12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

George W. Simons M.D.

Fréttatilkynning frá Eli Lilly:

Velunnari íslenskra barnabæklunarlækninga kvaddur

2004-10-frontHinn 18. október sl. lést á Landspítalanum í Fossvogi George W. Simons barnabæklunarskurðlæknir. Útför hans var gerð frá Mosfellskirkju 26. október. Hann var kvæntur Sigrúnu Erlu Magnúsdóttur og lifir hún mann sinn. Þau hjón eignuðust tvær dætur sem báðar eru uppkomnar. Þeim mæðgum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

George Simons var tvímælalaust í hópi þekktustu barnabæklunarskurðlækna Vesturlanda. Hann fædd­ist 13. janúar 1935 og lauk læknanámi frá George Washington University Medical School í Washington D.C. 1960. Að lokinni fimm ára þjónustu í bandaríska flughernum tók við sérnám í bæklunarskurðlækningum við Mayo Clinic í Rochester Minnesota en þar starfaði hann og nam frá 1965-1970. Næst lá leið George til Bretlands þar sem hann nam barnabæklun­arskurðlækningar í Oxford, Edinborg og London.

Eftir heimkomu til Bandaríkjanna starfaði George sem sérfræðingur í barnabæklunarlækningum við Children´s Memorial Hospital í Chicago 1971-1974. Hann hafði jafnframt á höndum stjórn allrar læknakennslu á bæklunardeild spítalans.

Á árunum 1975-1978 var George Simons aðstoðarprófessor í bæklunarlækningum við University of Washington, Seattle, Washington og starfaði þá við Children´s Orthopedic Hospital í Seattle.

Árið 1978 varð George Simons prófessor í bækl­unarlækningum við Medical College of Wisconsin í Milwaukee. Hann var jafnframt yfirlæknir og stjórnandi bæklunardeildar Milwaukee Children´s Hospital og síðar yfirmaður alls skurðsviðs spítalans. Þessum störfum gegndi hann þar til hann varð að láta af störfum af heilsufarsástæðum á síðasta áratug liðinnar aldar.

George Simons var mikill fræðimaður. Eftir hann liggja tugir greina í sérfræðiritum auk þess sem hann hefur ritað kafla í allmörgum kennslubókum í barna­bæklunarlækningum. Klumbufætur voru sérstakt áhuga­mál hans. Hann stofnaði til fyrsta alþjóðlega þingsins um klumbufætur í Milwaukee 1990. Næsta þing um þetta efni var síðan haldið í Amsterdam, Hollandi undir stjórn George 1996. Í kjölfar þingsins í Milwaukee 1990 kom út bókin ?The Clubfoot? undir ritstjórn George Simons. Í bókinni eru birt erindi sem flutt voru á þinginu ásamt umræðum sem um þau urðu og athugasemdum ritstjóra. Bókin er frábær ekki hvað síst vegna umræðukafla og athugasemda. Þar kemur glögglega fram hversu flókið viðfangsefnið er og skoðanir jafnvel fremstu sérfræðinga heimsins skiptar.

Árið 1972 stofnaði Mihran O. Tachdjian prófessor og yfirlæknir við Children´s Memorial Hospital í Chicago til námskeiðs sem hann kallaði "Pediatric Orthopedic International Seminar". Þar var á níu dög­um farið yfir allar helstu nýjungar í barnabæklunarlækningum. Námskeið þetta var rómað að gæðum og var haldið árlega um tveggja áratuga skeið. George Simons var náinn samstarfsmaður Tachdjians er námskeið þessi hófust. Hann var einn stjórnanda námskeiðanna og tíður fyrirlesari meðan heilsa entist.

Á starfsævi sinni hélt George Simons fjölda fyrirlestra í Bandaríkjunum, víðsvegar um Evrópu og í Austurlöndum, t.d. í Japan. Hann var því mjög vel þekktur meðal barnabæklunarlækna víða um heim og var meðal annars gerður að heiðursfélaga í félagi evrópskra barnabæklunarlækna 1986.

Það mun hafa verið um 1970. Ég var þá kominn heim eftir sérfræðinám í Bandaríkjunum og var á helgar­vakt á Landspítalanum. Hringt var í mig frá skiptiborði spítalans og mér tjáð að í anddyri spítalans væri stödd íslensk kona með unnusta sínum bandarískum lækni og langaði hana að sýna honum íslenskt sjúkra­hús. Það kom því í minn hlut að rölta með þeim um spítalann og sýna þeim það helsta. Ekki hvarflaði að mér þá að hér væri upphaf frekari kynna.

Áratug síðar 1979 skráði ég mig til þátttöku í "The 7th. Pediatric Orthopedic International Seminar" sem haldið var í Chicago. Ég hafði jafnframt tryggt mér vikudvöl á Children´s Memorial Hospital í Chicago eftir námskeiðið til að fylgjast með skurðstofu- og göngudeildarstarfsemi. Á námskeiðinu hitti ég George Simons sem ég í rauninni þekkti ekkert, en hann var þá orðinn prófessor og yfirlæknir við Children´s Hospital í Milwaukee. Hann bauð mér að koma til Milwaukee eftir dvölina í Chicago ef ég hefði tíma. Ég tók því lest til Milwaukee, skráði mig inn á hótel í grennd við Children´s Hospital og hringdi síðan í prófessor Simons til að fá að vita hvenær ég mætti koma á sjúkrashúsið næsta morgun. Skemmst er frá því að segja að ég var sóttur á hótelið og drifinn heim til þeirra hjóna þar sem ég dvaldist í yfirlæti þessa daga í Milwaukee. Þetta dæmi sýnir vel þá miklu og einlægu gestrisni og vináttu sem þau hjón sýndu ætíð og gerði það að verkum að manni leið strax vel í návist þeirra.

Nú fór í hönd tími vináttu og töluverðra samskipta. Þess skal þó strax getið að þar var George ætíð veitandinn en ég og íslenskir skjólstæðingar mínir þiggjendur. Alloft leitaði ég til George um álit og ráðleggingar í erfiðum og stundum sjaldgæfum sjúkdómstilfellum. Ætíð fékk ég mjög greinargóð og vel rökstudd álit send til baka.

Fyrir tæpum 10 árum hugðist ég kynna mér nýj­ung­ar í skurðaðgerðum nokkurra vel þekktra bæklun­arsjúkdóma barna. Ég leitaði til George Simons og bað hann að benda mér á nokkra góða spítala þar sem ég gæti kynnst slíkum aðgerðum. Síðan ætlaði ég að skrifa þessum spítölum og leita eftir leyfi til heim­sókna eins og ég hafði stundum gert áður. Í svar­bréfi hafði George valið fimm spítala sem hann taldi hvað besta í meðferð þessara greina. Hann hafði jafnframt talað við yfirlækna þessara stofnana og var ég boðinn velkominn í heimsókn. Varð þetta til þess að dvöl mín á þessum stöðum varð jafnvel enn notadrýgri en ella hefði orðið. Í þessari ferð naut ég aftur gestrisni þeirra hjóna í Milwaukee um nokkurra daga skeið.

George Simons var í mörgu andstæða þess sem oft er talið einkenna framámenn. Hann var hæglátur, yfirvegaður og barst lítið á. Hann var ákaflega hjálpsamur og greiðvikinn. Fyrst og fremst tel ég þó að hann hafi verið metinn af samverkamönnum fyrir eljusemi og afburða þekkingu í barnabæklunarlækningum.

Um hann má vissulega segja að gömlum íslenskum hætti: Hann var drengur góður.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica