Fræðigreinar

Heilbrigðismenning - hugleiðingar úr ýmsum áttum

I

Sagnaþulurinn Hómer



Eitt regnþungt síðdegi,

á skipi úr víðförlum draumi,

kom sagnaþulurinn Hómer til Reykjavíkur.

Hann gekk frá hafnarbakkanum

og tók leigubíl sem ók með hann

eftir regngráum götum

þar sem dapurleg hús liðu hjá.



Við gatnamót sneri sagnaþulurinn Hómer

sér að bílstjóranum og sagði:

"Hvernig er hægt að ímynda sér

að hér í þessu regngráa

tilbreytingarleysi búi söguþjóð?"

"Það er einmitt ástæðan," svaraði bílstjórinn,

"aldrei langar mann jafn mikið

að heyra góða sögu og þegar droparnir

lemja rúðurnar."

...



"Það er fátt fréttnæmt í ljóðum. Engu að síður deyja margir á ömurlegan hátt vegna skorts á því sem þar er að finna." Þannig yrkir bandaríska skáldið William Carlos Williams í lauslegri prósaþýðingu.

Bandaríski rithöfundurinn Bill Holm, sem auðvitað er Íslendingur líka, segir í hinni stórmerku ritgerð sinni The music of failure frá fátækum íslenskum innflytjendum, fólki sem einskis var metið á veraldarvísu en geymdi andann og menninguna innra með sér.

Bill segir: "Litla húsið var einsog geimskip á förum frá jörðinni, fermt því besta sem við höfum gefið hvert öðru á síðustu 4000 árum í sögu mannlegrar vitundar. Og ekkert af því var tíu króna virði í hinum harða heimi frjálsrar samkeppni!"

Á bak við fjölbreytileikann, sem nútíminn skreytir sig með, býr oft ótrúleg einsleitni. Þrátt fyrir lýðræðið og öll frjálsu skoðanaskiptin er hugum okkar beint inn á örfáar rásir.

Milan Kundera segir: "Litlu varðar þótt í hinum ýmsu málgögnum gæti mismunandi hagsmuna. Að baki þeim yfirborðsmun ríkir sami andi. Það nægir að fletta amerískum og evrópskum vikublöðum, til vinstri jafnt sem hægri, frá Time til Spiegel. Öll boða þau sömu lífssýn sem speglast í sama efnisyfirliti, sömu dálkum, sama blaðamennskusniði, sama orðaforða, stíl, smekk og gildismati. Þetta samlyndi fjölmiðla, falið á bak við pólitíska fjölbreytni, er andi okkar tíma."

Milan Kundera telur skáldsöguna andhverfa þessum anda. Hún tjáir önnur viðhorf en handhafar sannleikans, hvort heldur er um að ræða fréttastofur fjölmiðla eða stjórnmálamenn. Verksvið skáldsögunnar er leitin, samskipti mannanna á bak við vígorðin og tuggurnar, gleðin sem rúmast ekki í fréttayfirlitinu og sorgin handan fyrirsagnarinnar.

Menningin er ekki bara fólgin í því að fara í leikhús og halda listahátíðir með tilheyrandi kokteilboðum heldur er hún það besta sem við höfum gefið hvert öðru á síðustu 4000 árum mannlegrar vitundar, það er að segja samskipti byggð á anda og vitund.

Skáldskapurinn er barátta gegn innihaldsleysi lífsins og tómleikanum, en tómleikinn leiðir af sér myrkrið í samtímanum.

Fátt vitnar betur um andleysi og tómleikakennd nútímans en vaxandi ofbeldi og aukin neysla harðra vímuefna. Dekrið við skuggahliðarnar stafar af skorti á birtu. Það er bakkabræðraheimspeki að ætla sér sífellt að bera myrkrið inn á meðferðarstofnanir og láta nefndir og stofnanir föndra við málin einar og sér.

Spurningin er, hvernig veitum við æskulýð landsins andlega birtu? Hvernig sigrumst við á tómleikanum? Hvað lífsspeki miðlum við? Þegar Jónas Hallgrímsson réðst gegn hnignun íslenskrar tungu á síðustu öld lét hann sér ekki nægja árásirnar einar heldur bjó til ný orð í anda ljóðrænnar rómantíkur.

Það er þörf á slíkum efnistökum nú. Það er augljóst mál að þjóðkirkjan hefur ekki veitt þá andlegu forystu sem af henni er vænst. Í fjölmiðlum hafa klerkar hennar rifist um formsatriði og kreddur og í því ljósi ber að skoða aðdráttarafl hinna svonefndu sértrúarsafnaða.

