03. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Öldungadeild
Læknafélags Íslands
Öldungadeild Læknafélags Íslands var stofnuð 7. maí 1994 og fyllir því ríflega áratug. Samkvæmt lögum er tilgangur félagsins að gæta hagsmuna aldraðra lækna og stuðla að auknum innbyrðis samskiptum þeirra, svo og að efla samskipti lækna almennt, félagslega og faglega. Allir læknar sem búsettir eru á Íslandi og hafa náð 60 ára aldri geta orðið félagar. Félagar eru nú alls 127 talsins. Starfið er gróskumikið og dafnar ár frá ári. Stjórn félagsins skipa eftirfarandi: Þorvaldur Veigar Guðmundsson formaður, Ólafur Örn Arnarson ritari, Ingvar E. Kjartansson gjaldkeri, Þór Halldórsson og Tómas Helgason meðstjórnendur. Í Öldungaráði sitja: Guðmundur Bjarnason, Halla Þorbjörnsdóttir, Óli Björn Hannesson, Leifur Jónsson, Svanur Sveinsson og Sigmundur Magnússon.
Þrátt fyrir að eiga sinn eigin lagabálk og afmarkað varnarþing er öldungadeildin alls ekki einskorðuð við félagsskírteini. Félagar eru hvattir til að taka maka sína og aðra gesti með í alla starfsemi félagsins. Félagsskapurinn fundar um hvaðeina sem áhuga vekur fyrsta miðvikudag mánaðarins yfir veturinn, heldur jólafagnað á aðventunni með mat og drykk og tilheyrandi fagnaðarerindi, og stendur fyrir ferðum innanlands og utan. Til marks um félagsstarfið á árinu 2004 má geta þess að farið var í vorferð á slóðir Einars skálds Benediktssonar og í haustferð að skoða stuðlabergsnámur í landi Hrepphóla í Hrunamannahreppi. Kallaðir voru til ýmsir til að messa á fundum: Jakob Jakobsson fiskifræðingur: Síldin veður og síldin kveður, - Sigurður Arnalds verkfræðingur: Kárahnjúkavirkjun, Sveinn Rúnar Hauksson læknir: Palestína, skipting landsins, hernám og núverandi ástand og Þórarinn Þórarinsson arkitekt: Línur í landnámi Ingólfs.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar öldungadeildin fékk sér kaffi og vínarbrauð, 2. febrúar síðastliðinn, áður en hlýtt var á boðskap Ragnars Björnssonar prófessors um jarðskjálfta og áhrif þeirra.
Þessa mynd tók Björk Ingvarsdóttir í haustferð Öldungadeildar að stuðlabergsnámum í Hrunamannahreppi.
Þórey Sigurjónsdóttir og Bergþóra Sigurðardóttir.
Páll Ásmundsson, Lárus Helgason, Jóhannes Bergsveinsson og Páll Gíslason.
Sigursteinn Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir.
Ásmundur Brekkan, Ólafur Sveinsson, Páll Sigurðsson og Hrafn Tulinius.