05. tbl. 91. árg. 2005

Faraldsfræði í dag

Mælingar á gæðum II

p02-hofnyÍ síðasta pistli var fjallað um gæðavísa almennt og notkun þeirra til gæðaþróunar. Nú tökum við upp þráðinn þar sem frá var horfið og ræðum um nokkur praktísk atriði er varða gæðavísa. Í fyrsta lagi ræðum við um helstu flokka gæðavísa. Í öðru lagi ræðum við um mælikvarða og mælitæki sem grundvöll gæðavísa og sláum svo botninn í þessa umfjöll­un um gæðavísa með því að fara yfir þá eiginleika er einkenna góðan gæðavísi eða mælikvarða.

Gæðavísar eru stundum flokkaðar eftir því hversu stóran hluta heilbrigðisþjónustu þeir endurspegla. Þá er talað annars vegar um altæka (e. glo­bal) gæðavísa en hins vegar um sértæka (e. specific) gæðavísa. Altækir gæðavísar eiga að endurspegla gæði almennrar heilbrigðisþjónustu, dæmi um slíka gæðavísa er til dæmis meðalævilengd. Sértækir gæða­vísar, svo sem tíðni sýkinga í skurðsári eftir liðskipti eða dánartíðni eftir hjáveituaðgerð, taka hins vegar til gæða tiltekinnar þjónustu eða þjónustu vegna tiltekins sjúkdómsástands.

Eins og þegar hefur komið fram eru svokallaðir velgengnisþættir (critical success factors) gjarnan valdir sem gæðavísar út frá hugmyndafræði stefnu­miðaðs árangursmats (e. balanced scorecard). Þá er lagður mælikvarði á velgengnisþættina, en mæli­kvarðinn er eins konar reglustika eða málband sem umfang velgengnisþáttarins er miðað við. Stundum er mælikvarðinn það sama og velgengnisþátturinn, ef við lítum á legulengd sem velgengnisþátt og höfum valið hana sem gæðavísi þá er mælikvarðinn einfaldlega fjöldi legudaga. Í öðrum tilfellum er ekki hægt að mæla velgengnisþáttinn með beinum hætti og er þá lagður á hann mælikvarði sem talinn er gefa vísbendingu eða óbeinar upplýsingar um stærð velgengnisþáttarins. Þannig er fjöldi legusára til dæmis einfaldur mælikvarði á gæði hjúkrunar.

Mælitæki er enn eitt hugtakið á sviði gæðavísa. Mælitæki er það sem notað er til að mæla og getur verið til dæmis gögn sem lögð eru til grundvallar (oftast rafræn, svo sem úr sjúklingabókhaldi eða atvikaskráningu) eða spurningalistar sem lagðir eru fyrir sjúklinga eða starfsfólk.

Góður mælikvarði þarf að hafa nokkra eiginleika er taldir eru hér á eftir.

Mælikvarðinn þarf að vera réttmætur (e. valid) eða hafa sannleiksgildi. Þetta þýðir einfaldlega það að mælikvarðinn mæli það sem hann á að mæla og gefi raunverulega vísbendingu um samband þess sem mælt er (til dæmis dánartíðni) og gæða. Einnig þarf hann að vera áreiðanlegur (e. reliable) þannig að hann gefi sömu niðurstöðu fyrir sömu gögn óháð því hver beitir honum (það er framkvæmir mælinguna). -

Fyrir samfellda gæðaþróun er mikilvægt að unnt sé að uppfæra niðurstöðu mælikvarðans reglulega með nýjum mælingum. Mælikvarðinn þarf því að vera með þeim hætti að auðvelt sé að beita honum oft og á þeim tíma eða tímabilum er best henta.

Góður mælikvarði er nákvæmur (e. accurate), hann gefur nægilega nákvæmar upplýsingar til að hægt sé að túlka þær og bregðast við eftir því sem við á. Ef mælikvarði fjallar um legulengd er ekki nóg að hann gefi þær upplýsingar sem meðalfjölda heilla legudaga heldur verður hann að gefa meðalfjölda með aukastöfum. Að öðrum kosti geta mikilvægar breytingar í legulengd hulist þeim sem á þurfa að halda.

Mælikvarðar þurfa að vera bæði næmir og sértækir. Í þessu tilviki vísar næmi til þess að mæli­kvarðinn geti numið nægilega smáar breytingar í því sem mæla á þannig að unnt sé að bregðast við áður en vandamálið er orðið verulegt. Hvað telst fullnægjandi næmi er að sjálfsögðu háð aðstæðum. Sértækur mælikvarði getur greint á milli mismunandi flokkar eða útkoma þannig að hægt sé að túlka þær sem sundurlægar upplýsingar frekar en samfelldar. Spurningalisti um ánægju sjúklinga þarf að skila niðurstöðum á því formi að unnt sé að flokka alla svarendur í hópa sem endurspegla mismikla ánægju með þjónustuna.

Síðast en ekki síst er almennt ákjósanlegra að mæli­kvarðar séu hlutlægir fremur en huglægir. Aug­ljóslega er hlutlægur kvarði áreiðanlegri og auð­veldari í samanburði og túlkun en kvarði sem byggist á huglægu mati. Hlutlægir kvarðar eru einn­ig almennt auðveldari í meðförum en þeir huglægu en eiga ekki alltaf við.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica