02. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Barna- og unglingageðlækningar á Íslandi eru langt í frá að "deyja út"

Viðtal í Læknablaðinu í desember undir heitinu "Eru barna- og unglingageðlækningar að deyja út?" eftir Þröst Haraldsson (1) gefur ekki rétta mynd af starfsemi Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL). Þrátt fyrir að staða sérgreinarinnar barna- og unglingageðlækninga sé óásættanleg bæði innan spítalans og læknadeildar Háskóla Íslands hefur mik­ið verið að gerast í greininni hér á landi undanfarin ár. Nauðsynlegt er þegar fjallað er um starfsemi deildar eins og BUGL að ekki sé eingöngu staldrað við það sem betur mætti fara heldur verður jafnframt að upplýsa um þá jákvæðu þróun sem orðið hefur á starf­seminni undanfarin ár.

Rétt er að staða sérgreinarinnar innan læknadeildar HÍ er enn ófullnægjandi því um er að ræða aðeins eina aðjúnktstöðu sem lítið vægi hefur í samanburði við aðrar sérgreinar innan deildarinnar. Á móti kemur að nýjungar eins og greinafundir og vandamála­miðuð hópvinna hafa meðal annars skilað þeim árangri að ánægja læknanema með kennslu í barnageðlækningum samkvæmt námsmati þeirra sjálfra hefur aukist til muna undanfarin ár. Einnig er rétt að of fáir læknar eru í dag í framhaldsnámi í þessari sérgrein. Vitað er um tvo í formlegu framhaldsnámi og áhugi deildarlækna á að kynnast sérgreininni hefur aukist þannig að fullmannað hefur verið á BUGL til skamms tíma. Það er einnig rétt að ítrekað hefur verið bent á að stjórnskipuleg staða barna- og unglingageðlækninga, eins og ýmissa annarra sérgreina innan Landspítala, er óviðunandi. Hér er átt við að öll starfsemi BUGL, legudeildir,
umfangsmikil göngudeild, margháttað sam­­starf við aðrar stofnanir, kennsla og rannsóknir, er
stjórnskipulega jafngild einni legudeild innan fullorðinsþáttar geðsviðs.

Sú uppbygging sem átt hefur sér stað á BUGL undanfarin ár endurspeglast í komutölum í göngudeild, innlögnum á legudeildir og aukinni breidd meðferðarúrræða. Legudeildir og göngudeildir hefur tekist að manna betur þannig að umfang starfseminnar hefur löngu sprengt af sér húsnæði deildarinnar sem byggt var í allt öðrum tilgangi á sjöunda áratug síðustu aldar. Á meðfylgjandi myndum má sjá þróun innlagna á legudeildum og koma í göngudeild.

Fyrir tilstuðlan heilbrigðis- og tryggingamálaráðu­neytis og Landspítala eru í dag uppi áform um að bæta verulega aðstöðu og húsnæðiskost BUGL. Þá má ekki gleyma ómetanlegum stuðningi fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga sem hafa lagt mikið á sig til að styðja við bakið á starfseminni: Hringskonur hafa gefið rausnarlega, Lionsklúbbar hafa staðið fyrir ýmsum verkefnum til styrktar BUGL, Kiwanishreyf­ingin, börn og unglingar á ýmsum vettvangi og fleiri og fleiri. Þessi stuðningur hefur verið mikil hvatning fyrir starfsemi BUGL.

Á sviði læknavísindanna í barna- og unglingageðlækningum hafa orðið miklar framfarir undanfarin ár og sérgreinin tekið stakkaskiptum.

1. Tvær alþjóðlegar ráðstefnur voru skipulagðar og haldnar í barna- og unglingageðlækningum á Íslandi árið 2004 og þarf vart að nefna hversu mikilvægur sá þáttur er fyrir sérgreinina:

- Ráðstefnan "ADHD and OCD from Childhood to Adulthood" um ofvirkni meðal barna, unglinga og fullorðinna var haldin í sal Ís­lenskrar erfðagreiningar 29. og 30. janúar 2004.

- Norrænt rannsóknarnámskeið "Implementa­tion of evidence-based methods, in Child and Ado­lescents Psychopharmacology" var haldið á Grand Hótel og Hótel Heklu 23.-25. september 2004.

Þátttakan í þessum ráðstefnum fór fram úr vonum og þótti takast vel upp í alla staði enda tóku þar þátt fremstu sérfræðingar í heiminum í dag, hver á sínu sérsviði.

2. Virkni Barnageðlæknafélags Íslands hefur ver­ið mikil og hefur félagið haldið árleg málþing á Læknadögum frá árinu 2002.

Þverfagleg námskeið hafa einnig verið haldin á vegum félagsins með þátttöku erlendra fyrirlesara - árið 2001 "Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum: tilkynningaskylda og meðferð" og árið 2004 "Adolescent suicide and self-harm".

3. Einn mikilvægasti þátturinn fyrir þróun innan sérgreinarinnar er fjöldi rannsókna sem núna eru í gangi og hafa þær hvorki fyrr né síðar verið svo mikil­vægar.

- Sjálfseignarstofnunin Barnarannsóknir var stofn­uð árið 2002 og er núna að ljúka við stórt þverfaglegt rannsóknarverkefni, -Rannsókn á heilsu, hegðun og þroska 5 ára barna á Íslandi?.

- Þverfaglegar rannsóknir eru í vinnslu í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Annars vegar rannsókn á erfðum einhverfu og einkenna á einhverfurófi og hins vegar rannsókn á erfðum ofvirkniraskana.

- Fjölmargar rannsóknir eru í vinnslu innan BUGL: Sjá töflu I.

- Rannsóknarverkefni um aðlögun greiningarviðtalsins Parent Interview for Child Symptoms (P.I.C.S.-4) fyrir íslenskar aðstæður hefur nýlega verið unnið á barnageðdeild FSA.

4. Síðast en ekki síst hafa íslenskir barna og unglinga­geðlæknar verið virkir á fjölmörgum alþjóðlegum ráðstefnum erlendis og hérlendis.

Fengnir hafa verið þekktir fyrirlesarar hingað til lands, í samvinnu við Háskóla Íslands, m.a. Eric Fombonne frá Kanada árið 2004 og Antoine Guedeney frá Frakklandi árið 2003. Þá hafa bókakaflar og fjölmargar greinar um barna- og unglingageðlæknisfræði verið birtar á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum.

Hér er einungis tæpt á því helsta og ætti þó öllum sem líta hlutlægt á stöðu barna- og unglingalæknisfræðinnar í dag að vera fullljóst að sérgreinin er langt í frá að ?deyja út?. Það er óhætt að fullyrða að aldrei hefur eins mikið verið að gerast innan hennar, hvað rannsóknir varðar og þróun þjónustu en einmitt undanfarin ár. Markmið barna- og unglingageðlækna, ekki bara á BUGL, er að halda áfram þessari uppbyggingu.

Lokaorð

Sérfræðingar og annað starfsfólk BUGL hafa lagt sig fram um að þróa starfsemi deildarinnar í takt við hraða þróun sannreyndrar barnageðlæknisfræði þannig að eftir hefur verið tekið og leitt hefur til fjölda heimsókna starfsystkina erlendis frá. Sá skilningur og hvatning sem BUGL hefur fengið frá íslensku samfélagi er ómetanlegur og hlúir öðru fremur að mikilvægri starfsemi sem þar fer fram. Allt stuðlar þetta að minni fordómum gagnvart þeim fjölda barna og unglinga sem þurfa á þjónustunni að halda. Nauð­synlegt er að gæta jafnvægis þegar fjallað er um starf­semi BUGL og stöðu sérgreinarinnar barna- og unglinga­geðlækninga en ekki var gætt að því sem skyldi í viðtali því sem vitnað er til í upphafi.

Heimildir

1. Haraldsson Þ. Læknablaðið 2004; 90: 874-5.

Mynd 1. Fjöldi innlagna á legudeildir

Mynd 2. Tilvísanir, afgreidd mál og biðlisti göngudeildar.

Mynd 3. Skráðar sjúklinga­komur á göngudeild.Þetta vefsvæði byggir á Eplica