Það er heldur ekki nóg að segja unglingunum bara að stunda íþróttir, en síðan leggur íþróttahreyfingin aðaláherlsuna á byggingaframkvæmdir og fjárframlög og veröldin í kringum íþróttirnar einkennist af rándýrum tískuvarningi og háum félagsgjöldum, þannig að möguleiki ungmenna til íþróttaiðkana byggir meira á fjárhag foreldra en hugsanlegu atgervi einstaklinganna.

Ég er ekki að vanmeta íþróttirnar, en mér finnst að huga þurfi að hinum innra heimi. Kynslóðirnir þurfa að miðla menningunni hver til annarrar. Það þarf að opna hugann, virkja stóriðjuna í kollinum, efla smáiðnað andans. Þannig sé ég menninguna sem forvarnir. Sá sem lifir andlegu lífi þarf ekki að koma ringulreið á skilningarvitin með aðstoð utanaðkomandi efna.

Maðurinn skynjar líf sitt sem sögu. Þegar heimurinn verður óskiljanlegur rofnar þessi skynjun. Því hefur verið haldið fram að söguleysið sé lífsskilyrði nútímamannsins, skortur hans á yfirsýn. Menningin, til dæmis sagnalist, er leit að innihaldi, barátta gegn hinu sögulega tómi. Miðlum anda bókmennta og sagnalistar. Njótum tónanna og tengjum okkur við andrúmsloftið þar sem orðin flæða einsog regnið í Bítlalaginu.

Málið snýst um vaxtarskilyrði hugans. Séu þessi mál sett undir stækkunargler hagspekinnar, samkvæmt þeirri formúlu nútímans að allt þurfi að bera sig, felur sú stefna sem hér er imprað á í sér mikinn sparnað í útgjöldum. Hugurinn þarf ekki síður á íþróttum að halda en búkurinn. Hið andlega innihald verður æ mikilvægara. Frjór hugur myndar ónæmiskerfi og hrindir frá sér bakteríum. Öflug menningarstarfsemi er því þjóðhagslega hagkvæm og sparar til lengri tíma mikil útgjöld í heilbrigðiskerfinu.



II

Arthur Rimbaud, orðin og stjórnmálin



Við þekkjum hinar skáldlegu setningar Arthurs Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður." Getur verið að orðin, verkfærin sem við notum til að tjá okkur, ráði í raun hvað við segjum? Erum við hugsuð fremur en að við hugsum? Áður fyrr byggðist vald manna ekki síst á því hve leiknir þeir voru með orðin. Hinn menntaði maður hafði orðin á valdi sínu. Stjórnmálamenn voru ræðuskörungar, ferskeytlan hvöss sem byssustingur og þar fram eftir götum. Allt snerist um orð. Hann er ekki ýkja merkilegur náungi en hann getur þó svarað fyrir sig. Hver kannast ekki við slíkar mælistikur? Nú á dögum segjum við ekki um stjórnmálamanninn: "Hann er flugmælskur." Þess í stað segjum við: "Hann kemur vel fyrir í sjónvarpi." Hvernig hefði Egill Skallagrímsson komið fyrir í sjónvarpi? Hvernig væri hægt að markaðssetja hann? Væru ljóð hans vinsæl? Hér á árum áður lásu stjórnmálamenn Íslendingasögurnar og sóttu ræðunámskeið og héldu síðan glaðbeittir út í kosningabaráttuna. Nú fara þeir aftur á móti í litgreiningu og mæta fyrir framan upptökuvélarnar í skræpóttum skyrtum og jökkum, einsog glysgjarnir fornmenn. Geta þeir ekki sagt einsog Arthur Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."

...



Ég: Óli hefurðu tekið eftir því hvað dúfurnar eru með litla hausa? Heldurðu að þær séu ekki með neinn heila?

Óli: Nei þær eru með vængi. Til hvers ættu þær að vera með heila?

Ég: Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila?

Óli: Ég held að það væri best að vera með vængi á heilanum.


...



Ofangreint samtal er úr skáldsögu minni Vængjasláttur í þakrennum. Ég get sagt að þau viðhorf sem birtast í samræðum drengjanna hér að ofan hafa smám saman orðið mín lífsviðhorf. Viðfangsefnið í skáldskapnum er veruleikinn, en hugblær hans er flugið.

Þannig er skáldskapurinn eins konar sendiherra vonarinnar, andspyrnuhreyfing hins mannlega. Menn veslast upp vegna skorts á ljóðlist. Þeir sem hafa tekið sér það hlutverk að kveikja ljóðið í manninum, að virkja ljóðið í manninum eru því eins konar forvarnardeild hjá almættinu og hafa tekið að sér mun stærra hlutverk en oft er látið í veðri vaka.

"Seg mér, Sönggyðja, frá hinum víðförla manni, er hraktist mjög víða, eftir að hafa lagt í eyði hina helgu Trójuborg, þeim er sá borgir og þekkti skaplyndi margra manna."

Það hlutverk frásagnarlistarinnar að varðveita andann og miðla "skaplyndi margra manna" er hollt að hafa í huga nú á tímum tæknihyggju og fjölmiðla, þegar andinn klæðist skikkju staðreynda og sjálf sönggyðjan birtist sem hlutlaus fréttaskýrandi. Á skjánum færir hún okkur ekki lengur fréttir af þeim "víðförla manni er hraktist mjög víða" heldur er sýn hennar, hin ríkjandi heimsmynd, njörvuð við samskipti valdhafanna.

Í hinum fréttasjúka heimi nútímans eru frásagnirnar ekki fólgnar í könnun á "skaplyndi margra manna" heldur í upplýsingum um hagvöxt, bankamál og milliríkjasambönd. Þannig birtist hinn opinberi hugsunarháttur, sem einkennist af tæknihyggju, ekki aðeins sem skammsýnn og brotakenndur heldur og án andlegra markmiða.

Hann byggist á dýrkun á staðreyndinni, á því tæknilega viðhorfi að heimurinn sé "eins og hann er". En heimurinn er ekki einsog hann er. Hann er ofinn úr öðrum þráðum en upplýsingar einar segja til um. Hann samanstendur einnig af því sem ekki sést og mælist, er vigtað eða talið, af anda og menningu, því sem frásagnarlistin miðlar.

Í frásagnarlistinni mætast þræðir sögunnar og andinn lifir. Í þeirri flóknu og verkskiptu veröld sem við búum í er skáldskapurinn ef til vill síðasti stallurinn þar sem hægt er að standa og segja eins og gömlu Grikkirnir: Ekkert mannlegt er mér óviðkomandi.

Ég segi ekki að menningin og skáldskapurinn afstýri bílslysum á götuhornum en þau gera okkur betur í stakk búin að takast á við hina almennu slysahættu mannkyns.



III

Seinna, þegar ég hafði verið viðloðandi geðspítalann í nokkur ár, kom Rögnvaldur að heimsækja mig í hvert sinn sem hann kom í bæinn.

Hann er mjög vel til fara, alltaf í þessum fínu frökkum, skyrtum og jökkum, og skrafhreifinn og skemmtilegur, en stundum færist líka yfir hann djúp alvara, drungi.

Ég fer með honum í bíltúra. Fyrir utan geðspítalann stendur þessi stóri og fíni jeppi. Rögnvaldur hefur komið sér vel fyrir. Hann á einbýlishús og börnin eru að stækka.

Ég neita því ekki að ég finn nokkuð til mín þegar ég sest upp í jeppann og ek burt með þessum dragfína manni.

"Rögnvaldur," segi ég þegar við beygjum inn Kleppsveginn, "ég hefði nú eiginlega frekar viljað að þú yrðir geðlæknir en tannlæknir."

"Þú segir það," segir hann.

"Ég hugsa að þú hefðir getað læknað mig," segi ég.

"Nei," segir hann. "Ætli maður eigi ekki alveg nóg með að halda sjálfum sér réttum megin við strikið?"

"Nei, Rögnvaldur," segi ég. "Ég held að ekki sé til neitt heilbrigðara í þjóðfélaginu en velstæður tann-læknir á jeppa."

Rögnvaldur hló.

"Það er að minnsta kosti ekki pláss fyrir þá inni á Kleppi," sagði ég.

"En gættu þess," sagði Rögnvaldur, "að Kleppur er víða."

Hann leit til mín og gaf svo í.

Í annað sinn keyrðum við út fyrir borgina, út að Reykjanesvita, og Rögnvaldur ók að hamrinum þar sem ólgandi brimið lék fyrir neðan, en annars blöstu auðir melirnir við.

