Umræða fréttir
Lyfjamál 114: Átak í lyfjamálum heilbrigðisstofnana
Á undanförnum vikum og mánuðum hefur mikil umræða verið um lyfjanotkun og lyfjakostnað hér á landi. Einkum hefur verið rætt og deilt um hækkun á lyfjakostnaði Landspítala og þá sérstaklega hækkun vegna sérhæfðra sjúkrahúslyfja (S-merkt-lyf) sem hefur verið veruleg að undanförnu. Eins og oft áður greinir menn á um orsakir og afleiðingar. Þegar leitað er leiða til að sporna við hækkun lyfjakostnaðar er gjarnan horft til lyfjaverðs og bent á að lyfjaverð hér á landi sé hærra en í nágrannalöndunum. Hátt lyfjaverð skiptir vissulega máli en þó ekki jafn miklu máli og val lyfja. Kostnaðarlega er höfuðvandinn sá að læknar velja fremur nýrri og dýrari lyf en eldri og ódýrari, jafnvel þó að vitað sé að oft komi þau eldri og ódýrari að jafn góðum notum. Þetta sést einkar vel þegar litið er til þróunar síðasta árs en þá varð veruleg kostnaðaraukning þrátt fyrir um 6% lyfjaverðslækkun sem varð á árinu vegna styrkingar íslensku krónunnar. Í þessu sambandi er vert að minna á grunnlyfjahugtakið (the essential drug concept) sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur mjög haldið á lofti. Full ástæða er til að minna á grunnlyf þar sem mikilvægi þeirra virðist gleymast hraðar hér á landi en í öðrum löndum og hér hefur jafnvel verið gengið svo langt á undanförnum mánuðum að sum þessara lyfja hafa verið afskráð og markaðurinn skilinn eftir með mun dýrari og óhagkvæmari lausnir.
Vegna þessarar þróunar hefur ráðherra ákveðið að efna til átaks í lyfjamálum heilbrigðisstofnana meðal annars með það að markmiði að tryggja aðgang og forgang að grunnlyfjalista í heilbrigðisþjónustunni. Skipaður hefur verið stýrihópur til að vinna að þessum málum. Stýrihópnum er ætlað að vinna að sparnaði og hagræðingu í innkaupum lyfja, lyfjavali og réttri notkun þeirra, meðal annars með því að:
o Stuðla að stefnumörkun heilbrigðisstofnana í lyfjamálum (drug policy).
o Samræma val lyfja á lyfjalista byggða á grunnlyfjalista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, klínískum leiðbeiningum landlæknis og öðrum viðurkenndum leiðbeiningum (evidence based medicine).
o Sjá um útgáfu og kynningu hins sameiginlega lyfjalista.
o Stuðla að sameiginlegum innkaupum og útboðum á vegum Ríkiskaupa á þeim lyfjum sem valin eru á sameiginlega lyfjalista.
o Semja reglur um lyfjakynna og aðra sölumenn, um takmarkaðan aðgang þeirra að starfsfólki heilbrigðisstofnana, hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki gera.
o Semja leiðbeiningar (stefnu) um með hvaða hætti ný og dýr lyfjameðferð er tekin í notkun á heilbrigðisstofnunum.
Vegna þessarar þróunar hefur ráðherra ákveðið að efna til átaks í lyfjamálum heilbrigðisstofnana meðal annars með það að markmiði að tryggja aðgang og forgang að grunnlyfjalista í heilbrigðisþjónustunni. Skipaður hefur verið stýrihópur til að vinna að þessum málum. Stýrihópnum er ætlað að vinna að sparnaði og hagræðingu í innkaupum lyfja, lyfjavali og réttri notkun þeirra, meðal annars með því að:
o Stuðla að stefnumörkun heilbrigðisstofnana í lyfjamálum (drug policy).
o Samræma val lyfja á lyfjalista byggða á grunnlyfjalista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, klínískum leiðbeiningum landlæknis og öðrum viðurkenndum leiðbeiningum (evidence based medicine).
o Sjá um útgáfu og kynningu hins sameiginlega lyfjalista.
o Stuðla að sameiginlegum innkaupum og útboðum á vegum Ríkiskaupa á þeim lyfjum sem valin eru á sameiginlega lyfjalista.
o Semja reglur um lyfjakynna og aðra sölumenn, um takmarkaðan aðgang þeirra að starfsfólki heilbrigðisstofnana, hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki gera.
o Semja leiðbeiningar (stefnu) um með hvaða hætti ný og dýr lyfjameðferð er tekin í notkun á heilbrigðisstofnunum.