02. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Sögur hermdar upp á Jón Steffensen prófessor í læknadeild Háskóla Íslands
Það var fyrir fimm eða sex árum að nokkrir eldri og miðaldra læknar sátu saman við hádegisverðarborð á Landspítalanum (við Hringbraut). Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera gamlir nemendur Jóns Steffensen prófessors. Ræddar voru m.a. kennsluaðferðir hans í líffærafræði. Sá yngsti í hópnum og sá er þetta ritar, rifjaði upp nokkrar sögur sem hermdar voru upp á Jón og gengu fjöllunum hærra á námsárum þess fyrrnefnda. Þá kom í ljós að sögur þessar voru óðum að gleymast, hinir í hópnum bættu þó tveimur eða þremur við sem jafnframt rifjuðust þá upp fyrir undirrituðum. Hann fór því á stúfana og reyndi að bjarga fleirum frá gleymsku og er hér birtur afraksturinn, alls 20 sögur. Sumar þeirra höfðu greinilega þróast og voru til í ýmsum myndum. Títtnefndur ber þó mesta ábyrgð á þeirri mynd sem sögurnar birtast hér í.
Sagan "Þar fór þín, Stína" er þó algjörlega úr penna Tryggva Ásmundssonar læknis. Tryggvi staðfesti einnig að sagan "Áður en næsti dettur" sé alsönn. Sagan "Með þvagálinn í rassvasanum" er efnislega frá Bjarna Jónassyni lækni. Þeir sem sögurnar lesa geta efalaust bætt einhverju við eða lagfært. Það væri vel þegið.
Það er áberandi að flestar þessara sagna eru gotraufarreknar og hefðu sennilega fæðst andvana í nútíma andrúmi, þegar helmingur læknastúdenta eru dætur mæðra á rauðum sokkum. En hafa verður í huga að margir brautryðjenda nútímalæknisfræði voru bartskerar, sem höfðu eytt sínu "kandídatsári" á vígvöllum Evrópu. Forherst þar t.d. við að aflima menn ódeyft, þegar vein sjúklings heyrðust ekki vegna sprengjugnýs. Þeir, sem ekki forhertust, voru það fyrir af guðs náð. Völdust því sennilega ákveðnar manngerðir, hörkutól/karlrembur, til þessara starfa. Afsprengi þeirra voru enn á reiki um skurðsali Vesturlanda langt fram yfir miðja 20. öldina. Þessi andi herbúðanna (og verbúðanna) sveif lengi yfir sæfðum vötnum sjúkrahúsanna. Nábýlið við nakta líkama og vogskornar sálir, viðkvæm líffæri, sjúkdóma og búksorgir, og sjálfan dauðann hefur eflaust magnað eða haldið við þessum anda. Hann birtist líka í alþjóðlegri söngbók læknastúdenta, sem hægt var að kaupa í Bóksölu stúdenta á 7. áratugnum. En nú er öldin önnur.
Kaldranaleg kímni hefur oft verið frostlögurinn í blóði okkar og birtist sennilega í útþynntri mynd í þessu smælki sem hér fer á eftir. Mágur minn, sem lærði sálarfræði við Svartaskóla í París upp úr miðri 20. öld, sagði mér að nemendum þar hafi þótt læknastúdenta vart í húsum hafandi vegna bersögli þeirra og virðingarleysis við viðkvæmar sálir og falda líkamsparta. Vonandi að þessar sögur valdi ekki frosthörkum í sálum unglækna á 21. öld.
Sigurður V. Sigurjónsson
Detrusor urinae (þvagblöðruleggsvöðvinn sem tæmir blöðruna)
Jón var að ræða við stúdent um þvagblöðruna. Talið barst að vöðvanum sem myndar meginþykkt blöðruveggjarins og kreistir þvagið út í gegnum þvagrásina. Jón spurði hvort þetta væri sterkur vöðvi. Vafðist stud. med. tunga um höfuð háls og herðar en taldi þó að lokum vöðvann sterkan. Spurði Jón þá hve sterkan. Læknaneminn átti erfitt með svar. Að lokum segir Jón: " Hvort haldið þér að sé sterkari detrusior urinae eða musculus biceps brachii" Stúdentinn giskaði á að detrusorvöðvinn væri mun sterkari en montvöðvi upphandleggjar. Glotti Jón þá við tönn og sagði: - Nú, þá ættuð þér að geta migið yfir Eiffelturninn.
Pelvis (mjaðmagrindin)
Jón spurði læknastúdent hvaða munur væri á mjaðmagrind karla og kvenna. Ræddu þeir ýmsar víddir og hlutföll sem eru á grind kynjanna. Að lokum stóð Jón upp og náði í mjaðmabeinagrind, rétti stúdentinum og spurði: - Hvaða genitalia haldið þér að hafi hangið á þessu pelvis? Stúdentinn hélt á grindinni báðum höndum, velti henni lengi fyrir sér og kannaði hlutföllin. Að lokum giskaði hann á að það væri penis. Þá glotti Jón og sagði: - Haldið þér að svo hafi nú alltaf verið?
Líkamshluti sem hundraðfaldast við ertingu
Jón var að hlýða læknastúdínu yfir og hafði talið borist vítt og breitt um mannslíkamann. Meðal annars höfðu þau talað um augun. Hann spurði stúlkuna kankvíslega hvaða líkamshluti það væri sem hundraðfaldaðist við ertingu. Stúlkunni brá nokkuð, roðnaði hún síðan og stamaði: - Penis. Þá glotti Jón út í annað og sagði: - Hm, þá verðið þér nú fyrir vonbrigðum þegar þér giftið yður.
Regio brachii og penis (upphandleggurinn og getnaðarlimurinn)
Læknastúdína hafði verið í prófi hjá Jóni þar sem hún fékk tópógrafíska verkefnið regio brachii og system anatómíska verkefnið penis. Eftir yfirheyrsluna bíður hún frammi á gangi í smástund eftir einkuninni. Að lokum opnast dyrnar á kennslustofunni, Jón rekur höfuðið út í gegnum dyragættina og gefur henni einkunnina með eftirfarandi orðum. - Þér voruð slakar í upphandleggnum en þér vóguð yður upp á penis.
Með þvagálinn í rassvasanum
Læknastúdent var að segja Jóni frá ferli ureters (þvagáls) frá nýrum niður í þvagblöðru. Þegar komið var niður í grindina villtist stúdentinn nokkuð af leið og var kominn inn á foramen ischiaticum major þegar Jón sagði óþolinmóður og all önugur: - Ureter endar sem sagt í rassvasanum.
Þar fór þín, Stína
Jón var hófsmaður á vín en þótti bjór góður drykkur. Eitt sinn var hann að fara úr samkvæmi á þeim tíma sem sterkur bjór var bannvara á Íslandi og var þá leystur út með tveimur bjórflöskum. Þegar hann og Kristín kona hans stigu út úr leigubílnum heima á Aragötu vildi svo slysalega til að önnur flaskan datt í götuna og brotnaði. Kvöldið var stillt og frostið hart og brothljóðið ómaði um allt hverfið. Þegar það hljóðnaði sagði Jón: - Þar fór þín flaska, Stína. Var síðan ekki rætt meira um þann skaða.
Eigi má skápum renna
Prófum í líffærafræði hjá Jóni lauk með því að stúdent skoðaði vefjasýni í smásjá og átti að gera grein fyrir vefjagerð og úr hvaða líffæri það væri. Þegar stúdent hafði skoðað sýnið alllengi spyr Jón að lokum: - Hvaða vefur er nú þetta? Stúdent svarar: - Slímhúð. - Hvaðan er þessi slímhúð? spyr Jón þá. - Úr vagina, svarar stúdent. - Nei, þetta er úr rectum, svarar þá Jón og bætir við: - Þér skuluð nú ekki ruglast á þessu þegar þér komið heim til yðar.
Áður en næsti dettur
Gísli Sigurbjörnsson forstjóri elliheimilisins Grundar hafði þann sið að bjóða árlega 50 ára stúdentum og eldri til fagnaðar á elliheimilinu. Var þá venja að taka ljósmynd af hópnum. Nú vildi svo sorglega til þegar verið var að raða hópnum upp við vegg fyrir framan ljósmyndara að einn öldungurinn hneig niður og var örendur. Varð uppi fótur og fit, læknir og sjúkrabíll komu á vettvang og þegar búið var að flytja líkið á brott stóð hópurinn þarna alllengi í hálfgerðri upplausn. Hafði hver lítið að segja öðrum. Ljósmyndarinn hímdi í vandræðum sínum úti í horni með myndavélina framan á maganum. Þá var sagt stundarhátt yfir hópinn: - Hm, eigum við nú ekki að láta taka myndina áður en næsti dettur?
Kristín Björnsdóttir og Jón Steffensen. Myndin er úr einkasafni þeirra hjóna.
Jón Steffensen og Sigmundur Guðbjarnason, bókasafn Jóns að Aragötu 3 í bakgrunni. Myndin er tekin í maí 1990 þegar gengið var frá formlegu afsali á húsi Jóns til Háskólabókasafns.