03. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Öldungadeild

Læknafélags Íslands

Öldungadeild Læknafélags Íslands var stofnuð 7. maí 1994 og fyllir því ríflega áratug. Samkvæmt lögum er tilgangur félagsins að gæta hagsmuna aldr­aðra lækna og stuðla að auknum innbyrðis sam­skiptum þeirra, svo og að efla samskipti lækna almennt, félagslega og faglega. Allir læknar sem búsettir eru á Íslandi og hafa náð 60 ára aldri geta orðið félagar. Félagar eru nú alls 127 talsins. Starfið er gróskumikið og dafnar ár frá ári. Stjórn félagsins skipa eftirfarandi: Þorvaldur Veigar Guðmundsson formaður, Ólafur Örn Arnarson ritari, Ingvar E. Kjartansson gjaldkeri, Þór Halldórsson og Tómas Helgason meðstjórnendur. Í Öldungaráði sitja: Guð­mundur Bjarnason, Halla Þorbjörnsdóttir, Óli Björn Hannesson, Leifur Jónsson, Svanur Sveins­son og Sigmundur Magnússon.

Þrátt fyrir að eiga sinn eigin lagabálk og af­mark­að varnarþing er öldungadeildin alls ekki einskorð­uð við félagsskírteini. Félagar eru hvattir til að taka maka sína og aðra gesti með í alla starfsemi félagsins. Félagsskapurinn fundar um hvaðeina sem áhuga vekur fyrsta miðvikudag mánaðarins yfir veturinn, heldur jóla­fagnað á aðventunni með mat og drykk og tilheyrandi fagnaðarerindi, og stendur fyrir ferðum innanlands og utan. Til marks um fé­lags­starfið á árinu 2004 má geta þess að farið var í vorferð á slóðir Einars skálds Benediktssonar og í haustferð að skoða stuðlabergsnámur í landi Hrepphóla í Hrunamannahreppi. Kallaðir voru til ýmsir til að messa á fundum: Jakob Jak­obs­son fiski­fræðingur: Síldin veður og síldin kveður, - Sigurður Arnalds verkfræðingur: Kárahnjúkavirkjun, Sveinn Rúnar Hauksson lækn­ir: Palestína, skipting landsins, hernám og núverandi ástand og Þórarinn Þór­arinsson arkitekt: Línur í landnámi Ingólfs.

Meðfylgjandi myndir voru tekn­ar þegar öld­unga­deildin fékk sér kaffi og vínarbrauð, 2. febr­úar síðastliðinn, áður en hlýtt var á boðskap Ragn­ars Björnssonar prófessors um jarðskjálfta og áhrif þeirra.

Þessa mynd tók Björk Ingvarsdóttir í haustferð Öldunga­deildar að stuðla­bergsnámum í Hruna­mannahreppi.

Þórey Sigurjónsdóttir og Bergþóra Sigurðardóttir.

Páll Ásmundsson, Lárus Helgason, Jóhannes Berg­sveins­son og Páll Gíslason.

Sigursteinn Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir.

Ásmundur Brekkan, Ólafur Sveinsson, Páll Sigurðsson og Hrafn Tulinius.Þetta vefsvæði byggir á Eplica