Og þá sagði Rögnvaldur, þegar við sátum í jeppanum og horfðum út á hafið: "Það er auðvelt, Palli, bara að stíga á bensínið ..."

Ég tók þessu sem hverju öðru gríni, gömlu kaldhæðninni, enda langaði mig ekkert til að deyja þá, þegar ég sat við hlið þessa manns sem sýndi mér hvílíkur vinur hann var, að hafa ekki gleymt mér þó búið væri að jarða mig lifandi og enginn þyrfti að vita af mér.

Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér og ég sá Rögnvald í nýju ljósi þegar mamma sýndi mér dánartilkynninguna í Morgunblaðinu og þó ég væri á lyfjum sem þurrka upp allar tilfinningar fann ég tárin streyma fram og ég skildi ekki neitt og ég vissi ekki neitt og ég trúði ekki lengur ...

Eða kannski rann upp fyrir mér annað, að vegirnir eru órannsakanlegir, að þeir sem eiga allt sem við sjúklingarnir óskum okkur, góða konu, gáfuð börn, hús, bíl, að einnig þeir, já einnig þeir ...

Já, Rögnvaldur, Kleppur er víða, ekki aðeins spítali, ekki aðeins höll, heldur mynstur ofið úr þráðum svo fínum að enginn greinir þá, hvorki keisarinn né börnin, hvorki ég né þú.


...



Er Kleppur víða? Mælikvarðinn á heilbrigði hlýtur alltaf að vera afstæður, jafnvel þó að innan þessara afstæðu mælikvarða verði til aðrir sem gerðir eru algildir. Hver situr í dómarasætinu, fíflið eða kóngurinn. En hvað ef kóngurinn er fífl?

Á þetta afstæði tilverunnar hefur skáldskapurinn alltaf lagt áherslu. Þegar talað er um frásagnarhátt eða sjónarhorn í skáldsögu, byggir sú umræða ekki síst á því að mynd veruleikans er ætíð háð þeim sem á hana horfir.

Enginn veit hvað er að vera vitskertur nema sá sem hefur reynt það. En hvað veit hinn vitskerti? Á þessum setningum hófst skáldsaga mín, Englar alheimsins, í upphafi og hvarf hún ekki burt fyrr en í síðustu próförk.

Hvers vegna?

Ég veit það ekki.

Kannski sagði hún of mikið, kannski of lítið.

Þeir sem lesa skáldsögu mína Engla alheimsins taka flestir eftir því að hún er tileinkuð bróður mínum heitnum; og af því að hann átti við veikindi að stríða og er á svipuðum aldri og aðalpersóna bókarinnar hafa menn í blöðum og ritdómum haft tilhneigingu til að segja að bókin sé um hann, að höfundurinn hafi skrifað bók um bróður sinn.

Nú er rétt að taka það fram að Englar alheimsins er skáldsaga og lýtur lögmálum skáldverks, eins og höfundar taka gjarnan fram einmitt þegar þeir eru að skrifa eitthvað annað en skáldverk.

Bróðir minn Pálmi Örn Guðmundsson átti við geðræn vandamál að stríða og komst ekki út úr veikindum sínum frekar en Páll, og um leið og þau hættu eða minnkuðu var lífslöngunin ekki lengur til staðar.

Ég myndi því orða fullyrðinguna um samband bróður míns við ritverkið svo: Í gegnum veikindi Pálma bróður míns fékk ég innsýn í þá veröld sem geðsjúklingar búa við. Þessi innsýn var annars vegar sársaukafull uppgötvun en á hinn bóginn ákveðin sýn á mannlega tilveru.

Ekki er hægt að nálgast lífsvanda annarra aðeins sem efnivið í bókmenntir, þó auðvitað sé ekki til neinn annar efniviður í bókmenntir en sjálfur lífsvandinn.

Ég komst fljótt að því að þegar rætt er um málefni geðsjúkra á opinberum vettvangi sniðganga menn oft kjarna málsins; og á það jafnt við um rómantískar grillur um snilli geðsjúklinga sem og valdsmannsleg ráð.

Hugleiðum til dæmis spurninguna um samband sjúklingsins við samfélagið og samband hans við sjálfan sig eða einveruna.

Allir sem koma hafa nálægt málefnum sjúklinga þekkja hvatninguna: Þú átt að fara út í þjóðfélagið - og í sjálfu sér má segja að sú hvatning þurfi að vera fyrir hendi. Á hinn bóginn vitum við að hinn geðsjúki missir vini sína og einangrast.

Hann er jafnvel meðvitaðastur um einangrun sína þegar hann er góður eins og sagt er. Þá er hann oft algjörlega einn og á ekki í annað hús að venda en til þeirra sem eru í svipaðri aðstöðu.

Önnur þversögn, sem kannski er ekki síður athyglisverð, er sú staðreynd að þegar menn eru lokaðir inni á spítölum vegna geðrænna vandmála, er sagt sem svo: Það er verið að vernda þjóðfélagið gagnvart sjúklingunum og sjúklingana gagnvart þjóðfélaginu.

En hver er vernd sjúklinganna í raun og veru? Þeir þurfa oft að horfast í augu við heim sem er miklu harðari og kaldari en heimurinn fyrir utan. Dauðsföll, til að mynda sjálfsvíg, eru miklu algengari í þeirra heimi en í heimi meðalmannsins fyrir utan múrana.

Hér er ef til vill stærsta þversögnin í sambandi sjúklinga og þjóðfélags. Annað sem nefna mætti eru viðhorf þjóðfélagsins til stuðnings og hjálpar. Stjórnmálamenn tala gjarnan um afrekin sem unnin hafa verið, til að mynda öryrkjablokkir, og vissulega mega menn vera stoltir af þeim, en í umræðunni horfa menn oft aðeins á byggingarnar og mælikvarðinn á árangur verður efnislegar framkvæmdir, en ekki sú tilvera sem fólki er búin og fólk býr við, ekki einsemdin á göngunum eða inni í litlu íbúðunum.

Menn hafa stundum spurt hvernig ég hafi getað skrifað sögu um mann jafn nákominn mér. Þó að í spurningunni sé fólginn ákveðinn misskilningur má líka snúa henni við og spyrja: Hvernig hefði ég getað komist hjá því?



Þegar Viktor kom til okkar sagði hann: "Þetta er allt í lagi. Ég sagði þjónunum að þið væruð frændur mínir úr afskekktum dal norðan heiða."

"Trúðu þeir því?"

"Já, ég sagði þeim að þið hefðuð sjaldan komið til borgarinnar og að ég væri að hjálpa ykkur við að selja jörð."

"Spurðu þeir hvað þú gerðir?"

"Nei, en ég sagðist vera fasteignasali."

Brátt var okkur vísað til borðs. Við völdum okkur það besta af matseðlinum sem var bundinn inn eins og bók. Í forrétt pöntuðum við glóðarsteiktan humar og nautalundir í aðalrétt og Viktor valdi vínin.

Ég var löngu hættur að spá í þúsundkallana sem hver munnbiti kostaði, en naut þess að tyggja matinn og finna vínið renna, lét hugann reika um matsalinn inni á Kleppi og hló.

Það var skvaldur í loftinu og lágvær sígild tónlist, konurnar vel tilhafðar eins og listmunir, mennirnir kátir og hressir. Það var ekkert sjálfsagðara en þessi heimur, ljós borgarinnar litlir deplar úti. Við vorum hátt yfir allt hafnir.

Þegar kaffið og koníakið kom skáluðum við fyrir Pétri. Við vorum sammála um að þetta væri góð erfidrykkja. Með kaffinu og koníakinu bauð Viktor pillur, en við Óli vildum frekar ís; og það var komið með svo skrautlegan ís að við ætluðum varla að þora að snerta hann.

Viktor lét bæta nokkrum sinnum í koníaksglösin og við vorum afslappaðir og rólegir. Svo tók Viktor upp penna og lítið blað, bað þjóninn að færa okkur vindla og koma með reikninginn.

Vindlarnir komu í flottum kassa, stórir drjólar, sem við reyktum af áfergju. Þegar Viktor opnaði reikninginn, sem lá samanbrotinn á litlum disk, sá ég á fjölda tölustafanna að það var enginn öryrkjabragur yfir honum.

Við vorum hálfnaðir með vindlana og höfðum drukkið ein fimm koníaksglös þegar þjónninn kom og Viktor afhenti honum blaðið sem hann hafði hripað eitthvað niður á og leit út eins og útfyllt ávísun.

Þjónninn tók blaðið upp einsog hann byggist við að sjá ávísun. Svo sá ég að hann stirðnaði og augu hans hringsnerust. Hann sneri sér við og gekk hröðum skrefum í átt að eldhúsinu með blaðið í hendinni. Á blaðið hafði Viktor skrifað: "Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax. Þetta var ákaflega ánægjuleg máltíð."
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica