12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

„Þetta var í raun heimsþing öldrunarlækninga“

Belgíski prófessorinn Mirko Petrovic er leiðandi sérfræðingur í öldrunarlækningum, sérstaklega á sviði öldrunarlyfjafræði og innkirtlalækninga. Undanfarna áratugi hefur hann byggt upp glæsilegan feril sem helgaður er því að bæta lyfjameðferð aldraðra með sérstakri áherslu á fjöllyfjameðferð, mögulega óþarfar lyfjaávísanir og áskoranir sem fylgja hækkandi aldri. Nýverið lauk hann forsetatíð sinni í Evrópusamtökum öldrunarlækna (EuGMS) og ræddi við Læknablaðið á ráðstefnunni í Reykjavík um viðburðinn, ævilangt starf sitt í þjónustu öldrunarlækninga og sýn sína á framtíð umönnunar aldraðra.

Þegar Mirko lítur til baka lýsir hann ráð-stefnunni í Reykjavík með augljósri ánægju. „Í einni setningu: hún var frábær og spennandi,“ segir hann. „Við fengum afar jákvæð viðbrögð frá þátttakendum. Fyrst og fremst var vettvangurinn sjálfur, andrúmsloftið í Hörpu og hlý móttaka, stórkostlegt. Vísindalegt innihald var öflugt og það ríkti sannur samkenndarandi og fagleg samskipti milli kollega. Með yfir 2200 þátttakendum frá 71 landi fór viðburðurinn langt fram úr væntingum.“

„Þetta var í raun ekki bara evrópsk ráðstefna, heldur heimsþing öldrunarlækninga,“ bætir hann við. „Við fengum tækifæri til að læra hvert af öðru, miðla reynslu og stofna til nýs samstarfs. Viðbrögðin voru langt umfram það sem við höfðum vonast eftir.“ Hann dregur jafnframt fram lykilhlutverk Íslands í velgengni ráðstefnunnar: „Íslensku kollegarnir lögðu gífurlega mikla vinnu í skipulag ráðstefnunnar og lögðu einnig mikið af mörkum til vísindadagskrárinnar,“ segir hann. „Þótt Ísland sé lítið land er sérþekking innan samfélags íslenska öldrunarlækna afar mikil. Skilaboð mín til íslenskra kollega væru að nýta þennan viðburð sem stökkpall til að efla öldrunarlækningar enn frekar og kynna sérþekkingu sína innan víðara læknasamfélags.“

Þjóðarstolt og evrópsk forgangsverkefni

Á opnunarhátíð ráðstefnunnar ávarpaði heilbrigðisráðherra Íslands, Alma Möller, sjálf læknir, gesti. Það er atburður sem Petrovic minnist með stolti. „Hún sagði að þetta væri stærsta læknaráðstefna sem nokkru sinni hefði verið haldin á Íslandi,“ segir hann. „Það er stór áfangi og íslenskir heilbrigðisstarfsmenn ættu að vera stoltir af því.“ Sem fráfarandi forseti EuGMS leggur Petrovic áherslu á að slík tímamót endurspegli stærri markmið samtakanna: „Markmið okkar er að styrkja stöðu öldrunarlækninga innan evrópskra heilbrigðiskerfa,“ útskýrir hann. „Við stöndum frammi fyrir öldrun þjóðarinnar og það hefur áhrif á allar læknagreinar. EuGMS vinnur að því að samræma menntun, efla vísindalegt samstarf og verja hagsmuni aldraðra sjúklinga. Viðburðir eins og ráðstefnan í Reykjavík eru mikilvægur hluti af því starfi.“

Ævilöng skuldbinding við umönnun aldraðra

Ferill Petrovic í átt að öldrunarlækningum hófst snemma. „Frá upphafi, þegar ég var læknanemi, hafði ég áhuga á innkirtlalækningum og sjúklingum með flókin heilsufarsvandamál,“ rifjar hann upp. „Fyrst hafði ég þó áhuga á sálfræði, en sneri mér svo að læknisfræðinni og ég nota enn þann sálfræðilega skilning í starfi mínu.“ Sú mannúðlega nálgun hefur mótað starf hans allar götur síðan: „Í öldrunarlækningum er hver sjúklingur einstakur,“ segir hann. „Hvert tilfelli hefur sína blöndu af líkamlegum, félagslegum og sálrænum þáttum. Þessi blanda heillaði mig frá byrjun, hún krefst bæði greiningarhæfni og samkenndar. Maður þarf að skilja óskir sjúklingsins, taka fjölskylduna með í ferlið og laga nálgunina að aðstæðum.“

Nú, við starfslok, lítur hann yfir feril sinn með ánægju: „Ég hef fundið mitt faglega heimili í öldrunarlækningum,“ segir hann. „Þetta snýst ekki bara um læknisfræðilega þekkingu, heldur um að skilja manneskjuna á bak við sjúklinginn. Þessi blanda af læknisfræði, sálfræði og mannúð hefur verið mjög gefandi.“

Hver eldri manneskja er ekki „öldrunarsjúklingur“

Með öldrun íbúa um alla Evrópu leggur Petrovic áherslu á að allir læknar, óháð sérgrein, muni í auknum mæli annast eldri sjúklinga. Hann varar þó við því að líta á þá sem einsleitan hóp: „Ekki er hver eldri manneskja öldrunarsjúklingur,“ segir hann. „Margir eldri einstaklingar eru virkir, sjálfstæðir og þátttakendur í samfélaginu. Samfélagið þarf að viðurkenna og meta það. Á sama tíma þurfa aðrir, á síðari hluta ævinnar, stuðning til að viðhalda sjálfstæði og reisn.“ Á milli þessara tveggja öfga er stór hópur sem þarfnast sérsniðinnar umönnunar: „Þar koma öldrunarlæknar að málum,“ útskýrir hann. „Við notum aðferðir eins og Comprehensive Geriatric Assessment (CGA) til að meta, ekki aðeins sjúkdóma, heldur einnig líkamlega getu, andlega heilsu og félagslegan stuðning. Ég tel að þessi nálgun ætti að vera samþætt öðrum greinum, til dæmis heilsugæslu, því það er lykilatriði að skilja samhengi hvers einstaklings.“

Lærdómur úr SENATOR-rannsókninni

Eitt af verkefnum sem markaði rannsóknarferil Petrovic var SENATOR-rannsóknin, stór evrópsk rannsókn sem miðuð var að því að bæta lyfjameðferð eldri sjúklinga. Ísland tók þátt í rannsókninni undir forystu læknanna Aðalsteins Guðmundssonar og Ólafs Samúelssonar. „SENATOR var samstarfsverkefni sex evrópskra háskólasetra,“ útskýrir hann. „Við lærðum að lyfjatengd vandamál eru stórt vandamál í umönnun aldraðra. Eldri sjúklingar eru oft með margs konar sjúkdómsástand og taka því mörg lyf. Og því fleiri lyf, þeim mun meiri hætta á vandamálum.“ Lykilboðskapurinn, segir hann, er einfaldur: hverja lyfjaávísun þarf að endurmeta. „Allir læknar sem annast aldraða ættu að spyrja kerfisbundið: Er þetta lyf nauðsynlegt? Í hve langan tíma? Er það ennþá þýðingarmikið fyrir sjúklinginn?“ leggur hann áherslu á. „Slík gagnrýnin endurskoðun lyfjalista ætti að vera hluti af reglubundinni umönnun.“

„Verið forvitin og sýnið samkennd“

„Menntun er lykilatriði, ekki aðeins í öldrunarlækningum heldur í allri læknisfræði,“ segir Petrovic ákveðinn. „Það sem gerir öldrunarlækningar sérstakar er að sjúklingar okkar eru oft útilokaðir frá stórum klínískum rannsóknum. Það þýðir að við verðum að byggja á daglegri klínískri reynslu og beita henni einstaklingsbundið.“ Þess vegna hefur hann lengi talað fyrir samræmdu evrópsku menntakerfi í öldrunarlækningum: „Við vinnum að því að samræma menntun um alla Evrópu,“ segir hann. „Áskorunin er að tryggja að ungir læknar alls staðar fái sömu grunnþjálfun og skilning á flóknum þörfum aldraðra.“

Ráð hans til ungra lækna og læknanema er einfalt en dýrmætt: „Verið forvitin og sýnið samkennd. Lærið ekki aðeins úr kennslubókum heldur einnig af sjúklingum ykkar. Hlýðið á þá, -skiljið forgangsröð þeirra og takið þá með í ákvarðanatöku. Öldrunarlækningar kenna manni að sjá læknisfræðina í víðara, mannlegu samhengi og það er lærdómur sem nýtist öllum læknum, óháð sérgrein.“

Arfleifð samkenndar og vísindalegrar nákvæmni

Þegar Mirko stígur inn í starfslok er arfleifð hans í öldrunarlækningum bæði vísindaleg og mannúðleg. Hann hefur eflt skilning á lyfjaöryggi og -ávísunum hjá öldruðum og áminnt kynslóðir lækna um að læknisfræði snúist að lokum um fólk, ekki aðeins sjúkdóma. Þegar hann lítur til baka á ráðstefnuna í Reykjavík og langan feril sinn er hann bjartsýnn: „Ráðstefnan sýndi hversu langt fagið okkar er komið. Öldrunarlækningar eru nú viðurkenndar sem nauðsynlegar, ekki valkostur. Áhugi, samstarf og ungt fólk sem kýs þetta starf — allt þetta veitir mér mikla von um framtíðina,“ segir hann að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica