms á Íslandi, áhuga á að stunda slíkt nám og í hvaða sérgrein viðkomandi stefndi. Einnig var spurt hvaða þættir hefðu áhrif á ákvarðanir svarenda um val á sérfræðinámi og þáttum raðað eftir mikilvægi.

Niðurstöður: Alls svöruðu 100 manns spurningalista (svarhlutfall 45%), 61 unglæknir (deildarlæknar og kandídatar) og 39 læknanemar. Af innsendum svörum voru langflestir unglæknar (97%) og lækna­nemar (87%) mjög hlynntir eða frekar hlynntir sérfræðinámi á Íslandi. Meirihluti þeirra er svaraði vildi stunda hluta sérfræðináms hérlendis. Þeir sem kusu hluta sérfræðináms á Íslandi sögðu verklega þjálfun, aðgengi að sérfræðingum, fjölskyldu­aðstæður og skipulega fræðslu ráða mestu um þetta val. Þeir sem vildu alfarið sérfræði­nám erlendis mátu mest sjúklingaúrval, verklega þjálfun, skipulega fræðslu og rannsóknatækifæri.

Samantekt: Unglæknar og læknanemar eru hlynntir því að taka hluta síns sérfræðináms á Íslandi. Þeir sem kusu sérfræðinám erlendis mátu sjúklingaúrval og rannsóknatækifæri meir en þeir sem vildu sérfræðinám á Íslandi.

Inngangur

Flestir íslenskir læknar fara utan til sérfræðináms eftir að hafa starfað á Íslandi í nokkur ár (1-3). Fáum blandast hugur um mikilvægi þess að íslenskir læknar sæki sérfræðinám til menntastofnana erlendis. Sú hefð virðist hafa reynst Íslendingum vel og mörgum sýnist ekki augljós ástæða til breytinga. Hins vegar er áhugavert að skoða hvort breyttar aðstæður hér heima og erlendis hafi áhrif á val unglækna og þar með hefðina. Nefna má að í sumum löndum hefur dregið talsvert úr framboði á námsstöðum fyrir útlendinga (1, 4).

Sérgreinafélög, unglæknar og framhaldsmenntunarráð læknadeildar hafa lýst yfir áhuga á skipulögðu sérfræðinámi á Íslandi í tilteknum sér­grein­um. Benda má á að víða erlendis gegna læknar í sérfræðinámi veigamiklu hlutverki í starfsemi háskólasjúkrahúsa. Þennan sterka hlekk hefur íslenskt heilbrigðiskerfi ekki getað treyst á þrátt fyrir að flestir unglæknar dvelji hér við störf í nokkur ár eftir útskrift úr læknadeild. Ótryggt er að erlendar menntastofnanir viðurkenni þennan starfstíma sem hluta sérfræðináms.Til þess að svo mætti verða væri æskilegt að skipuleggja sérfræðinám á Íslandi þannig að ljúka ætti fyrsta hluta formlegs náms hér heima. Með því móti væri hugsanlegt að menntastofnanir ytra viðurkenndu störf kandídata og deildarlækna á Íslandi sem fyrsta hluta sérfræði­náms. Unglæknar nýttu tíma sinn þar með betur og tengsl okkar við erlendar stofnanir yrðu traustari, um leið og haldið væri í þá venju að sem flestir lykju sérfræðinámi í útlöndum.

Skipulag og vinna við sérfræðinám lækna á Íslandi mun kosta talsverða fjármuni jafnvel þótt aðeins væri um að ræða upphaf námsins. Hins vegar má ætla að skipulagt sérfræðinám á Íslandi efli framleiðni, kennslu og vísindastörf við þær stofnanir er námið veita og geti þannig sparað fé þegar til lengdar lætur (3). Nú þegar er vísir að sérfræðinámi í sumum sérgreinum. Boðið hefur verið upp á tveggja ára skipulegt nám í skurðlækningum og tvö til þrjú ár í lyflækningum við Landspítala en unnt hefur verið að læra heimilislækningar og geðlækningar að fullu þótt nemendur hafi verið hvattir til að taka hluta námsins erlendis.

Framhaldsmenntunarráði læknadeildar (FMR) er falið að hafa eftirlit með sérfræðinámi á Íslandi fyrir hönd læknadeildar (5). Áhugi meðal unglækna og læknanema er ein af forsendum þróunar sérfræðináms í læknisfræði á Íslandi en sá áhugi hefur ekki verið formlega kannaður áður. FMR ákvað því að athuga áhuga og viðhorf unglækna og lækna­nema til sérfræðináms á Íslandi og hvaða þættir hafi áhrif á val þeirra. Við þá vinnu fundust engar sambærilegar kannanir við leit á MedLine og PubMed.

Aðferðir

Í ársbyrjun 2004 var sendur spurningalisti til 146 unglækna (deildarlæknar og kandídatar) sem voru á lista félags ungra lækna og til 84 læknanema á fimmta og sjötta ári í læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Spurt var um kyn, stöðu (lækna­nemi, kandídat eða deildarlæknir) og afstöðu til sérfræðináms á Íslandi og voru svarmöguleikar "mjög hlynnt/ur, frekar hlynnt/ur, hlutlaus, frekar mótfallinn og mjög mótfallinn". Einnig var spurt í hvaða sérgrein svarandi stefndi og hvort hann veldi sérfræðinám að hluta eða öllu leyti á Íslandi stæði það til boða. Eftirfarandi atriði sem gætu haft áhrif á ákvarðanir unglækna og læknanema varðandi val á sérfræðinámi, komu fram á spurningalistanum: Verkleg þjálfun, rannsóknatækifæri, sjúklingaúrval, skipulögð fræðsludagskrá, aðgengi að sérfræðingum, mikið vinnuálag, lítið vinnuálag, fjölskylda/maki og laun. Þátttakendur voru beðnir um að raða þessum atriðum eftir mikilvægi þannig að atriði númer eitt væri það sem mestu réði um val á sérfræðinámi og atriði númer níu minnstu. Við úrvinnslu var reiknað meðaltal hvers atriðis fyrir sig þannig að það atriði sem hafði lægst meðaltal var það sem þátttakendur töldu ráða mestu um valið. Könnunin var gerð á vegum FMR lækna­deildar. Spurningalistar voru nafnlausir og tölvu­póstur var sendur tvisvar til ítrekunar á þátttöku.

Niðurstöður

Þátttaka

Alls svöruðu 100 af þeim 230 sem fengu spurningalista, 61 unglæknir (34 karlar og 24 konur, 3 tilgreindu ekki kyn) og 39 læknanemar (23 karlar og 16 konur). Heildarsvarhlutfall var 45%, 42% unglækna og 46% læknanema svöruðu og var þátttaka svipuð meðal kynja.

Afstaða til sérfræðináms á Íslandi

Alls voru 59 unglæknar (97% af innsendum svörum unglækna; 40% af heildarfjölda unglækna í úrtaki) og 34 læknanemar (87% af innsendum svörum lækna­nema; 40% af heildarfjölda lækna­nema í úrtaki) mjög hlynntir eða frekar hlynntir sérfræðinámi á Íslandi (mynd 1). Meirihluti þátttakenda sagðist kjósa sérfræðinám hérlendis, stæði það til boða (mynd 2) en flestir (72% þátttakenda; 31% af heild) kjósa að taka slíkt nám aðeins að hluta til á Íslandi.

Sérgreinaval og starfsferill

Mynd 3 sýnir að flestir þátttakendur hafa mótaða skoðun á sérgreinavali, og stefna flestir í skurðlækningar, lyflækningar, heimilislækningar eða barnalækningar.

Hvaða þættir ráða vali á sérfræðinámi?

Tafla I sýnir hvernig mismunandi faglegir og félagslegir þættir hafa áhrif á ákvörðun unglækna og læknanema um sérfræðinám. Þeir sem völdu sérfræðinám á Íslandi töldu verklega þjálfun, fjölskyldu, aðgengi að sérfræðingum og skipulega fræðsludagskrá vega þyngst. Þeir sem kusu sérfræðinám alfarið erlendis töldu hins vegar sjúklingaúrval, verklega þjálfun, rannsóknatækifæri og skipulega fræðsludagskrá ráða mestu um val sitt.

Hóparnir voru sammála um mikilvægi verklegrar þjálfunar og skipulegrar fræðslu. Hins vegar gætti misræmis hvað varðar aðra þætti, þar sem þátttakendur er kusu sérfræðinám á Íslandi röðuðu fjölskylduaðstæðum og aðgengi að sérfræðingum ofar, en hins vegar mátu þátttakendur sem alfarið vildu læra erlendis, rannsóknatækifæri og sjúklingaúrval meir.

Umræða

Þátttaka

Þar sem heildarsvarhlutfall var aðeins 45% ber að túlka niðurstöður varlega. Búast má við að þátttaka áhugasamra um sérfræðinám á Íslandi sé hlutfallslega meiri. Ef til vill má því líta á heildarsvarhlutfall af útsendum spurningarlistum sem mælikvarða á áhuga unglækna og læknanema til sérfræðináms á Íslandi.

Afstaða til sérfræðináms á Íslandi

Niðurstöðurnar benda til þess að afstaða unglækna og læknanema til sérfræðináms á Íslandi sé jákvæð og að þeir séu hlynntir því að taka hluta sérfræði­náms hér. Einungis unglæknum á Íslandi var sendur spurningalistinn en í svörum þeirra kann að felast skekkja þar sem hluti þeirra tekur nú þegar þátt í skipulögðu sérfræðinámi hér. Hins vegar var afstaða læknanema mjög lík afstöðu unglækna. Ekki var spurt hvort viðkomandi væri í skipulögðu sérfræðinámi hérlendis eða um ánægju með slíkt nám en áhugavert væri að kanna það síðar.

Sérgreinaval og starfsferill

Mögulegt er að unglæknar og læknanemar sem hyggjast læra almennari sérgreinar séu jákvæðari gagnvart sérfræðinámi á Íslandi en þeir sem ætla í sérhæfðari greinar. Sérfræðingar eru margir í almennu greinunum og þær vel kynntar fyrir ungum læknum í námi sem og á kandídatsári. Sú spurning vaknar hvort of lítið val sé í námi læknadeildar og tækifæri lítil til þess að kynnast ýmsum jaðargreinum og óhefðbundnum starfsframa. Þó ber að hafa í huga að svörun í könnuninni var aðeins 45% og hugsanlegt að þeir sem hafa áhuga á jaðargreinum eða sérhæfðari greinum hafi síður tekið þátt. Einnig gæti verið að þeir sem velja síðar sérhæfðari greinar séu óákveðnir lengur eða vilji sækja sér breiðari grunn og niðurstaðan gefi því misvísandi skilaboð um þann undirhóp sem velur síðar sérhæfðari greinar. Ef til vill skortir kraft­meiri umræðu innan læknadeildar og meðal unglækna um þróun starfsferils en slík umræða gæti flýtt fyrir ákvörðun um sérhæfingu, sparað tíma og fé.

Hvaða þættir ráða vali á sérfræðinámi?

Þegar samanburður á áhrifum ýmissa faglegra og félagslegra þátta var skoðaður milli þeirra hópa sem vildu sérfræðinám á Íslandi eða alfarið sérfræðinám erlendis voru hóparnir sammála um mikilvægi verklegrar þjálfunar og skipulegrar fræðslu. Þeir sem kusu sérfræðinám á Íslandi röðuðu fjölskylduaðstæðum og aðgengi að sérfræðingum ofar en þeir einstaklingar sem vildu alfarið læra erlendis, þeir röðuðu rannsóknatækifærum og sjúklingaúrvali ofar. Þótt þessi munur veki ýmsar spurningar ber að taka með fyrirvara hvort munur milli hópanna sé raunverulegur. Vissulega stunda íslenskir læknar oft nám við stórar stofnanir ytra með fjölbreyttum rannsóknatækifærum og flóru sjúkdóma, en hafa ber í huga að margar stofnanir sem bjóða sérfræði­nám erlendis eru álíka stórar og Landspítali. Að auki má benda á að rannsóknatækifæri á sumum sviðum eru síst minni hér á Íslandi en erlendis (6).

Sjúklingaúrval er örðugt að auka í fámennu landi, en sjálfsagt er að tryggja að unglæknar í sérfræðinámi hérlendis fái sem fjölbreyttasta reynslu á öllum stigum heilbrigðiskerfisins, ekki síst með þátttöku í göngudeildarþjónustu. Íhuga þarf hvort möguleikar til rannsóknaverkefna á Íslandi séu nógu aðgengilegir og sýnilegir unglæknum við klín­ísk störf. Mögulegt er að unglæknum í klínísku sér­fræðinámi reynist erfitt að ljúka verkefnum sam­hliða starfi, vegna þess að ferill leyfisumsókna, öfl­un efniviðs, úrvinnsla og greinaskrif eru oft mun tíma­frekari en virðist í fyrstu. Í þessu samhengi má nefna að vinnuálag á Íslandi er meira en tíðkast í Evrópusambandslöndum (7). Efla mætti kynningu á rannsóknatækifærum, hönnun rannsókna og mögu­leikum til þess að stunda sérfræðinám samhliða meistara- eða doktorsnámi við læknadeild, en nú þegar eru fordæmi fyrir slíku.

Lokaorð

Áhugi unglækna og læknanema á sérfræðinámi í læknisfræði á Íslandi virðist talsverður. Hins vegar kjósa flestir þátttakendur að ljúka sínu sérfræði­námi við erlendar stofnanir. Þessar niðurstöður eru í samræmi við nýlegar hugmyndir um skipulag framhaldsmenntunar í læknisfræði á Íslandi. Áhugi unglækna er vitanlega ein forsenda þróunar slíks náms á Íslandi, en fleira þarf til að það komist á legg. Nefna má greinargóðar marklýsingar, skilgreind hlutverk þeirra sem að náminu standa, greiningu kostnaðar og nánari könnun á viðhorfi sérfræðinga og nemenda sem þegar koma að slíku námi hér. Eftirlit með að námið uppfylli ítrustu kröfur er í umsjá FMR. Það er flókið og kostnaðarsamt verkefni að samþætta sérfræðinám í tveimur eða fleiri löndum og æskilegt að líta til skipulags slíks náms í öðrum löndum.

Mikilvægt er að hafa í huga að sérfræðinám í læknisfræði er þegar starfrækt á Íslandi. Tekist hefur að skilgreina kostnað fyrir sérfræðinám í heimilislækningum (8) þannig að fjármagn frá heilbrigðisráðuneytinu fylgir nú hverjum nemanda. Æskilegt væri að huga að sambærilegum fjármögnunaraðferðum fyrir sérfræðinám í öðrum greinum svo að vaxtarbroddur þess hafi tryggan fjárhagslegan grundvöll. Einnig er mikilvægt að skyldur sérfræðinga í klínískri kennslu séu skilgreindar og vinnuframlag á því sviði viðurkennt. Fjölgun nema í formlegu sérfræðinámi á Íslandi er einnig líklegt til að efla vísindastarfsemi hérlendis. Lyflækningasvið Landspítala hefur skilgreint rannsóknamánuði deildarlækna í sérfræðinámi, og er nú einnig grundvöllur fyrir að taka formlegt rannsóknanám við læknadeild samhliða klínískum störfum á tilsvarandi lengri tíma en þegar slíkt nám er stundað eitt og sér.

Könnun okkar bendir til þess að unglæknar og læknanemar hafi áhuga á að taka fyrri hluta sér­fræðin­áms í læknisfræði á Íslandi, og teljum við því vera grundvöll fyrir uppbyggingu þess. Ljóst er að FMR hefur umfangsmikið hlutverk á næstu árum við að tryggja að slíkt nám sé markvisst og uppfylli sambærilegar kröfur og tíðkast í nágrannalöndunum.

Þakkir

Höfundar þakka mikilvæga aðstoð: Kristjáni Er­lendssyni, Margréti Valdimarsdóttur ritara, Þuríði Pálsdóttur, Vilhjálmi Rafnssyni og starfsfólki skrifstofu Læknafélags Íslands.

Rannsókn þessi naut engra styrkja.

Heimildir

1. Arnar DO, Baldursson Ó. Sérfræðinám íslenskra lækna í Bandaríkjunum, hvert stefnir? Læknablaðið 1997; 83: 510-1.
2. Haraldsdóttir KH, Guðbjartsson T. Sérfræðinám í Svíþjóð - Vænn kostur. Læknablaðið 2001; 87: 160-6.
3. Þjóðleifsson B, Baldursson Ó. Framhaldsnám - straumar og stefnur. Læknablaðið 2002; 88: 586-7.
4. Guðmundsson S. Mismunandi sjónarmið styrkja fagið á Íslandi. Morgunblaðið 2003, 8. júlí.
5. Læknalög. In: nr 53; 1988.
6. Rannís. Rannsóknir, þróun og nýsköpun. Tölfræði 2003.
7. Carr S. Education of senior house officers: current challenges. Postgrad Med J 2003; 79: 622-6.
8. Svavarsdóttir AE, Guðmundsson GH, Sigurðsson JÁ. Sérnám í heimilislækningum á Íslandi. Læknaneminn 2004; 55: 16-9.

Mynd 1. Afstaða til sérfræðináms í læknisfræði á Íslandi. Tölur gefa til kynna fjölda. Bláar súlur sýna hlutfall unglækna en grænar súlur læknanema.

Mynd 2. Val á sérfræðinámi að hluta eða öllu leyti hérlendis, stæði það til boða. Tölur ofan súlna sýna fjölda. Bláar súlur sýna hlutfall unglækna en grænar súlur lækna­nema.

Mynd 3. Sérgreinaval þátttakenda. Tölur ofan súlna sýna fjölda. Lóðrétti ás sýnir hlutfall svarenda í hverjum hópi.

A. Skipting þeirra sem höfðu ákveðið eina sér­grein (n=74).

B. Skipting þeirra sem nefndu eina eða fleiri sérgreinar, alls 144 svör.Þetta vefsvæði byggir á Eplica