05. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Undarlegar tilhneigingar í heilbrigðisgeiranum

Um óseðjandi miðstýringarhungur embættismanna

u10-hofnyAtvik geta raðast þannig í tímans rás að kenna megi þar samfelldan vegarslóða. Eins og dýrin skilja eftir sig slóð við vatnsbólin, þangað sem þeim er lífsnauðsyn að komast, skilja framagjarnir menn eftir sig slóð við stofnanir þar sem þeir sækjast eftir auknum áhrifum. Röð atvika getur þá orðið að rekjanlegri slóð þyrstra, kraftmikilla en ekki endilega framsýnna einstaklinga og fylgisveina þeirra.

Hér á eftir verða skráðar nokkrar ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda á framkvæmd heilbrigðisþjón­ustunnar í landinu og þær tímasettar í grófum drátt­um. Ákvarðanir þessar hafa allar minnkað val­frelsi sjúklinga og möguleika lækna til að þróa skipulag og gæði þjónustunnar. Allar minnka þær frelsi starfsfólks til að starfa sjálfstætt, til dæmis hjúkrunarkvenna og lækna sem bera ábyrgðina. Sérkennilegt, en á sama tíma og þetta gerist í heilbrigðisgeiranum, fer fram frelsisbylting í þjóðfélaginu, til dæmis í bankamálum og hvers kyns atvinnurekstri, og hefur skilað þjóðinni arði og almennri ánægju. Starfsfólk hefur haldið uppi þeirri læknis- og sjúkraþjónustu sem enn er við lýði en mun ekki lengi una því að sérfræðiþekking þeirra fái ekki að móta vinnubrögðin.

1980 Kosnir stjórnmálamenn koma og fara en embættismenn, umboðslausir, sitja að málum árum saman. Uppúr 1980 komu til starfa á Landspítala kerfiskarlar sem töldu að skrifstofa spítalanna ætti ekki að þjóna starfsfólkinu og sjúklingunum eins og verið hafði heldur öfugt, skrifstofan gæfi skipanir til starfsfólksins. Var nú sett á stofn innan skrifstofunnar "Áætlana- og hagdeild" og "gæðastofa" svo og ýmsar nefndir sem læknaráð spítalans og önnur samtök starfsmanna höfðu áður haft á sinni könnu. Einn skrifstofumaðurinn klæddist grænum búningi skurðstofulækna með rykkhúfu á höfði og andlitsmaska og skók hvítvoðung framan í sjónvarpsmyndavélar. Ekki er örgrannt um að sumir sem íhuguðu stöðu sína meira en starf hafi haft nokkra unun af búlúlala-tali manns þessa.

1986 Ungum læknum, sérfræðingum í heimilislækningum, er meinað að byrja störf sem sjálfstætt starfandi heimilislæknar. Þess er krafist að þeir vinni á miðstýrðum heilsugæslustöðvum kerfisins.

1989 Sviðsstjórar ráðnir á sjúkrahúsin (hæfnis­kröfur óljósar, starfsheitið ekki í lögum) og heyra sviðin undir skrifstofu ríkisspítala og þar með heil­brigðis- og tryggingaráðuneytið. Þar með er talið "fræðasvið", stofnað síðar og var undanfari "Skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar", en lækna­deild HÍ kemur sérkennilega lítið við sögu þess sviðs.

1990 Starfsemi göngudeildar kvennadeildar Land­spítala er rekin af almannafé með tapi til þess að koma sjálfstæðum rekstri kvensjúkdómalækna á kné. Þetta er kært og spítalinn tapar málinu fyrir dómstólum og borgar skaðabætur.

1991 Skriffinni telur sig þess umkominn að ann­­ast afhendingu styrkja úr vísindasjóði lækna á Landspítala sem læknar greiða í af launum sínum, en á erfitt með fræðiheiti og gefst upp við þetta. Reynir nokkru síðar að bola læknum burt vegna árangurs þeirra og sjálfstæðis í starfi. Notar til þess hjálp sakleysingja í stjórnarnefnd ríkisspítalanna, en einn þeirra boðaði óvænt, í rómantískri upphafningu, afturhvarf til náttúrunnar og mælti með fæðingum í heimahúsum að nýju.

1995 Ráðherra reynir að loka frjálsum aðgangi sjúklinga að sjálfstætt starfandi sérfræðingum með skyldutilvísunum. Læknar sýndu í þetta skiptið órofa samstöðu og ráðherra lét í minni pokann. Læknisþjónustan varð því ekki eins slæm eins og hún hefði getað orðið.

1996 Þau nýmæli eru boðuð að ökutæki héraðslækna skuli vera í eigu ríkisins. Ekki er vitað um bílakost (Fiat pútur eða Hummer jeppar) né fjölda starfsmanna í ráðuneytinu sem sjá um úthlutun, afhendingu, eftirlit og viðgerðir.

1997 Læknum sem stunda glasafrjóvganir er neit­að um fullnægjandi aðstöðu á Landspítala en jafn­framt bannað að veita þjónustu sína annars stað­ar.

1997 Embætti lækningaforstjóra búin til á sjúkra­húsunum. Hæfniskröfur óljósar enda embættin ekki til í lögum. Áhrif læknaráða á stjórn sjúkrahúsanna minnka. Nefndir læknaráðanna fluttar á skrifstofur spítalanna.

1999 Hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun gera sjúklingum kleift að vera heima hjá sér og spara ríkinu stórfé og þarf að auðvelda þeim sem mest störf þeirra. Þeir höfðu keypt sér litla bíla til að skutl­ast á milli sjúkra. Þetta var of mikið sjálfstæði og heilsu­gæslan keypti sér sjálf bíla, jók með öðrum orðum útgjöld til að tryggja völd sín og umsvif.

2000 Sjúkrahúsin í Reykjavík eru sameinuð án verulegrar könnunar á áhrifum til hagræðis, þjónustu eða gæða í kennslu, vísindum og svo framvegis. Yfirráð embættismanna aukast. Sjálfræði lækna og hjúkrunarliðs minnkar. Heilbrigð samkeppni minnkar. Yfirstjórnin vex. Auðveldara er að koma þar fyrir stjórnunarmönnum og undirtyllum.

2002 Sjálfstæðar læknastofur, skurðstofur, rannsóknastofur og röntgenstofur spara sjúklingum tíma og fyrirhöfn og þjóðinni fé, því sjúkra­­húss­rekstur er dýr, 60-80 þúsund krónur legu­dag­ur­­inn. Með lagabreytingu er samninganefnd Trygg­ingastofn­un­ar ríkisins (TR) sem samdi við lækna­stofurnar sett undir Heilbrigðisráðuneyti (Htr). Vægi TR minnkar og er að verða deild í Htr sem leiðir til algjörs ríkisrekstrar heilbrigðisgeirans. Sjúklingar hafa þá ekkert val og sérfræðingar hafa einungis þau úrræði sem leyfð eru af stóra bróður.

2004 Staða líftölfræðings á Landspítala er lögð niður án samráðs við nokkurn aðila á sjúkrahúsinu sem háður er slíkri aðstoð. Þessa stöðu máttu kennsla og vísindi síst missa. Á sama tíma krefst spít­alinn þess að fá að kalla sig "háskólasjúkrahús".

2004 Rannsóknarstofnun Landspítala, sem rek­in er með tapi og þyrfti meira fé til að sinna vísinda­rannsóknum og kennsluskyldu, er látin undirbjóða klínískar rannsóknir í borginni um 40%. Hagkvæmni í rekstri er krafist í lögum!

2005 Samkvæmt tilskipun Htr verður heilsugæsla Garðabæjar, Mosfellssveitar og Hafnafjarðar sett undir heilsugæsluna í Reykjavík að forsvars­mönnum þeirra síðarnefndu forspurðum.

Augljóst er að um slóðina sem hér hefur verið lýst hafa ekki farið dádýrskálfar þeir sem halda sig á beit meðal liljanna. Við nánari skoðun á slóðinni kemur í ljós að um tvær tegundir göngumanna er að ræða, tegund A og B. A hefur áhuga á lækningum veiks fólks, menntun, rannsóknum og uppbyggingu en B hefur mestan áhuga á að ráðskast með A. B heldur sig nær vatnsbólinu, uppistöðu­lóni almannafjár, og hefur þannig vænlega stöðu til að sýna vald sitt. A heldur hins vegar heilbrigðiskerfinu og framþróun þess gangandi og kynni að gera það betur án B.

Það er dapurlegt ef starfhæft kerfi er eyðilagt. Landsmenn byggðu sjúkrahúsin og lækningastöðvar af bjartsýni og stórhug. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk fór út í langt nám heima og erlendis til að taka að sér störf við þessar stofnanir. Kennslu og vísindi verður að iðka á svona stöðum til þess að tryggja framfarir, en þær verða ekki án gagnrýninnar hugsunar. Heilbrigðisþjónustunni verð­­ur ekki haldið gangandi með þekkingarstjórum, forstjórum og sviðsstjórum né verður getuleysi fal­ið í merkingarlausum orða- og nýyrðaflaumi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica