Umræða fréttir

Eiga Íslendingar að flytja inn sjúklinga?

Ísland er meðal þeirra ríkja sem verja hæstu hlutfalli þjóðartekna til heilbrigðismála. Af hverjum 100 krónum sem við öfluðum árið 2001 runnu 9,2 til þessa málaflokks en það hlutfall skipar okkur í áttunda sæti á lista yfir aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi og hækkar örar hér á landi en meðaltalið hjá OECD. Árið 1970 vörðu OECD-ríkin að meðaltali 5,3% þjóðartekna til heilbrigðismála en hlutfallið er nú 8,3%. Hjá okkur var hlutfallið 4,7% árið 1970 svo útgjöldin hafa að heita má tvöfaldast sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi sem Berglind Ásgeirsdóttir flutti á Lýðheilsuþingi sem haldið var í Reykjavík í lok september. Berglind er aðstoðarframkvæmdastjóri OECD og undir hana heyrir meðal annars gerð heilbrigðisáætlana. Stofnunin vinnur að því að koma á fót alþjóðlegum gagnagrunni um heilbrigðismál þar sem safnað verður upplýsingum um reynslu þjóða af því að beita mismunandi leiðum til að nálgast svipuð markmið. Með samanburði er hægt að sjá hvað virkar best og hvernig hægt er að auka þjónustu fyrir óbreytt fjárframlög eða ná sama árangri fyrir lægri fjárhæð.Hagkvæmni og jöfnuður

Berglind sagði að markmiðin með rekstri heilbrigðisþjónustu væru víðast hvar mjög svipuð, að hefta útbreiðslu sjúkdóma, bæta heilsufar og auka lífsgæði. Leiðirnar sem farnar eru að þessum markmiðum eru hins vegar afar misjafnar. Það má til dæmis sjá af því hvernig útgjöld til heilbrigðismála skiptast milli hins opinbera og einkaaðila. Bandaríkjamenn verja allra þjóða mestu fé til heilbrigðismála en þar er hlutur einkatrygginga mjög stór svo framlög hins opinbera eru hlutfallslega talsvert lægri en hér á landi. Sé einungis litið til framlaga hins opinbera eru Íslendingar í öðru sæti á eftir Þjóðverjum en Bandaríkin detta niður í 14. sæti á listanum.

Berglind sagði ljóst að Íslendingar verja miklu fé til heilbrigðismála og því væri nærtækt að spyrja hvað við fengjum fyrir peningana. Vissulega njótum við þess að búa við lægstu dánartíðni við fæðingu og langa meðalævi. Hins vegar værum við ekki lengur með afgerandi forystu hvað lífslíkurnar varðar og réði þar mestu að heilsufari kvenna hefur heldur hrakað sem eflaust tengist breyttum lífsstíl, auknum reykingum, streitu og þess háttar.

Hún sagði að Íslendingar væru að mörgu leyti vel settir, hér væri fjöldi lækna og sjúkrarúma í hærri kantinum. En hún benti líka á að Íslendingar væru ofarlega á lista þegar kæmi að kostnaðaraukningu. Til dæmis hefði lyfjakostnaður á íbúa hvergi aukist meira í OECD en hér á landi. Að þessu þyrfti að huga því ýmsar blikur væru á lofti sem gætu aukið kostnað við heilbrigðismál í framtíðinni. Eins og aðrir þyrftu Íslendingar að leitast við að auka hagkvæmni án þess að fórna þeim jöfnuði sem einkennir heilbrigðiskerfið.Stórverkefni á vegum OECD

Berglind greindi frá verkefninu sem unnið er að á vegum OECD en það hefur leitt í ljós hversu mikill munur er á framkvæmd heilbrigðisþjónustu milli landa. Einfaldir mælikvarðar eru vandfundnir því ríki virðast spila mjög misjafnlega úr því fé sem veitt er til heilbrigðismála.

"Hvernig má það vera að Bandaríkin verji næstum því tvisvar sinnum meira fé til heilbrigðismála en Kanada en samt lifi Kanadamenn lengur? Frakkland ver á hinn bóginn minna fé á íbúa til heilbrigðismála heldur en Kanada en er samt með fleiri sjúkrarúm og fleiri lækna á íbúa en bæði Kanada og Bandaríkin." Hún velti því fyrir sér hvort menn væru að nota rétta mælikvarða til að meta árangur og spurði hvort lífslengd væri gagnlegur mælikvarði á velferð eða hvort verið gæti að með því að einblína á hana sæjum við ekki gallana sem kunna að vera á heilbrigðiskerfinu.

Verkefnið er gífurlega umfangsmikið og undir það falla 12 undirverkefni. En í heild beinist það einkum að þremur þáttum. Er aukin eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu aðallega tengd hærri aldri þjóða og nýrri tækni? Hvernig eru afköst og hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu og loks hvernig er hægt að stuðla að jöfnuði hvað varðar aðgang að þjónustunni. Verkefnið stendur yfir í þrjú ár og lýkur á næsta ári og þá verður væntanlega orðinn til gagnagrunnur um heilbrigðismál sem aðildarríkin geta sótt í til þess að bæta kerfið hvert hjá sér. Vonandi gefst færi á að greina betur frá þessu verkefni þegar niðurstöður þess liggja fyrir.Er nýtingin nógu góð?

En í lokin á erindi sínu setti Berglind fram persónulegar vangaveltur sínar um hagkvæmni og sparnað í íslenska heilbrigðiskerfinu sem vöktu eftirtekt áheyrenda. Hún benti á að hér á landi eins og í flestum aðildarríkjum OECD væru biðlistar eftir ýmsum aðgerðum. Það vekti spurningar um það hversu góð nýting sé í reynd á þeirri þjónustu sem komið hefur verið upp víða um land.

"Er skipulega unnið að því að nýta þá aðstöðu sem er á skurðstofum úti á landi?" spurði hún. Hún sagðist hafa kannað hvort sjúklingum sem lentu á biðlista í höfuðborginni væri bent á að ef til vill gætu þeir komist fyrr að á landsbyggðinni. Niðurstaðan var sú að engin sjúklingamiðlun væri fyrir hendi. "Hér sýnist mér að sé verk að vinna að nýta betur þá skurðlækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins," sagði hún.

Þetta var formáli Berglindar að hugleiðingum hennar um heilbrigðisþjónustu sem atvinnugrein. Hún minnti á að á undanförnum árum hefði Evrópudómstóllinn kveðið upp nokkra dóma sem slá því föstu að fólk sem ekki fær heilbrigðisþjónustu innan eðlilegs tíma í heimalandi sínu eigi rétt á að leita hennar utan heimalandsins á kostnað almanna- eða sjúkratrygginga.

Í kjölfar þessara dóma hafa verið gerðar tilraunir í Bretlandi með að leyfa sjúklingum að leita þjónustu utanlands á þeim sviðum þar sem ekki er nægilegt framboð innanlands. Svíar settu þær reglur fyrir fimm árum að á fyrsta degi eigi sjúklingur að fá að hitta hjúkrunarfræðing, innan átta daga skuli hann fá að hitta lækni og tilvísun til sérfræðings skuli bera árangur innan þriggja mánaða. Geti sænska heilbrigðiskerfið ekki staðið við þessi tímamörk ber því að tryggja viðkomandi meðferð erlendis.Raunhæft sóknarfæri

Þarna sá Berglind möguleika á sóknarfærum til atvinnusköpunar fyrir íslenskar heilbrigðisstéttir, einkum þá sem nú starfa í öðrum löndum og gætu snúið heim. "Víða um land eru vel búin sjúkrahús sem ekki eru nýtt nema að takmörkuðu leyti. Þá eru einnig sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu þar sem skurðstofur eru ekki fullnýttar. Íslenskir læknar gætu með stuðningi frá hinu opinbera reynt að skapa hér markað til að taka á móti erlendum sjúklingum sem kæmu hingað til lands til aðgerða," sagði hún.

Hún sagði að við nánari skoðun benti margt til þess að þetta væri raunhæft. Íslenskir læknar væru vel menntaðir og hafa margir hverjir sótt framhaldsmenntun til bestu sjúkrahúsa heims. "Sú staða efast ég um að sé fyrir hendi í nokkru öðru landi. Það er því til á Íslandi afar mikil þekking og sambönd inn í heilbrigðiskerfi bæði austanhafs og vestan," sagði Berglind og bætti því við að ímynd landsins væri jákvæð og árangur heilbrigðisþjónustunnar mjög góður á mörgum sviðum. Heita vatnið og sundlaugarnar sköpuðu góða möguleika á endurhæfingu og þannig mætti áfram telja.

Hún sá fyrir sér að eflaust myndu einhverjir gagnrýna þessar hugmyndir á þeim forsendum að það skapaði mismunun að gefa útlendingum kost á að borga sig framhjá biðröðum. Því væri til að svara að greiðslurnar færu einungis eftir því úr hvernig kerfi sjúklingar kæmu, hvort þeir tilheyrðu kerfi eins og við búum við þar sem hið opinbera greiðir fyrir aðgerðir eða hvort þeir byggju við einkatryggingar. Á hinn bóginn gæti þetta orðið til þess að biðlistar styttust við það að þjónustan efldist og afköstin ykjust.

Berglind sá ýmsa fleiri kosti við þetta fyrirkomulag, ekki síst fyrir byggðaþróun og atvinnulíf á landsbyggðinni. Hún lauk máli sínu með því að hvetja lækna til að taka frumkvæði að því að nýta þetta sóknarfæri, það hefði oft verið skipuð nefnd af minna tilefni en þessu.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica