03. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Konur í stjórnum, skiptir það máli? Hulda Hjartardóttir

Undanfarið hefur verið talsvert í umræðunni hvort það skipti máli að konur sitji í stjórnum fé­laga og sjóða, til dæmis lífeyrissjóða. Flestar kon­ur eru sammála um að þetta skipti máli en hvert er raunverulegt gildi þess fyrir þjóðfélagið? Þótt okkur finnist að það ætti að vera sjálfsagt að konur séu til jafns við karla við stjórnvölinn á fyrirtækjum, á þingi og í bæjarstjórnum, nefndum, ráðum og stjórnum hinna ýmsu félaga og samtaka þá er það ekki raunin. Konur eru núorðið jafn vel menntaðar og karlar og ætti því að vera sjálfsagt að þær taki sinn skerf af ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu, hvort sem um er að ræða í stjórnmálum, félagsmálum eða á vinnumarkaði.

En sækjast þær í raun eftir því og ef þeim eru boðin hin ýmsu trúnaðarstörf eru þær viljugar að taka slíkt að sér? Ég er minnug ræðu sem banda­rísk starfssystir mín hélt á eftirminnilegri ráðstefnu í Hveradölum fyrir um 15 árum og margir kven­kyns læknar sjálfsagt muna. Hún hvatti okkur til að segja alltaf já ef okkur byðist að taka þátt í félagsmálum, síðan gætum við velt því fyrir okkur hvernig við færum að því að bæta þessu nýja starfi við öll hin sem við höfum tekið að okkur. Hún sagði nefnilega að alltof margar konur höfnuðu boðum um að taka að sér trúnaðarstörf og að starfa í fé­lagsmálum því að þeim fyndist þær ekki hafa tíma. Það er auðvitað rétt, við vinnum krefjandi störf og vinnutíminn er oft langur og við eigum þar að auki flestar fjölskyldur sem mest allur frítími okkar fer í að sinna. En fordæmisgildið fyrir komandi kynslóðir er kannski það allra mikilvægasta.

Ég fór meðal annars að hugleiða þetta þegar ég var á þorrablóti nýverið og ein frænka mín hélt því þar fram að það væri hálfgert tabú hér á landi að segja að það sé mikilvægt að konur komist í æðstu stöður þjóðfélagsins. Hún var afar ósátt við þetta og vildi að konur væru ákveðnari og stoltari af þessum skrefum sem við erum smátt og smátt að ná. Konur sem komast í áhrifastöður, jafnvel orðnar forstjórar stærstu fyrirtækja landsins, svara því gjarnan til þegar þær eru spurðar að þessu að það skipti engu máli að þær séu konur, aðalatriðið sé bara að besti maðurinn veljist til starfsins. Sú staðreynd liggur samt í augum uppi, konan hefði ekki fengið stöðuna nema hún væri best til þess fallin en það er augljóst að þetta skiptir máli til að styrkja ímynd kvenna í hugum ungra stúlkna og kvenna almennt. Við vitum að stúlkur standa sig jafnvel betur í skóla núorðið en drengir og er þessi munur meira að segja farinn að valda áhyggjum um framtíð drengja í menntakerfinu.

En hvað verður svo um stúlkurnar, hvenær gerist það að þær missa sjálfstraustið og fara að draga sig í hlé þrátt fyrir velgengni í námi? Senni­lega í efstu bekkjum grunnskóla, drengirnir þurfa að sýna sig og sanna með gassagangi og látum til að ganga í augun á stelpunum og hinum strákunum. Í framhaldsskólunum heldur þetta munstur áfram, hvernig stendur til dæmis á því að í spurningakeppni framhaldsskólanna eru nær undantekningarlaust þrír strákar í liðunum? Ein og ein stelpa sést þar innan um en nær aldrei tvær í liði, hvað þá þrjár. Getur verið að þarna skorti stelpurnar sjálfstraust til að trana sér fram, þær séu of hræddar við að mistakast og gata og koma þannig upp um fávisku sína? Þetta virðist ekkert vefjast fyrir strákunum.

Hvaða fyrirmyndir er svo stelpum boðið upp á í fjölmiðlum? Endalausa sjónvarpsþætti sem ganga út á það hvernig hægt sé að sníða ímyndaða vankanta af fallegum stúlkum og helst láta þær keppa um það hver sé sætust eða best greidd eða með flottasta göngulagið. Æðsti frami ungrar stúlku eftir því sem maður gæti ímyndað sér af því að horfa á þessa þætti hlýtur að vera að verða heimsfræg fyrirsæta og giftast ríkum manni. Ég held að það sé ekki þetta sem við sjálfar óskum dætrum okkar. Okkur er því óhætt að hampa þeim konum sem komast langt á vinnumarkaði eða í stjórnmálum og félagsmálum. Þær eru hvetjandi fordæmi fyrir okkur hinar og eftir því sem þeim fjölgar verður það sjálfsagðara að konur stefni á slík störf.

Ég minni á að það eru ekki nema nokkrir áratugir síðan konur í læknisfræði voru álíka fáséðar og konur í stjórnunarstöðum í landinu eru enn þann dag í dag. Í níu manna stjórn LÍ sitjum við nú fjórar konur og hefur það meðal annars verið haft að leiðarljósi þegar verið er að huga að vali á nýjum stjórnarmönnum að reynt verði að jafna hlut kynjanna innan stjórnar og sama gildir um val á læknum í ýmsar nefndir og ráð innan félagsins. Jafnréttisstefna félagasamtaka er vel framkvæmanleg og nauðsynleg þó að einhvern tímann komi vonandi að því að hún verði óþörf.Þetta vefsvæði byggir á Eplica