Umræða fréttir
  • Tafla I
  • Tafla II
  • Tafla III
  • Mynd 1
  • Tafla IV
  • Tafla V
  • Tafla VI
  • Tafla VII

Örar breytingar kalla á endurskoðun. Áskorun um stefnumótun fyrir LÍ, Háskóla Íslands og heilbrigðisþjónustuna

Margrét drottning og 600 sumra starf

Tilefni þessarar greinar eru ýmsar athyglisverðar tölur og upplýsingar sem nýlega var aflað og komu mér á óvart en þær eru mikilvægar fyrir stefnumótun hjá Læknafélagi Íslands, Háskólanum og heilbrigðisþjónustunni.

Forsaga málsins er nokkur. Á árinu 1997 var undirritaðri boðið að halda erindi á Margaretasymposiet, ráðstefnu Félags sænskra kvenlækna í Kalmar um leiðtogahlutverk kvenna. Þær voru eins og aðrir Kalmarbúar og Svíar að fagna 600 ára afmæli Kalmarsambandsins en til þess var stofnað af Margréti drottningu Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar 1397. Hluti af því erindi átti að fjalla um stöðu kvenlækna á Íslandi og er skemmst frá því að segja að mjög takmarkaðar tölulegar upplýsingar var að fá um hana og nær engar nýlegar. Þó mátti finna grein í Læknanemanum frá 1989 (1) og ennfremur könnun á vegum LÍ frá 1990 (2) og nýrra upplýsinga tókst að afla hjá nemenda- og starfsmannasviði Háskólans, læknadeild, Læknafélagi Íslands, Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Landspítalanum.Nefnd LÍ 1990-1991

Stjórn LÍ skipaði nefnd í apríl 1990 og var henni ætlað að koma með tillögur um sérstakar aðgerðir sem nauðsynlegar væru til að tryggja læknum jafnrétti til að nýta menntun sína og samfélaginu öruggt framboð læknisþjónustu. Í nefndinni voru Guðrún Agnarsdóttir sem var formaður, Guðmundur Þorgeirsson, Guðrún Hreinsdóttir, Ingibjörg Georgsdóttir og Jón Hilmar Friðriksson. Þessi nefndarskipan var liður í stefnumörkun á vegum félagsins. Nefndin gerði könnun ótengda nöfnum til að kanna hug kvenlækna til stöðu sinnar innan stéttarinnar og sendi út spurningalista til allra kvenlækna sem þá voru á skrá hjá LÍ, alls 185. Könnunin var gerð um sumartíma og fremur stuttur svarfrestur gefinn sem kann að skýra það að svör bárust einungis frá 45 konum eða 24%. Þessi svör voru síðan kynnt á aðalfundi LÍ og á sérstakri ráðstefnu um konur í læknastétt: Fortíð-nútíð-framtíð, en hún var haldin á vegum LÍ í Borgartúni 6, 7. mars 1991. Áhugaverðar vísbendingar fengust úr þessari könnun þó svörun væri lítil, bæði um nám og starf lækna.Muna má tímana tvenna

Sú var tíðin, á 19. öldinni, að áhugasamar konur þurftu að smygla sér í karlgervi inn í læknaskóla, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, því að þangað var konum meinaður aðgangur. Þegar ég stundaði nám í læknadeild HÍ á árunum 1961-1968 voru konur um 5% læknanema. Nú stunda fleiri konur en karlar nám í framhaldsskólum, fleiri konur en karlar innritast í háskóla og fleiri konur en karlar innritast í læknadeild.

Hér á eftir fylgja þær tölulegu upplýsingar sem mér tókst að finna hjá velviljuðu starfsfólki ýmissa stofnana og félaga haustið 1997. Þær hafa verið færðar til dagsins í dag og tala flestar sínu máli (tafla I, mynd 1).

Eins og sjá má af töflu I og mynd 1, sem sýna sömu tölur, hafa fleiri konur en karlar innritast í læknanám síðastliðin fjögur ár. Enn eru þó færri konur en karlar sem eru brautskráðar með fáum undantekningum samanber árin 1993, 1996 og 1997 þegar jafnmargar eða fleiri konur voru brautskráðar.

Þeir sem kenna í læknadeild eru að miklum meirihluta karlar enda fáar konur sem hafa kennslustöður þar eins og í Háskólanum almennt. Víst er þó að margar konur gegna stöðum stundakennara. Á árunum 1969-1999 var ein kona prófessor í læknadeild en hún hefur nú látið af störfum vegna aldurs (tafla II).

Ef litið er til Háskólans alls eru til tölur frá 1997 um svipaða þætti (tafla III).Fjöldi lækna og breytingar á kynjahlutföllum

Alls voru 1049 læknar á Íslandi fyrri hluta ársins 2000 en af þeim voru 958 sjötíu ára eða yngri, 751 karl og 207 konur (tafla IV). Þegar litið er á þennan hóp með tilliti til aldursskiptingar sést að munurinn á fjölda karla og kvenna fer minnkandi í yngri aldurshópum. Þó má gera ráð fyrir að mikil hreyfing sé á læknum frá 27-40 ára. Margir eru erlendis við framhaldsnám, á förum utan eða að koma heim og tölur því ónákvæmar í þeim aldurshópum.

Íslenskir læknar erlendis voru á sama tíma 468, af þeim 313 karlar og 137 konur undir sjötugu en 18 sem voru 70 ára og eldri (tafla V).Sérgreinaval

íslenskra lækna

Áhugavert er vita hvernig læknar skipast í sérgreinar og hlýtur sú vitneskja að vera mikilvæg fyrir stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu.

Ekki hefur enn verið gerð sérstök athugun eða kyngreindur samanburður á sérgreinavali lækna á Íslandi. Doktorsritgerð Þorgerðar Einarsdóttur lektors í kynjafræði við Félagsvísindastofnun HÍ fjallar um sérgreinaval lækna í Gautaborg og breytingar á því (3). Gögnum hennar var safnað 1992 en þá voru konur þegar orðnar helmingur læknanema þar. Hún hefur einnig birt grein um ritgerð sína á íslensku Leyndardómar læknastéttarinnar - kynbundið val lækna á sérgreinum (4). Hlutfall kvenna í Læknafélagi Gautaborgar var 31% á árinu 1992 (28% í landinu öllu) og kynjaskiptingin milli sérgreinanna var með tilliti til kvenna: öldrunarlækningar (57%), kvenþéttar-lyflækningar (54%) (eins og Þorgerður kýs að nefna ákveðnar sérgreinar innan lyflæknisfræði), heimilis- og heilsugæslulækningar (51%), kvensjúkdómalækningar (49%), geðlækningar (48%), svæfingalækningar (38%), barnalækningar (36%), karlþéttar-lyflækningar (20%), röntgen- og rannsóknastofulækningar (15%) og skurðlækningar (8%). Ekki liggja fyrir samanteknar upplýsingar um sérgreinaval lækna almennt en í töflu VI má sjá sérgreinaval kvenna í læknastétt á Íslandi. Upplýsingarnar eru frá LÍ frá árinu 2000 og miðast við sérfræðiviðurkenningar veittar á Íslandi.Erindi sem erfiði?

Flestir læknar starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar litið er til þess hvaða störfum þeir gegna á stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, sést að munurinn milli kynjanna er mestur í eldri aldurshópunum, í stöðum sérmenntaðra lækna, yfirlækna og forstöðulækna en minni í hópi aðstoðar- og deildarlækna eins og sést á töflu VII. Flestir eru í fullu starfi en læknar með sérmenntun eru helst í hlutastarfi.Áskorun til framsýnna stjórnenda

Það er ljóst af þeim tölulegu upplýsingum sem hér hafa verið kynntar að svipaðar breytingar eru að verða á kynjahlutföllum í læknastétt hér á Íslandi eins og þegar hafa orðið víða í nágrannalöndum okkar. Þar hafa læknafélög og stjórnendur heilbrigðisstofnana brugðist við breytingum með ýmsum hætti til að tryggja eðlilega þróun heilbrigðisþjónustunnar og nýtingu mannaflans. Það voru lengi viðhorf þjóðfélagsins og kvenna sjálfra sem réðu því að þær fóru fáar í læknanám og enn færri leituðu eða fengu frama í starfi. Hlutverk móður og húsmóður þótti illa samrýmast jafn krefjandi starfi þannig að margar þeirra sem náðu langt kusu að vera einhleypar. Margt hefur breyst síðan þá en staðreyndin er samt sú að á sama skeiði ævinnar þegar flestir hasla sér völl og fóta sig á starfsvettvangi læknisfræðinnar eiga flestar konur börn sín. Starfsþjálfun og sérmenntun er því oft undir álagi mikillar vinnu og fjarvista frá heimili fyrir unga foreldra og veldur aukaálagi á margar konur í læknastétt.

Stjórnendur og vinnuveitendur beina nú sjónum sínum í æ ríkara mæli að mikilvægi þess að vinnandi fólk nýti krafta sína og þekkingu í jafnvægi og sátt við hlutverk sitt innan fjölskyldu. Það er í anda þeirrar stefnu og viðhorfsbreytingar að nýlega voru sett lög á Alþingi um aukinn rétt foreldra til fæðingarorlofs.

Læknafélag Íslands brást vel við á árunum 1990-1991 eins og kom fram hér að ofan og hafði í huga sérstakar aðgerðir sem nauðsynlegar væru til að tryggja læknum jafnrétti til að nýta menntun sína og samfélaginu öruggt framboð læknisþjónustu. Ekki varð beint framhald á þeirri viðleitni og síðan hefur verið stofnað sérstakt félag kvenna í læknastétt á Íslandi innan LÍ (FKLÍ) á árinu 1999. Í því eru nú um 80 félagar. Hliðstæð félög hafa verið til í áratugi á hinum Norðurlöndunum og víðar, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Því er spáð að þörf verði fyrir enn fleiri lækna í náinni framtíð en nú eru brautskráðir úr læknadeild til að sinna þeim kröfum sem gerðar eru um nútímalega heilbrigðisþjónustu. Læknar hafa lokið löngu námi og mikilvægt er að þekking þeirra nýtist samfélaginu. Þær öru breytingar sem eru að verða á nýliðun í læknastétt á Íslandi hvetja því til endurskoðunar í þeim anda sem réði viðbrögðum stjórnar LÍ í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Það er trú mín að framsýn stjórn LÍ muni svara þessu kalli tímans og eiga frumkvæði að stefnumörkun fyrir félagið og einnig að samstarfi um þessi mál við læknadeild og stjórnendur heilbrigðisstofnana.Heimildir

1. Hannesdóttir H. Staða kvenna í læknastétt á Íslandi. Læknaneminn 1989; 42: 59-62.

2. Agnarsdóttir G. Ráðstefna um stöðu kvenna í læknastétt haldin 7. mars 1991 á vegum Læknafélags Íslands í Borgartúni 6. Læknablaðið/Fréttabréf lækna 1991; 9 (7): 2-4.

3. Einarsdóttir Þ. Läkaryrket i förändring. En studie av den medicinska professionens heterogenisering og könsdifferentiering [monografi nr. 63]. Göteborg: Sociologiska institutionen, Göteborgs universitet; 1997.

4. Einarsdóttir Þ. Leyndardómar læknastéttarinnar - kynbundð val lækna á sérgreinum. Bryddingar. Um samfélagið sem mannanna verk. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan; 2000.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica