Umræða fréttir

Vel sótt málþing Félags kvenna í læknastétt á Íslandi

Þann 17. maí síðastliÐinn var haldið málþing um stöðu kvenna í læknastétt á Íslandi í húsi læknafélaganna Hlíðasmára 8 í Kópavogi. Málþingið var tvískipt, fyrst voru framsöguerindi og þar á eftir pallborðsumræður. Ólöf Sigurðardóttir formaður FKLÍ bauð gesti velkomna og rakti aðdraganda málþingsins í stuttu máli. Þá vakti hún athygli á ýmsum atriðum er varða stöðu kvenna í læknastétt, ekki síst í ljósi þess hve margar þær eru í hópi unglækna. Vaktafyrirkomulag og vinnuaðstæður unglækna eru sérlega óheppilegar fyrir ungt fólk sem er að stofna fjölskyldur og ungar konur í FKLÍ hafa að undanförnu vakið athygli á þessu máli, sem ljóst er að þarf að lagfæra.

Þá tóku til máls nokkrir af helstu ráðamönnum í heilbrigðismálum á Íslandi: Nýskipaður heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson, ávarpaði þingið og Magnús Pétursson forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss, Reynir Tómas Geirsson deildarforseti læknadeildar HÍ og Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ héldu stutt erindi. Í máli þeirra var meðal annars vísað til aldursdreifingarinnar í læknastétt og bent á það sem hluta af skýringunni á því hvers vegna konur sætu síður í stjórnunarstöðum en karlar. Það kom þó fram í máli Magnúsar Péturssonar að hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum hjá Landspítalanum væri lægra en aldursdreifingin gæfi tilefni til, ef litið væri á læknastéttina eingöngu.

Lára V. Júlíusdóttir lögmaður bar saman lögmenn og lækna og stöðu kvenna í þessum tveimur greinum og vakti meðal annars athygli á því að ýmislegt af því sem verið væri að fjalla um sem réttlætismál fyrir konur væri í rauninni lögbundinn réttur sem ekki væri virtur. Ingibjörg Georgsdóttir læknir fjallaði meðal annars um baráttu kvenna fyrr á tímum fyrir því að fá að sækja læknanám og vitnaði til reynslu Elizabeth Blackwell sem fyrst kvenna lauk læknanámi í Bandaríkjunum (1849). Hún þurfti að sækja um 28 sinnum áður en henni var veitt innganga í læknadeild.

Í fjölmennu pallborði eftir framsöguerindin kom glöggt í ljós að mjög var misjafnt hvað fólk las úr þeim tölum sem komið hafa fram að undanförnu um stöðu kvenna í læknastétt, meðal annars í umfjöllun í Læknablaðinu. Það var einkum hlutfall kvenna í stjórnun og háskólakennslu sem brann á málþingsfulltrúum. Þorgerður Einarsdóttir félagsfræðingur benti á að ekki væri nóg að bíða og vona að ástandið lagaðist, heldur væri nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða, og benti meðal annars á jafnréttisnefndir sem starfandi eru bæði innan háskólasamfélagsins og á sjúkrahúsum.Í lok máþingsins var samþykkt

eftirfarandi ályktun:

"Um tveggja ára skeið hefur verið starfandi Félag kvenna í læknastétt á Íslandi - FKLÍ. Félagið hefur ýmis stefnumál á dagskrá sinni með megináherslu á stöðu kvenna innan læknastéttarinnar, hvernig megi bæta hana og efla. Nokkur kynning fór fram á félaginu, markmiðum þess og væntingum félagskvenna í febrúar- og marsheftum Læknablaðsins 2001. Þar kemur meðal annars fram að fleiri konur hafa á undanförnum árum sótt nám í læknisfræði en áður. Þær hafa einnig í auknum mæli haldið af stað í sérnám og er vaxandi fjöldi kvenna starfandi í flestum sérgreinum læknisfræðinnar hér á landi. En þegar litið er til stöðuveitinga á stóru sjúkrahúsunum og innan Háskóla Íslands, einkum varðandi stjórnun og kennslu, blasir við önnur mynd. Þar eru mjög fáar konur. Margar erlendar rannsóknir lýsa þessari stöðu kvenna innan læknastéttar og fram hafa komið ábendingar um það hvernig draga megi úr kynbundinni mismunun.

Félag kvenna í læknastétt á Íslandi skorar á landlækni, stjórnendur læknadeildar Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahúss að virða jafnréttissjónarmið við skipan í ráð og nefndir og við stöðuveitingar, og að bæði konur og karlar séu kölluð til starfa.

Félagið telur eðlilegt að stjórnendur læknadeildar Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahúss standi vörð um störf jafnréttisnefnda Háskólans og Landspítalans, fylgist með framkvæmd jafnréttisstefnu þeirra og veiti þeim nauðsynlegan stuðning.

Félagið beinir þeim tilmælum til stjórnenda læknadeildar Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahúss að þeir beiti sér fyrir fræðslu um jafnréttismál og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að auka sveigjanleika í læknanámi, rannsóknarvinnu og í klínískum störfum unglækna sem geri konum jafnt sem körlum kleift að samræma starf sitt og skyldur gagnvart fjölskyldu.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica