Umræða og fréttir

Tillögur nefndar um öryggismál sjúklinga

1. Gera þarf framvirka rannsókn á umfangi og alvarleika mistaka í íslensku heilbrigðiskerfi. Að þessari rannsókn þurfa að koma þær stofnanir og fyrirtæki sem veita læknisþjónustu en auk þess er eðlilegt að Læknafélag Íslands og hugsanlega fleiri verði aðilar á einn eða annan hátt að þeirri rannsókn. Í framhaldi af slíkri rannsókn þarf að bregðast við þeim ábendingum sem rannsóknin leiðir af sér og yrði það hlutverk viðkomandi stofnana og heilbrigðisyfirvalda.

2. Koma þarf á skráningarkerfi innan allra heilbrigðisstofnana, opinberra sem einkarekinna. Mikilvægt er að það verði uppbyggt á sama hátt alls staðar svo auðvelt verði að fá sambærilega mynd af ástandinu á hverjum tíma. Það er álitamál hvort búa eigi til eitt kerfi fyrir alla (miðlægan gagnagrunn) og þarf það að ræðast frekar. Full trygging verði þó á nafnleynd hvernig sem kerfin verða uppbyggð að öðru leyti.

3. Vinna þarf að hugarfarsbreytingu þar sem gengið verði út frá því að mistökin séu fremur kerfislæg en persónuleg og brugðist við í samræmi við það. Á sama tíma verði viðhaldið þeim farvegi sem Landlæknisembættið hefur fyrir kvartanir vegna alls sem misfarist getur svo sem verið hefur.

4. Koma þarf upp virku samstarfi milli þeirra sem málið varðar. Ekki er rétt á þessu stigi að ákveða hvernig því skal háttað en lagt til að haldið verði málþing með þátttöku LÍ, FÍH, sjúklingasamtökum og hugsanlega öðrum. Á því málþingi verði málefnið reifað og kannað hver er hugur aðila til frekara samstarfs. Hugsanlega má koma á formlegu samstarfi eins og er í Danmörku þar sem samtök um öryggismál hafa verið stofnuð.

5. Læknanemar þurfa að fá undirbúning undir það að takast á við aðstæður þar sem óhapp hefur orðið og þeir eru aðilar málsins á einhvern hátt. Eðlilegt er að þetta sé gert innan kennslu um samskipti læknis og sjúklings.

6. Sérgreinafélög þurfa að taka upp umræðu um öryggi sjúklinga sem miðast við eðli þeirra sérgreina.

7. Læknar sem eru aðilar að óhappi verða að fá tilhlýðilegan stuðning. Best er ef komið er á skipulegri, fordómalausri skoðun á öllum óhöppum innan viðkomandi deildar.

Jón Snædal, Elínborg Bárðardóttir, Páll H. Möller


Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica