03. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Eru tímaritin á biðstofunni smitvaldar?
Eflaust hafa margir, bæði læknar og sjúklingar, velt því fyrir sér hversu heilsusamlegt það sé að fletta blöðunum sem liggja frammi á læknabiðstofum. Þau eiga það til að verða æði langlíf og hafa þá velkst í höndum fjölmargra. Þessu veltu læknar við læknadeild Oslóarháskóla einnig fyrir sér og gerðu að lokum á því vísindalega rannsókn. Niðurstöður hennar birtust í blaði breskra heimilislækna, BJGP, í janúar síðastliðnum (1).
Kveikjan að þessari rannsókn voru fyrri rannsóknir sem gerðar voru á bakteríuflóru leikfanga sem einnig er að finna á biðstofum lækna. Þær höfðu leitt í ljós að sum þeirra höfðu að geyma sjúkdómsvaldandi bakteríur á borð við kólígerla, clostridium perfringens og staphylococcus aureus. Í fjórum rannsóknum reyndust mjúku leikföngin innihalda fleiri bakteríur en þau hörðu (2-5) en í þeirri fimmtu (6) var þessu öfugt farið.
Höfundur greinarinnar segir frá því að tekin hafi verið 15 tímarit á 11 biðstofum lækna og tekin bakteríustrok af forsíðunum. Tekin voru þau tímarit sem lágu efst í bunkanum á hverri stofu en aldur þeirra var frá tveimur upp í níu mánuði. Beitt var viðurkenndum aðferðum til að finna ákveðnar tegundir baktería og það kom engum á óvart að bakteríur fundust á öllum forsíðunum. Hins vegar fundust ekki nema tvö tilvik um sjúkdómsvaldandi bakteríur (staphylococcus aureus). Hugsanlegt er að bakteríurnar hafi ekki lifað af tímann sem leið frá því strokin voru tekin þar til þau voru rannsökuð (6-12 klukkustundir). Það segir höfundur að geti bent til þess að forsíður tímarita bjóði ekki upp á þau lífsskilyrði sem slíkar bakteríur þurfa.
Höfundurinn dregur þá ályktun af rannsókn sinni að engin ástæða sé til að fjarlægja tímarit af biðstofum lækna. Hins vegar bendir hann á þann annmarka á rannsókninni að hún hafi eingöngu beinst að bakteríum. Eftir sé að kanna hvort á tímaritunum kunni að þrífast sjúkdómsvaldandi veirur ...
- ÞH endursagði
Heimildir
1. Charnock C. Swabbing of waiting room magazines reveals only low levels of bacterial contamination. Br J Gen Pract 2005; 55: 37-9.
2. Davies MW, Mehr S, Garland ST, Morley CJ. Bacterial colonisation of toys in neonatal intensive care cots. Pediatrics 2000; 106: e18.
3. Hughes WT, Williams B, Williams B, Pearson T. The nosocomial colonisation of T. Bear. Infect Control 1986; 7: 495-500.
4. McKay I, Gillespie T. Bacterial contamination of children?s toys used in a general practitioner?s surgery. Scott Med J 2000; 45: 12-3.
5. Merriman E, Corwin P, Ikram R. Toys are a potential source of cross-infection in general practitioner?s waiting rooms. Br J Gen Pract 2002; 52: 138-40.
6. Suviste J. Infection control. The toy trap uncovered. Nurs Times 1996; 92: 56-60.