Fræðigreinar

Áhugi kvenna á ómskoðun, upplýst val og ráðgjöf

Ágrip

Á Íslandi fara langflestar konur í ómskoðun við 18-20 vikna meðgöngu. Í mæðravernd á að upplýsa konur og maka þeirra um skoðunina, tilgang hennar og möguleikann á að fósturgalli finnist. Ómskoðunin á að vera kynnt sem valkostur en ekki "skylda" í mæðravernd. Margar konur lýsa því hvernig þungunin verður raunverulegri fyrir þeim en áður þegar þær sjá fóstrið á skjánum og að tengslamyndunin við fóstrið verði sterkari við ómskoðunina. Til að fá hugmynd um hver afstaða íslenskra kvenna er til ómskoðana og fósturgreiningar á meðgöngu þá var framkvæmd könnun á fósturgreiningardeild kvennadeildar í ágúst 2000. Allar konur sem komu á deildina á 10 daga tímabili voru beðnar að svara spurningum um efnið eftir að þær höfðu verið í ómskoðuninni. Langflestar konurnar töldu sig upplýstar um tilgang ómskoðunarinnar (94%) og höfðu einnig hugleitt að fósturgalli gæti greinst hjá fóstri þeirra (90%). Aðeins 68% kvennanna héldu að ómskoðun við 19 vikur væri valkostur í meðgöngu, en hins vegar vildu 96% kvennanna fara í ómskoðun á meðgöngu. Langflestar konurnar (93%) vildu fara í snemmómskoðun og fá reiknað líkindamat með tilliti til litningagalla fósturs (svo sem Downs heilkennis) ef það stæði til boða.



Inngangur

Vonin um að eignast heilbrigt barn hefur lifað meðal mannkyns frá ómunatíð. Það er hins vegar ekki fyrr en á allra síðustu árum sem hægt hefur verið að skoða og meta heilbrigði fósturs í móðurkviði. Með tilkomu ómtækninnar er nú hægt að skoða fóstrið og eftir því sem tækninni hefur fleygt fram og sérhæfing starfsfólks aukist, hefur þekkingin aukist jafnt og þétt (1-3). Fyrir 25 árum kom fyrsta ómtækið til landsins en það er ekki hægt að leggja að jöfnu við þann tækjabúnað sem við búum við í dag. En það gerði okkur mögulegt að kíkja inn fyrir. Legvatnsástungur til greiningar á litningagerð fósturs hófust einnig um þetta leyti og í framhaldi af því var farið að bjóða öllum konum 35 ára og eldri upp á litningarannsókn fósturs.



Skipulagning ómskoðunar við 18-20 vikur

Árið 1986 var öllum konum boðið að koma í ómskoðun við 19 vikur. Þá var markvisst farið að skoða heilbrigði fósturs, eins og hægt er, hjá öllum þeim konum sem það kusu. Hér á Íslandi hafa um 99% kvenna nýtt sér þennan valkost í mæðravernd. Ástæður þess að svo margar konur velja að fara í ómskoðun á meðgöngu er trúlega þessi von, vonin um að eignast heilbrigt barn og fá jafnvel staðfestingu um það á meðgöngu. Að geta séð barnið, hendur þess og fætur, sjá það hreyfa sig, jafnvel sjúga fingur er mikill gleðigjafi og tengir verðandi foreldra við hinn ófædda einstakling. Hins vegar er sorgin líka mikil ef í ljós kemur alvarlegur fósturgalli (4-6).



Ómskoðun á meðgöngu, upplýst val verðandi foreldra

Mjög mikilvægt er að upplýsa verðandi foreldra um tilgang ómskoðunarinnar, en fyrst og fremst er verið að kanna heilbrigði fóstursins, auk þess sem verið er að ákvarða meðgöngulengd, fjölda fóstra og fylgjustaðsetningu. Meðfædda galla er að finna hjá allt að 2-3% nýfæddra barna en búast má við að í ómskoðun greinist einhver fósturgalli hjá 1% fóstra. Það er því ljóst að ekki greinast allir fósturgallar á meðgöngu og þó að allt líti vel út í ómskoðun þá getur annað komið í ljós eftir fæðingu. Það er einfaldlega ekki hægt að greina alla fósturgalla með ómskoðun (1). Fósturgallar sem greinast við ómskoðun geta verið misalvarlegir, til dæmis snúnir fætur eða heilaleysi (2,3,7), svo dæmi séu tekin. Upplýsingaskyldan liggur hjá mæðraverndinni, hjá því fólki sem býður hinum verðandi foreldrum upp á fósturgreiningu og útbýr beiðnina.

Mikilvægt er að fólk skilji að með því að fara í ómskoðun er verið að kanna heilbrigði fóstursins og að fólk hefur val hvort það vill nýta sér ómskoðunina eða ekki (8-10). Með öðrum orðum, þá er það ákvörðun verðandi foreldra hvort þau velja fósturgreiningu með ómskoðun eða ekki. Fólk þarf að vera upplýst um að það geti fengið slæmar fréttir og í framhaldi af því þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Mikilvægt er að verðandi foreldrar hafi hugleitt þennan möguleika áður en farið er í ómskoðun (1,2,4,9). Hins vegar má svo benda á að langoftast er 19 vikna ómskoðunin ánægjuleg heimsókn því skoðunin er oftast eðlileg.

Ómskoðun við 12 vikur má gera til að staðfesta þungun í legi, ákveða meðgöngulengd og fjölda fóstra. Auk þess má mæla hnakkaþykkt fósturs, en aukin hnakkaþykkt er vísbending annars vegar um óeðlilega litningagerð fósturs og hins vegar um hjartagalla fósturs (11,12). Ómskoðun á þessum tíma getur því gefið mikilvægar upplýsingar um heilbrigði fóstursins, mun fyrr en hefðbundin ómskoðun við 19 vikur.



Hvað vilja íslenskar konur?

Fósturgreiningardeild kvennadeildar stóð fyrir könnun í ágústmánuði árið 2000, þar sem allar konur sem komu á deildina á 10 dögum (N=182) voru beðnar um að svara spurningalista varðandi heimsóknina. Spurningalistarnir voru lagðir fyrir konurnar eftir að þær höfðu verið í ómskoðun. Í svörum kvennanna (tafla I) kom í ljós að langflestar (94%) töldu sig hafa fengið upplýsingar um markmið skoðunarinnar. Þær voru einnig spurðar hvert þær teldu vera markmið 19 vikna ómskoðunar og tæplega 90% töldu 19 vikna ómun fela í sér að greina fósturgalla, meta meðgöngulengd og skoða fylgjustaðsetningu. Rúmlega 90% kvennanna höfðu leitt hugann að því að fósturgalli gæti greinst hjá fóstri þeirra við ómskoðun. Þegar spurt var hvort viðkomandi hefði gert sér grein fyrir að ómskoðun á meðgöngu væri valkostur en ekki "skylda" töldu 68% sig hafa gert það en athygli vekur að 30% gerðu sér ekki grein fyrir því. Það vekur upp spurningar um hvernig staðið er að því að bjóða þessa rannsókn í meðgöngu. Hins vegar sögðust 96% kvennanna ekki vilja sleppa því að fara í ómskoðun á meðgöngu.

Í könnuninni voru konurnar einnig spurðar hvort þær hefðu áhuga á ómskoðun snemma í meðgöngu þar sem líkur á litningagalla fósturs (svo sem Downs heilkenni) væru metnar og líkindamat gefið með tilliti til litningagalla. Langflestar kvennanna (93%) sögðust hafa áhuga á að fá slíka skoðun, stæði hún til boða. Þetta er sambærilegt við niðurstöður breskrar rannsóknar sem birtist í British Journal of Midwifery 1997 en þar töldu 97% kvennanna að slík rannsókn ætti að standa þeim til boða (13).

Könnunin er gerð meðal kvenna/para sem sóttu þjónustu fósturgreiningardeildar en ekki meðal allra þjóðfélagshópa, enda var hún hugsuð sem hluti af gæðastarfi deildarinnar en ekki sem vísindarannsókn. Þess vegna er ekki hægt að alhæfa um afstöðu almennings almennt til ómskoðunar en hins vegar nær könnunin til þess hóps sem málið brennur heitast á, það er fólks á barneignaaldri.

Þessi könnun staðfesti að okkar mati það sem við, starfsfólk fósturgreiningardeildar kvennadeildar, höfum orðið vör við í starfi en það er að flestar konur vilja fósturgreiningu og gera sér grein fyrir því að við 19 vikur er verið að skoða og meta heilbrigði fóstursins. Með því að bjóða upp á ómskoðun við 12 vikna meðgöngu er hægt að færa fósturgreininguna framar og bæta við líkindamati með tilliti til litningagalla fósturs. Hins vegar mun áfram verða boðin ómskoðun við 19 vikur, þar sem ekki er hægt að meta útlit fósturs með sama hætti við 12 vikur eins og síðar.



Niðurlag

Ómskoðun snemma í meðgöngu ætti að vera valkostur í mæðravernd alveg eins og 19 vikna ómskoðunin er í dag. Upplýsingar um ómskoðanir ber að veita í mæðraverndinni, á hlutlausan hátt, svo verðandi foreldrar geti tekið ákvörðun í samræmi við lífsviðhorf sitt varðandi meðgönguna. Mikilvægt er að virða sjálfsákvörðunarrétt verðandi foreldra, einnig þeirra sem velja að fara ekki í ómskoðun í meðgöngu.



Heimildir



1. Salvesen KA, Öyen L, Schmidt N, Malt UF, Eik-Nes SH. Comparison of long-term psychological responses of women after pregnancy termination due to fetal anomalies and after perinatal loss. Ultrasound Obstet Gynecol 1997; 9: 80-5.

2. Kolker A, Burke M. Grieving the wanted child: ramifications of abortion after prenatal diagnosis of abnormality. Health Care Women Int 1993; 14: 513-26.

3. Bryar SH. One day you´re pregnant and one day you´re not: pregnancy interuption for fetal anomalies. J Obstet Gynecol Neonat Nurs 1997; 26: 559-66.

4. Ney PG, Fung T, Wickett AR, Beaman-Dodd C. The effects of pregnancy loss on women's health. Soc Sci Med 1994; 37: 1193-9.

5. Lorenzen J, Holzgreve W. Helping parents to grieve after second trimester termination of pregnancy for fetopathic reasons. Fetal Diagn Ther 1995; 10: 147-56.

6. White-van Mourik MC, Connor JM, Ferguson-Smith MA. The psychosocial sequelae of a second-trimester termination of pregnancy for fetal abnormality. Prenat Diagn 1992; 12: 189-204.

7. Hunfield JAM, Wladimiroff JW, Passchier J. The grief of late pregnancy loss. Patient Educ Couns 1997; 31: 57-64.

8. Venn-Treloar J. Nuchal translucency: screening without consent. BMJ 1998; 316: 1026b.

9. McFadyen A, Gledhill J, Whitlow B, Economides D. First trimester ultrasound screening. Carries ethical and psychological implications. BMJ 1998; 317: 694-5.

10. Proud J, Murphy-Black T. Choice of a scan: how much information do women receive before ultrasound. Br J Midwifery 1997; 5: 144-7.

11. Snijders RJ, Noble P, Sebire N, Souka A, Nicolaides KH. UK multicentre project on assessment of risk of trisomy 21 by maternal age and fetal nuchal translucency thickness at 10-14 weeks of gestation. Fetal Medicine Foundation First Trimester Screening Group. Lancet 1998; 352: 343-6.

12. Hyett JA, Perdu M, Sharland GK, Snijders RJ, Nicolaides KH. Increased nuchal translucency at 10-14 weeks of gestation as a marker for major cardiac defects. Ultrasound Obstet Gynecol 1997; 10: 242-6.

13. Fairgrieve S. Screening for Down´s syndrome: what the women think. Br J Midwifery 1997; 5: 148-51.



English Summary

Haraldsdóttir KR

Woman's interest in ultrasound, informed choice and counselling



Læknablaðið 2001; 87/Fylgirit 42: 44-6



Prenatal ultrasound examination is routinely performed in Iceland at 18-20 weeks gestation. The examination should be offered to all pregnant women and their partners. The couple should receive counselling regarding the purpose of the examination and possible sequela, i.e. if fetal anomaly is detected. The examination should therefore be optional, not mandatory. Many women state that an increased sense of bonding with the baby occurs during the ultrasound examination and express joy over watching the fetus and see its movements on the screen. In order to get an idea what pregnant women want, all women who had just attended an ultrasound examination at the prenatal diagnostic unit in Reykjavík over a 10 day period in August 2000 were asked to answer a questionnaire regarding ultrasound and fetal diagnosis. The majority of women reported having been informed about the goals of the 19 weeks examination (94%), and had considered that their fetus might have a malformation (90%). Only 68% of the women considered the ultrasound examination at 19 weeks to be optional. Almost 96% of the women stated that they would have the ultrasound examination. The majority (93%) of women would like to have an early ultrasound examination with assessment of fetal risk for aneuploidy (for instance Down´s syndrome), if such a test was offered.



Key words: prenatal ultrasound, informed choice.



Correspondence: Kristín Rut Haraldsdóttir midwife.

E-mail: krrutthar@landspitali.is



Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica