Ritstjórnargreinar

Áramótaþankar um heilbrigðismál

Öll berum við þá von í brjósti að 21. öldin verði verðugur arftaki hinnar 20., en aldrei hefur þekking eflst eins mikið og á síðustu öld. Ef til vill hefur okkur sjaldan miðað jafnlangt fram á við í hugsun um manngildi, mannréttindi og frelsi og mikilvægi samhyggðar og samhjálpar. Fyrsta ár nýrrar aldar byrjaði þó ekki vel, með hryðjuverkum og notkun sýklavopna gegn almenningi. Hliðstæð hryðjuverk hafa verið unnin, til dæmis í Þýskalandi nasismans, Rúanda-Búrúndi og gömlu Júgóslavíu, en hin nýju hryðjuverk eru hins vegar nálægari okkur Vesturlandabúum en hin fyrri. Afleiðingarnar innan Bandaríkjanna sem utan eru einkum ótti og skelfing, og þessi mál varða okkur Íslendinga.

Í stuttum pistli við áramót vil ég nefna þrennt sem varðar okkur: uppbyggingu heilsugæslu, vöxt forvarna og lýðheilsuaðgerða og nýjan háskólaspítala.

Heilsugæsla hefur að undanförnu verið í nokkurri kreppu og engum hefur verið það betur ljóst en starfsmönnum heilsugæslunnar. Hún á að vera þungamiðja grunnheilbrigðisþjónustunnar í landinu og hefur riðið á vaðið með áhugaverðri stefnumótun. Lögð er vaxandi áhersla á sjúkdómavarnir, skimun og meiri upplýsingar um heilsueflingu og heilbrigði. Unnið er að því að efla nám í heimilislækningum við læknadeild, ungir læknar fá meiri kynningu á heilsugæslu en áður á kandidatsári og vísbendingar eru um að þetta skili sér. Áhersla á heilsugæsluhjúkrun er einnig nauðsynleg. Sóknarfæri felst í eflingu heilsugæslusjúkrahúsa á landsbyggðinni með tilstyrk heilsugæslulækna og -hjúkrunarfræðinga. Samvinna heilsugæslu á Stór-Reykjavíkursvæðinu við bráðaþjónustu sjúkrahúsa þarf einnig að koma til. Nokkuð hefur verið rætt um landsbyggðarlækningar og -hjúkrun og kennsla á því sviði myndi efla grunnheilbrigðisþjónustuna. Fer vel á því að miðstöð slíkrar heilsugæslu verði á Akureyri þar sem fyrir er öflug heilsugæsla, sjúkrahús og vaxandi háskóli. Góðar vonir eru bundnar við sameiningu heilbrigðisstofnana úti á landi og miklu skiptir að ekki verði látið staðar numið þrátt fyrir erfiðleika.

Forvarnir og efling lýðheilsu er nátengd umræðu um heilsugæslu. Menn gera sér æ betur grein fyrir mikilvægi þess að grafast fyrir um eðli og orsök sjúkdóma og heilsufarsvanda með það fyrir augum að betra sé heilt en vel gróið. Þetta er helsta markmið íslenskrar heilbrigðisþjónustu, en það hefur hamlað að formlegt forvarnarstarf hefur verið mjög dreift og lítil samvinna milli þeirra sem sinnt hafa forvörnum. Í málefnum lýðheilsu og forvarna hefur að ýmsu leyti náðst góður árangur. Tölur um almennt heilsufar eru óvíða betri, svo sem um langlífi, burðarmálsdauða, berklatíðni og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Umhverfi okkar er tiltölulega öruggt, náðst hefur góður árangur í bólusetningum og þekking fólks á helstu hættum sem ógna heilsu er góð. Ýmis ný eða nýuppgötvuð vandamál krefjast þó skarpari viðbragða. Á það einkum við ýmsar geðraskanir og hegðunarvandamál. Nú er unnið að því að sameina krafta allra sem sinna forvörnum og betri lýðheilsu í Lýðheilsustöð. Hugmyndir um hana munu líta dagsins ljós innan tíðar og hefur heilbrigðisráðherra boðað frumvarp þess efnis á vorþingi. Þörfin fyrir samvinnu á þessu sviði er öllum ljós.

Sé heilsugæslan þungamiðja grunnheilbrigðisþjónustu í landinu er háskólaspítalinn flaggskip hennar. Vonandi dylst engum að forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu eru öflugar rannsóknir og kennsla í læknisfræði. Rannsóknastarfsemi á Íslandi hefur fleygt fram á undanförnum 15-20 árum og stöndum við jafnfætis og framar stórum nágrannaþjóðum. Mikilvægt er að þessi þróun haldi áfram innan vébanda öflugs háskólaspítala. Hlutverk hans er að sinna sem flestum þáttum heilbrigðisþjónustunnar þótt hann sinni ekki hverjum þætti til fulls. Hann þarf að tengjast háskólanum traustum böndum og því er nauðsyn að læknar stofnunarinnar beri kennsluskyldu. Sporna verður gegn því að verkefni færist frá spítalanum. Öflug utanspítalastarfsemi getur þrifist vel innan spítalans eða í nánum tengslum við hann þrátt fyrir ólík rekstrarform. Náið sambýli legudeilda og göngudeilda/læknastofa er vel þekkt á háskólaspítölum í nálægum löndum og eitt af skilyrðum fyrir þróun þeirra. Framtíðarmarkmið verður að koma sérgreinum saman til að sinna bráða- og langtímaþjónustu í samvinnu og samheldni og slíkt er unnt að gera þótt spítalabyggingar séu fleiri en ein. Uppbygging háskólaspítala er eitt af stærstu verkefnum íslenskrar heilbrigðisþjónustu og nauðsyn að vel takist til, önnur tækifæri gefast ekki á næstu áratugum. Háskólaspítali þarf að vera stofnun þar sem ákveðin hugsýn ríkir, þjónustan og vinnan er hluti af kennslu og vísindum, og öfugt.

Vonandi verður annað ár nýrrar aldar friðsælla en hið fyrsta. Á Íslandi er það framundan að efla samfélagið og heilbrigðisþjónustuna. Að þeim verkefnum eiga ekki einungis stjórnendur í heilbrigðisþjónustu eða stjórnmálamenn að vinna heldur einnig heilbrigðisstarfsmenn og þjóðin öll.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica