02. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Vafasöm heimsmet hjá hóflausri þjóð

Sigurbjörn Einarsson flutti hugvekju við upphaf Læknadaga og þingheimur hlustaði vel

"Það er notalegt í meira lagi að vera kominn undir svo margar læknishendur og finna hvergi til. Það er blessun að læknar skuli vera til en þó enn meiri blessun að þurfa ekkert til þeirra að sækja." Þannig hljómaði boðskapur öldungsins Sigurbjörns Einarssonar biskups á setningarhátíð Læknadaga. Þótt hann sé komin nokkuð á tíræðisaldur, fæddur 1911, hefur honum í engu farið aftur sem ræðumanni - enda með um það bil 70 ára reynslu - og hann talaði í hart­nær þrjá stundarfjórðunga. Hugsanlega hefur einhver þreyttur læknir dottað en flestir sátu og drukku í sig spekina.

Biskup kom víða við en varð þó einkum tíðrætt um skýrslu sem hann hafði lesið um "streitubundin lífsstílsvandamál". Af henni dró hann ýmsan lærdóm um sálarástand þjóðarinnar og nefndi meðal annars að það væru "engan veginn ánægjulegar upplýsingar að öllu leyti sem við fáum úr heimi samtímans, það á við um þunglyndið og þunglyndislyfin og að íslensk börn eigi Norðurlandamet í notkun þeirra. Það bætir ekki úr að fullorðnir eru líka í fremstu röð meðal frændþjóðanna í samskonar neyslu. Ætli við séum ekki líka nokkuð framarlega í hófleysi á fleiri sviðum," sagði hann.

Holdið er líka veikt: "Offita er orðin þjóðfélagslegt vandamál, segir Morgunblaðið í leiðara um síðustu áramót. Einhvern tíma hefði það þótt frétt að Íslendingar ættu við slíkt að stríða, svo margir sem féllu úr ófeiti eins og komist var að orði áður fyrri. ... En manneskjan er svo eftirlátssöm og ótrúlega hug­ulsöm í því að búa sjálf til plágur handa sér," hélt hann áfram og benti á að þótt meltingarfærin ættu auðvelt með að skila því sem að þeim er rétt, ýmist upp eða niður, þá ætti sálin erfiðara með það. Hún virtist oft þola meira en kannski væri það af því hún skilar því ekki af sér og slík væri ekki hollt.

Á undan ræðu herra Sigurbjörns hafði Snorri Ingi­marsson læknir flutt mikinn fróðleik um ástand og horfur í heilsu, hag­sæld og hamingju ís­lensku þjóðarinnar sem hann og Arnór Vík­ings­son formaður Fræðslu­nefndar lækna höfðu tek­ið saman. Arnór hefur í mörg ár verið í forsvari fyrir nefndinni sem undirbýr Læknadaga. Nú hyggst Arna Guðmunds­dóttir taka við keflinu af honum. Margt fróðlegt og athyglisvert var sagt á Hótel Nordica þessa janúar­viku eins og vaninn er. Og að sjálfsögðu var dansað á Broadway í lok vikunnar, að þessu sinni við undirleik Brimklóar. Af því fer engum sögum hér utan að menn voru nokkuð ánægðir með ballið. En það er engin frétt svo við látum myndirnar tala og segja sína sögu um þá stemmningu sem ríkti á Lækna­dögum. Þeir verða svo aftur að ári ...

Er Már Kristjánsson að herma eftir Ragga Bjarna?

Þeir voru öflugir bakhjarlar Sigurbjörns Einarssonar við upphaf Læknadaga, forstjóri Landspítala og forseti lækna­deildar Háskóla Íslands.

Margrét Aðalsteinsdóttir, la mama grande Læknadaganna, er yfir og allt um kring í skipulagningu og skráði á Læknadaga samtals um 500 manns sem eru umtalsvert fleiri þátttakendur en í fyrra.

Engilbert Sigurðsson út­skýrir eitthvað mikilvægt.

Þessir herramenn fengu myndatexta að eigin vali: ?Yfirlýst par?,

Þessir blönduðu geði og stungu saman nefjum.

Það þurfti að skrafa um ýmislegt í kaffitímanum.

Og þessi fengu sér snarl en halda mætti að sá í miðjunni hafi talað af sér.

Sigurbjörn með styrkar stoðir sér við hlið ? Elínborgu og Huldu, báðar í stjórn LÍ.

Sumum lá svo mikið á hjarta að þær gáfu sér ekki tíma til að fara úr kápunum.

Fróðleiksfúsir unglæknar.

Pétur Skarphéðinsson og Magni Jónsson, þremenningar með meiru.

Öldrunarlæknar í góðum gír.Þetta vefsvæði byggir á Eplica