Umræða fréttir

Hristur, ekki hrærður

Hristur, ekki hrærður, Martini er hollari

Í jólablaði hins virta breska læknarits, British Medical Journal, er slegið á léttari strengi en alla jafna er gert í blaðinu. Helstu rannsóknarniðurstöður snúast um það hvers vegna bandarískir djasssaxófónleikarar hafa hærri dánartíðni en evrópskir kollegar þeirra sem mun tengjast svonefndri hringöndun sem þeir fyrrnefndu tíðka. Önnur fjallar um tengsl nafna á enskum stúlkum við tíðni heimsókna þeirra á tiltekna stofu þvag- og kynfærasérfræðinga í Essex (ákaflega breskur húmor sem engin skilur aðrir en Bretar).

En merkasta rannsóknin sem birt er í jólablaðinu er án nokkurs vafa sú sem kanadískir læknar gerðu á því hvernig njósnaranum James Bond tekst að halda sér síungum og heilsuhraustum. Það rekja þeir til uppáhaldsdrykkjar hetjunnar sem eins og allir vita er Martini, hristur en ekki hrærður ("shaken, not stirred").

Læknarnir við háskólann í Ontario fundu út að hristur Martini gagnist betur en hrærður til þess að gera vetnisperoxíða óvirka sem eykur andoxunaráhrif drykkjarins. Þetta eru einmitt þau jákvæðu áhrif sem menn hafa verið að finna út að áfengi geti haft á hjarta- og æðakerfið. Hristur Martini er því líklegri en hrærður til þess að draga úr líkum á því að neytandinn deyi úr hjartaslagi eða æðasjúkdómum. Þetta gildir þó vel að merkja einungis um hóflega drykkju og þar af leiðir að læknarnir telja mjög líklegt að James Bond sé hófdrykkjumaður.

Martini er samansettur úr gini og vermúð og komust læknarnir að því að síðarnefnda tegundin legði meira af mörkum til andoxunaráhrifa blöndunnar. Hins vegar er sterkustu áhrifin í þá átt að finna í Sauvignon hvítvíni og viskíi.

Þessar niðurstöður læknanna þykja allmerkar en þó fylgir sá böggull skammrifi að þeir segjast ekki hafa hugmynd um það hvað valdi þessum mismunandi áhrifum drykkjarins eftir því hvort hann er hristur eða hrærður. Einnig benda þeir á að algengt sé að með Martini séu borðaðar ólífur en heilsufarsleg áhrif þeirra í þessu sambandi eru með öllu órannsökuð.Þetta vefsvæði byggir á Eplica